04.12.1984
Sameinað þing: 28. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1559 í B-deild Alþingistíðinda. (1036)

115. mál, leiðsögukennarar

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Mikið hefur verið fjallað um kjör og störf kennara á s.l. vikum og er það vel. Í lögum um Kennaraháskóla Íslands, sem samþykkt voru á Alþingi árið 1971, er fjallað m.a. um þjálfun í starfi. Þar stendur í 10. gr., með leyfi forseta:

„Að afloknu samfelldu námi og prófum í Kennaraháskóla Íslands skulu kennarar njóta eins árs leiðsagnar og þjálfunar í starfi. Fræðsluskrifstofur skulu hver í sínu umdæmi skipuleggja viðræðufundi fyrir nýja kennara í samráði við Kennaraháskóla Íslands, hafa umsjón með hinum nýju kennurum og setja þeim leiðsagnarkennara að fengnum tillögum hlutaðeigandi skólastjóra.“

Í lögum um grunnskóla frá 1974 eru talin upp verkefni fræðsluráðs. Þar segir m.a. í 12. gr., 5. tl., með leyfi forseta:

„Það (fræðsluráð) skal skipuleggja viðræðufundi fyrir nýja kennara í samráði við Kennaraháskóla Íslands, hafa umsjón með þeim og setja þeim leiðsögukennara að fengnum tillögum hlutaðeigandi skólastjóra. Ráðuneytið setur leiðsögukennurum erindisbréf að höfðu samráði við Kennaraháskóla Íslands.“

Árið 1977 gaf menntmrn. út erindisbréf fyrir leiðsögukennara. Þar stendur m.a., með leyfi forseta: „Í 1. gr. Sérhver kennari á grunnskólastigi, settur eða stundakennari í a.m.k. 2/3 hluta starfs, skal fyrsta kennsluár sitt eiga völ á leiðsögu sér reyndari kennara, leiðsögukennara sem hefur full kennararéttindi.

Í 2. gr. Við val leiðsögukennara skal jafnan höfð hliðsjón af menntun hans, reynslu og hæfni í kennslustarfi.

Í 3. gr. Leiðsögukennari er ráðgjafi hins nýja kennara um það er snertir skólastarfið í framkvæmd. Hann skal m.a. kynna honum kennsluhætti í skólanum, kennsluaðstöðu í skólahúsinu, svo og þau tæki er kennarar skólans hafa aðgang að í starfi sínu.“

Síðar í sömu gr. segir:

„Leiðsögukennari skal haga svo leiðsögn sinni að hinum nýja kennara vaxi eðlilegt sjálfstraust samfara þjálfun í starfi.“

Í dag blasir sú staðreynd við að svonefnd æfingakennsla, en þar er átt við annars vegar að taka kennaranema og eftirláta þeim bekkinn ásamt því að leiðbeina þeim eða hins vegar að taka kennaranema í það sem kallast áheyrn, þeir fylgjast þá með kennslu viðkomandi kennara, svonefnd æfingakennsla er ekki eftirsótt meðal kennara og má raunar segja að nú þegar sé erfitt að fá kennara úti í hinum almenna skóla til að taka að sér kennaranema. Ekki er gert ráð fyrir námskeiðum eða leiðsögn fyrir þá kennara sem fallast á að annast þennan þátt í námi kennaranema.

Kennurum, sem taka að sér kennaranema, er ekki ætlaður tími til leiðsagnar og undirbúnings með nemum og hvað launagreiðslur varðar þá eru þær vart teljandi. Ónefnd er þó sú röskun sem æfingakennslu fylgir óhjákvæmilega, bæði meðal nemenda og svo í allri starfsáætlun viðkomandi kennara og nemendahóps. Það er augljóst að slík inngrip eins eða fleiri einstaklinga í fyrir fram áætluð störf bekkjarins valda truflun. Kennarar, sem eru að hefja störf eftir að hafa stundað nám við Kennaraháskóla Íslands, hafa því miður fengið hverfandi litla æfingakennslu, m.a. vegna aðstöðuleysis. Vert er að hafa í huga að það er hverjum nýliða á vinnustað nauðsyn að fá aðstoð og njóta leiðsagnar þeirra sem þar eru kunnugir, nýliðum í kennslu ekki síður en nýliðum í öðrum störfum í þjóðfélaginu. Þeim mun nauðsynlegra er að vel takist til þar sem kennari er að taka við ábyrgðarmiklu og krefjandi starfi, því að hafa umsjón með stórum hópi barna og unglinga og auk þess að annast fræðslu þeirra. Nýliðanum er því mikill og augljós vandi á höndum. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. menntmrh.: Hve margir leiðsögukennarar eru starfandi í grunnskólum landsins, sbr. 10. gr. laga um Kennaraháskóla Íslands og 5. tölul. 12. gr. laga um grunnskóla.