24.11.1983
Sameinað þing: 25. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1109 í B-deild Alþingistíðinda. (981)

372. mál, bráðabirgðasamningur milli Íslands og SwissAluminium

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Hér hefur verið rætt um skýrslu iðnrh. um bráðabirgðasamning milli ríkisstj. Íslands og Swiss Alummium Ltd. á tveimur fundum Sþ. og þetta er þriðji dagur þessarar umr. sem hér er að hefjast. Það er vissulega ekki óeðlilegt þó að umr. um þessi efni taki nokkurn tíma, jafn stórt mál og hér er á ferðinni. Ég talaði hér í þessu máli fyrir viku og síðan hafa allmargir hv. þm. auk hæstv. iðnrh. rætt þessi mál, þ. á m. tveir aðrir þm. Sjálfstfl., hv. þm. Birgir Ísi. Gunnarsson og hv. þm. Gunnar G. Schram. Í máli þeirra hefur margt komið fram sem ástæða er til að minnast á og gera hér athugasemdir við. En það hefur vakið nokkra athygli mína að í umr. um þessa skýrslu hefur til þessa ekki talað neinn af þm. eða ráðh. Framsfl. og hefði þó verið fróðlegt að heyra álit þeirra á því bráðabirgðasamkomulagi sem ríkisstj. er aðili að og hér er til umr.

Ég lagði fyrir viku nokkrar fsp. fyrir hæstv. ráðh. Sumum þeirra hefur hann svarað og þakka ég fyrir það en hann vék sér undan að svara nokkrum þeim spurningum sem ég beindi til hans og ég kem að því síðar. En ég vil strax beina hér einni fsp. til viðbótar til hæstv. ráðh. þannig að það falli ekki niður en hún varðar þá endurskoðun á ársreikningum Íslenska álfélagsins h.f. sem fram hefur farið fyrir árið 1982 — og að minni beiðni á sínum tíma sem iðnrh. —og sem endurskoðunarfyrirtækið Coopers & Lybrand tók að sér og skilaði, að ég best veit, niðurstöðum til iðnrn. fyrir 1. sept. í ár. Þær niðurstöður hafa ekki komið fram og hæstv. iðnrh. vék sér undan því að svara fsp. fjölmiðla um þetta í öndverðum sept. og kvaðst þá ekki hafa kynnt sér niðurstöðu skýrslu endurskoðendanna. Ég trúi ekki öðru en hann hafi lesið hana gaumgæfilega nú og tel óhjákvæmilegt að óska eftir því hér að hann greini Alþingi frá því hver sé niðurstaða þessarar endurskoðunar.

Það getur ekki talist annað en eðlileg og lýðræðisleg krafa að fá upplýsingar um þetta því að vissulega skiptir það máli hver þróun er varðandi fjárhald fyrirtækisins og kemur það væntanlega fram hér þegar hæstv. ráðh. greinir frá niðurstöðu. Þessi endurskoðun getur ekki verið neitt leyndarmál. Hún er gerð samkv. samningi. Hún er unnin samkv. aðalsamningi í samvinnu við íslensk stjórnvöld annars vegar og Alusuisse sem eigenda ÍSAL hins vegar.

Ég trúi því ekki að það sé hugmyndin að endurtaka það sem gerðist 1975 þegar samninganefnd, sem þá fjallaði um endurskoðun samninga við Alusuisse, fékk í hendur niðurstöður endurskoðunar á reikningum ÍSALs fyrir árið 1974 sem að mati endurskoðendanna fól í sér vantalinn hagnað upp á milli 3–4 millj. Bandaríkjadala sem leitt hefði til verulegrar hækkunar á skatti fyrir það ár. En þessi skattkrafa og þessi endurskoðun kom aldrei fram á þeim tíma og það var ekki fyrr en 17. des. 1980 sem ég upplýsti þetta mál hér á Alþingi í hv. Ed. við umr. utan dagskrár. Áður hafði þetta mál ekki komið fram opinberlega. Um þessa niðurstöðu var þagað á samningafundi á þeim tíma og engin krafa reist af hálfu íslenskra stjórnvalda þá vegna þessara skattsvika ÍSALs og málinu stungið undir stól.

Það getur ekki verið að neitt svipað eigi að endurtaka sig nú jafnmikið og menn hafa brennt sig á viðskiptum við þetta fyrirtæki og ég vænti þess að hæstv. iðnrh. greini hér frá tölulegri niðurstöðu þessarar endurskoðunar að mati Coopers & Lybrand, um hversu háar upphæðir er að ræða, ef eitthvað er aðfinnsluvert, og þá varðandi einstaka þætti rekstrar og bókhalds. Ekki meir um það að sinni.

Hv. talsmenn Sjálfstfl. hér í umr. hafa dvalið mikið við fortíðina. Ég nefni það hér vegna þess að það hefur stundum verið að því fundið við mig að ég hafi verið að lýsa inn í myrkvið fortíðarinnar í samskiptum við þetta fyrirtæki. Ég get vel skilið það út af fyrir sig að sumir hv. alþm. séu orðnir fullsaddir af því að fjalla um þau efni — kannske þeir ekki síst sem ekki hafa gefið þessu máli þann gaum sem þyrfti til þess að átta sig á einstökum þáttum þess. En það er athyglisvert að enn standa hér talsmenn Sjálfstfl. í þessari umr. til þess sérstaklega að verja álsamninginn frá 1966 og jafnframt ásaka þeir mig um það að ekki tókst að knýja Alusuisse til samninga í tíð ríkisstj. dr. Gunnars Thoroddsens.

Hv. þm. Birgir Ísi. Gunnarsson leiðir þar fram sem vitni fyrrv. hv. alþm. Guðmund G. Þórarinsson, manninn,.sem hljóp út úr álviðræðunefnd stjórnvalda sem allir þingflokkar áttu fulltrúa í þann 6. des. 1982 vegna þess að ég féllst ekki á að gera tillögur hans um uppgjöf gagnvart Alusuisse að mínum tillögum í viðræðum við fulltrúa fyrirtækisins. Það er raunar vert að rifja það upp hér að það voru fleiri en Guðmundur G. Þórarinsson sem takmarkað hald var í þegar fengist var við þetta mál í tíð fyrrv. ríkisstj. Ég ætla ekki að ræða hér um hlut hv. stjórnarandstæðinga í þeirri tíð; hann kom fram býsna oft. En þó má segja, að þessi fulltrúi Framsfl. hafi gengið skrefi lengra þegar hann hljóp út af sameiginlegum vettvangi þar sem um þessi mál var fjallað. Það hafa margir velt því fyrir sér hvers vegna þessi þáv. hv. alþm. rauf formlega samstöðu fyrstur manna í álviðræðunefnd. Ýmsir vonuðu að þ. á m. ýmsir fylgismenn Framsfl. að hann væri undantekning í forystuliði þess flokks. Svo var því miður ekki. Gjaldkeri flokksins var ekki einn á báti.

Ritari Framsfl., þáv. ritari, hv. þm. og hæstv. ráðh., viðskrh., Tómas Arnason sagðist raunar lítið vita um mátið þegar það bar á góma. Hann hafi ekki fyrir því að setja sig inn í það. Hann taldi það svo flókið og gerði sér ekki það ómak að setja sig inn í málið og lýsti yfir því á opinberum vettvangi. Samt lét hann hafa sig í það að láta glósur og hálfkveðnar vísur fjúka um málsmeðferð af minni hálfu og Alþb. í þessu máli.

Varaformaður Framsfl., svo að farið sé yfir forystusveitina, hæstv. núv. sjútvrh., hafði skýrari meiningar áður en lauk því að hann skipaði sér í sveit með stjórnarandstöðunni hér á hv. Alþingi á s.l. vetri, með meiri hl. í atvmn. í till. sem hann og aðrir túlkuðu sem vantraust á mig sem ráðh. Ég hef þegar rætt um þá málsmeðferð fyrr í þessari umr. og ætla ekki að fjalla frekar um það. En hvar stóð form. Framsfl., hæstv. núv. forsrh., sem sérstaklega átti að fylgjast með málinu innan ríkisstj. fyrir hönd síns flokks? Var hann ekki óánægður með úthlaup gjaldkera flokksins úr álviðræðunefnd? Hann var raunar þá staddur erlendis og ég var að frétta það áðan að hann væri kominn á erlenda grund nú aftur. Ekki ætla ég að gagnrýna það. Menn þurfa að sinna erindum. En því miður var síst meira hald í form. Framsfl. í þessu máli en í minni spámönnum í hans flokki og í forystu hans flokks. Ég hlýt hér vegna þeirra ásakana, sem enn og aftur eru endurteknar í minn garð í sambandi við málsmeðferð, að nefna hér örfá dæmi til að varpa ljósi á þá samningsstöðu sem framkvæmdavaldinu og mér sem ábyrgðaraðila þess var búin í viðureigninni við harðvítugan samningsaðila, harðvítugan gagnaðila, þar sem var Alusuisse, í tíð fyrrv. ríkisstj. Ég hef sagt það að brestir hér innanlands hafi verið þess valdandi öðru fremur, að ekki tókst að knýja Alusuisse til samninga, til sanngjarnra samninga, og það mætti kannske eitthvað af því máli læra varðandi framhaldið sem hér er til umr.

Ég vil rifja það hér upp, að í marsmánuði 1982 tókst að knýja Alusuisse að samningaborði til viðræðna eftir að auðhringurinn hafði með freklegum hætti reynt að sundra röðunum hér innanlands með sérstakri heimsókn dr. Müllers og dr. Weibels þann 1. febr. og einkaviðræðum þeirra þá við forystumenn annarra stjórnmálaflokka en Alþb. Þeir reyndu að sundra þeim vettvangi sem stofnað hafði verið til af þingflokkum, álviðræðunefndinni, en það tókst ekki í það skiptið. Ákveðinn var fundur þann 3. mars 1982 eftir að tekist hafi að ná saman innan ríkisstj. um samþykkt í þessu máli, um samþykkt um lágmarkskröfugerð af hálfu Íslendinga, íslenskra stjórnvalda. Dr. Müller tók í framhaldi af því áskorun minni um að hitta mig á fundi með sínum fulltrúum til þess að reynt yrði að finna samningsgrundvöll fyrir viðræðuaðila og koma af stað eðlilegum samningaviðræðum. Íslenski viðræðuhópurinn, sem hitti fulltrúa Alusuisse 25. og 26. mars 1982, setti fram þegar á fyrsta fundi ýmis gögn og kröfur af hálfu íslenskra stórnvalda. En frá Alusuisse kom ekkert á þeim fundi, engin viðbrögð, engar tillögur. Það var fyrst síðkveldis þann sama dag, þann 25. mars, sem Alusuisse sendi tillögu af sinni hálfu ekki til mín heldur til hæstv. þáv. forsrh. og hæstv. sjútvrh. Ég frétti fyrst af þessari tillögu morguninn eftir en þá hafði verið ákveðið að dr. Müller hitti okkur þrjá ráðh. áður en formlegar viðræður héldu áfram milli mín og hans og okkar samstarfsmanna í þeim viðræðum. Við ráðherrarnir höfðum ekkert getað borið okkur saman en á þessum fjögurra manna fundi, sem ég greindi frá á liðnu sumri í grein í Tímanum í nokkrum atriðum, lýsti form. Framsfl. því yfir að hann teldi tillögu Alusuisse, sem sett var fram undir miðnætti nóttina áður, góðan grundvöll sem nota mætti með svona einhverjum orðalagsbreytingum sem samkomulagsgrundvöll. Þessi tillaga dags. þann 25. mars 1982 fól m.a. í sér eftirfarandi meginatriði sem kröfur af hálfu Alusuisse, sem setur hana fram:

1. Ásakanir, sem þeir kalla um yfirverð á aðföngum og um vantalinn hagnað hjá ÍSAL, væru dregnar til baka en skoðanir væru eftir sem áður skiptar um lagalega túlkun nokkurra atriða í aðalsamningi. Sá ágreiningur yrði jafnaður í vinsemd í viðræðum lögfræðinga eða í nefnd.

