14.11.1983
Neðri deild: 13. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 793 í B-deild Alþingistíðinda. (635)

Umræður utan dagskrár

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ástæðan til þess að ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár eru fréttir í sjónvarpinu í gærkvöld, þar sem var greint frá að á vegum hermálaráðuneytis Bandaríkjanna væri nú unnið að könnun á því hvort rétt væri að koma upp á Íslandi eldflaugakerfum í því skyni að loka svokölluðu GIUK-hliði. Í fréttum sjónvarpsins var komist svo að orði með leyfi hæstv. forseta:

„Í skýrslu sem unnin hefur verið á vegum bandaríska varnarmálaráðuneytisins um hvar æskilegt gæti verið að koma fyrir eldflaugakerfum án kjarnorkuvopna er Keflavík talin koma til álita. Fréttir um þetta hafa birst í fjölmiðlum erlendis, þar á meðal í breska blaðinu Sunday Times og í skoska blaðinu Scotsman. Í grein í Sunday Times, sem fyrst og fremst fjallar um hugmyndir Bandaríkjastjórnar um smíði skipa sem borið geti eldflaugar, er einnig vikið að því að athugun hafi verið gerð á því að loka hafsvæðinu á milli Grænlands, Íslands og Bretlands, svonefndu GIUK-hliði með eldflaugavopnum. Hafi tveir staðir verið nefndir sérstaklega í þessu sambandi, Stornoway í Skotlandi og svo Ísland. Í greininni í Scotsman segir að sá staður í Skotlandi sem hentugastur þætti fyrir eldflaugar sé Thurso eða, svo að vitnað sé orðrétt í fréttina í Scotsman: „Keflavík á Íslandi og Thurso í skotlandi eru augljóslega þeir staðir sem hentugast væri að koma fyrir eldflaugum á til þess að loka svæðinu á milli Grænlands og Bretlands.“

Upplýsingar þessara blaða og fleiri sem um þetta hafa fjallað, eru komnar úr skýrslu kjarnorkuvopnadeildar (Defense Nuclear Agency) sem gerð var á vegum bandaríska varnarmálaráðuneytisins. Í þessari rannsóknarskýrslu, sem var stytt „af öryggisástæðum“ eins og það er kallað áður en hún var birt kemur það fram að athugunarefnið hefur verið tvíþætt. Hvort nýta mætti meðaldrægar eldflaugar án kjarnorkuvopna til hernaðar á hafsvæðum, þar sem sovéski flotinn fer um og þyrfti hugsanlega að fara um á ófriðartímum, svo sem á hafsvæðinu milli Grænlands, Íslands og Bretlands, við Japan, Kóreu, Hellusund við Svartahaf og víðar. Í öðru lagi átti að kanna hvort þessi eldflaugakerfi, sem svipaði til kjarnorkuvopnakerfa, væru líkleg til þess að rugla Sovétmenn í ríminu og torvelda þeim að átta sig á því hvar kjarnorkuvopn væri að finna og hvar ekki. Niðurstaða þessara rannsókna var m.a. sú, að eldflaugakerfi af þessu tagi gætu komið að góðum notum til þess að loka hafsvæðinu á milli Grænlands, Íslands og Bretlands, hinu margfræga GIUK-hliði. Og eins og sagði í Scotsman er komist að þeirri niðurstöðu að Keflavík væri sá staður á Íslandi sem augljóslega yrði valinn fyrir slíkar eldflaugar ef af yrði.

Rétt er að leggja áherslu á, sagði í fréttum sjónvarpsins enn fremur, að hér er um að ræða athuganir og uppástungu sem ekkert bendir til að hafi komist á framkvæmdastig og einnig er rétt að hafa í huga að sífellt er verið að gera rannsóknir af þessu tagi sem aldrei koma til framkvæmda.

Sverrir Haukur Gunnlaugsson, deildarstjóri varnarmáladeildar í utanrrn., sagði í samtali við fréttastofuna að þessi skýrsla hefði ekki komið til tals í varnarmáladeild, enda fjarri lagi að hugmyndum af þessu tagi yrði hrint í framkvæmd. Ég vek athygli á orðalagi embættismannsins, sem hér er viðhaft, þ.e. að þessar hugmyndir hafi ekki komið til tals í varnarmáladeild, enda fjarri lagi að hugmyndum af þessu tagi yrði hrint í framkvæmd. Afstaða íslenskra stjórnvalda væri og hefði verið sú, að varnarliðið gegndi tvíþættu hlutverki: annars vegar að annast beinar varnir landsins og hins vegar eftirlit umhverfis það. Svona hugmyndir eins og fram kæmu í skýrslunni mundu augljóslega — ég vek athygli á þessu orðalagi — brjóta í bág við þetta tvíþætta hlutverk. Í framhaldi af þessum ummælum má geta þess, að Scotsman leitaði álits á bandarísku skýrslunni hjá hernaðarsérfræðingi við háskólann í Aberdeen og kvaðst hann í sjálfu sér ekki vera undrandi á niðurstöðum skýrslunnar hvað hernaðarþáttinn varðar. Hins vegar taldi hann fjarri lagi að hægt væri að fá þessu framgengt, því að almenningur í Skotlandi væri líklegur til þess að verða því mjög andvígur að stýriflaugum yrði komið fyrir á skoskri grund. Fólk tengdi allar flaugar kjarnorkuvopnum sem það hefur ímugust á.

