13.12.1984
Sameinað þing: 33. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1907 í B-deild Alþingistíðinda. (1397)

1. mál, fjárlög 1985

Frsm. minni hl. (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns færa meðnefndarmönnum mínum, starfsmanni fjvn., hagsýslustjóra og hans fólki þakkir fyrir gott samstarf og sérstaklega formanni n., hv. 1. þm. Norðurl. v. Pálma Jónssyni, fyrir mjög ánægjulegt samstarf. Það hefur farið að þessu sinni eins og oft áður að tími n. til að ljúka störfum fyrir 2. umr. hefur reynst æði knappur. Í raun og veru taka viðtöl og afgreiðsla einstakra erinda meiri tíma en svo að fjvn.menn fái það tóm sem þyrfti til að meta fjárlagafrv. sem heild og þá stefnu sem þar er mótuð í ríkisfjármálum sem eru einn veigamesti þáttur ríkisbúskaparins. Þegar það bætist síðan á ofan að einn aðalþáttur málsins, lánsfjáráætlun ríkisins, hefur ekki komið fyrir augu þm., a.m.k. ekki stjórnarandstöðuþingmanna, þá er í raun enginn grundvöllur til að fjalla um þessi mál sem skyldi. Fjölmörg veigamikil málefni eru enn óafgreidd hjá n. Má þar nefna tekjuhlið, vegamál og B-hluta stofnanir, þ.m.t. Lánasjóður íslenskra námsmanna, lánsfjáráætlun byggingarsjóðanna og framkvæmdir við ríkisspítala.

Á meðan ekki liggur fyrir hvaða afstöðu ríkisstjórnarflokkarnir taka til afgreiðslu þessara málaflokka tel ég ekki ástæðu eða efni til að ræða um þá. Þessi málefni koma til umr. innan fjvn. fyrir 3. umr.

Varðandi þær brtt. sem fjvn. flytur sameiginlega er rétt að taka fram að við sem skipum minni hl. n., fulltrúar Alþb., Alþfl., BJ og SK, höfum óbundnar hendur um afstöðu til einstakra till. og höfum áskilið okkur rétt til að flytja brtt. eða fylgja brtt. sem fram kunna að koma.

Í till. n. um framlög til verklegra framkvæmda felst verulegur niðurskurður að raungildi. Í því efni hefur meiri hl. n. ákvarðað till. um heildarupphæðir til hvers framkvæmdaþáttar, en minni hl. n. að venju tekið þátt í skiptingu þessa afmarkaða fjár. Um þessar till. gildir sami fyrirvari af hálfu minni hl. n. og ég nefndi áðan.

Ríkisstjórnarflokkarnir afgreiddu fyrstu fjárlög sín fyrir ári, og þeir sem að þeirri fjárlagagerð stóðu töldu sjálfum sér og a.m.k. Morgunblaðinu trú um að þar hefði verið unnið af fullkomnu raunsæi og áður óþekktri nákvæmni. Raunverulegur rekstrarkostnaður samkvæmt ríkisreikningi hefði verið lagður til grundvallar ákvörðun um einstaka útgjaldaliði og ekkert gæti því á vantað. Hæstv. fjmrh. taldi jafnvel að framvegis kæmi ekki til aukafjárveitinga. Þær heyrðu til liðinni tíð. Hann kærði sig ekki um að sitja við að semja ný fjárlög fyrir líðandi ár. Alþingi hefði lokið því að ákvarða endanlega alla útgjaldaliði ársins 1984 um jólaleytið í fyrra. Í Morgunblaðinu var skrifað um tímamót í fjárlagagerð, loks hefðu verið samþykkt fullkomlega raunhæf fjárlög.