2. Viðræður héldu áfram um sameiginleg áhugamál varðandi ÍSAL. Endurskoðun á skattareglum. Hagkvæmniathugun varðandi framtíðarrekstur ÍSALs, yrði gerð af Alusuisse í samráði við fulltrúa ríkisstj. til að ákvarða eftirfarandi:

1. Hagkvæmni ÍSALs í núverandi stærð miðað við mismunandi afurðaverð, hráefnisverð og raforkuverð. 2. Hagkvæmni ÍSALs eftir stækkun um 40 þús. til 80 þús. tonn.

3. Hagkvæmni anóðuframleiðslu á Íslandi.

Síðan segir í þessum texta að hlutdeild íslenska ríkisins í ÍSAL komi til greina ef bræðslan yrði stækkuð og hlutdeild þriðja aðila í stækkun ÍSAL. Ríkisstj. setji á laggirnar ráðherranefnd til að leiða samningaviðræður við Alusuisse. Þetta er tillaga Alusuisse að sameiginlegri yfirlýsingu fyrirtækisins og íslenskra stjórnvalda.

Þetta eru meginatriði þeirrar tillögu sem form. Framsfl. leist vel á sem grundvöll að samningsviðræðum og gaf yfirlýsingu þar að lútandi við formann framkvæmdastjórnar Alusuisse án þess að hafa rætt málið við samráðh. sína. Hann fór meira að segja í það verk að breyta orðalagi á hnjám sér á þessu plaggi Alusuisse fyrir framan formann framkvæmdastjórnarinnar þann stutta tíma sem hann staldraði við á þessum fundi sem fatlist hafði verið á fyrst og fremst til þess að dr. Müller gæfist kostur á að kynna íslenskum ráðh. fleirum en mér viðhorf sín.

Ég bið hv. alþm. að taka eftir því að í þessum texta var ekki orð um hækkun raforkuverðs eða önnur þýðingarmestu atriði sem ríkisstj. hafi áður samþykkt og gert kröfur um. Ég tel ástæðu til að rifja þetta upp hér en þetta hefur áður komið fram opinberlega í grein í Tímanum sem hæstv. forsrh. gerði sínar aths. við og fann það helst að að ég væri að greina frá einkaviðræðum — formlegum fundi með formanni framkvæmdastjórnar Alusuisse að viðstöddum tveimur öðrum íslenskum ráðh.; þetta væri einkafundur sem ég væri að greina frá.

Ég hef greint frá því — og gerði það í flokksmálgagni Framsfl. — að mér brá heldur í brún við þessi vinnubrögð og mér leist satt að segja ekkert á það, að framhald yrði á fundum af þessu tagi. Það voru haldnir fleiri fundir þann 5. og 6. maí 1982 þar sem enn var gerð tilraun til þess að fá samningsgrundvöll og fá yfirlýsingu af hálfu Alusuisse um hækkun raforkuverðs án þess að teknar yrðu inn nokkrar skuldbindingar af Íslands hálfu gagnvart fyrirtækinu varðandi kröfur af þess hálfu. Upp úr þessum viðræðum slitnaði á öðrum fundardegi eftir sem sé tveggja daga fund hér í Reykjavík. Við skildum, íslensku aðilarnir, við fulltrúa Alusuisse í ráðherrabústaðnum upp úr hádegi þann dag. Þaðan hélt dr. Müller með fylgdarliði sínu rakleitt til leynifundar í Seðlabankanum með dr. Jóhannesi Nordal og Steingrími Hermannssyni, þáv. hæstv. sjútvrh. Ég frétti af þeim fundi fyrir tilviljun. Hæstv. þáv. sjútvrh. sá ekki ástæðu til þess að segja mér frá honum, þótt tækifæri gæfust nóg til þess.

Ég sá ástæðu til þess að nefna þessi dæmi hér í umr. til þess að styðja rökum og dæmum það sem ég hef sagt hér áður að brestir hér innanlands hafi valdið því á liðnum árum að ekki tókst að ná fram sanngirniskröfum gagnvart þessu stóra fyrirtæki sem við eigum hér í deilu við og eigum rétt okkar að sækja gagnvart. Til að varpa ljósi á. það hvernig hin íslenska víglína í þessu máli var í reynd holgrafin og þurfti ekki stjórnarandstöðuna til í þeim efnum því að það var Framsfl. á þessum tíma sem öðrum fremur og fyrst og fremst bar ábyrgð á þessari stöðu innan ríkisstj. Hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson, þáv. alþm., vissi vel að hann stóð ekki einn í sínum flokki og sinni flokksforystu, þegar hann kaus að hlaupa út úr álviðræðunefnd fyrir framan sjónvarpsvélarnar 7. des. 1982.

Þessi dæmi — og það mætti nefna mörg fleiri — eru lýsandi um það hvernig Alusuisse hefur hreiðrað hér um sig í landinu og hefur tekist að hlutast með óviðeigandi hætti til um íslensk innanlandsmál, íslensk stjórnmál. Þannig hefur þetta auðfélag brotið gegn leiðbeinandi reglum Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD-reglum, sem settar voru og samþykktar 1976 og sem Ísland er aðili að, reglum um fjölþjóðafyrirtæki þar sem segir í 9. lið að fjölþjóðafyrirtæki skuli ekki blanda sér með óviðeigandi hætti í nein staðbundin stjórnmálaleg efni eða á enskunni, að þau eigi að „abstain from any improper involvement in local political activities“.

Samskiptin við þetta fjölþjóðafyrirtæki s.l. 20 ár minna því miður um margt á samskipti fjölþjóðafyrirtækja við lönd sem stundum eru kölluð bananalýðveldi. Það hefur viðgengist og þótt góður siður á þessu tímabili, lengst af a.m.k., að forsrh. Íslands héldu forstjórum þessa fyrirtækis sérstaka hátíðarmóttöku og málsverð árlega, oftast í tengslum við aðalfund ÍSALs. Þannig kom það í hlut hæstv. núv. forsrh. að standa fyrir slíkri veislu á liðnu sumri og það þarf engan að undra þó að talsmenn Alusuisse hafi mætt óvenju kampakátir til þess fagnaðar og dr. Müller, fráfarandi forstjóri framkvæmdastjórnar fyrirtækisins, og dr. Dietrich Ernst, sá sem við tók af honum, hafi mælt ljúflega í skálaræðum. Ég hef heyrt því fleygt að dr. Müller hafi komist svo að orði þegar hann fagnaði myndun þessarar nýju íslensku ríkisstj. undir forsæti Steingríms Hermannssonar, hæstv. forsrh., að hún væri Alusuisse mjög til hagsbóta: „Very much to the benefit of Alusuisse.“ Líklega hefur honum ratast satt orð á munn í það skiptið.

Hæstv. iðnrh. Sverri Hermannssyni til halds og trausts í samskiptamálum við Alusuisse eru nú af hálfu íslensku ríkisstj. þeir hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh., mennirnir sem sáu ástæðu til þess að afhenda Alusuisse „hvíta skyrtu“, sem fyrirtækið kallar svo, í sambandi við skattadeiluna í umr. utan dagskrár hér á Alþingi þann 6. maí 1982.

Ég ætla þá að víkja að nokkrum atriðum úr ræðu hæstv. iðnrh. hér í umr. í fyrradag, svörum hans og þó frekar því sem ekki var svarað.

Hæstv. iðnrh. svaraði fsp. minni varðandi gildi þess texta, ensks og íslensks, sem hér liggur fyrir í skýrslu hans. Hann svaraði á þá leið efnislega að það væri enski textinn sem gilti. Sá íslenski hefði ekki verið undirritaður. Ég verð að segja það þó að mönnum finnist þetta kannske ekki stórt mál að ég varð afar undrandi á að heyra það að í þskj., sem hér er lagt fyrir — tveir textar, íslenskur og enskur — skuli vera látið líta svo út sem báðir textar séu jafngildir en tilefni þess að ég spurðist fyrir um þetta var ósamræmi sem ég tel gæta í nokkrum greinum milli ensks texta og hins íslenska. Þetta er þeim mun undarlegra að verki verið þegar litið er á aðalsamninginn milli ríkisstj. Íslands og Alusuisse, 52. gr. hans, sem hljóðar svo:

„Opinber tungumál samnings þessa eru íslenska og enska; og skulu bæði málin jafngild.“

Í þessum bráðabirgðasamningi er horfið frá þessari meginreglu og aðeins enski textinn er frágenginn og undirritaður og hæstv. ráðh. sér ekki einu sinni ástæðu til þess að láta það koma fram í skýrslu sinni að um þýðingu sé að ræða á enskum texta og birting þeirra látin líta svo út sem báðir hafi verð undirritaðir. Ég tel að hér sé enn á ferðinni dæmi um þann fádæma undirlægjuhátt sem gætt hefur í samskiptum þeirra aðila sem nú sifja í ríkisstjórn Íslands og við þetta fyrirtæki á liðinni tíð. Það virðist vera framhald á slíku. Og í beinu samræmi við þetta upplýsti ráðh., að samningafundirnir fram undan verði haldnir ekki síður á erlendri grund en hér heima ef ég hef skilið það rétt.

Þá upplýsti hæstv. ráðh. þm. um það, að innan nokkurra daga væri von á frv. af hans hálfu, þar sem leitað verði heimildar Alþingis á að heimila Alusuisse að selja 50% af hlutafé sínu í ÍSAL, áður en endanlegur samningur, væntanlega endanlegur samningur, sem hér er látið liggja að að eigi að koma fyrir 1. apríl n.k., verði lagður fyrir þingið. Og hv. Alþingi er ætlað að samþykkja heimild til ríkisstj. áður en menn sjá framan í texta endanlegs samkomulags. Það er varnagli, segir ráðh., í þessum texta, sá varnagli að allt hverfi til fyrra horfs ef ekkert verði af samkomulagi. Ja,. mikið var, — mikið var að það skyldi ekki vera algerlega óútfylltur víxill, en Alþingi á að skrifa upp á hann fyrir sitt leyti. Það er aðeins íslenska ríkisstj. sem á að halda í spottann. Hennar mat á því hvað er viðunandi samningur á þá að gilda og sú staðfesting sem lögð verður eða óskað verður eftir af hálfu Alþingis þegar allt er nánast klappað og klárt. Hafa hv. alþm. gert sé grein fyrir þessum ákvæðum í bráðabirgðasamkomulaginu almennt? Hafa hv. stuðningsmenn ríkisstj. gert sér grein fyrir því að eftir því verður óskað við þá hér á næstu vikum og mánuðum að þeir afgreiði hér út úr þinginu heimild til ríkisstj. til þess að heimila Alusuisse að selja 50% hlutafjár í ÍSAL, sem er stórfellt hagsmunamál fyrir fyrirtækið sem ástæða væri nú til að varpa ljósi á og ég fór um nokkrum orðum hér í umr. fyrir viku síðan.

