24.11.1983
Sameinað þing: 25. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1145 í B-deild Alþingistíðinda. (992)

103. mál, lagahreinsun og samræming gildandi laga

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Örfá orð hér inn í þessa ágætu umr. Það hefur farið eitthvað fyrir brjóstið á flm. að við í Alþb. skulum ekki standa að því að flytja þetta með honum. Ég held að það sé óþarfi og sú staðreynd segir út af fyrir sig ekkert um afstöðu okkar til málsins. Það var einfaldlega mjög lítill tími til að skoða hvað í því fælist og þeir sem höfðu sérstaklega fengið það úr höndum flm. treystu sér ekki eða vildu ekki standa að flutningi og aðrir voru svo sem ekkert að bjóða sig fram. En þetta mál mun hafa borið á góma í þingflokknum og menn vissu af því að það var þarna á ferðinni, svo að það liggi nú ljóst fyrir.

Það er sjálfsagt rétt hjá þeim lögfróðu mönnum sem hér hafa um fjallað að það sé nauðsynlegt að fara yfir lagasafnið í þessum tilgangi. En ég vil segja fyrir mitt leyti að mér finnst það skipta miklu máli hvernig staðið er að þeirri yfirferð og undir hvaða merkjum hún er framkvæmd. Mér þykir vænt um margar gamlar lagagreinar, sem ég held að geri engum neitt mein þó þær standi þarna inni í, þannig að ég mundi biðja fyrir það, a.m.k. ef ég ætlaði að styðja þetta, sem ég út af fyrir sig get mjög líklega gert, að það yrði þá farið svona heldur mildum höndum um þetta í endurskoðuninni og hreinsunin færi ekki þannig fram að það væru gefnir allt of hroðalegir skammtar af hreinsunarlyfinu. Mér finnst hitt alvarlegra í sjálfu sér, ef mikið er um lagagreinar í nýlegum lögum sem eru beinlínis óvirkar eða jafnvel er gengið gegn og eru ekki í samræmi við lífsmáta og venjur í þjóðfélaginu. Það væri ekki síður ástæða til að athuga og hreinsa út á þeim vettvangi. Það er ákaflega óeðlilegt og óæskilegt að mikið sé um það í lögum, jafnvel nýlegum lögum að það stangist á, reki sig þar eitt á annars horn, almennar venjur í okkar þjóðfélagi og hitt sem stendur í lögum. Ég vildi gjarnan fá það upplýst af hálfu flm. hvaða viðhorf eru uppi af hans hálfu í þessum efnum.

Ég vil taka undir orð sem hér komu fram hjá einhverjum ræðumanni um nauðsyn á nýju lagasafni í aðgengilegu formi. Það er líka býsna stórt mál, bæði fyrir þingið og fyrir þjóðina. Það er auðvitað alveg óviðunandi að þurfa að eyða fleiri klukkustundum kannske í það að leita uppi sáraeinföld atriði sem ætti að vera hægt að slá upp í lagasafni á fimm mínútum ef vel væri. En þetta stendur vonandi allt til bóta. Ég er ekki viss um að það séu gömlu lagagreinarnar sem hái mönnum svo mjög í þessum efnum, þó þær séu úr sér gengnar og sumar óþarfar, jafnvel einhverjar særandi og skaðlegar, eins og þær sem vitnað er í í grg. með þessu frv. Ég held að það sé meira um það að nýsett lög tefji þar fyrir mönnum. Gömlu greinarnar er hægt að prenta upp aftur og aftur. Þetta er hliðstætt í mörgum lögreglusamþykktum. Þar eru margar ágætisgreinar sem ekki eru beint þarfar kannske nú til dags. Það er lítið um það að menn ríði eftir Austurstræti í dag og óþarfi að setja hraðatakmarkanir á hestaumferð. Sömuleiðis leiða menn lítið af tveggja ára nautum í gegnum aðalgötu Siglufjarðarkaupstaðar. En þetta gerir svo sem engum neitt mein þó það standi þarna og það má líta á þetta að nokkru leyti sem hluta af menningu.

Ég ætla ekki að hafa öllu fleiri orð um þetta. Ég harma það að flm. skuli slá því svona upp að við þm. Alþb. stöndum ekki að þessum flutningi. Og ég tek eftir því að málgagn þm., sem mun vera Alþýðublaðið, það hefur gert þetta einnig. Ég held að þetta séu ekki alveg rétt vinnubrögð hjá blaðinu og hv. þm. Ef hann vildi tryggja sér stuðning okkar Alþb.-manna átti hann auðvitað að líta þetta öðrum augum, ekki gera það hér að miklu máli að hann skyldi ekki hafa fengið nafn einhvers okkar á þetta blað sitt. (Gripið fram í: Það er eðlilegt að hann sækist eftir því.) Það er greinilegt.