Enda þótt stjórnarandstaðan hefði bent á það við afgreiðslu fjárlaga að ýmislegt væri vantalið þar af útgjaldaliðum kom það mörgum á óvart að ekki var liðið nema ríflega þinghléið eftir jólin þegar reynslan sjálf afhjúpaði sjálfsblekkingu stjórnarinnar við afgreiðslu núgildandi fjárlaga. Þá var leitt í ljós að rúmlega 2000 millj. kr. vantaði upp á að endar næðu saman. Og jafnvel Morgunblaðið spurði hvernig slíkt mætti gerast eftir að sérstakri nákvæmni og einstöku raunsæi við gerð fjárlaganna hefði verið svo vandlega lýst fyrir alþjóð fyrir svo örskömmum tíma.

Ekki síst var undrunin mikil vegna þess að upplýst var um leið að ytri aðstæður í efnahagsmálum þjóðarinnar væru betri en spáð hafði verið við gerð fjárlaganna. Ríkisstjórnarflokkarnir snerust ráðvilltir hring eftir hring í fjárlagagatinu mikla vikum saman og fundu svo þá lausn sem þeim er jafnan nærtækust, þ.e. fyrst og fremst nýjar erlendar lántökur og nokkurn niðurskurð, einkum framkvæmdaliði. Til að stoppa upp í götin í fjárlögum og lánsfjáráætlun voru því samþykktar enn nýjar erlendar lántökur. Fyrsta fjárlagaár ríkisstj. er ríkissjóði bjargað með stórauknum erlendum lántökum og tekjum sem eiga rætur í 3500 millj. kr. viðskiptahalla sem var áætlaður 100 millj. kr. í þjóðhagsáætlun um þetta leyti í fyrra. Þessi viðskiptahalli er borinn uppi af erlendri skuldasöfnun. Erlend lán þjóðarinnar hafa aukist nettó á þessu ári um 3055 millj. kr., miðað við gengið áður en það var fellt nú á dögunum, og vaxtagjöld þjóðarinnar á næsta ári til útlendinga nema um 7000 millj. kr. eða um 150 þús. kr. á hverja fimm manna fjölskyldu í landinu. Í stað þess að draga úr erlendri skuldasöfnun eins og fyrirheitin í stjórnarsáttmála ríkisstj. fjalla um eru skuldir þjóðarinnar erlendis nú komnar yfir þau 60% mörk miðað við þjóðarframleiðslu sem hæstv. fjmrh. hét þjóðinni hátíðlega að mundu þýða afsögn ríkisstj.

Það er áreiðanlegt að þjóðin umbæri betur en hún gerir svikin fyrirheit ríkisstj. um að draga úr skuldasöfnun erlendis ef hæstv. fjmrh. sæi um það að þær vanefndir yrðu til þess, eins og hann lofaði, að hæstv. ríkisstj. hætti þessu stjórnarbasli sem hún ræður ekkert við. Því að í stað þess að hafa stjórn á málum berst hún eins og rekald undan straumum og vindi.

Það er sérstaklega tekið fram í grg. með fjárlagafrv. að forsenda þess að unnt sé að móta heildarstefnu í peninga- og fjármálum hins opinbera sé að fjallað verði um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun á Alþingi samtímis fjárlagafrv. Þegar ljóst er að ríkisstj. hefur algerlega brugðist því hlutverki að móta haldbæra stefnu í peningamálum og efnahagsmálum almennt og allt veður á súðum skuldasöfnunar og upplausnar á málefnum ríkissjóðs og grundvallaratvinnuveganna þá er þess ekki að vænta að úr rætist þegar eins fer um þetta fyrirheit um nauðsynleg vinnubrögð sem öll önnur. Fjvn. hefur nú fjallað um fjárlagafrv. í tvo mánuði án þess að nm. eða fjh.- og viðskn. hafi séð stafkrók af lánsfjáráætlun fyrir næsta ár. Auk þess hefur ríkisstj. nú kollvarpað framlagðri þjóðhagsáætlun fyrir árið 1985 með því að grípa til sérstakra hefndarráðstafana í gengismálum í þeim tilgangi að hirða til baka þann litla ávinning launafólks sem verkalýðssamtökin og atvinnurekendur sömdu um þar sem nokkuð var dregið úr þeirri fjórðungsskerðingu á kaupmætti launa sem ríkisstj. hefur staðið fyrir á valdaferli sínum.