Ég spyr hv. alþm. að því og bið þá um að hugleiða það a.m.k., hvort þeir ætli að standa þannig að verki, hvort þeir ætli að ganga undir það jarðarmen, sem þeim er boðið upp á af hæstv. iðnrh. og ríkisstj. hans með þessu bráðabirgðasamkomulagi. Mig undrar það ef það gengur eftir. Ég segi ekki meira um það, mig undrar það sannarlega. Með slíkri heimild, sem verið er að veita Alusuisse, fær þetta erlenda fyrirtæki það hlutverk að verða aðgöngumiðasali að íslenskum auðlindum, að íslenskum orkulindum. Og aðgöngumiðinn og verðið fyrir hann, sem Alusuisse fær í vasann, verður þeim mun hærra sem orkuverðið verður lægra og líkurnar á því að ná í samningsaðilann aukast að sjálfsögðu, þegar svo ákveðið og sterkt er látið að því liggja af íslensku ríkisstj. að hún sæki slíka heimild inná Alþingi Íslendinga á yfirstandandi þingi.

Menn tóku eftir því hér í umr. um daginn að hæstv. iðnrh. var ófáanlegur til þess að nefna nú sem fyrr að hvaða raforkuverði eigi að keppa eða sé verið að keppa í þeim samningaumleitunum sem standa yfir. Hann er ekki einu sinni reiðubúinn til þess að slá því föstu að ekki verði samið um minna en framleiðslukostnaðarverð eins og það er núna út úr íslenska raforkukerfinu gagnvart núv. fyrirtæki. Af því að hann og flokksbræður hans eru svo miklir áhugamenn um tvöföldun þessa fyrirtækis og hafa gefið mjög sterkt undir fótinn með slíka stækkun um 100% á ÍSAL er hann eftir sem áður ekki reiðubúinn að gefa slíka yfirlýsingu varðandi raforkuverðið. Hann hefur ekki náð því inn í þetta bráðabirgðasamkomulag að framleiðslukostnaðarverð raforku hér á Íslandi sé einu sinni viðmiðun. Það er bara inni í heildarpottinum Evrópa og Ameríka samkv. þessum samningum. Hvernig í ósköpunum geta menn staðið að verki með slíkum hætti? Hvernig í ósköpunum getur hæstv. iðnrh. ætlað að fara að sækja heimildir hér inn á Alþingi í sambandi við þetta mál þegar fyrir liggur samkomulag sem þannig er vaxið að varðandi raforkuverðið er engin minnsta trygging að samið verði um eða reynt verði að semja um framleiðslukostnaðarverð hið minnsta að lágmarki. Það eru ekki menn í vígahug, það eru ekki menn í hug að berjast fyrirréttlátri niðurstöðu sem þora ekki hér á Alþingi Íslendinga að nefna svo sjálfsagðan hlut í sambandi við kröfugerð af okkar hálfu.

Hæstv. ráðh. sagði okkur frá því að varðandi virkjanir þær sem þyrfti nú að ráðast í, þegar kæmi til stækkunar á ÍSAL, þá mundi hann alls ekki standa á því að það yrði breytt um röð frá því sem ákveðið hefur verið í sambandi við virkjanir. Það gladdi mig að heyra að hæstv. ráðh. ætlar ekki að standa að því að farið verði að heimila nýjar virkjanir eða virkjanaviðbætur í sambandi við stækkun ÍSALs. Það er þó alltjent einhver viðspyrna hjá hæstv. ráðh. En ég vil nú spyrja hann aðeins aftur um það hvort hann hafi ekkert leitt hugann í þá áttina, af því að ég hef lesið eftir hann í blaðaviðtölum eitthvað sem mætti túlka svo, og hefur raunar verið gert, það hef ég orðið var við, túlka og tortryggja í þessu efni. Hann hefur orðað það eitthvað á þá leið að það þyrfti kannske að taka flöskuhálsinn úr við Sultartanga og stækkun Búrfells hefur aðeins flogið fyrir. Hefur ráðh. ekkert aðhafst í sambandi við það að undirbúa heimild varðandi stækkun Búrfellsvirkjunar eða Búrfellsvirkjun II. sem raunar er ný virkjun? Hefur ráðh. ekki látið draga sig út í neitt af því tagi? Ég inni hann eftir því hér sérstaklega því að það er gott, að ekki sé neinn orðrómur í gangi um þau efni.

En í sambandi við virkjanirnar og í sambandi við stækkunina, sem hæstv. ráðh. greindi frá í fréttatilkynningu líklega þann 13. sept., eða kannske var það fyrir viku fyrr — það var þegar greint var frá Zürichsamkomulaginu, þá kom fram ártalið 1987–88 fyrir 50% stækkun ÍSALs, sem mjög líklegur tími. Í enska textanum er, minnir mig, talað um „earliest possible time“ í sambandi við þessa stækkun, sem þýdd er á íslenskunni að vísu „svo fljótt sem við verður komið“. Ég læt nú málsnjalla menn um að bera það saman. En er þetta það sem gert er ráð fyrir, hæstv. ráðh. ef semst um raforkuverð sem fram hefur komið að væri þarna fyrirvari um? Er það þá þetta árabil, 1987–88, sem þessi 50% stækkun ÍSALs er ætlað að komast í gagnið.

Þá vil ég aðeins víkja hér að atriði sem hæstv. ráðh. kom ekki að í sinni ræðu þó að ég hafi spurst fyrir um það í mínu máli. Það er varðandi skattalögsöguna, kröfu um íslenska skattalögsögu, breytingu á aðalsamningi þannig að því ófremdarástandi linni, sem Sjálfstfl. og Alþfl. gengu frá við gerð álsamningsins að skattalögsagan er háð útlendum dómstól, erlendum gerðardómi. Það er ekkert að finna í þessu bráðabirgðasamkomulagi sem bendir til þess að tekist hafi að fá fram breytingar í þá átt eða vilyrði um slíkar breytingar. Ég spyr: Hefur sú krafa ekki verið reist með ákveðnum hætti af hálfu stjórnvalda á þeim fundum sem voru aðdragandi þessa samkomulags? Hvað skyldi t.d. fulltrúi Framsfl. hafa borið fram í þeim efnum? Ég trúi ekki öðru en hann hafi staðið býsna fast í ístaðinu í sambandi við lögsöguatriði í skattamálum, minnugur þess væntanlega sem menn sögðu á fyrri tíð þess flokks. Það var nú kannske á þeim tíma þegar Framsfl. var aðeins betur á sig kominn heldur en nú, þegar fyrir honum fór Eysteinn Jónsson og hv. núv. þm. Ólafur Jóhannesson var hér á sínum fyrstu árum inni á þingi. Þá voru álsamningarnir hér til umr. á Alþingi 1965 og 1966. Hvað ætli Eysteinn Jónsson hafi haft um þau mál að segja og Ólafur Jóhannesson? Ég held að hollt væri fyrir hv. þm. Framsfl. að leggja aðeins eyrað við því í dag þegar verið er að kljást við þennan auðhring enn á ný. Með leyfi hæstv. forseta vil ég leyfa mér að vitna hér í Alþingistíðindi frá árinu 1966, þar sem til umr. var álbræðslan við Straumsvík. Þar mælti þáv. hv. þm. Eysteinn Jónsson:

„Þá er þýðingarmikið atriði sem hefur verið talað um og m.a. var rætt um í sambandi við ályktanir framsóknarmanna, miðstjórnarinnar, og það var að fyrirtækið, ef til kæmi, yrði að lúta algerlega íslenskum lögum. En því fer alls fjarri, að það sé gert ráð fyrir því í þessu sambandi, því miður, því að þetta á ekki að ganga undir íslenska lögsögu eða íslenska dómstóla og hér er um alvarlegt málefni að ræða. Ég held, að það sé einfaldast, að það komi hér inn í umr., 1. umr. máls í hv. d. álit hv. 3. þm. Norðurl. v., Ólafs Jóhannessonar prófessors, sem hann lét í ljós um þetta efni í vantraustsumr. á dögunum og a.m.k. vil ég leyfa mér að vitna til þess og ég mun telja, að hann væri af flestum talinn vel dómbær ekki síst um þennan þátt málsins. En hann segir með leyfi hæstv. forseta:

„Það er og vitað, að gert er ráð fyrir sérstöku og alveg óvenjulegu réttarfari í ágreiningsmálum, sem rísa kunna út af stóriðjusamningunum eða í sambandi við þá. Í þeim málum eiga íslenskir dómstólar ekki að hafa lögsögu nema um það verði samkomulag á milli aðila. Þau ágreiningsmál eiga að fara fyrir eins konar alþjóðlegan gerðardóm, sem sitja skal í útlöndum og skipaður skal fulltrúum frá aðilum, en oddamaður tilnefndur af þeim í sameiningu. En ef samkomulag næst ekki, þá af forseta Alþjóðadómstólsins.

Segja má, að þetta væri ekki athugavert ef um væri að ræða venjulegan milliríkjasamning. En hér er ekki um milliríkjasamning að ræða. Hér er ekki um samning milli tveggja ríkisstjórna að tefla. Hér er um að ræða samninga ríkisstj.-, Landsvirkjunar og Hafnarfjarðarkaupstaðar við einkafyrirtæki. Eftir öllum venjulegum reglum heyra ágreiningsmál út af slíkum samningum undir almenna dómstóla, þar sem málið er hafið, þ.e. hér á landi undir venjulega dómstóla, alveg án tillits til þess, hvort samningsaðili er inniendur eða útlendur. Þetta er viðurkennd regla í öllum réttarríkjum. Ég efast um, að í nágrannalöndum okkar séu fordæmi fyrir því að ríkisstj. semji hliðstæð mál undan eigin dómstólum. Krafa einkafyrirtækis, erlends hlutafélags um að taka þessi ágreiningsmál undan lögsögu íslenskra dómstóla hlýtur að byggjast á vantrausti á íslensku réttarfari og tortryggni í garð íslenskra dómstóla. Á bak við hlýtur í raun og veru að búa sú skoðun, að hér sé ekki fullkomið réttarríki.

