23.11.1983
Efri deild: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1046 í B-deild Alþingistíðinda. (931)

11. mál, launamál

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Þetta mál hefur verið mikið rætt og fengið mikla umfjöllun í Nd. Alþingis og í raun hefur það verið rætt hér beint og óbeint í tengslum við öll þau hliðarfrv. sem hér hafa verið til umr. Ég læt því fáein orð nægja í þessari umr.

Hæstv. ríkisstj. trúir því að laun fólks í landinu séu rót alls ills, uppspretta og hreyfiafl verðbólgunnar liggi í launakjörum fólks, alveg sér í lagi þeim verðbótum á laun sem eru bein afleiðing af verðhækkunum sem þegar eru til staðar. Ríkisstj. hefur enn engan þátt fundið sem í alvöru þurfi á að taka til að koma efnahagsástandinu í viðunandi horf, til þess að hjól atvinnulífsins megi snúast eðlilega og fólk fái þar fyrir eðlilegan vinnudag viðunandi kjör. Eina áherslan hefur verið lögð á launin og allar verðbætur í hvers konar mynd verið afnumdar, utan þeirra prósenta sem ríkisstj. sjálf hefur skammtað sem hæfilega af alkunnri mildi og rausn. Inn í þetta blandast spurningin um vísitölukerfi og réttlæti þess og þar felur ríkisstj. sig bak við galla og annmarka þess vísitölukerfis sem gilt hefur, m.a. sér í lagi hvort eðlilegt hafi verið að mæla tvöfaldar eða þrefaldar verðbætur þeim sem þiggja tvöföld eða þreföld laun að grunni. Ég hef aldrei verið talsmaður þessa kerfis, að því mætti ekki breyta og finna ætti eðlilegri farveg fyrir ákveðnar dýrtíðarbætur sem bættu mönnum hag þeirra milli samninga. En ríkisstj. hefur sjálf í skömmtun sinni á hækkun launa um 8% 1. júní og 4% 1. okt. fylgt gömlu reglunni dyggilega. Prósentan hefur gengið upp allan launastigann eins og venjulega með þeim afleiðingum að ráðh. hefur sem fyrr fengið margfalda upphæð á við iðnverkakonuna, svo dæmi sé tekið. Láglaunafólkið hefur enga sérstaka uppbót fengið, utan aldraðir og öryrkjar, sem hæstv. forsrh. gerði hér grein fyrir áðan, en var eingöngu 1. júní s.l. og vart teljandi miðað við þann lága grunn sem þar er við miðað. Alvarlegasta ákvæði þessara laga, samningsbannið, hefur nú verið stytt. Þetta ótvíræða brot á mannréttindum hefur orðið til þess að þúsundum saman hafa launþegar og hreyfingar þeirra risið upp til svo öflugra mótmæla að ríkisstj. hefur hörfað, en aðeins hörfað. Og ástæðan er áreiðanlega allt önnur en vilji til að fara að kröfum fólksins í landinu, ekki heldur að forsendur hafi breyst. Þverbrestir í eigin liði hafa ráðið mestu og ótti við að ekki reyndist meiri hluti fyrir samningsbanninu hér á Alþingi hefur án efa verið það sem leiddi til þess sem varð. Það var því ekki að furða þó fast væri við það staðið að katla Alþingi ekki saman. Þar var á ferðinni áhætta sem ríkisstj. þorði ekki að standa frammi fyrir. Hún sá því sitt óvænna þegar stjórnarþm. voru farnir að gefa ákveðnar yfirlýsingar gegn banninu og gaf eftir að hluta.

Áfram standa þó þau meginatriði, að alls engar dýrtíðarbætur eru leyfðar og rammi þeirra samninga sem aðilar kunna að gera er rammi þessarar ríkisstj., sem hlýtur að vera æðiþröngur, ef nokkur í raun, — þröngur sakir þess útlits sem óneitanlega er dökkt fyrir næsta ár, eins og allar spár benda nú til, þó vonandi sé að þær gangi ekki eftir, en ekki síður þröngur sakir þess að við engu öðru er hreyft í efnahagskeðju okkar. Á meðan ráðist er á launin ein fá aðrir þættir að blómstra. Atvinnuvegirnir okkar stynja ekki undan launakostnaði, heldur fjármagnskostnaðinum og lánakjörunum fyrst og síðast og eins og mörg nýleg dæmi sanna undan óhæfilegum milliliðakostnaði, svo sem nýleg frétt í Morgunblaðinu um farskipafélögin og þeirra toll lýsir vel inn í. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta, Gísli Jón Hermannsson framkvæmdastjóri Ögurvíkur um skipafélögin.