Þess má reyndar geta í þessu sambandi að í skýrslunni er varpað fram þeirri hugmynd að e.t.v. væri ekki úr vegi að koma fyrir kerfum af þessu tagi í löndum þar sem ekki væru kjarnorkuvopn og andstaða gegn slíkum vopnum, því að það gæti stuðlað að því að íbúarnir ættu auðveldara með að sætta sig við það síðar að svipuðum flaugum, búnum kjarnorkuvopnum, yrði komið fyrir í löndum þeirra. Hugmyndin er m.ö.o. sú að venja menn við tilhugsunina um kjarnorkuvopn með því að koma þessum flaugum fyrir, m.a. á Íslandi.

Í greininni í Sunday Times, segir enn fremur í fréttinni sem áður er vitnað til, er litið á þetta sama mál af öðrum sjónarhóli því fram kemur að það er mörgum hernaðarsérfræðingum áhyggjuefni að kerfi á borð við þessi muni gera það illmögulegt að fylgjast með kjarnorkuvígbúnaði því að erfitt geti reynst að ganga úr skugga um hvort kjarnorkusprengjur séu í eldflaugum eða annars konar sprengjur. Í niðurlagi skal þess getið að í bandarísku skýrslunni, sem hér hefur verið vitnað í, er hernaðarlegt mikilvægi Íslands ítrekað eða eins og segir orðrétt: „Ísland er kostagóð jarðeign til að athafna sig á og kunna Sovétmenn að hyggja gott til glóðarinnar að ná landinu á sitt vald með innrás.“ Í skýrslunni segir að stýriflaugar á Ístandi gætu hindrað slíka árás.

Herra forseti. Ég tel að þessi frétt, sem ég hef hér nú lesið, gefi tilefni til þess að velta upp mörgum spurningum. Og ég hef beðið hæstv. utanrrh. að svara þeim spurningum sem ég vil bera fram af þessu tilefni.

Sú skýrsla sem hér um ræðir hefur verið sýnd í fréttum íslenska sjónvarpsins. Á fundi utanrmn. í morgun kom það fram að utanrrn. hefur fengið þessa skýrslu hjá íslenska sjónvarpinu og ég aflaði mér hennar einnig á fréttastofu sjónvarpsins eftir að hafa haft samband við fréttastjóra þess. Í framhaldi af því hef ég gert ráðstafanir til þess að koma skýrslunni á framfæri við fulltrúa stjórnarandstöðuflokkanna í utanrmn., en hún hefur að geyma niðurstöður þeirra rannsókna sem unnar hafa verið á þessu máli fyrir bandaríska hermálaráðuneytið. Í henni kemur fram að skýrslan hefur verið stytt af öryggisástæðum og felld hafa verið út úr henni nokkur atriði sem ekki eru hér með og ekki hafa komið fyrir mín augu.

Ég vil biðja hæstv. utanrrh. að hugleiða það í framhaldi af þeirri umr. sem hér fer nú fram, hvort hann vildi ekki vera svo vinsamlegur að fara þess á leit við bandaríska hermálaráðuneytið að þeir kaflar sem felldir hafa verið út úr skýrslunni í þessu birtingarformi hennar, sem ég hef hér fyrir framan mig og hæstv. utanrrh. hefur í höndum, verði einnig birtir svo að það komi alveg skýrt fram hvaða hlutir það eru og þættir, lið fyrir lið, sem bandaríska hermálaráðuneytið er að fjalla um varðandi Ísland, m.a. á bak við hæstv. utanrrh.