Víst er þetta óvenjulegt og óviðunandi, þegar um er að ræða ágreining hins svissneska hlutafélags við stjórnvöld hér á landi. En þó ofbýður manni þó fyrst er gert er ráð fyrir, að sama regla gildi um ágreiningsmál út af samningum við hið Íslenska álfélag, sem svo er kallað. En það félag er látið heita íslenskt félag, á að skrásetjast hér sem slíkt, samkvæmt orðanna hljóðan að fara að íslenskum lögum og hafa stjórn sem að meiri hluta er skipuð íslenskum ríkisborgurum. Hérna á ríkið að semja svo um, að ágreiningsmál þess, Hafnarfjarðarkaupstaðar eða Landsvirkjunar við íslensk hlutafélög séu tekin undan íslenskum dómstólum og fengin alþjóðlegum gerðardómi til úrlausnar. Fyrr má nú rota en dauðrota. Og hvernig í ósköpunum er hægt að kalla það íslenskt félag, sem lýtur ekki lögsögu íslenskra dómstóla? Ég efast ekki um að ráðh. hafi lagt sig allan fram við þessa samningsgerð og ég efast ekki um, að ráðh. hafi ýmsu fengið breytt til batnaðar í þessum samningum. Ég tel víst, að hann hafi reynt að fá breytingu á þessum ákvæðum. En það hefur ekki tekist. Þá hefði hann að mínum dómi átt að setja hnefann í borðið og segja: Hingað og ekki lengra. — Undir svona nokkuð er ekki hægt að skrifa fyrir fullvalda ríki, sem vill telja sig í hópi réttaríkja. Það er niðurlægjandi og í því felst frekleg móðgun bæði gagnvart þjóðinni og íslenskum dómstólum. Og ég verð að segja það eins og það er, að ég vorkenni dómsmrh. að verða að ganga undir það jarðarmen að undirrita slíkt. Finnst mönnum nú vanþörf á að svona samningar séu bornir undir kjósendur áður en þeir eru undirskrifaðir.“ Tilvitnun í Ólaf Jóhannesson hér á Alþingi 1966 lýkur. Hún var inni í ræðu hv. þm. Eysteins Jónssonar, sem segir síðan:

„Þetta sagði hv. þm. um þessi efni og undir þetta vil ég leyfa mér að taka og til þess að vísa, og við þetta hef ég ekki neinu að bæta.“ Tilvitnun í Eystein Jónsson lýkur.

Hæstv. iðnrh. viðurkenndi, eins og ekki verður undan vikist, haldleysi þeirrar raforkuverðshækkunar sem felst í viðbótarálaginu sem gildir um eins árs skeið samkv. þessu bráðabirgðasamkomulagi, viðbótarálagi sem Alusuisse hefur stöðu til að nota sem snöru um háls ráðh. þegar kemur fram á vorið, snöru sem fyrirtækið getur hert að þegar því þóknast og ef því þóknast og hæstv. ráðh. og ríkisstj. eru ekki nógu þýð í viðskiptum um þau atriði sem menn hafa raunar gengist að hálfu leyti inn á með þessu bráðabirgðasamkomulagi um stækkun, um raforkuverð og annað af því tagi. En hæstv. ráðh. vonar að Alusuisse notfæri sér ekki þessa snöru og fari ekki að hóta því eða gera alvöru úr því að fella niður þetta viðbótarálag sem eingöngu gildir um eins árs skeið. Ég skil það afar vel að hæstv. ráðh. voni það. Það er ekki nema eðlilegt. Það er ekki nema mannlegt. En ég spyr hvað ætlar hæstv. ráðh. að gefa ef það fer á annan veg mót hans vonum og snörunni verði beitt? Hvað ætlar ráðh. að gera? Útilokar hann að beita stöðu okkar sem fullvalda ríkis? Útilokar hann einhliða aðgerðir ef ekki verður gengið að lágmarks sanngirniskröfum okkar? Ég vona sannarlega að svar ráðh. sé ekki nema á eina lund í því efni. En ég verð að segja að aðstoðarmenn hans hér í þessum umr., hv. alþm. Birgir Ísi. Gunnarsson og hv. þm. Gunnar G. Schram, hafa ekki beinlínis brýnt þau vopnin hér eða haldið til haga rétti okkar og röksemdum sem fullvalda ríkis í samskiptum við þetta einkafyrirtæki.

Herra forseti. Mér þætti nú vænt um ef hv. þm. Birgir Ísi. Gunnarsson væri hér nærstaddur eða heyrði mál mitt því að ég ætla aðeins að víkja að hans máli hér í umr. um daginn. (Forseti: Það verður athugað hvort hægt verður að hafa samband við hv. þm.).

Í máli sínu — ég vænti að hv. þm. sé hér á leiðinni í þingsal — fór hann allvítt yfir sviðið og ræddi m.a. fortíðina sem ég ætla ekki að dvelja sérstaklega við, um málsmeðferð af minni hálfu og hann tók alveg sérstaklega fram að skattamálin sem hafa verið á dagskrá, skattadeilan væri aukaatriði í þessu máli sem ég hefði látið þvælast fyrir og hefðu orðið þess valdandi að menn hefðu ekki beitt sér að aðalatriðum málsins. Spurningin um 10 millj. dala skattaálagningu, viðbótarskattaálagningu fjmrn. gagnvart fyrirtækinu væri aukaatriði. Það væri nú munur eftir að ný ríkisstj. hefði tekið við, mátti lesa efnislega út úr hans máli, og þegar náð fram 54% hækkun sem svarar líklega til eitthvað nálægt 4 millj. dala, svona rúmt reiknað, á ári. Mér sýndist það nú ekki vera meira, eða 2.5 sinnum lægra og það eina sem menn hafa þar á hendi heldur en sú álagning, sem rétt íslensk stjórnvöld hafa lagt á ÍSAL.

Hv. þm. gerði að uppistöðu í sínu máli að telja að lagalegur grundvöllur fyrir einhliða aðgerðum Íslands á grundvelli brostinna forsendna væri ótraustur og lögfræðingar, sem um þetta mál höfðu fjallað — að vísu taldi hann álitsgerðir þeirra góðra gjalda verðar — hefðu ekki nógsamlega fjallað um þetta einstaka tilvik ÍSALs og Alusuisse til þess að hann mæti það svo að það frv., sem við Alþb.-menn lögðum hér fram og lagt var fram í ríkisstj. áður á síðasta vetri, væri á traustum grunni reist. Og hann tíundaði alveg sérstaklega fyrirvara þessara ágætu lögfræðinga, Þorgeirs Örlygssonar starfsmanns Hæstaréttar og Charles Lipton, prófessors við Háskólann í New York, eðlilega fyrirvara í þeirra álitsgerðum, til þess að finna þessum málflutningi sínum stað. En ég spyr nú: Er það nýtt og er það einkennilegt að lögfræðingar, sem beðnir eru um fræðilegar álitsgerðir, hafi fyrirvara í sínum álitum, setji fram fyrirvara og vísi til þess að fleira þurfi að koma til, að fleira þurfi að vera til álita heldur en lögfræðin ein, einnig hagfræðileg atriði og væntanlega líka pólitískt mat og pólitísk staða mála sem liggur utan við þeirra svið. Og hv. þm., sem er lögfræðingur að mennt, ef ég man rétt eins og hv. þm. Gunnar G. Schram, upplýsti okkur um, eins og hann væri að segja tíðindi, að það væri nú ekki alveg nóg að setja lög gagnvart þessu fyrirtæki því að það gæti bara leitað til dómstóla og málið væri áfram í flækju. Þetta voru nú aldeilis ný sannindi sem hv. þm. reiddi þar fram, að menn gætu leitað réttar síns, einnig Alusuisse, einnig ÍSAL, fyrir dómstólum. Ætli það sé nýtt.

En hvar eru þeir dómstólar sem til yrði leitað af fyrirtækinu ef það svo kysi? Eru það íslenskir dómstálar? Því er fljótsvarað. Um það hefur verið fjallað hér. Hv. þm. virðist ekkert muna eftir því eða gera úr því að um þessi efni var fjallað, ekki aðeins af þeim ágætu og viðurkenndu lögfræðingum, sem hér var vitnað til og lögðu fram vel grundaðar fræðilegar álitsgerðir í þessu máli, heldur var um þetta fjallað af mörgum öðrum löglærðum mönnum, virtum íslenskum mönnum, virtum íslenskum lögfræðingum, sem aðstoðuðu iðnrn. við undirbúning þessa máls og áttu hlut að samningu þeirrar greinargerðar sem fylgdi með frv. til l. um leiðréttingu á raforkuverði Íslenska álfélagsins hf., sem lagt var hér fyrir hv. Nd. í fyrra á síðasta þingi. Hann vill ekkert gera úr því, hann talaði um óvandaðan undirbúning, flaustur og annað af því tagi. Það eru ekki bein orð hans, en efnislega var það á þá leið. Það er ýmist í ökkla eða eyra hjá þessum hv. talsmönnum. Annars vegar óvandaður, ótraustur undirbúningur eða þá allt of mikið af álitsgerðum og skýrslum af hálfu iðnrn. á liðinni tíð. Ég man nú meira eftir ásökunum um hið síðartalda satt að segja. En nú hentar að koma með hina áhersluna. Það var fundið að því að of miklu væri kostað til í þessu máli og lagðar fram of margar álitsgerðir.

Ég vil segja hv. þm. það og hv. þm. Gunnari G. Schram líka, því að hann fjallaði með nokkuð svipuðum hætti um ýmsa þætti þessa máls, að vissulega voru teknir fleiri þættir en lögfræðin ein inn í það mat sem lá að baki framlagningu þess frv. sem hér var vísað til, t.d. hagfræðileg atriði, sem voru vel grunduð og vel rökstudd, pólitískt mat framkvæmdavaldsins, fulltrúa Íslands sem fullvalda ríkis. Það er eins og menn vilji gleyma því að hér er um að ræða átök á milli einkafyrirtækis, þar sem er þetta auðfélag, og Íslands sem fullvalda þjóðríkis. Menn vilja leggja þetta nokkuð að jöfnu í málflutningi sínum, vilja fjalla um þetta eins og um væri að ræða málarekstur milli tveggja einkaaðila, tveggja fyrirtækja, en átta sig ekki á að auðvitað er hér um styrkleikapróf að ræða milli Íslands sem þjóðríkis og þessa erlenda einkafyrirtækis. Sem betur fer hefur — og það sjá menn ef menn skyggnast um á alþjóðavettvangi á liðnum árum — staða þjóðríkjanna gagnvart fjölþjóðafyrirtækjunum verið að styrkjast á undanförnum árum, allan undanfarinn áratug, enda eru það nánast engir samningar um náttúruauðlindir sem ekki hafa verið endurskoðaðir á þessu tímabili.