Þegar þannig er staðið að málum á öllum sviðum er naumast ástæða til að undrast þótt almenningur í landinu hafi misst alla trú á að ríkisstj. reynist fær um að ráða við þann vanda sem hún er búin að koma efnahags- og atvinnumálunum í. Enda er nú svo komið að jafnvel formaður Sjálfstfl. kærir sig ekki einu sinni lengur um að taka sæti í ríkisstj. Hann hefur af eðlilegum ástæðum misst alla löngun til þess.

Eins og ég áður nefndi var ekki langt liðið frá síðustu áramótum þegar raunveruleikinn svipti blekkingarhulunni af upploginni glæsimynd síðustu fjárlagagerðar. Þegar tekið er tillit til þess að Morgunblaðið var látið taka þátt í að vegsama hin nákvæmu og raunhæfu fjárlög með fjálglegum orðum um jólaleytið í fyrra og varð svo að birta fregnina um fjárlagagatið mikla þá eru skiljanleg sárindi ritstjóra blaðsins vegna þessarar meðferðar í leiðara 5. des.s.l., en hann hefst með þessum orðum, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er samdóma álit þeirra, sem fylgjast með þróun stjórnmála, að farið hafi að halla undan fæti hjá ríkisstj. á fyrstu mánuðum þessa árs þegar í ljós kom að verulegur halli yrði á rekstri ríkissjóðs árið 1984 þrátt fyrir yfirlýsingar um hið gagnstæða við gerð fjárlaga fyrir réttu ári og heitstrengingar þá um að betur væri um hnúta búið við fjárlagagerð en oftast áður. Fjárlagagatið, sem tók margar vikur að fylla á útmánuðum, varð til þess að rýra traust manna á ríkisstj. Hitt bætti ekki úr skák, hve það tók langan tíma fyrir stjórnárflokkana að finna málamiðlunarlausn.“

Og síðar í leiðaranum segir Morgunblaðið, og vill nú hafa vaðið fyrir neðan sig, með leyfi hæstv. forseta: „Flest bendir til þess að sagan frá því á útmánuðum sé að endurtaka sig. Það er ekki nægilega markvisst unnið að því að ná endum saman í fjárlagadæminu.“

Þetta eru orð að sönnu því að allt bendir til þess að við endanlega afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár verði enn lengra á milli endanna en í fjárlagafrv. þegar það var lagt fram. Leiðarinn endar svo á þessum orðum, með leyfi hæstv. forseta:

„Reynslan af fjárlagagatinu á fyrstu mánuðum þessa árs hlýtur að vera víti til varnaðar.“ Það er svo líklega ekki tilviljun að ritstjórar Morgunblaðsins skilja eftir dálitið pláss fyrir stuttan leiðarabút sem heitir „Glæsilegur árangur í handbolta“, þar sem rakinn er frábær árangur landsliðsins í keppnisferð erlendis fyrir skemmstu. Þegar Morgunblaðið hefur rakið ófarir þm. stjórnarflokkanna við síðustu fjárlagagerð sem víti til varnaðar telur leiðarahöfundur sérstaka ástæðu til að minna á það í eins konar viðbótarleiðara að til eru þó þeir menn íslenskir sem vinna verk sín á þann veg að þjóðin þarf ekki að skammast sín fyrir.

