04.12.1984
Sameinað þing: 29. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1594 í B-deild Alþingistíðinda. (1076)

21. mál, Ríkismat sjávarafurða

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Ætli flm., hv. þm. Stefán Benediktsson, sé ekki sá eini sem treystir sér nú til að afgreiða þetta mál svona fríhendis, bæði með tillögu sem er upp á tvær linur og grg. sem er upp á röskar tvær línur. Ég verð að lýsa nokkurri undrun á að svona efnismikil till. skuli vera sett fram á þennan hátt. Það hafa fjölmargir hv. þdm. sagt að málið sé flókið, það sé vandasamt og það séu margar hliðar á því. En það vefst ekki fyrir hv. þm. Stefáni Benediktssyni. Maður verður satt að segja dálítið undrandi á hvað flm. er djarfur, mér liggur við að segja kærulaus, þegar fjallað er um jafnstórt mál, jafnvandasamt mál.

Ekki ætlaði ég að fara að rekja sögu Fiskmatsins. Það var að mig minnir stofnað 1904 og þótti ærin ástæða til og þótti strax gefa mjög góða raun. Ég held að það hafi ekkert farið á milli mála að saltfiskframleiðsla Íslendinga breyttist að gæðum til mjög verulega. Hins vegar hefur vitanlega orðið þróun á mörkuðum og verkunaraðferðum.

Það er best að segja eitt strax afdráttarlaust. Bara orðið mat, að meta, verður alltaf deiluefni. Það er ekkert til sem er hinn afgerandi stóri sannleikur og þá má metast um hvað sé rétt mat í hverju tilfelli. En ég held að það fari ekkert milli mála að ríkismatið, hverju nafni sem það nefnist, hefur gegnt gífurlega miklu hlutverki, hefur vegið ótrúlega drjúgt í því að halda uppi gæðum íslensks sjávarútvegs, og þó að við séum á mörgum sviðum kannske óánægðir með eitt og annað þar erum við þó yfirleitt með afurðir okkar í hæsta verðflokki og það orð sem fer af íslenskum sjávarafurðum það gott, þó bæta skuli, að ekki sé hægt að afgreiða þessi mál svona.

Það hefur áður verið á það minnst að ríki Austur-Evrópu krefjist ríkismats og þarf ég ekki að fara að endurtaka það hér. Einn þm. kallar þetta ríkisstimplagleði. Við erum háðir okkar viðskiptavinum og verðum að haga okkur í samræmi við þann sem vöruna ætlar að kaupa, hverjar svo sem skoðanir okkar eru á öðru.

Eins og ég segi má deila mjög um hvernig eigi að reka mat, hve stóran þátt framleiðendur eigi að eiga og hve stóran þátt óháð ríkismat. Ég held að óháð ríkismat sé gífurlegt öryggisatriði. Hins vegar felst ekki í þeirri fullyrðingu minni að ekki getið einhverjir fleiri þættir verið í höndum framleiðenda. Það vitlausasta af öllu vitlausu kom fram hjá 5. þm. Norðurl. e. á s.l. vetri, að óháð ríkismat skyldi vera undir stjórn framleiðenda. Þá hættir það að vera óháð og þá má kannske segja að hægt sé að leggja það niður. Óháð ríkismat held ég að sé skilyrði fyrir því að eitthvert ákveðið afl í landinu geti gripið inn í. Við skulum ekki slá því endanlega föstu að sölusamtökin geri ekki margt mjög gott, margt vel, en þau þurfa samt sitt aðhald.

Það er mjög gagnrýnt að þetta sé í höndum fárra. Ætli freðfiskútflutningur sé ekki yfir 90% í höndum tveggja aðila. Mér þykir ekki ólíklegt að hann fari í hendurnar á fleiri. Þarna er æskilegt að sé sem allra best samvinna milli ríkismatsins og sölusamtakanna. Þessir aðilar þurfa að starfa sem allra best saman. Hitt held ég að væri allt of mikið öryggisleysi gagnvart þeim milljónatugum og hundruðum milljóna sem þarna er um að tefla að matið væri eingöngu í höndunum á framleiðendum.

Ég skal taka eitt lítið dæmi, en það er hægt að taka mörg ljótari. Lagmeti var ekki í höndum ríkismatsins. Það er verið að tala hér um að menn hafi óttast að gefa þá vöru í söfnun til Póllands. Sannleikurinn er sá að um tíma var þetta stórháskaleg vara og stórskemmd og munaði nær engu, og ég veit ekki hvers konar lán var yfir okkur, að það lokuðust okkar helstu markaðir. Mér segja kunnugir menn að það hafi ekki síst verið síldarútvegsnefnd og fleiri hæfum mönnum að þakka að tókst að bjarga lagmetismörkuðunum í Austur-Evrópu. Þetta var stórkostlega háskalegt. Lagmetisiðnaðurinn var síðan settur undir ríkismatið og gæti hafa lagast verulega þó að ekki sé ástandið gott enn þá. Þetta er dæmi um hvað framleiðendur geta farið illa með markaði og hvernig þeir geta skaðað þjóðina í heild.

Ég skal draga saman mál mitt. Þetta er mikið mál og viðkvæmt og á því margir fletir. Ég vil aðeins segja að ég býst við að það geti verið nokkuð mismunandi og séu mismunandi skoðanir á hvað eftirlit framleiðenda á að vera mikið og eftirlit Ríkismatsins mikið. Ég veit ekki hvort nokkur löggilt skoðun er til á þessu, vegna þess hve framleiðendur eru misjafnir, eða hvað þeir leggja mikið kapp á gæðaeftirlitið. En það er til ómetanlegs öryggis að það sé óháð ríkismat sem grípur þarna inn í, vegur og metur og stöðvar ýmislegt sem getur lagt heilu framleiðslugreinar í sjávarútvegi í rúst eins og dæmið sem ég var að taka áðan.