En svo kemur hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson og vefengir alveg sérstaklega að hér sé um að ræða samning sem varði náttúruauðlind eða geti fallið undir þá skilgreiningu. Þá hafa menn það. Að mati hv. þm. eru íslenskar orkulindir ekki náttúruauðlindir í lögfræðilegum skilningi þm. Náttúruauðlindir eru fyrst og fremst námur segir hv. þm. Lagaleg rök varðandi náttúruauðlindir, yfirlýsing Sameinuðu þjóðanna frá 1962 um rétt þjóðríkja til að tryggja sér eðlilegan afrakstur af náttúruauðlindum sínum, eiga þá væntanlega ekki við að mati þessa hv. þm. um raforkusamninginn við Alusuisse. Ja, þetta eru hjálpamenn í lagi, hæstv. iðnrh., sem þú hefur sett til verka yfir stóriðjunefndinni til þess að ræða við erlent einkafjármagn, erlend auðfélög, til að reyna að lokka þau hingað til landsins, menn sem ganga hér fram á Alþingi Íslendinga og vefengja að samningar um sölu á orku til erlendra aðila séu samningar um afnot af náttúruauðlindum. Allt eðli slíkra samninga er þess eðlis að það fellur undir skilgreininguna að vera samningar um náttúruauðlindir, tímalengd þeirra, fjárfestingar og annað sem að baki þeim liggur. Það er furðulegt að löglærður maður og maður, sem trúað hefur verið fyrir því af hæstv. iðnrh. að leiða orkusölunefndina hans, skuli koma hér fram á Alþingi Íslendinga og vefengja alveg sérstaklega að það sé rétt hjá prófessor Charles Lipton sem aðstoðað hefur 36 ríkisstjórnir í vandasömum samningum að samningur af því tagi, raforkusamningurinn milli Landsvirkjunar og Alusuisse, falli undir samning um náttúruauðlindir. Hann sá alveg sérstaka ástæðu til þess að leiðrétta þennan virta og heimsþekkta prófessor, Charles Lipton, þekktan í þeim hópum sem fjalla um þessi efni, að setja nánast ofan í við hann.

Svo segir hv. þm. að eitt allra veikasta atriðið í mínum málflutningi hafi verið það að samningaleiðin hafi ekki verið reynd til þrautar — það hafi nú verið veikast af öllu — á sama tíma og ég lá hér undir stöðugum árásum frá honum, hér á þingi, flokksbræðrum hans og fleirum, fyrir það að vera allt of lengi að nudda í að reyna að ná þarna samkomulagi; mér mundi aldrei takast það. Það er rétt, hjálparhendurnar voru ekki margar úr þessum herbúðum til þess að það mætti takast. En mitt mat var það að samningaleiðin við fyrirtækið var þrautreynd og þess vegna átti að reyna á íslenskan fullveldisrétt og láta á það reyna hvort fyrirtækið virti löglega tekna ákvörðun Íslendinga varðandi afrakstur, lágmarksafrakstur af orkulindum sínum.

Ég get fullvissað hv. þm. um það mat mitt að samningaleiðin var reynd til þrautar miðað við þá stöðu sem ríkti hér á s.l. vetri og miðað við ítrekaðar neitanir af hálfu Alusuisse, skjalfærðar, um að ganga til móts við lágmarkssanngirniskröfur okkar Íslendinga.

Og síðan kom hann að því sem hann varpaði hér fram og túlkaði sem eitthvert stórtromp í þessu máli og átti að vera lýsandi um mín vinnubrögð fyrr og síðar ef ég hef skilið það rétt að ég hafi óskað eftir einni grg. enn frá Orkustofnun í þetta sinn til að láta kanna það hvaða áhrif orkusölusamningurinn við ÍSAL hugsanlega hefði haft á verð til almenningsveitna hérlendis á liðinni tíð, miðað við mismunandi forsendur, og að ég skuli hafa látið það undir höfuð leggjast að senda sér bráðabirgðaálit Orkustofnunar þar að lútandi sem fyrirtækið gaf út um það leyti sem menn voru að ganga hér út af þingi og líklega gengnir út ef ég man rétt; það var í marsmánuði s.l., gengnir út til uppgjörs í íslenskri pólitík, til kosningabaráttu. Þetta segir hann mér sérstaklega til lasts. En það hefur nú verið bætt úr því — þeirri vöntun á skýrslu til hv. þm. — því að Orkustofnun lét mig hafa álitsgerð sína daginn áður en ríkisstj. stóð upp af stólunum þann 25. maí og gaf það út í skýrsluformi í júní 1983. Og um hvað er þessi skýrsla?

Hún er athugun á áhrifum orkusölusamningsins og heitir „Lausleg athugun á áhrifum raforkusamningsins við ÍSAL á raforkuverð Landsvirkjunar til almenningsveitna“. Jón Vilhjálmsson, sérfræðingur á Orkustofnun, skrifaður fyrir, júní 1983.

Þarna var verið að fara ofan í einn þátt þessa máls, einn af mörgum þáttum, til að leiða í ljós áhrif þessa samnings, leiða líkur að því hvaða áhrif hann hefði haft. Og hv. þm. segir: „Skýrslan sannaði bara eitthvað allt annað heldur en ráðh. þóknaðist og reyndi hann þó að breyta forsendunum sem verið var að fara eftir.“ Ja, þetta er nú boðlegt, hv. þm. Ég á að hafa staðið í því, ekki bara þarna heldur í mörg skipti, að troða forsendum upp á sérfræðistofnanir og aðila og sömu aðilar eiga að hafa kokgleypt þau fyrirmæli af minni hálfu í sambandi við forsendur af þessu tagi. Það er velkomið að hafa slíkan málflutning uppi hér á hv. Alþingi en ég tel það ekki boðlegt.

Ég skal vitna hér í inngang orkumálastjóra sem hann lætur fylgja þessari skýrslu til þess aðeins að varpa ljósi á þá könnun sem þarna var unnið að en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Orkustofnun ítrekar það sem rakið er í bréfi hennar frá 1983 0309“ — það les maður nú 9. mars 1983 á mæltu máli, það er íslenskur staðall víst — „og í inngangskafla meðfylgjandi greinargerðar, að niðurstöður athugana af þessu tagi, þar sem sögulegar staðreyndir eru bornar saman við eina aðra framkvæmdaröð af mörgum hugsanlegum, gefa aðeins vísbendingu, en ekki ótvíræða vitneskju, um hvað raforkuverð til almennings hefði orðið án samningsins við ÍSAL. Ber því að mati stofnunarinnar að fara varlega í öllum ályktunum um verðmun sem dregnar kunna að verða af þessum niðurstöðum. Þróun þessa verðmunar eða verðhlutfalla — með tímanum er líklega marktækasta ályktunin sem dregin verður af þessum athugunum, og virðist hún mun marktækari en hlutföllin sjálf.

Að mati Orkustofnunar er markverðasta ábendingin af þessari athugun einmitt sú, að hlutfall raforkuverðs til almenningsveitna án ÍSALs og með því virðist fara lækkandi með tímanum. Verði raforkuverðið í samningnum við ÍSAL því ekki fljótlega hækkað bendir margt til að ávinningurinn af honum fyrir hinn almenna rafmagnsnotanda, sem virðist ótvírætt hafa verið til staðar fyrstu árin, þótt þessi athugun gefi ekki mjög góða vitneskju um hve mikill hann hefur verið, verði brátt uppurinn, ef hann er það ekki nú þegar.“

Þetta segir orkumálastjóri í inngangi að þessu. Og í þeim tölulegu niðurstöðum, sem fylgja í skýrslunni, kemur það fram þar sem borin eru saman nánast 9 tilvik, 9 mismunandi atriði eða möguleikar, 3 meginmöguleikar með þremur tilbrigðum, að frá árinu 1978 að telja séum við farnir að borga með þessu samningi, sé rafmagnsverðið til atmenningsveitna farið að hækka vegna þessa samnings, og það miðað við óbreytta virkjanaröð því að það er byggt á þeim virkjanaforsendum sem hafa orðið reyndin frá því að ráðist var í Búrfell og samningurinn var gerður. Ég bið menn um að hafa það í huga.

Og hv. þm. þóknaðist að sjálfsögðu að taka hér það tilvik sem sýnir skástu niðurstöðuna miðað við samninginn hans, álsamninginn hans, sem hann er að verja hér í rauðan dauðann og telja að það væri 9–12% hagur á þessu tímabili yfir heildina lítið af þessum samningi, það vildi hv. þm. segja okkur og hafði hér yfir að væri útkoman. Áður hafði verið á því klifað að þetta væri upp undir 30% hagur sem Ísland hefði haft af þessum samningi svo eitthvað hefur nú þm. þó vitkast við lestur þessarar skýrslu þó með einkennilegum gleraugum sé hún lesin. Og hann hefði með sama hætti getað farið í annað tilvik sem sýnir það reikningslega miðað við hærri afkastavexti en gilt hafa á liðinni tíð, 4% afkastavexti, að á þessu tímabili til 1982 hafi raforkuverðið orðið 10% hærra á föstu verði á heildina litið til almenningsveitna með en án þessa samnings þó að við hefðum farið í sömu virkjanir og virkjanaröð, vel að merkja. Þó að farið hefði verið í stórvirkjun Búrfells 1966 og hún tekin í gagnið 1969 fyrir almennan markað þá hafi samt hallað á. Og þetta er meginvísbending þessarar skýrslu að nú þegar og fyrir nokkrum árum erum við farnir að borga þarna með enda þarf nú kannske ekki talnameistara til. Ætti íslenskur almenningur hafi nú ekki fundið fyrir því á síðustu árum hvaða áhrif meðgjöfin með ÍSAL hefur haft? Það er t.d. hægt að benda á það tölulega að ef miðað er við kostnaðarverð á raforku til stóriðju samkvæmt reikningum Landsvirkjunar árin 1975–1982 þá hefði ÍSAL átt að greiða, miðað við kostnaðarverð raforkunnar, 90 millj. dollara á þessu tímabili en greiddi aðeins 48 millj. dala yfir tímabilið. Þetta eru líka tölur, vísbendandi tölur og augljósar.

Og hvað las blaðamaður Tímans út úr þessari skýrslu þann 2.–3. júlí eftir að henni var dreift? Hann segir það sama eins og ég man að aðrir — sem ekki eru með gleraugun hans Birgis eða gleraugnalausir, ég veit ekki hvort hv. þm. hefur slík hjálpartæki — lásu út úr því: „Niðurstaða nýrrar skýrslu Orkustofnunar: Raforkuverð til almennings lægra án ÍSAL.“ Það er fyrirsögnin og innihaldið í fréttinni með sama hætti sem ekki þarf að undra.

Nei, hér eru menn í vörn, enn í vörn fyrir samning sem gerður var fyrir 18 árum — eru þau ekki að verða það — 1966. Samning sem enn þá nagar samvisku þeirra manna sem eru í þeim flokki sem bar meginábyrgð á þessum samningi. Og það er ekki ég sem hef verið að flytja hér ásökunarræður að fyrra bragði um þennan samning. Það eru þeir sem flytja hér eina varnarræðuna af annarri út af fortíðinni, út af þessum ágæta samningi sem þarna var gerður og reyna að halda því hér fram á Íslandi að þetta hafi bara verið til hagsbóta — fram á þennan dag — fyrir íslenskan almenning, að nánast gefa helminginn af framleiddri orku Íslendinga til þessa fyrirtækis, eins og verið hefur undanfarin ár. Ja, þetta er nú rökvísi!