Morgunblaðið bendir á 5. des. s.l. að stjórnarflokkarnir hafi nú fallið frá því markmiði sem þeir settu í september s.l. haust, hallalausum fjárlögum á næsta ári. Forsrh. hafi varpað þessu fyrirheiti fyrir róða í stefnuræðu sinni 22. nóv. s.l. Síðan hefur þetta fráhvarf og uppgjöf frá fyrri stefnu verið enn áréttað með upplýsingum um að hallinn í fjárlagafrv. verði enn aukinn við afgreiðslu þess á Alþingi og auðvitað eykst erlend lántaka að sama skapi. Það segir til sín í þessum efnum að stjórnarflokkarnir hafa með lagasetningu afsalað ríkissjóði stórfelldum fjárhæðum með hvers kyns skattaívilnunum til eignamanna og gróðafyrirtækja. Til mótvægis voru greiðslur sjúklinga fyrir heilbrigðisþjónustu og lyf auknar verulega og markvisst hefur, eins og segir í grg. fjárlagafrv., verið dregið úr framlögum til framkvæmdaverkefna. Þegar slíkur niðurskurður félagslegra framkvæmda á sér stað ár eftir ár fer hann að koma æði hart niður hvarvetna í landinu og verður hluti af þeirri aðför sem ríkisstj. frjálshyggju- og markaðsstefnu gerir nú að byggð landsins og er þáttur í þeirri afleiðingu stjórnarstefnunnar að fólksstraumur liggur nú frá framleiðslusvæðunum úti á landsbyggðinni í þjónustustarfsemina hér á höfuðborgarsvæðinu.

Niðurskurður fjárveitinga til verklegra framkvæmda á næsta ári er sá lang harkalegasti sem framkvæmdur hefur verið. Er þó sá munur á ytri aðstæðum að árið 1983 og 1984 minnkuðu þjóðartekjur, 1983 um 3.7%, en 0.4% 1984. En í þjóðhagsáætlun fyrir næsta ár er því spáð að þjóðartekjur aukist um 1.8%. Stjórnarflokkarnir hafa þó ákveðið að þá skuli niðurskurður til félagslegra framkvæmda verða meiri að raungildi en nokkru sinni hefur áður þekkst. Framlög til dagvistarheimila voru 20% hærri að raungildi árið 1983 en tillögur eru gerðar um nú af hálfu stjórnarflokkanna. Framlög til sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva voru 32% hærri að raungildi árið 1983 og framlög til hafna voru 122% hærri að raungildi árið 1983 en áætlað er á næsta ári. Það er táknrænt fyrir hina nýju byggðastefnu, sem Framsfl. er nú að innleiða, að langmestur niðurskurður, um 84.5 millj. kr. á verðlagi næstu fjárlaga frá þeirri upphæð sem veitt var á fjárlögum 1983, er í þeim framkvæmdaþætti, hafnarmálum, sem hefur að 96% farið til stuðnings sveitarfélögum utan höfuðborgarsvæðisins. Byggðasjóði eru síðan ætluð aðeins 30% af því framlagi sem lög ákveða. Það er við hæfi að þegar Framsfl. er að framkvæma sína nýju stefnu í byggðamálum þá heitir málgagn flokksins ekki lengur Tíminn heldur Nýi Tíminn.

Niðurskurði er beitt gegn félagslegum framkvæmdum á sama tíma og ýmsir rekstrarliðir bólgna út. Við afgreiðslu núgildandi fjárlaga hækkuðu ýmsir rekstrarliðir mjög verulega, sumir um meira en 100%, vegna þess sérstaklega að þeir voru færðir upp til samræmis við niðurstöður ríkisreiknings. t.d. hækkuðu fjárveitingar til aðalskrifstofa rn. mjög mikið, fyrst og fremst af þessum sökum.

Ég tók sérstaklega fram við umr. um fjárlagafrv. þá að það hvarflaði ekki að mér að bera rekstrarliði úr fjárlögum 1983 saman við hliðstæðar tölur úr fjárlagafrv. fyrir árið 1984 án þess að taka tillit til þessa og halda því fram að ætlunin væri að auka reksturinn sem þessum mismun nam. Ég gat vel fallist á að þessi aðgerð ætti að bæta aðstöðu til aðhalds gegn útþenslu í rekstri. En hefur hún nýst til þess? Nú ættu breytingar á þessum liðum, sem þannig voru færðir upp, að hafa raunhæfa merkingu. En þessi bætta aðstaða til aðhalds virðist duga skammt. Framlög til aðalskrifstofa rn. og til aðalskrifstofu Hagstofunnar, ríkisendurskoðunar og fjárlaga- og hagsýslustofnunar eiga að hækka verulega að raungildi á fjárlögum næsta árs, einstakar skrifstofur um allt að 35%. Vegin meðaltalshækkun nemur ríflega 10% að raungildi frá núgildandi fjárlögum. Í heild hækka útgjöld til þessara aðalskrifstofa úr ríflega 255 millj. kr. í ríflega 320 millj. í jafngildum krónum talið, eða um 35 millj. kr. að raungildi, en sú upphæð dygði til þess að tvöfalda framlög til dagvistarheimila á næstu fjárlögum.