Hv. 4. þm. Vesturl. og 5. þm. Norðurl. e. ræða um hvort sjómenn séu með eða móti ferskfiskmati. Ég er sannfærður um að sjómenn, svo ágætir sem þeir eru, eru yfirleitt á móti stífu mati. Þó bitnar slæmt mat oft á þeirra hlut. Togari er kannske úti í veiðiferð í 17 daga. Þeir geta engin áhrif haft á hvað togarar eru lengi í veiðiferð, en kannske er helmingur aflans verðfelldur og hlutur þeirra stórminnkar.

Þá er ferskfiskmat ákaflega mikið deiluefni alltaf og ætla ég ekki að fjölyrða um það. En ég vil aðeins benda á eitt atriði.

Þegar við vorum að ræða hér um að breyta lögunum í fyrra var bent á að í einu væri áfátt hjá Ríkismatinu. Ég held að það hafi verið réttmætt og tók undir það í mínum ummælum og umr. Það voru hráefnisgeymslur frystihúsa. Sagt var að þar lægi fiskur stundum og oft vikutíma, kannske yfir sumartímann, og ekki væri nægjanlegt eftirlit frá Ríkismatinu. Ég lagði áherslu á þetta og benti á að eins og lögin eru úr garði gerð þyrfti sennilega að fjölga starfsmönnum um a.m.k. 30–40, en taldi að þetta væri hægt að gera á heppilegri hátt. Lögin eru nú þannig úr garði gerð að ferskfiskmatið tekur þetta að sér, en hefur engan veginn annað því. Það hafa engar breytingar orðið þarna á. Það kemur upp úr kafinu að verkstjórarnir í frystihúsunum, svo góðir sem þeir eru margir hverjir, hafa ekki afl gagnvart frystihúseigandanum til að stöðva vinnslu. Sú gagnrýni, sem hér kom fram, að hefði ekki verið nægilegt eftirlit hjá Ríkismatinu, er í fullu gildi enn og aldrei meira gild. Reyndar var minnst hér á að hægt væri að færa til sveitarfélaga eftirlit með hollustu- og heilbrigðisháttum.

Í allri matvælaframleiðslu nú til dags skiptir hreinlæti höfuðmáli, hreinlæti í meðferð, hreinlæti í vinnslu, og ákveðin sérþekking. Þá þarf slík sérþekking að vera á þessari atvinnugrein. Framleiðslueftirlitið hafði í þessu sérhæfða eftirliti ungan mann sem var búinn að ná ákaflega góðum tökum á sínu starfi. Ég margbenti á það í mínum ræðum hversu mikið gildi það hafði að hafa líffræðing, sem væri verulega þjálfaður, í þessu starfi og hvaða úrslitum það réði í matvælaeftirliti að hafa þar slíkan mann. Svo einkennilega hefur nú brugðið við að við framkvæmd nýju laganna var þessi sérmenntaði maður með frábært starf að baki og góða reynslu, um 35 ára gamall, ekki endurráðinn. Það hefur enginn maður með slíka þekkingu verið ráðinn til þeirra starfa í hans stað. Þó áttu nýju lögin að bæta eftirlitið!

Ég held að ekki sé hægt að afgreiða þetta stóra og vandasama mál með tveggja lína tillögu og tveggja lína grg. Ég held að málið sé allt of stórt og allt of viðamikið til þess og það séu svo margar hliðar á því. Ég endurtek: ég legg áherslu á að framleiðendur, eftirlitsmenn framleiðenda og Ríkismatið vinni saman. Það er nokkuð athyglisvert að við Íslendingar erum ekki einir um ríkismat. Ríkismat er t.d. í Noregi, að vísu ekki á ferskfiskeftirliti, en afurðamati öllu. Í Danmörku er ríkismat. Kanada er að sækja sig á öllum sviðum sjávarútvegs, en fram til þessa hefur mest háð þeim að gæðaeftirlit þeirra hefur ekki verið í nógu góðu lagi. Þar er verið að efla ríkismat og þeir eru búnir að taka upp ríkismat á ferskfiski. Það er hins vegar greitt af fiskkaupendum. Tæplega 200 menn voru ráðnir á þessu og síðasta ári í slík störf. Það hefur verið farið ansi frjálslega með ýmislegt hér í þinginu þegar rætt hefur verið um Kanada. Vitnað hefur verið í skýrslur, sem ég skal ræða síðar þegar þetta verður á dagskrá, og hreinlega falsaðar tilvitnanir eins hv. þm. sem ég skal ekki ræða nú.

Ég vil benda á við getum deilt um hversu mikið ríkismatið á að vera, hversu stór þáttur framleiðenda eigi að vera, en undir öllum kringumstæðum verðum við að hafa óháð ríkismat. Við þurfum ekkert að óttast í þeim efnum því að þau lönd sem lengst hafa komist í þessu, þau lönd sem eru að sækja sig í þessum efnum, sækja sínar fyrirmyndir í íslensk lög og íslenskan praxís. Það segir ekki að við getum ekki bætt þessa hluti. Sannarlega getum við það.

Svona tillögur er hreint ábyrgðarleysi að leggja fram. Þetta verður að rökstyðja í það minnsta kosti með grg., en ekki henda bara fram 14 tillögum og búið.