Á sama hátt hefur verið endurtekin hér ár eftir ár á Alþingi, síðan þetta mál kom hér til umr., „klisjan“ um það að þessi ágæti samningur sé svo góður að hann borgi upp Búrfellsvirkjun og öll tengivirki og vararafstöðvar á 19 árum. Ég veit að m.a.s. hv. þm. Egill Jónsson kann þetta utan að, hugsa ég. Þetta er „klisjan“ sem hefur verið farið svo oft með af hans flokksbræðrum.

Hvernig er þessi niðurstaða fengin? Hún er fengin með því að gera ráð fyrir því að fjármagnið skili ekki núllvöxtum heldur neikvæðum vöxtum yfir tímabilið, -3% vöxtum. Það er neikvæð ávöxtunarkrafa sem leiðir til þessarar niðurstöðu. En hvað gefur sú ávöxtunarkrafa — sem hv. þm. Birgir Ísleifur kom hér með er hann var að lesa upp úr skýrslu Orkustofnunar, 4 eða 6% krafan, sem hann taldi nú raunar heldur lága nú til dags — í þessu reikningsdæmi? Hvernig fer hún með þessa klisju“ Sjálfstfl. um ágæti álsamningsins? Hún segir okkur að það nægi ekki allt samningstímabilið, 45 ár, til þess að greiða þessi mannvirki upp. Það er hinn kaldi veruleiki. Og hv. þm. segir: Ja, þetta er nú bara ein af reikningsformúlunum, þetta er ein af forsendunum hans Hjörleifs sem hann hefur pínt inn í tölvurnar hjá virtum stofnunum til þess að fá út niðurstöðu. Ja, það er von að mönnum lítist ekki á blikuna, þegar fellur á fallegar glansmyndir og margendurteknar.

En svo er það stækkunin og trúin á erlendu stóriðjuna sem fram kemur hér í málflutningi allra þessara þriggja hv. talsmanna og endurspeglast í stefnuyfirlýsingu og stjórnarsáttmála núv. ríkisstj.

Herra forseti. Mér þætti nú vera prýði að því vegna þess sem ég ætla að segja hér ef hv. þm. Lárus Jónsson, hv. 2. þm. Norðurl. e., og hv. þm. Guðmundur Bjarnason, 6. þm. Norðurl. e., gætu komið hér og verið smástund áhlýðandi þessa umr. (Forseti: Það skal tekið fram að það hefur verið haft samband við báða þessa þm. og þeim kynntar óskir hv. ræðumanns.) Mætti kannske ítreka það ef þeir eru í húsinu svo að þeir viti að ég óska eftir því að þeir hlýði á mitt mál? Ég get að sjálfsögðu ekki gert kröfu til þess. (Forseti: Það verður gert.) Þakka fyrir það.

Ég ætla nefnilega að víkja að því sem fram hefur komið hér frá hæstv. iðnrh., frá hv. formanni stóriðjunefndar ríkisstj., frá hv. samninganefndarmanni í samninganefnd um stóriðju, hv. þm. Gunnari G. Schram, að stækkun ÍSAL-sem er búið að skrifa langleiðina upp á, tvöföldun fyrirtækisins, a.m.k. 50%, og m.a.s. ársetja, ef ég hef skilið tilkynningar hæstv. iðnrh. rétt — sé langsamlega hagstæðasti stóriðjukosturinn, hagkvæmasta orkunýtingin sem um geti verið að ræða hér á Íslandi. Skrautlegasta orðalagið um þetta efni við hafði hv. þm. Gunnar G. Schram því að hann sagði varðandi stækkun ÍSAL sem fjallað er um í þessu bráðabirgðasamkomulagi að „langbesti og raunhæfasti og skynsamlegasti“ — takið eftir, hv. alþm., það eru þrjú sterk lýsingarorð — „langbesti og raunhæfasti og skynsamlegasti stóriðjukosturinn á Íslandi í dag er stækkun átversins, ný atvinnutækifæri, 400–500 manns,“ sagði hv. þm.

Ég held að það sé ástæða til að staldra við þegar svona er á borð borið án rökstuðnings fyrir hv. alþm. og verið að tala hér máli auðhringsins með staðhæfingum af þessu tagi eins og hér liggi fyrir einhverjar borðleggjandi staðreyndir. Ég vil biðja hv. þm. Gunnar G. Schram um að greina okkur frá því: Hvar eru þær athuganir sem hann byggir á þessa skrautlegu lýsingu sína? Hvaða hagkvæmniathuganir eru það og hvaða samanburður við aðra orkunýtingarmöguleika á Íslandi sem renna stoðum undir þessar staðhæfingar hans? Og vegna þess að ég var að biðja um það að hv. þm. Lárus Jónsson og Guðmundur Bjarnason hlýddu hér á mál mitt þá vil ég greina frá því strax, að ég efast um þessa staðhæfingu og það meira en lítið.

Og ég vænti þess að hv. þm. hafi leitt hugann að þeim staðhæfingum sem hafa ómað hér undanfarna mánuði í þessum efnum, eins og fleiri aðilar sem hafa verið að leiða hugann að því, hvort það væri ekki hugsanlegt að ráðast í nýtingu innlendrar orku með skynsamlegum hætti annars staðar en við Faxaflóa, annars staðar en í þágu Alusuisse, kannske í þágu Íslendinga, íslensks þjóðfélags og með atorku þess og atbeina, íslenskra þegna. Ég ætla að koma aðeins að því frekar hér á eftir og vænti þess að hv. þm. doki við og segi hér kannske síðar í umr. álit sitt á staðhæfingum eins og enduróma hér varðandi stækkun ÍSAL. Þær staðlausu staðhæfingar hafa ekki hingað til a.m.k. verið rökstuddar af þessum talsmönnum skýlausrar hagkvæmni þess að stækka ÍSAL. A.m.k. hafa þeir ekki viljað ljóstra því upp hvaða raforkuverð þeir fá þar. Það þyrfti áreiðanlega að vera gott betra en framleiðslukostnaðarverðið sem þar fengist til þess að þessi staðhæfing fái staðist.

Það hefur verið aðeins yfir það farið af mönnum sem hafa litið á þessi efni hvernig það kæmi út að fjárfesta í álveri með stækkun í Straumsvík og hliðstæðu fyrirtæki annars staðar, t.d. við Eyjafjörð. Ég ætla ekki þar með að segja að álver við Eyjafjörð sé orkunýting eða fjárfesting sem við eigum að ráðast í. Ég vil ekki fullyrða það án þess að mun betur sé farið yfir það mál að við eigum að ráðast í það enda er það forsenda af minni hálfu að styðja slíkt að þar væri um meirihluta eign Íslendinga að ræða í slíku fyrirtæki. Þar er stór fjárfesting á ferðinni eins og hér hefur komið fram, allt að 600 millj. dala með rafskautaverksmiðju. Það hefur verið borið saman hvað 65 þús. tonna áfangi í Straumsvík annars vegar kostaði í stofnkostnaði og sams konar áfangi við Eyjafjörð, að orkuveri meðtöldu, og þá gert ráð fyrir því að orka til lengri tíma litið, a.m.k. til álvers í Straumsvík, kæmi frá virkjunum á Suðurlandi sem ráðast þurfi í en við Eyjafjörð frá virkjunum nyrðra og eystra. Og niðurstaðan úr þeim reikningum sem hafa verið birtir í blöðum, m.a. í Íslendingi að ég hygg nyrðra, er þessi: Stofnkostnaður við 65 þús. tonna álver í Eyjafirði er metinn á 5.5 milljarða íslenskra króna um það bil. Miðað við að orka kæmi frá Fljótsdalsvirkjun væri stofnkostnaðurinn 5.2 milljarðar kr. Samtals 10.7 milljarðar. Stækkun í Straumsvík, iðjuverið 4.8 milljarðar kr., orkumannvirkin 6 milljarðar kr. Og þá eru lagðar til grundvallar Sultartangavirkjun og Búrfellsvirkjun II, sem sé þær virkjanir sem næstar hafa verið á framkvæmdadagskrá hér á Suðurlandi þegar að slíkum virkjunum kæmi. Niðurstaðan 10.8 milljarðar kr. eða aðeins dýrara í Straumsvík, iðjuver/orkuver samanlagt, en nyrðra.

Þetta eru eflaust ekki óvefengjanlegar niðurstöður. Mér dettur ekki í hug að halda því fram. En þetta eru vísbendandi reikningar sem veikja mjög þann málflutning sem hér er við hafður fyrirvaralaust af talsmönnum þess bráðabirgðasamkomulags um skýlausa hagkvæmni þess að ráðast í stækkun álversins í Straumsvík samanborið við aðra orkunýtingarmöguleika hér innanlands.

Og síðan þegar kemur spurningin um það hvort Íslendingar eigi að ráðast í orkunýtinguna, iðjuverin, eigi að standa undir iðjuverunum, þá fer nú heldur að sortna fyrir augum hjá þessum hv. talsmönnum. Þá fara þeir að reikna út tapið. Þá fara að birtast stjarnháar tölur um tapið sem fram undan sé í þessum fyrirtækjum sem þeir ætla útlendingum að koma hér upp færandi hendi til þess að fjárfesta í. 1100 millj. Bandaríkjadala, sagði hv. þm. Birgir Ísi. Gunnarsson, eru taplíkurnar á 10 árum í álveri við Eyjafjörð, 1100 millj. Bandaríkjadala. Kísilmálmverksmiðja við Reyðarfjörð, hrein skelfing sem við blasir. Þetta eru rök manna sem eru að reyna að telja íslenskri þjóð trú um að hún eigi hér bara að virkja og virkja fyrir útlendinga og láta þá hirða arðinn og flytja hann úr landi eins og gert hefur verið í 14 ár frá straumsvík.

Og er það nú líklegt að útlendingar komi hér til að fjárfesta í fyrirtækjum til þess að standa hér undir taprekstri svona í góðgerðarskyni? Að vísu þurfum við að gefa svolítið með náttúrlega, selja orkuna undir framleiðslukostnaðarverði til þess að hafa beitu til að þeir komi og bíti á en þetta er svo þýðingarmikið segja þessir ágætu hv. talsmenn, þessir hv. þm., þetta er svo þýðingarmikið atvinnutækifæri. Við erum að skapa hér atvinnutækifæri. Hvaða heilvita menn geta borið það fram að við eigum að ráðast í fjárfestingar af þessu tagi til þess að bjarga við atvinnumálum á Íslandi? Að við eigum að fara í 600 millj. dala fjárfestingu eða láta útlendinga fjárfesta og taka á okkur áhættuna af fjárfestingu í virkjununum sem að baki eiga að standa því að það eru Íslendingar sem eiga að standa undir þeirri áhættu og borga með eins og hingað til, til þess að fá atvinnu fyrir nokkur hundruð manns? Nei, í svona orkunýtingu og svona fjárfestingu eigum við auðvitað ekki að fara nema við teljum vissu fyrir því, a.m.k. mjög sterkar líkur, að á rekstrartíma fyrirtækis, eðlilegum rekstrartíma, skili það drjúgum hagnaði inn í íslenskan þjóðarbúskap vegna þess að orkulindirnar séu bakhjarl og upp úr iðjunni sé arð að hafa. Það er alveg borðleggjandi að það er fyrst og fremst upp úr úrvinnslunni, iðnaðinum, iðnaðarþættinum sem arðinn er að hafa. Líkurnar að geta reiknað sér arð út úr orkuverunum eru lakari jafnvel þó að við gerum ráð fyrir að fleyta okkur með framleiðslukostnaðarverðinu. Því hefur Alusuisse kynnst í sínum rekstri í Straumsvík gegnum árin.

