22.11.1983
Sameinað þing: 23. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 991 í B-deild Alþingistíðinda. (880)

400. mál, bankaútibú

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Útþensla í bankakerfinu er miklu meiri en nokkur skynsemi mælir með. En það er bein afleiðing af þeirri verðbólgu sem verið hefur í landinu og það er vel ef stjórnarandstaðan sameinast gegn verðbólgunni, dregur þar með úr fjölgun bankaútibúanna. Ég vil gera hér að umræðuefni það sem kom fram hjá frsm. þegar hann vék að útibúi fyrir Samvinnubankann á Ísafirði. Ég tel að þar hafi ekki verið skýrt rétt frá.

Á Ísafirði hafa verið þrjár stofnanir sem hafa fengist við að taka á móti fjármunum. Tvær þeirra gátu lánað fjármunum út eftir eðlilegum leiðum bankakerfis en sú þriðja, innlánsdeild Kaupfélags Ísfirðinga, hafði ekki rétt til þess. Ég tel það mjög óeðlilegt að ekki sé virtur vilji heimamanna sem óskuðu eftir því að sú innlánsdeild yrði yfirtekin af samvinnubankanum og tekin þar upp þjónusta eins og hjá bankastofnunum. Ég tel að hv. 2. landsk. þm. mætti minnast þess að á dögum viðreisnar veitti sú ríkisstjórn innlánsdeildunum sérstaklega þungt högg með því að banna þeim að ákveða hvaða vexti þær greiddu af því fé sem þær höfðu undir höndum. Ef það hefði aldrei verið gert og bankavaldið í landinu hefði sjálft mátt ákveða þá vexti sem það greiddi viðskiptamönnum sínum, þá hefði aldrei komið til þeirrar fjölgunar bankaútibúa sem orðið hefur í landinu.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri en vil undirstrika það, að ég tel að ekki sé verið að fjölga fjármálastofnunum á Ísafirði sem fást við bankarekstur þó að þetta sé gert.