14.11.1983
Neðri deild: 13. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 822 í B-deild Alþingistíðinda. (658)

39. mál, Landsvirkjun

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Mér þótti leitt að heyra tóninn í hæstv. iðnrh. í sambandi við þetta mál. Í stað þess að taka fagnandi þeirri hjálparhönd sem honum er rétt með þessu frv., (Iðnrh.: Því ekki 100%?) — þá hefur hann allt á hornum sér í sambandi við þessa till.-gerð og lofar það því miður ekki góðu um þá samninga sem hann ber nú pólitíska ábyrgð á og eru til skoðunar varðandi þau stóriðjufyrirtæki sem fyrir eru í landinu. Hefði ég vænst þess að hann liti hlutlægar á þetta mál en fram kom í hans ræðu áðan.

Hann staðhæfði hér að Landsvirkjun hefði reiknað það út að ef farið yrði eftir ákvæðum þessara laga að fullu við endurskoðun núverandi orkusölusamninga til stóriðju, þá þyrftu þeir að gefa á bilinu 26 til 27 mill. Þessar upplýsingar hans vefengi ég og tel að þær séu rangar. Ég hef látið fara yfir þetta. Miðað við að Landsvirkjun haldi núverandi tekjum sínum, miðað við óbreyttar tekjur til Landsvirkjunar er um að ræða að stóriðjan greiddi miðað við núverandi aðstæður um 20 mill á kwst., en almenningsveiturnar tæp 30 eða nálægt því,og væri þá því hlutfalli sem hér er lagt til fullnægt.

Ég vakti hins vegar athygli á því í minni framsögu fyrir þessu máli að ákvæði til bráðabirgða slægju ekki 100% fastri niðurstöðu, heldur segir að það skuli tekið mið af ákvæðum laga þessara. Ég eftirlæt að sjálfsögðu löglærðum mönnum að spá því hvaða orðatag skuli notað, en það er sett fram með þessum hætti hér.

Hið alvarlega í málflutningi hæstv. ráðh. er það, að hans orð endurspegla ekki mikla umhyggju fyrir hinum almenna raforkunotenda hér í landinu sem greiðir nú orkuverð sem er að verða einstakt í norðurálfu, er að verða einstakt hér við norðanvert Atlantshafið og er raunar orðið það, svo ekki sé nú talað um hlutfallið milli stórnotenda og almenningsveitna sem leitun mun að þó farið sé um víða veröld, og skal ég þó ekki fullyrða hvernig þeir afarkostir eru sem ríkisstjórn Ghana sætir vegna Valco-orkuversins og viðskipta við Kaiser-auðhringinn, en þar þrengdi mjög að síðast þegar ég frétti. Sá orkusölusamningur var að mörgu leyti með svipuðum eindæmum og sá samningur sem viðreisnarstjórnin svo kallaða, Sjálfstfl. og Alþfl., gerði hér á sjöunda áratugnum.

Það kom fram í máli hæstv. ráðh. að varðandi samningsstöðu að því að tekur til Íslenska járnblendifélagsins væri alveg sérstaklega illt ef lögfest yrði lágmarkshlutfall af þessu tagi. Ég minni á að raforkusölusamningurinn sem Íslenska járnblendifélagið fær orkuna samkvæmt gerir ráð fyrir ákveðnum skiptum á milli afgangsorku og forgangsorku. Forgangsorkan var fyrir u.þ.b. einu ári metin á um 14 mill, en afgangsorkan á sáralítið. Út úr þessu kom meðalverð sem ekki er öllu hærra en gildandi verð í samningum við ÍSAL vegna þessarar skilgreiningar á orkusölunni í afgangsorku og forgangsorku. Þessi skilgreining var frá upphafi fráleit og hefur sýnt það enn frekar. Nú geta menn spurt að því hvaða þýðingu það hefði fyrir Íslendinga að knýja fram breytingu á þessum orkusölusamningi miðað við að við þurfum að standa undir hallarekstri á þessu fyrirtæki. Ég tel að það eigi ekki að koma í veg fyrir að við komum á eðlilegri leiðréttingu á þessum samningi og látum hinn erlenda samstarfsaðila greiða eðlilegan hlut fyrir raforkuna, þó svo að við getum þurft að láta Landsvirkjun hafa einhverja meðgjöf vegna slíks samnings tímabundið.

Ég tel að núverandi staða raforkuverðs til innlendra notenda og innlends atvinnurekstrar, þar sem innlendur iðnaður greiðir um 100 mill og rösklega það, frystiiðnaðurinn okkar og annar matvælaiðnaður greiða um og yfir 100 mill fyrir kwst., sé slík að við það sé ekki búandi. Hún réttlætir að gengið sé fram með lagasetningu til leiðréttingar á raforkuverði gagnvart þeim stórnotanda sem hirðir hér allt að því helming af raforkuframleiðslu landsmanna. Slíkt er ekki annað en eðlileg nauðvarnaraðgerð og þarf þó ekki að ganga harðar að þessum viðskiptavini Íslendinga en svo að hann byggi eftir sem áður við góð kjör í raforkuverði, nálægt 20 mill fyrir kwst. fyrir þetta gamla fyrirtæki, og er þá ólíku saman að jafna við áliðnaðinn í Bandaríkjunum, — það er þriðjungur eða meira af álframleiðslu heimsins sem verður til þar vestra, — sem greiðir núna 27 mill fyrir kwst. og 35 mill. þeim tveim stærstu veitum sem sjá megninu af áliðnaðinum í Bandaríkjunum fyrir raforku. Og svo ætlum við að sitja hér í þeim stellingum sem hæstv. ríkisstj. hefur hannað í samningaviðræðum við álrisann Alusuisse og velkjast í vafa um það, eins og ég heyri á hæstv. ráðh., — hvort við fáum út úr þeim viðskiptum framleiðslukostnaðarverð fyrir raforkuna.

Ég vænti að hann hafi slegið upp á því síðustu daga eða síðustu vikurnar hvert er framleiðslukostnaðarverð á raforku í núverandi kerfi. Landsvirkjun hefur metið það svo, að frá nýjum virkjunum þurfi að fá orkuverð a.m.k. á bilinu 18 til 22 mill með fullri verðtryggingu til þess að skila framleiðslukostnaðarverðinu einu saman. Ég spyr hæstv. ráðh.: Ætlar hann að standa að því að við þurfum að greiða áfram niður orkuna til átversins í Straumsvík og annarra erlendra fyrirtækja sem hann hefur mikinn áhuga á að ná samningum við?