Hv. þm. hafa haft um þetta mörg orð, en það er eitthvert ský yfir Norðlendingum sem eðlilegt er í þessu máli. Mér finnst einnig vera farið að draga upp blikur eystra líka. Ekki heyrist mikið um það fyrirtæki, sem Alþingi hefur samþykkt heimildarlög um, byggingu kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði. Hvar er orkan sem á að renna til hennar 1987 eða á kannske ekkert að reisa slíka verksmiðju? Á bara að veita henni til Straumsvíkur? Það var einn ágætur rithöfundur sem skrifar í Morgunblaðið, Stefán Friðbjarnarson sem skrifaði 9. júlí „af innlendum vettvangi“ og spyr eðlilega: „Verður Blönduorku breytt í útflutningsverðmæti nyrðra?“ Hann fjallar um þetta, hann er ættaður að norðan. Það er eðlilegt. Ýmsir fleiri hafa spurt. Á sú virkjun, sem verið er að ráðast í, að framleiða orku til þess að lenda í fjárhirslunum suður í Zürich og til þess að bæta við, ekki 400–500 manns eins og hv. þm. Gunnar G. Schram sagði hér í umr. um daginn. Hann hélt því fram, að starfslið sem kæmi að stækkuninni í Straumsvík væri 400–500 manns. Hvaðan hefur hv. þm. upplýsingar um það? Þetta er samningamaður íslenskra stjórnvalda og hann kemur hér og segir: Það eiga 400–500 manns að fá atvinnu við þessa stækkun, við þennan ágæta og vænlegasta stóriðjukost Íslendinga. Veit hv. þm. ekki að það eru 220 manns eða þar um bil sem líklegt er að komi til starfa til viðbótar vegna tvöföldunar álversins í straumsvík? Veit hann þetta ekki? Eða er hann að fara hér vísvitandi með blekkingar?

Svo kom hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson að þætti, sem væri efni í nokkuð langa tölu ef út í það væri farið, en ég skal ekki eyða mjög mörgum orðum að því efni. En ekki er hægt að sniðganga það alveg, því að það voru svo stórkostleg fræði sem þar voru framreidd. Þá var nefnilega farið að víkja að því að þetta væri kannske ekki svo geysimikið sem við fengjum fyrir orkuna. Nei, það er nú ekki svo geysimikið eftir á að hyggja. En það er líka bara 1/4 partur af því sem streymir inn í æðar íslensks þjóðfélags eða þjóðarlíkama-ég man nú ekki hvaða orð hann notaði, en það var í þessa áttina, frá þessu dásemdarfyrirtæki. Það var bara 1/4. Hitt er þjónustan, sem við setjum því, og vinnan, sem skapast þarna og allt sem er í kringum þetta. Það er bara fjórum sinnum meira en það sem kemur frá raforkusölunni. Það er þetta fyrst og fremst sem réttlætir að við stöndum að svona fyrirtæki, sagði þm. Ja, þetta er nú mikill nægtabrunnur sem hv. þm. hefur fundið þar sem er álverið. Hann reiknar sem nettótekjur aðföngin í þessa þjónustu sem þarna er framreidd. Þau eru væntanlega lág. Hann fór að líkja þessu við saltfisk og freðfisk, ef ég man rétt, og var kannske aðeins efins um hvort kostnaðurinn í aðföngunum væri alveg jafn mikill í freðfiskinum, en það mátti skilja á honum að það væri ekkert víðs fjarri. Þetta væri mikill nægtabrunnur.

Ég vil segja hv. þm. að ég skil ekki þessa hagfræði og ég bið hann um að skrifa eina grein í Morgunblaðið við hentugleika, því að hann gerir þetta stundum og verður ekki mikið fyrir því, hygg ég, að bæta einni við til að skýra fyrir lesendum stærsta blaðs landsins þessa hagfræði, þennan hagnað íslenska þjóðfélagsins af þessari viðbót umfram það sem hægt er að hafa upp úr öðrum rekstri hérlendis, hvar sá verðmætisauki er, sem þarna hefur verið á liðnum árum, sem ekki hefði verið hægt að fá út úr öðrum rekstri hér á landi. Það væri gott að hv. þm. upplýsti okkur um það. Og hv. þm. Gunnar G. Schram mætti gjarnan bæta við annarri grein því að hann vék alveg sérstaklega að sama efni í máli sínu. Þetta á að verða haldreipið ef svo fer að hæstv. iðnrh. kemur ekki með dúndrandi góðan samning, og enn þá ótrúlegra afrek út úr samningaviðræðum sínum við Alusuisse heldur en orðið er, þá á þessi nægtabrunnur hv. þm. Birgis Ísl. Gunnarssonar að verða réttlætingin fyrir stóriðjusamningunum sem þessa heiðursmenn dreymir um að ná hér á meðan þeir sitja á valdastólum.

Ef litið er til samanburðar við aðra þætti þá er það eitt sem má leiða líkur að, að greitt sé eitthvað hærra verði t.d. í álverinu í Straumsvík heldur en almennt gerist hér. Það eru vinnulaunin. Það liggur fyrir að þau eru eitthvað hærri. Þó hafa svipuð laun verið greidd í innlendum fyrirtækjum, Áburðarverksmiðju og hjá Íslenska járnblendifétaginu, sem Ísland er meirihlutaeigandi að. En ég held að það sé ekki um aðra þætti, að við höfum fleytt þar einhvern þykkan rjóma. Svo kom hv. þm., og fékk náttúrlega dyggan stuðning samninganefndarmannsins hv. þm. Gunnars G. Schram í sambandi við raforkuverðið. Hvað væri nú verið að tala hér um svona háar tölur í raforkuverði? Þetta væri bara bærilegur samningur sem búið væri að ná og menn ættu að vera ánægðir. 54% þrástagast þeir á. Hvað veldur því, hv. þm., að þið eruð að fara hér með rangar tölur, einnig um þetta atriði? Hvar er þessi 54% hækkun? Fá menn greitt 10 mill fyrir orkuna núna í Straumsvík. Fá menn 10 mill fyrir orkuna núna í Straumsvík. Fá menn 10 mill? Hefur álverið farið upp í 78 cent fyrir pundið? Mér er ekki kunnugt um það. Ég veit ekki betur en það liggi rétt undir 70 centum, hafi heldur lækkað síðan hið ótrúlega afrek var unnið hér í septembermánuði af hæstv. iðnrh., og hækkunin frá 6.475 millum sé ekki nema 46,7% eða þar um bil. Hækkunin nemur ekki 54%.

Hvers vegna eru menn alltaf að koma hér með rangar tölur? Er þetta ekki nógu góður samningur? Þarf að vera að smyrja svona falsrökum ofan á? Það getur komið að því að þessi hækkun náist á tímabilinu. Ég vil ekki fortaka það. Auðvitað hljótum við að vona það, ekki veitir af að eitthvað rakni úr. En það er ekki komið og á meðan eiga menn ekki að vera að tala um slíkt. Og svo leita þeir hv. þm. Birgir Ísl. og hv. þm. Gunnar G. Schram með logandi ljósi að dæmum um raforkusamninga sem séu jafnvel ennþá lægri en sá sem við búum við og jafnvel enn þá lægri en sá sem við bjuggum við í Straumsvík, til þess að réttlæta þennan bráðabirgðasamning. Þeim hlýtur að hlýna um hjartaræturnar, forstjórunum hjá Alusuisse, þegar þeir fara yfir þingræðurnar þeirra því að þær eru áreiðanlega trúverðuglega þýddar mjög fljótlega, og sjá hversu vel hefur tekist að koma þessum tölum inn í höfuðið á þeim svo að þeir fara með það sem sín rök hér á Alþingi Íslendinga fyrir því að þetta sé harla gott sem búið sé að semja þarna um þó að þeir viti að meðalverð til áliðnaðar í heiminum liggur nú um eða yfir 20 mill.

Það er farið að leita að dæmi vestur í Kanada, í Quebec hjá Hydro-Quebec í Pechiney, frönsku ríkisfyrirtæki og vitnað til samnings sem er af alveg sérstakri tegund sem ég gæti haft um allmörg orð, en skal ekki gera að sinni, þar sem greidd eru í fyrstu eitthvað 6–7 mills, en hækkun tryggð á nokkurra ára bili upp í 15 eða svo og ýmis skilyrði önnur sett, en kannske er ekki síst um að ræða þjóðernislegar ástæður Quebec-fylkis að binda trúss sitt við þetta franska ríkisfyrirtæki og selja núna umframorku sem raforkuframleiðandinn Hydro-Quebec hefur ekki losnað við en gerði ráð fyrir að geta selt til Bandaríkjanna á þessu ári og undanförnum árum. Og svo er farið að leita í Mið-Austurlöndum og farið suður í Afríku og þar eru fundin dæmi um samninga, sem eru undir 10 mills til þess að réttlæta þessa gjörð hér. Þetta er málflutningur í lagi sem hér er frammi hafður. Og hv. þm. Gunnar G. Schram sem er vel kunnur á alþjóðlegum vettvangi tekur Ghana þarna með sem lenti í sömu snörunni, lenti í sömu gildrunni og Íslendingar á sama áratugnum og álsamningurinn var gerður og eru kannske í enn þá alvarlegra kverkataki Kaiser-auðhringsins og Reynolds, sem náði þar álíka hörmulegum raforkusamningi, og hér var gerður. Ghanabúar hafa staðið í hörkudeilum við þetta fyrirtæki og leitað m.a. upplýsinga hér hjá okkur vegna þess að þeir vita að við erum að berjast við hliðstæðar aðstæður. En við höfum kannske að sumu leyti betri aðstæður heldur en þeir, því miður. (Iðnrh.: Því miður?) Já, því miður segi ég því að ég vildi svo sannarlega að Ghana hefði ekki lakari samningsstöðu en við.