Nefna má að framlög til Ríkismats sjávarafurða hækka úr 34.3 millj. kr. í 46.9 millj. skv. brtt. sem gerðar eru á fjárlagafrv., eða um nær 8 millj. kr. umfram verðlagshækkanir, þ.e. um 20% raungildishækkun frá árinu í ár.

Við afgreiðslu fjárlaga í fyrra var sérstaklega ákveðið að skerða launaliði um 2.5% og liðinn Önnur rekstrargjöld um 5% og til þess ætlast, eins og segir í grg. fjárlagafrv. í fyrra, að stofnanir og fyrirtæki leiti sparnaðar og hagræðingar í almennum rekstri. Um árangur þeirra sem með aðalstjórnina fara á aðalskrifstofum rn. ber fjárlagafrv. fyrir næsta ár órækast vitni, eins og ég hef þegar rakið. Þar hafa þessi fögru áform rokið út í veður og vind og útgjöld hækkað um 10% að raungildi. Það er því naumast við því að búast að öðrum stofnunum, sem hafa þessa stjórnendur sem fyrirmynd, hafi lánast að skerða útgjöld skv. fyrirmælum frá aðalskrifstofum rn. Þau gögn, sem lögð hafa verið fram í fjvn. skv. beiðni, benda ekki heldur til þess að árangur hafi orðið í þessum efnum. Ríkisspítalar vega þar hvað mest þar sem laun og önnur rekstrargjöld nema skv. núgildandi fjárlögum milli 1100 og 1200 millj. kr. Þar hefði slíkur niðurskurður skilað töluverðri upphæð en gögn sýna að í stað þess að launaútgjöld verði á þessu ári 2.5% lægri en verið hefði án niðurskurðar þá verði þau um 3–4% hærri en þau voru áætluð án þessarar sérstöku 2.5% lækkunar.

Á sama hátt sýna framlögð gögn að liðurinn Önnur rekstrargjöld verður í ár ekki 5% lægri en hann er áætlaður án þessa sérstaka niðurskurðar heldur um 8% hærri. Alli kemur þetta heim og saman við þá staðreynd að sé borin saman heildarsumma liðanna Önnur rekstrargjöld skv. ríkisreikningi árið 1983 og áættuð útgjöld skv. fjárlagafrv. fyrir næsta ár á sama verðlagi, þ.e. meðalverðlagi 1983, þá hækka þessi rekstrargjöld úr 1572 millj. kr. 1983 í 1743 millj. kr. á næsta ári, eða um 11% að raungildi, en það nemur um 240 millj. kr. á verðlagi næsta árs. Þó að einhverju kunni að muna um tilfærslur á minni háttar viðhaldi yfir á liðinn Önnur rekstrargjöld á næsta ári þá er sýnt að liðurinn Önnur rekstrargjöld hækkar að raungildi. Á móti þessari tilfærslu, sem ég nefndi, koma svo þær hækkanir á liðunum sem gerðar eru í meðförum Alþingis við afgreiðslu fjárlagafrv. Jafnframt má hafa í huga í þessu sambandi að heildarútgjöld ríkissjóðs hækka að raungildi á næsta ári skv. fjárlagafrv. miðað við áætlaðar niðurstöðutölur í ár.

Því hefur verið haldið fram að um raunverulegan samdrátt sé að ræða í ríkisrekstrinum. Þá er jafnan gripið til þess ráðs að miða við tekjur ríkisins og litið fram hjá því að fjárlög eru afgreidd með halla, þ.e. án þess að tekjur dugi fyrir þeim útgjöldum sem eru hin raunverulegu umsvif í ríkisrekstrinum. Með því er verið að velta umframeyðslunni yfir á þá sem taka við. Það var nákvæmlega það sem gerðist þegar Sjálfstfl. lét af stjórn ríkisfjármála 1978 eftir fjögurra ára skuldasöfnun sem næsti fjmrh. varð að afla tekna fyrir umfram tekjuöflun sem þurfti til að greiða það sem raunverulega var eytt á því tímabili.