Það sem einkum skiptir þó máli að átta sig á í þessu efni, herra forseti, er það hver sé skoðun ríkisstj. á því hvort hægt sé að koma upp slíkum eldflaugum hér á landi að óbreyttum „varnarsamningnum“, þar sem hér er bersýnilega um árasarvopn að ræða. Telur hæstv. utanrrh.ríkisstj. gæti að óbreyttum „varnarsamningnum“ samþykkt að setja upp slík tæki? Ef hann telur það og er þeirrar skoðunar er hann í rauninni að segja að utanrrh. landsins, hver sem hann er, geti samþykkt að hér verði komið fyrir kjarnorkuvopnum. Auðvitað vitum við að sá búnaður sem þegar er í herstöðinni gæti á marga lund tekið við kjarnorkuvopnum. En til þessa hefur það verið í orði kveðnu stefna íslenskra stjórnvalda að kjarnorkuvopn ættu ekki að vera á Íslandi. Ef utanrrh. hins vegar telur að ríkisstj. geti samþykkt eldflaugavopn á Keflavíkurflugvelli eða annars staðar í herstöðvum Bandaríkjamanna hér á landi er augljóst að brýnt er að setja hér lög sem banna utanrrh. að heimila staðsetningu slíkra vopna hér á landi. Það er athyglisvert að í frétt sjónvarpsins telur deildarstjóri varnarmáladeildar greinilega að uppsetning eldflauga hér á landi brjóti í bág við anda „varnarsamningsins“. Ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. utanrrh.: Telur hann að uppsetning slíkra eldflauga hér á landi brjóti í bág við anda og eðli „varnarsamningsins“?

Annað atriði, sem hér vekur sérstaka athygli, er að kjarnorkuvarnadeild bandaríska hermálaráðuneytisins lætur kanna hvort koma eigi slíkum eldflaugum fyrir hér á landi án þess að utanrrn. á Íslandi hafi minnstu hugmynd um það. Ég teldi fulla ástæðu til þess að utanrrn. og utanrrh. mótmæltu slíkum vinnubrögðum bandaríska hermálaráðuneytisins mjög harðlega. Hér eru bandarísk stjórnvöld að fara á bak við utanrrh. fullvalda þjóðar. Þau eru að lítillækka íslenskan ráðh. í þessu efni. Svona framkomu á hann ekki að láta bjóða sér. Þess vegna er spurt: Ætlar hæstv. utanrrh. að mótmæla þessum vinnubrögðum bandaríska hermálaráðuneytisins?

Í þriðja lagi er fróðlegt að þessi skýrsla, sem fréttastofa sjónvarpsins lét mér í té í morgun, skuli unnin á vegum kjarnorkuvarnadeildar hermálaráðuneytis Bandaríkjanna. Það bendir til þess að bandarísk stjórnvöld telji rétt að undirbúa þann möguleika, að hér verði staðsett kjarnorkuvopn í framtíðinni. Í skýrslunni er raunar tekið fram að heppilegt geti verið að koma svona eldflaugum fyrir þar sem andstaða er við uppsetningu þeirra til þess að venja íbúa landsins við þá tilhugsun, því að í raun sé mjög erfitt að gera greinarmun á því hvort þessar eldflaugar eru búnar kjarnaoddum eða ekki og mjög einfalt sé að koma þeim fyrir. Þannig er augljóst að umræður um eldflaugar á Íslandi eru hluti af stærri heild og þáttur í þeirri stefnu hernámsins sem stundum hefur minnt á smáskammtalækningar.

Fyrst var Keflavíkursamningurinn gerðu í fyrir mörgum áratugum. Síðan var Ísland knúið inn í Atlantshafsbandalagið. Þá var þjóðin hernumin árið 1951. Síðan var rekið hér hermannasjónvarp um skeið. Þá hafa milljarðar kr. runnið til ákveðinna afla á Íslandi sem eru nátengd núverandi stjórnarflokkum.

Nú er ætlunin að gefa Íslendingum flugstöð og síðan höfn um leið í Helguvík og það er troðið upp á okkur margföldun olíugeymarýmis. Þá eru byggð flugskýli og nú eru radarstöðvar í undirbúningi með þeim rökum m.a. að Íslendingar geti ekki sinnt flugmálastjórn, fjarskiptum og landhelgisgæslu án þess að vera beiningamenn á þröskuldi bandaríska hervaldsins. Nýjasta hugmyndin er svo þessi eldflaugakerfi til þess að loka GIUK-hliðinu svonefnda. Vafalaust segir einhver að óvíst sé að þetta verði framkvæmt, en reynslan sýnir okkur því miður að svardagar duga aldrei í þessum efnum þegar komið er að herstöðvamálinu. Raunar þvert á móti. Því fleiri sem svardagarnir eru og háværari þeim mun meiri er hættan sem er yfirvofandi.

Ég ætla, herra forseti, ekki að orðlengja þetta frekar, en endurtek spurningar mínar til hæstv. utanrrh.: Telur hann koma til greina að komið verði upp slíkum eldflaugum hér á landi?

Telur hann að stjórnvöld hafi heimild til þess að samþykkja uppsetningu þeirra?

Telur hann uppsetningu eldflauga hér á landi samrýmast óbreyttum „varnarsamningi“?