En þegar auðhringurinn, Kaiser í þessu tilviki og Reynolds, neitar að verða við lágmarkskröfum Ghanabúa þá gripu þeir til þess á síðasta sumri að loka fyrir. Þeir stöðvuðu orkuafhendingu til fyrirtækisins á 6 mill eða þar um bil. Formlega hét það að um væri að ræða vatnsskort eins og hv. þm. Gunnar G. Schram nefndi hér, en gleymdi að geta um baksöguna. Ég ráðlegg honum að fara yfir frásögn Metal Bulletin í sumar um þessa deilu og um vatnsskortinn í Ghana. Ég held að við ættum að rétta þeim hjálparhönd í slíkum deilum, sem eru í svipaðri úlfakreppu og við hér gagnvart Alusuisse, en ekki að vera að gleðja dr. Müller og dr. Ernst með því að þylja hér yfir lexíur um útflutningsálverin upp úr skýrslum sem þeir létu taka saman og varð uppistaðan í málflutningi þriðjungs af samninganefnd hæstv. iðnrh., sem talaði hér í ræðustólnum um daginn. En hann sá svo margar bjartar hliðar hér á þessum samningi og þessu bráðabirgðasamkomulagi að ég veit ekki hvort þarf að gera nokkuð betur heldur en þegar er orðið. Svo bjart var þar yfir öllu. Fullverðtryggð raforka, nýtt orkuverð fullverðtryggt í 15 ár. Ég hefði nú viljað gera aths. við 15 ára samningstíma, bundið raforkuverð í 15 ár þótt fullverðtryggt verði, og hv. þm. ætti að upplýsa okkur hér um hver hún er, þessi verðtryggingarformúla sem um hefur verið samið. Það er hægt að verðtryggja með ýmsum hætti. Hver er hún? Er búið að ganga frá henni? Er hann á heldum ís í því efni og finnst honum skynsamlegt að binda orkuverðssamning í 15 ár þótt fullverðtryggður sé? Svo kemur hann hér og segir: Ja, við erum í sambandi við skattamál ekkert að gera annað heldur en fyrrv. iðnrh. gerði í des. 1982. Hann lagði þar til dómnefndir alveg á sama hátt og við. Nú á hann bara að vera kátur og allir eiga að vera glaðir því það hefur verið gert nákvæmlega það sama og hann lagði til.

Hann er hérna, þessi samkomulagsgrundvöllur sem Alusuisse var boðið upp á nálægt 20. des. 1982, um lausn deilumála, um áfangahækkun raforkuverðs, um tafarlausa byrjun á viðræðum, um samskipti aðila og um samningslok fyrir 31. mars 1983. Þar er boðið upp á dómnefndir, íslenskar dómnefndir um ágreiningsefni í skattamálum. En síðan þetta tilboð var lagt fram, hv. þm., er bráðum liðið ár og það hefur ýmislegt gerst á því ári. Mér þykir það nú ekki vænleg sigling hjá samninganefnd um stóriðju með hv. þm. Gunnar G. Schram innanborðs ef hann ætlar að nota sömu siglingaljósin frá ári til árs óháð því hvað gerist á tímanum á milli, hvernig veðurútlitið er og hvernig aðstæður eru. Þetta er nú ekki boðlegt að mínu mati. Veit ekki hv. þm. það, að síðan þetta var hafa íslensk yfirvöld fellt sinn úrskurð í skattamálum, gert sínar skattkröfur að viðlagðri aðför og málið farið í gerð samkv. samningi, sem hæstv. iðnrh. upplýsti hér í máli sínu um daginn að hefði verið honum sérstakt kappsmál að rífa þetta út úr gerðardómnum sem málið var komið í og sem klukkan var að falla á á miðnætti 13. sept. s.l., daginn sem íslenska ríkisstj. skrifaði undir þennan bráðabirgðasamning. Það getur verið að hæstv. iðnrh. hafi verið svo glámskyggn að gera það að sinni kröfu. Ég á nú satt að segja bágt með að trúa því, en hv. þm. Gunnar G. Schram er eflaust til vitnis um það. Var það krafa hæstv. iðnrh. og frumkvæði, hv. þm. Gunnar G. Schram? Var það hans frumkvæði að óska eftir því að rífa skattadeiluna út úr ICSID-gerðardómnum, Alþjóðastofnuninni um lausn fjárfestingardeilna? Var það frumkvæði íslenskra stjórnvalda, hæstv, iðnrh. að gera það? Það væri nú gott að vitni yrðu leidd um það. Það fór ýmsum sögum af þessu á liðnu sumri í tengslum við fundina sem þá voru haldnir þrír talsins áður en gengið var að þessu bráðabirgðasamkomulagi. (lðnrh.: Hvaða sögum?) ýmsum sögum í blöðum, hæstv. iðnrh., þar á meðal þeim sögum að það hafi verið skilyrði af hálfu Alusuisse að færa þetta mál út úr gerð og koma því í dómnefndir, ja, dómnefndir eins og þýtt er í íslenskum texta, í panela eins og það er kallað í hinum undirritaða samningi á enskunni, og ég ætla sannarlega að vona að þeir panelar, þær nefndir, sem nú eru að verða til um þetta efni og hæstv. ráðh. upplýsti að meginnefndin væri fullskipuð, að það verði góðir aðilar og traustir sem þar fara með mál fyrir Íslands hönd. En ég tel ekki að það hafi verið skynsamlega að verki staðið að fallast á að taka þetta mál út úr Alþjóðastofnuninni um lausn fjárfestingardeilna, ICSID-gerðardómnum. Ég tel að þar hefði málið átt að fá sína meðferð, fá sinn úrskurð í þeim dómi sem er samningsbundinn. Það mátti ekki einu sinni reyna á þetta atriði sem var lofað og prísað hér á síðasta áratugnum af þeim sem mæltu með samþykkt álsamningsins á því tímabili. Nei, það varð að hanna alveg sérstakt nefndakerfi til þess að fá lausn á þessu máli og úrskurð um þetta mál.

Hv. þm. Gunnar G. Schram vék hér að ýmsum atriðum, þessum glæsilegu atriðum sem hann sér í þessu bráðabirgðasamkomulagi. En hann upplýsti okkur ekki um það atriði hvort þarna væri knúið á um að breyta fleiri atriðum í samningnum. Ég vil minna hann á það. Ég vona að hann hafi það bak við eyrað í meðferð mála að Alusuisse fær nú 3.7% af allri sölu álversins í þóknun fyrir tækni- og söluaðstoð og greiðir enga skatta af þessum tekjum hér, 3.7% bara tekin undan strax fyrir svokallaða söluþóknun. Hver annast söluna? Eigandinn, hann fær þóknun með þessum hætti, tækniþjónusta 3.7%. Og skattarnir, sem Íslendingar áttu að fá á þessu tímabili fyrir að veita aðgang að orkulindum landsins á undirverði nema á þessu tímabili 0.5—1.5% af sölu ÍSAL á þessu tímabili.

Herra forseti. Hér þyrfti að segja miklu meira um þetta stóra mál. En ég ætla að fara að stytta mál mitt svo að hér komist fleiri að í dag í þessari umr. svo sem vert er. Við stöndum hér frammi fyrir einhverju allra stærsta, ef ekki stærsta máli þessa áratugar fyrir Íslendinga, bæði hvað snertir núverandi ástand og þá framtíðardrauma sem dregnir hafa verið upp af þeim sem standa að þessum samningi í verðandi tvöföldun á álverinu í Straumsvík. Við erum hér með innlendar veitur sem greiða samkvæmt samningi 540% meira en álverið greiðir fyrir sömu orkueiningu og þrátt fyrir viðbótarálagið greiða innlendu veiturnar eftir sem áður 340% hærra sem er líklega heimsmet þrátt fyrir hið ótrúlega afrek hæstv. iðnrh. í þessu bráðabirgðasamkomulagi. 9.5 mill viðbótarálag í eitt ár, sem þýðir 0.1 mill að jafnaði yfir það sem eftir er af samningstímabilinu. Hvað greiða íslenskir notendur? Hvað greiðum við fyrir orkuna sem erum búsett á Austurlandi? Veit hæstv. iðnrh. það? Við greiðum 156 mill fyrir orkuna til ljósa og hita, 156 mill. Hvað skyldi vera greitt hér í Reykjavík fyrir þessi ljós og rafmagnið niðri í eldhúsi? 124 mill rösk. Hvað skyldu fiskimjölsverksmiðjurnar borga að meðaltali fyrir raforkuna? 138 mill. Hvað skyldu skipasmíðastöðvarnar í landinu borga þrátt fyrir hið ótrúlega afrek hæstv. iðnrh. í sept.? 124 mill eða svipað og reykvísk heimili. Hvað borga grasmjölsverksmiðjurnar? 117 mill. Gróðurhúsin? 106 mill. Mjólkurstöðvarnar? 110 mill. — Frystihúsin? 99 mill. Þetta eru dæmi sem hv. alþm. ættu að hafa á bak við eyrað þegar verið er að fjalla um þessi stóru mál hér á Alþingi. Og þeir ættu líka að festa sér í minni að sú fjárfesting sem hæstv. iðnrh. er að gefa undir fótinn með fyrir Alusuisse í orkuverum og umsvifum sem fylgja í stækkun álbræðslunnar í Straumsvík, svarar til 55 millj. dala á ári fram á árið 1988. Það er stærri upphæð en fór í allar orku- og iðjuframkvæmdir á Íslandi í fyrra og þetta á að gerast á hverju ári til 1988 ef þessi áform eiga að ganga upp. Hvar er svigrúmið fyrir innlendan iðnað? Hvar er svigrúmið fyrir innlenda orkunýtingu? Hvar er svigrúmið t.d. fyrir kísilmálmverksmiðju svo að dæmi sé tekið? Hvaða aðstæður eru gefnar í íslenskum þjóðarbúskap ef þessi áform eiga að ganga upp? Ef menn ætla að vinna hér enn þá ótrúlegri afrek en þegar er orðið?

Nei, það þarf vissulega að leita nokkuð djúpt í huga sér til að finna skýringar á framgöngu af því tagi sem hér er um að ræða, finna skýringar á áformum af þessu tagi. Ég hef velt þessu fyrir mér eins og aðrir. Mér finnst að meginskýringuna sé helst að finna í því viðhorfi sem gróf hér um sig í Sjálfstfl. og raunar í Alþfl. líka á viðreisnarárunum og leiddi þá til fyrstu samninganna um álverið. Þá tóku valdamiklir áhrifamenn á Íslandi þá trú að Íslendingar gætu ekki séð sér farborða án þess að leita samstarfs við stærri heildir, viðskiptabandalög og fjölþjóðahringa. Nauðungarsamningurinn við Breta og Þjóðverja um landhelgismálið var gerður 1961 með þessu sérkennilega hugarfari. Áþreifingarnar við Alusuisse hófust um svipað leyti og áttu aðeins að vera upphafið að öðru meira. Enn er forysta Sjálfstfl., lærisveinar mannanna, sem fóru með völdin á viðreisnarárunum, við sama heygarðshornið og atveg ótrúlega viðkvæm gagnvart öllu sem leiðir hið rétta í ljós um svikamyllu Alusuisse og haldleysi álsamningsins. Þau öfl, sem mæla með erlendri stóriðju sem vaxtarbroddi í atvinnulífið hérlendis, hafa sótt í sig veðrið og núv. hæstv. iðnrh. hefur gerst þar hávær og einn mikilvirkasti trúboðinn í þessum efnum. Það, sem skiptir hins vegar sköpum og mestri breytingu veldur frá fyrri tíð til hins verra, er sú kúvending og ístöðuleysi forystu Framsfl. sem kastað hefur sér í fang íhaldsins í núv. ríkisstj.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.