Sannleikurinn er sá að þrátt fyrir að þjóðarframleiðsla hafi dregist saman og þrátt fyrir að framlög til verklegra framkvæmda hafi verið skert mjög verulega, m.a. með tilvísun til samdráttar í þjóðartekjum, og þrátt fyrir að raungildi launa ríkisstarfsmanna hafi verið skorið niður um fjórðung á tímabili núv. ríkisstj. og launaútgjöld nemi ríflega 25% af öllum útgjöldum A-hluta fjárlaga, þá hafa heildarútgjöld ríkisins ekki dregist saman að raungildi, þvert á móti. Í töflu í nál. minni hl. fjvn. um heildarútgjöld ríkissjóðs á árunum 1972–1985, en þau eru færð á sama verðlag, verðlag ársins 1983, kemur fram að útgjöld ríkissjóðs munu skv. fjárlagafrv. og þeim brtt. við það sem þegar liggja fyrir aukast um 4% að raungildi á næsta ári og verða hærri en á nokkru öðru þessara ára að undanskildu árinu 1983, sem var þó að verulegu leyti útgjaldaár núv. stjórnarflokka en að öðru leyti ekki sambærilegt við önnur ár í þessari töflu vegna sérstakra fjármagnstilfærslna sem námu 1 milljarði 66 millj. kr. En þau komu til vegna þess að yfirtaka á byggðalínum var bókfærð á ríkissjóð á því ári, svo og að bókfært var skuldauppgjör vegna eldgossins í Vestmannaeyjum. Áætlað er að heildarútgjöld ríkisins í ár nemi um 19 500 millj. kr., en skv. nýjum verðlags- og launaforsendum að viðbættum brtt. fjvn. verði þau um 25 500 millj. kr. á næsta ári.

Þessi hækkun útgjalda ríkissjóðs á næsta ári miðað við nýjustu áætlanir um útkomuna í ár nemur að raungildi 1200 millj. kr. Ríflega helmingi hennar verður velt áfram með nýjum lántökum sem öðrum en núv. stjórnvöldum er svo ætlað að greiða síðar. Sagan endurtekur sig frá fjármálastjórn Sjálfstfl. 1974–1978.

Þessi raunhækkun útgjalda á næsta ári, þrátt fyrir niðurskurð framlaga til verklegra framkvæmda, nemur eins og ég sagði 1200 millj. kr. og er meir en þreföld sú fjárveiting sem er samanlagt áætluð á næsta ári til byggingar grunnskóla, hafnarframkvæmda, dagvistarheimila, íþróttamannvirkja, sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva.

Fjárlagaafgreiðslan nú staðfestir að ekkert af meginmarkmiðum stjórnarflokkanna við afgreiðslu núgildandi fjárlaga hefur náðst. Þar má nefna að lögð var áhersla á að þjóðartekjur yrðu látnar nægja fyrir útgjöldum. Í september s.l. áréttuðu stjórnarflokkarnir þetta markmið en við fjárlagaafgreiðsluna nú er horfið frá þessum heitstrengingum með því að gera ráð fyrir verulegum rekstrarhalla á ríkissjóði á næsta ári.

Annað aðalmarkmiðið tengdist hinu fyrra, þ.e. að stöðva skuldasöfnun erlendis. Hæstv. fjmrh. nefndi sérstaklega ákveðið hámark á heildarskuldum þjóðarinnar, 60% af vergri þjóðarframleiðslu, sem spurningu um líf eða dauða ríkisstj. Þetta mark hafa stjórnvöld nú þegar yfirstigið og hæstv. fjmrh. er enn að efna til nýrrar erlendrar skuldasöfnunar með afgreiðslu fjárlaga að þessu sinni, enda þótt í þjóðhagsáætlun sé gert ráð fyrir aukningu þjóðartekna um 1.8%. Þegar þjóðarframleiðsla dregst saman eins og í ár eru erlendar skuldir auknar miklu meira en samdrættinum nemur og þegar þjóðarframleiðsla er talin munu aukast á næsta ári er efnt til enn nýrra erlendra skulda eigi að síður.

