15.11.1983
Sameinað þing: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 849 í B-deild Alþingistíðinda. (695)

389. mál, málefni El Salvador á vettvangi Sameinuðu þjóðanna

Fyrirspyrjandi (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að skilja svar hæstv. utanrrh. sem já. Við höfum áður rætt þessi mál hér á Alþingi og það hefur greinilega komið fram eindreginn vilji á þinginu, að ég tel, um að Ísland beiti áhrifum sínum í sömu átt og sú ályktun sem samþykkt var á þingi Sameinuðu þjóðanna í fyrra stefnir — beiti áhrifum sínum með þeim hætti að unnið verði að pólitískri lausn í EI Salvador og unnið verði að því að utanaðkomandi afskiptum linni þar og að bandamenn okkar í Bandaríkjunum láti af hernaðaraðstoð við þá ríkisstjórn, ef svo skyldi kalla, sem þar situr.

Að því er aðstæður varðar bundu margir vonir við að þær kosningar sem fóru fram um kjör stjórnskipunarnefndar mundu marka straumhvörf í El Salvador, en allar fregnir sem þaðan hafa borist síðan, og það síðast í Morgunblaðinu í dag, benda til þess að það hafi ekkert lát orðið á hryðju- og ofbeldisverkum í þessu landi og að ýmsir þeir aðilar sem teljast styðja þá ríkisstjórn sem þar er eigi þar ekki minnstan hlut að máli.

Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir svörin og vænti þess að það verði unnið að málunum í þeim anda af hálfu Ístands á alþjóðavettvangi. Ég leyfi mér að skilja svar hans svo, að afstaða Íslands sé óbreytt að því er varðar tillögu af þessu tagi á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.