05.12.1984
Efri deild: 23. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1606 í B-deild Alþingistíðinda. (1084)

133. mál, sala Landssmiðjunnar

Davíð Aðalsteinsson:

Virðulegi forseti. Ég skal játa að á tímabili var ég ekki alveg viss um hvernig hv. 4. þm. Vesturl. mundi bregðast við frv. sem hér er til umr. Ég hefði e.t.v. getað sparað mér að fara hingað í stólinn, en vegna þess að vikið var að stefnu ríkisstj. í sölumálum fyrirtækja komst ég ekki undan því að standa upp.

Nú vil ég ekki halda því fram að mismunandi viðhorf ríki meðal þeirra, sem standa að meirihlutaáliti um þetta frv., um sölu Landssmiðjunnar. Ég skal ekkert um það fullyrða. Ég hygg þó að svo sé ekki. Ég vil fyrir mitt leyti skoða hvert mál fyrir sig og ég hygg að sem betur fer sé þannig farið um fleiri.

Það kom fram á fundi í iðnn. að þeir aðilar, sem nú hafa tekið við rekstri, ætla, að því er mér sýnist, að ganga að verki skörulega, halda rekstri fyrirtækisins áfram og stefna að því að auka hann fremur en að draga úr honum. Landssmiðjan er af þeirri stærð að það er mjög auðvelt þess vegna fyrir einstaklinga eða samtök að hafa þann rekstur með höndum. Auðvitað geta menn haft mismunandi skoðanir á því hvort ríkið á að vasast meira og minna í atvinnurekstri. Ég hef þá skoðun að það eigi fremur að vera í undantekningartilvikum — í þeim tilvikum þegar það er ekki á færi einstaklinga af ýmsum ástæðum að hafa með höndum reksturinn, til að mynda af þeim ástæðum að hann sé svo fjármagnsfrekur í stofnsetningu að einstaklingar eða samtök í þrengri skilningi hafi ekki bolmagn til þess.

Það hefur verið að því vikið í umr. að fjarað hafi undan starfsemi Landssmiðjunnar og það er á vissan hátt rétt. Þegar starfsmenn fyrirtækisins voru flestir voru þeir um það bil 200. Starfssvið fyrirtækja breytist, þjóðfélagið breytist. Allt er breytingum undirorpið. En hitt er rétt að fyrirtækið hefur ekki lagað sig að nýjum og breyttum aðstæðum. Ég held að beri að viðurkenna það og ætla ég út af fyrir sig ekki að fara að deila á einn eða neinn í því efni. En ég hygg að meginástæðan fyrir þeim samdrætti sé einmitt að öll stjórnun þegar opinberir aðilar eiga í hlut, og ég tala nú ekki um ríkið, er fremur stirð í vöfum. Öll ákvarðanataka er fremur hæg, gengur seint fyrir sig. Af þeim sökum missa menn beinlínis af góðum tækifærum.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta frv. Ég legg áherslu á að fyrir mér er það ekki sáluhjálparatriði né heldur náttúrulögmál að ríkisfyrirtæki skuli seld. Ég mun leitast við að skoða hvert tilvik fyrir sig.