Samdráttur þjóðarframleiðslu á árinu 1984 um 1% jafngildir 670 millj. kr. En þeir stjórnendur, sem ætluðu að draga úr skuldasöfnun erlendis, juku skuldir þjóðarinnar á sama tíma um 4.5 sinnum hærri upphæð, eða um 3055 millj. kr. Þrátt fyrir áætlaða hækkun þjóðartekna á næsta ári er ljóst, skv. yfirliti sem sett er upp skv. framsetningu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á sama grundvelli fyrir árið 1984—1985, að gert er ráð fyrir að erlendar lántökur ríkissjóðs á næsta ári hækki svo verulega að þær verði 75.9% hærri nettó en á þessu ári.

Ríkissjóður er því rekinn með erlendum lántökum. Þetta staðfesti formaður Sjálfstfl., hv. 1. þm. Suðurl. Þorsteinn Pálsson, skv. heimild blaðsins Íslendings 16. ágúst s.l. en þar er haft eftir formanni Sjálfstfl., með leyfi hæstv. forseta:

„Í fyrsta skipti voru tekin erlend lán í beinan rekstur ríkissjóðs sem hefur valdið mismunun milli atvinnugreina, uppsveiflu í þjónustu og verslun og byggingariðnaði en kemur niður á sjávarútveginum.“

Og síðar er haft eftir hv. þm., með leyfi hæstv. forseta:

„Samhliða aðgerðum í peningamálum verður að gera gangskör að því við undirbúning fjárlaga að tryggja að útgjöld ríkissjóðs verði ekki meiri en tekjurnar. Annars er viðbúið að þessi tilraun til að ná jafnvægi í efnahagsmálum fari út um þúfur ef lán eru tekin til rekstrarútgjalda ríkissjóðs.“

Við endurskoðun gjalda- og lánahreyfinga ríkissjóðs vegna nýrra verðlags- og launaforsendna var um miðjan nóvembermánuð s.l. áætlað að rekstrarhalli ríkissjóðs yrði um 1 millj. kr. á dag á næsta ári. Mánuði síðar er talið að hallinn geti orðið tvöfalt hærri og erlendar lántökur aukist þá að sama skapi. Þegar höfð eru í huga ummæli formanns Sjálfstfl. um nauðsynlegar forsendur við afgreiðslu fjárlaga og hvernig til tekst nú þá er það skiljanlegt, sem haft er eftir hv. þm. í Dagblaðinu-Vísi í fyrradag, að nú komi ekki lengur til greina að hann taki sæti í ríkisstj.

Þriðja meginmarkmið stjórnarsinna var að ná jöfnuði í viðskiptum og þjónustu við útlönd. Algjör uppgjöf gagnvart þessu markmiði og 3500 millj. kr. viðskiptahalli sem afleiðing af því er sá grundvöllur sem hæstv. fjmrh. byggir rekstur ríkissjóðs á í ár, ásamt erlendri skuldasöfnun, en viðskiptahallinn hefur reynst um 35 sinnum meiri en gert var ráð fyrir í þjóðhagsáætlun í fyrra. Það er því sama til hvaða markmiða stjórnarsinna er litið, alls staðar blasir við skipbrot stjórnarstefnunnar.