„Ég veit ekki á hverju þeir hafa lifað eða byggt sig upp, nema á því að flytja fiskinn frá okkur. Þeir geta endurnýjað skipaflota sinn þegar þeim sýnist. Þeir geta keypt fyrirtæki úti í löndum af því að þeir hafa getað flutt frá okkur fiskinn eins dýrt og sést á uppbyggingunni og umsvifunum á sama tíma og við erum að drepast.“

Þetta eru orð Gísla Jóns Hermannssonar og hann segir einnig, með leyfi hæstv. forseta, í Morgunblaðinu í lokin:

„Við erum með allt of stóran kaupskipaflota og eitt það skásta sem við gætum gert er að leggja honum. Það er svo miklu ódýrara að láta útlendinga flytja þetta fyrir okkur. Okkur fiskimönnunum gengi þá kannske betur að skila arði, ef við fengjum útlendinga til að flytja þetta fyrir okkur. Ég tala nú ekki um frystu afurðirnar. Þar kastar nú fyrst tólfunum. Er það ekki á útgerðinni sem þeir græða svona mikið — útgerðinni sem skapar gjaldeyri til þess að menn geti verslað? Ekki geri ég ráð fyrir að kaupmennirnir skapi mikinn gjaldeyri og svo hafa þeir ekki vit á því að láta okkur í friði“, sagði Gísli Jón Hermannsson. Ekki er ég að taka undir allt það sem hér er sagt, en ljót er lýsingin sem hefur þá fyrirsögn: „Skipafélögin blómstra á kostnað útgerðarinnar.“

Og um hina fáránlegu skipan olíumála, dreifingar olíunnar og þess þrefalda kerfis sem þar er í gangi, sagði Kristján Ragnarsson formaður LÍÚ í ræðu, með leyfi virðulegs forseta:

„Það er óþolandi að útgerðin standi undir olíudreifingu um allt landið, sem nú á sér stað. Þótt við öfundumst ekki yfir góðu gengi annarra er næsta furðulegt, meðan ríkisvaldið er að fást við verðákvarðanir á olíu, að sjá okkar aðalviðskiptavini, olíufélögin, búa við blóm í haga. Þar virðist takmarkaðs aðhalds gætt og litlu hagræði beitt, eins og að koma olíu til skipa í leiðslu í stað þess að aka henni nær allri á bifreiðum, svo ekki sé minnst á kaup eins olíufélags á útgerðarfyrirtækjum.“

Þetta eru orð þeirra sem ég hef hingað til haldið að stæðu fast að baki þessari hæstv. ríkisstj.

Og sjálf sölufyrirtækin í sjávarútvegi hafa fengið harða og óvægna gagnrýni, m.a. frá hæstv. iðnrh. sem alkunnugt er, og var hún endurtekin hér áðan úr þessum ræðustól. Við engu er hróflað, enda hagsmunatengslin sterk og þau ná vel og rækilega inn í báða núverandi stjórnarflokka í öllum þessum greinum og miklu fleiri. Hér eru hinar heilögu kýr sem að sjálfsögðu verða að mjólka eigendum sínum eins og ekkert hafi í skorist meðan alþýða manna tekur á sig byrðarnar.

Baráttan við verðbólguna og varanlegur árangur þar helgast fyrst og fremst af því hvort ríkisstj. þorir að takast á við þá þætti þar sem fjármagnið er að finna, þar sem fjármagnið blómstrar í höllum milliliðanna, olíufélaganna og umsvifum skipafélaganna að ógleymdu sjálfu steintröllinu, Seðlabankanum, sem ekki síst hefur blóðmjólkað íslenskan atvinnurekstur.

