16.10.1984
Sameinað þing: 6. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í B-deild Alþingistíðinda. (129)

13. mál, athvarf fyrir unga fíkniefnaneytendur

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég er ekki með skýrslu þá sem hv. 2. landsk. þm. vitnaði í, þannig að ég get ekki farið yfir hana lið fyrir lið hér.

Vegna spurninga sem til mín var beint er þess að geta að ég greindi frá tveimur atriðum sem þegar hafa verið framkvæmd af því sem beinast lá við í sambandi við niðurstöðurnar. Skipulagsbreytingar eru yfirgripsmeira mál. Það kom m.a. fram í því bréfi sem hv. 2. landsk. þm. vitnaði til að mér hefði borist að það eru nokkuð skiptar skoðanir hjá þeim sem að þessum málum vinna á hvern hátt hagkvæmast er að haga þeim málum og þá hvaða breytingar ber að gera. Þess vegna hef ég ákveðið að taka þessi mál til rækilegri athugunar og gera betri úttekt á skipulaginu og fá þá tillögur sem byggjast á mjög nákvæmri athugun á þessum málum.

Vænti ég þess að slík athugun geti hafist áður en mjög langt um líður. En hvenær ég fæ þær niðurstöður þori ég ekki um að segja.

Við minnumst þess að fyrir tveimur árum var flutt hér á Alþingi frv. til l. um breytingar á skipulagi lögreglumála í nágrenni Reykjavíkur sem talið var að væru til bóta. Frv. náði ekki fram að ganga hér á Alþingi þar sem þá kom fram andstaða við slíka skipulagsbreytingu. Því held ég að ekki þýði að leggja fram frv. um þessi skipulagsmál nema að undangenginni nokkuð rækilegri athugun, þannig að þær tillögur sem þar koma fram séu mjög vel rökstuddar. Þess vegna hef ég ákveðið að fara þá leið. En á meðan að því er unnið verður vitanlega gert allt sem mönnum sýnist að jákvætt sé að breyta og rúmast innan þeirra laga sem við búum við í dag.