Stefna stjórnarflokkanna við afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár er í samræmi við annað í þeirri frjálshyggju og markaðsstefnu sem ríkisstj. hefur verið að knýja fram s.l. 11/2 ár. Þessi stefna hefur, eins og fram kom í þeim ummælum formanns Sjálfstfl. sem ég vitnaði áður til, valdið mismun milli atvinnugreina, uppsveiflu í þjónustu og verslun og byggingariðnaði en komið niður á sjávarútvegi. Allir gera sér ljóst hverjar afleiðingarnar eru á jafnvægi í byggð landsins. Uppsveiflan og gróðasöfnun er hér á höfuðborgarsvæðinu. Frumframleiðslustaðirnir utan þessa svæðis gjalda þessarar stefnu og fólksflóttinn utan af landsbyggðinni vex. Það er e.t.v. dálítið kaldhæðnislegt, en rétt eigi að síður, að einu raunverulegu áhrifin af stjórnarstefnunni sem geta hamlað gegn eyðingu byggðar úti á landi eru þau að þessi andbyggðastefna Sjálfstfl. og framsóknar gerir íbúðir þessa fólks sem býr þar svo verðlausar að eigendunum er í ýmsum tilvikum nauðugur einn kosturinn að sitja um kyrrt.

Hv. 6. þm. Norðurl. v. Guðmundur Bjarnason sagði við 1. umr. um. fjárlög 27. nóv. s.l., með leyfi hæstv. forseta:

„Uppbygging hefur orðið geysileg á suðvesturhorninu. Skapast hefur mikið þensluástand á sama tíma og samdráttur hefur orðið úti um land svo að vart verður við unað. Í umr. um fjárlagafrv. á s.l. vetri nefndi ég einnig þetta ástand sem þá var farið að bera á. Því miður virðist sem svo að endurtaka megi nokkurn veginn það sem þá var sagt, því ekki hefur tekist að breyta um svo sem æskilegt hefði verið.“

Manni verður á að spyrja: Við hverju bjóst hv. þm.? Hefur hann ekki fylgst með ráðstöfunum þeirrar hæstv. ríkisstj. sem hann sjálfur styður? Við Alþb.-menn og ýmsir aðrir stjórnarandstæðingar bentum á óhjákvæmilegar afleiðingar af markvissri og yfirvegaðri stefnu stjórnarinnar í þessum efnum: Stórfelldar hernaðarframkvæmdir og flugstöðvarbyggingu í Keflavík, hvers kyns ívilnanir í skattamálum og verðlagsmálum í þágu gróðaliðs og fjármagnseigenda á höfuðborgarsvæðinu, samtímis því að félagslegar framkvæmdir úti á landsbyggðinni eru skornar niður. Peninga- og efnahagsstefna ríkisstj. er að murka niður frumframleiðsluatvinnuvegina í landinu þar sem allt eigið fjármagn er að hverfa.

Þegar menn, ári eftir afgreiðslu síðustu fjárlaga og eftir að ríkisstjórn frjálshyggju og markaðsstefnu hefur farið með völd í eitt og hálft ár, undrast það að eðlilegar afleiðingar þessarar stjórnarstefnu koma fram enn magnaðri en fyrir ári síðan er engu líkara en þessir menn hafi horft til himins allan þennan tíma og búist við úrbótum með breyttu skýjafari. Það stóð í leiðara Nýja Tímans hinn 26. okt. s.l. að frelsistal Eimreiðarhópsins, stuttbuxnadeildar íhaldsins, hefði reynst þjóðinni dýrt, eins og þar sagði orðrétt. Þetta bendir til þess að þeir sem skrifa blað þeirra framsóknarmanna hafi áttað sig eitthvað betur á samhenginu í stjórnmálum en þeir gera í þingliði flokksins. Þessi staðhæfing blaðsins var þó ekki að öllu leyti nákvæm. Það stafar nefnilega ekki ýkja mikil hætta fyrir þjóðina af frelsishjali þeirra Eimreiðarpilta einu saman. Þeir hjöluðu fyrir alþingiskosningar 1979 án skaða fyrir aðra en sjálfstfl. Frjálshyggjuhjalið reyndist ekki hættulegt og dýrt fyrir þjóðina alla, og þó einkum láglaunafólk til sjávar og sveita, fyrr en formaður Framsfl., Steingrímur Hermannsson, tók að sér að gera þetta frjálshyggjuhjal að raunverulegri stjórnarstefnu í landinu undir forustu Framsfl.