15.11.1983
Sameinað þing: 20. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 860 í B-deild Alþingistíðinda. (712)

9. mál, afsögn þingmennsku

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Efni till. þessarar til þál. er að Alþingi álykti að skora á hv. 6. þm. Reykv. Ellert B. Schram að segja af sér þingmennsku.

Í grg. með till. þessari er svo komist að orði að hv. þm. hafi lýst þeirri ósk sinni að fá leyfi frá þingmennsku. Samhliða þeirri ósk hafi hann látið frá sér fara í blöðum og útvarpi yfirlýsingar um ástæður þessarar beiðni. segir enn fremur að leyfisbeiðnin verði ekki að mati flm. slitin úr samhengi við þessar yfirlýsingar.

Forseti vill taka fram að Alþingi samþykkti 10. október s.l. að verða við beiðni hv. þm. Ellerts B. schram um leyfi frá þingstörfum og að varamaður hans taki á meðan sæti hans á þingi. Alþingi hefur því þegar ákvarðað að fullnægt hafi verið ákvæðum 138. gr. laga um kosningar til Alþingis með því að verða við fjarvistarbeiðni viðkomandi þm. og þannig þegar tjáð sig um það efni sem varðar till. þessa til þál.

Þegar af þessari ástæðu þykir ekki rétt að Alþingi fjalli um þessa till. til þál., sem gengur í berhögg við það sem áður hefur verið samþykkt á því þingi sem nú situr.

Með tilvísun til þessa er þessari till. til þál. vísað frá.