Ríkisstj. dembdi gífurlegum hækkunum út í verðlagið og á nær alla þjónustuþætti á sínum fyrstu mánuðum. Þegar þær hækkanir eru í engu bættar almennu launafólki er von að hægt sé að sýna nokkuð laglegar prósentutölur nú. En þrátt fyrir harkalegar aðgerðir í launamálunum er ástandið nú alvarlegra en nokkru sinni í atvinnumálum okkar. Uppsagnir eru hafnar, atvinnuleysisvofan guðar á gluggann, fiskiskipaflotinn er að komast í algert þrot. Ekkert skal úr því dregið hversu aflaverðmæti hefur dregist saman í mörgum greinum. En þegar við stöndum andspænis erfiðleikum er líka samstaða nauðsyn, samráð við launafólk enn meir knýjandi. Aldrei er það hættulegra en þá að kasta stríðshanskanum framan í launamenn þessa lands. En það eitt hefur verið gert, enda gæti samvinna og samráð við launþegasamtökin leitt til þess að ríkisstj. þyrfti við fleirum að hrófla, draga burst úr nefi hinna best settu, þeirra sem blómstra í dag, þeirra sem hirða arðinn beint og milliliðalaust og skila honum aldrei til samfélagsins.

Ég vona að sá uggur sem nú er í launafólki vegna versnandi atvinnuástands verði ekki nýttur sem svipa, ef það fólk hyggst heimta sinn rétt að nokkru til baka, heimta þann kaupmátt að hluta til baka sem Morgunblaðið taldi á síðasta ári að væri ekki neinum bjóðandi, með gamla síbyljusönginn um kjaraskerðingarnar 14 að eilífri upphrópun. Nú segja vísir menn, nátengdir þessu stjórnarliði, svo sem ég hef áður rakið hér í ræðu, að kaupmáttur kauptaxta í ár sé að meðaltali 82 á móti 100 1982, það ár sem Morgunblaðið grét fegurstum krókódílstárum yfir aumum kaupmætti. Sömu aðilar telja að kaup yrði að hækka á næsta ári um 18–20% í mars, í júní og í október til þess að ná því marki sem var 1982. Ég vil ekki trúa því að svipa atvinnuleysishótana verði reidd á loft þegar launafólk heimtar eðlilega hlutdeild í þjóðararði sem aðrir hrifsa ómælt til sín í dag. Ég vil heldur ekki trúa því að þessi ríkisstj. sé svo djúpt sokkin í frjálshyggjukenningar þær sem nú ráða mestu í sjálfstfl. að hún telji hæfilegt atvinnuleysi hollmeti hið besta, eðlilegt og sjálfsagt hagstjórnartæki til að halda launafólki niðri. Ýmis váleg tákn eru þar á lofti, en þó ég viti vel hverra hagsmuni þessi ríkisstj. ber fyrir brjósti, þá vil ég ekki ætla henni slíkt, ekki einu sinni átján frumvarpa föðurnum í álfheimum ríkisstjórnarinnar, hæstv. fjmrh. sem því miður er ekki hér.

Frv. þetta fer nú til n. þar mun fulltrúi Alþb., í þeirri n. og í 2. umr. þessa máls gera gleggri og ítarlegri grein fyrir afstöðu okkar. Eins og hér hefur verið margsagt af mér áður hefur ekki staðið á okkur Alþb.-mönnum að eitthvað yrði að gert. Við viðurkenndum það í vor. spurningin var um það hvað og hvernig. Ríkisstj. valdi vandarhöggin á íslenska alþýðu og gældi við braskara og milliliði í leiðinni. Hún valdi skipulagsleysið og offjárfestinguna í gerviþjónustu og alls kyns milliliðum. Hún valdi mannréttindabrot með samningsbanninu í stað samvinnu og samráðs. Hún hefur hörfað nokkuð og vonandi sér hún að sér svo a.m.k. lágmarksréttlæti verði náð fyrir launafólk á næsta ári og um leið verði ríkisstj. knúin til að taka á öllum þáttum þjóðlífsins og sækja fjármagnið þangað sem það er að finna til þarfa samfélagsins. Annars á hún engan tilverurétt í siðgæðisvitund fólks, hvað sem allar Hagvangskannanir sýna, og þá stefnir hún í átök og stríð enn frekar. Enn er ekki of seint að iðrast.