12.12.1984
Neðri deild: 24. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1883 í B-deild Alþingistíðinda. (1376)

192. mál, málefni aldraðra

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Í des. á s.l. ári voru gerðar breytingar á lögum um málefni aldraðra þess efnis að heimilað var að nýta markaðan tekjustofn Framkvæmdasjóðs aldraðra til að styrkja hjúkrunarrými fyrir aldraða á vegum sveitarfélaga með jafnháu framlagi og sjóðurinn fékk á fjárlögum sem beint framlag ríkissjóðs. Við það tækifæri gaf ég þá yfirlýsingu að ég mundi beita mér fyrir endurskoðun á þeim ákvæðum laga um málefni aldraðra sem snerta Framkvæmdasjóð aldraðra. Endurskoðunin var falin aðilum úr heilbrmrn. og fulltrúum stjórnarflokkanna. Jafnframt hefur verið haft samráð við samstarfsnefnd um málefni aldraðra. Niðurstöður þessarar endurskoðunarvinnu liggja nú fyrir í því frv. sem hér er lagt fram.

Markmið þessa frv. er tvíþætt. Í fyrsta lagi skal koma festu á starfsemi Framkvæmdasjóðs aldraðra, þannig að þeir sem þangað hyggjast sækja fjármuni geti vitað hvers þeir megi vænta. Í því sambandi er gert ráð fyrir að Framkvæmdasjóðurinn hafi eingöngu til ráðstöfunar markaðan tekjustofn sinn, þ.e. tekjur af nefskattinum. Jafnframt er gert ráð fyrir því að fjármögnun hjúkrunarrýmis á vegum sveitarfélaga færist að nýju til fjvn. Í öðru lagi skal tryggja fjárveitingavaldinu áhrif á úthlutun fjár úr Framkvæmdasjóði aldraðra með því að fulltrúi tilnefndur af fjvn. Alþingis taki sæti í samstarfsnefnd um málefni aldraðra þegar hún fjallar um málefni sjóðsins.

Rök fyrir þessum breytingum eru þau helst að samkvæmt núverandi fyrirkomulagi hefur öll langtímaáætlunargerð fyrir sjóðinn verið óframkvæmanleg sökum sífelldra breytinga á hlutverki sjóðsins hvað varðar hjúkrunarrými sveitarfélaga. Jafnframt hefur það verið gagnrýnt að fjvn. Alþingis hafi getað haft lítil áhrif á til hvaða hjúkrunarrýmisverkefna á vegum sveitarfélaga framlög hafa verið veitt, þó svo að um sé að ræða verkefni sem ríkinu ber skv. lögum um heilbrigðisþjónustu að standa að allt að 85%.

Frv. felur í sér eftirtaldar breytingar frá núgildandi ákvæðum um Framkvæmdasjóð aldraðra:

1. Einu tekjur Framkvæmdasjóðs aldraðra verði hinn markaði tekjustofn sjóðsins, þ.e. nefskatturinn, og er gert ráð fyrir að hann nemi 580 kr. á árinu 1985 og er það hækkun milli ára í samræmi við skattvísitöluna.

2. Fjármögnun hjúkrunarrýmis á vegum sveitarfélaga færist að nýju til fjvn. Þó verði Framkvæmdasjóði aldraðra heimilt að verja allt að 30% tekna sinna til styrktar hjúkrunarrýma af þessu tagi, en að sá styrkur komi báðum aðilum, þ.e. ríki og sveitarfélagi, til góða hlutfallslega.

3. Fulltrúi tilnefndur af fjvn. taki sæti í samstarfsnefnd um málefni aldraðra er hún fjallar um málefni Framkvæmdasjóðs aldraðra.

Ef athugað er hvaða breytingar þetta hefur í för með sér á næsta ári mun Framkvæmdasjóður aldraðra hafa til ráðstöfunar u.þ.b. 58 millj. miðað við liðlega 100 þús. gjaldendur nefskattsins. Af þeirri fjárhæð hefði sjóðurinn heimild til að verja 30% eða 17.4 millj. kr. til hjúkrunarrýmis á vegum sveitarfélaga. Afganginum, u.þ.b. 40 millj., yrði varið til íbúða fyrir aldraða, dvalarheimila aldraðra og hjúkrunarrýmis fyrir aldraða á vegum einkaaðila.

Til samanburðar má geta þess að á þessu ári hafði sjóðurinn 46 millj. í tekjur af nefskattinum. Af þeirri fjárhæð var 15 millj. kr. varið til hjúkrunarrýmis á vegum sveitarfélaga, auk þess sem beina framlagið úr ríkissjóði, 15 millj. kr., rann einnig beint til þeirra verkefna. Afganginum, 31 millj. kr., var varið til annarra verkefna, auk þess sem sjóðstjórn tók þá ákvörðun að nota hluta hans til að standa við eldri skuldbindingar sem ekki hafði verið hægt að standa skil á. Var þar um tæplega 5 millj. kr. að ræða.

Að öðru leyti vísa ég til þeirra ítarlegu fskj. sem fylgja þessu frv. Þar koma fram ýmsar tölulegar upplýsingar um fjölda aldraðra, vistrými fyrir þá, auk yfirlits um úthlutun úr Framkvæmdasjóði aldraðra frá stofnun sjóðsins.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði þessu frv. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.