17.12.1984
Neðri deild: 26. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2069 í B-deild Alþingistíðinda. (1511)

133. mál, sala Landssmiðjunnar

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Hér er kannske ekki um stórmál að ræða, en ég tel þó nauðsynlegt að það komi fram sem viðhorf mitt og okkar Alþfl.-manna að það eigi ekki að vera trúaratriði hvort fyrirtæki séu ríkiseign eða ekki. Það sem á að ráða í þeim sökum er hagkvæmnin, hvað sé hagkvæmast fyrir þjóðarbúið og hvað sé líklegt til að vera atvinnulega til uppbyggingar.

Nú liggur það fyrir í þessu máli að ríkið hefur búið heldur illa að þessu fyrirtæki. Því er ekki haldið fram að það hafi verið beinlínis illa rekið, en það hafi verið þungt í vöfum stjórnunarlega og ríkið hafi ekki sinnt því. Það er ekkert sem bendir til þess að ríkið muni taka sinnaskiptum að þessu leyti. Það er allt sem bendir til þess að ríkið muni vera jafnlélegur stjórnandi fyrirtækisins í framtíðinni og það hefur verið seinustu árin. Þess vegna eru engar líkur á því að sú uppbygging mundi fara fram innan fyrirtækisins sem væri nauðsynleg ef menn vildu að þetta fyrirtæki gegndi brautryðjandastarfi eða sérstöku hlutverki í þjóðfélaginu. Þegar svo horfir við að ríkið greinilega sinnir ekki, vill ekki sinna eða getur ekki sinnt því hlutverki að vera góður eigandi eða góður stjórnandi fyrirtækisins og sérstaða er ekki lengur fyrir hendi, sem kallar eftir því að hér sé einmitt ríkisfyrirtæki af þessu tagi, þá er auðvitað engin ástæða til að hanga í óbreyttu eignarformi. Þá er greinilega hollara að fyrirtækið fari úr eigu ríkisins og verði selt og fái þá að njóta sín og þróast undir nýrri stjórn sem hefur meiri áhuga á því að þróa fyrirtækið. Af þessum sökum held ég að einsýnt sé að fylgja þessu frv. Það mundi ekki verða neinum til góðs að hanga í því að hafa þetta ríkisfyrirtæki áfram, heldur sé, miðað við söguna og aðstöðuna, eðlilegt og rétt að fyrirtækið verði selt.

Nú get ég ekkert fullyrt um hvort 22 millj. kr. séu rétt verð á þessari verksmiðju. Ég skal ekki fullyrða um það. En það virðist vera augljóst að menn verði að gera það upp við sig í stöðu eins og þessari hvort þeir ætla að leita tilboða í fyrirtækið eða hvort þeir ætla að fara hina leiðina, sem hér hefur greinilega orðið uppi á teningnum, að leita eftir því að starfsmenn fyrirtækisins kaupi það. Þá er ekki beinlínis hægt að leita eftir tilboðum. Hér hefur sú leið verið farin og það er góðra gjalda vert. Ég ætla að vona að kaupverðið sé sanngjarnt, bæði ríkisins vegna og kaupendanna vegna, en ég get ekki fullyrt það.

Hitt finnst mér út í hött þegar menn segja að það sé til grunnur sem kosti svo og svo marga tugi milljóna og fyrir hann fáist ekki neitt miðað við þetta kaupverð. Það skiptir engu máli. Ef sú fjárfesting var röng eiga menn ekki að gera ráð fyrir að fá fyrir henni. Það væri ósanngjarnt gagnvart kaupendunum. Mér heyrist á þeim upplýsingum sem fengist hafa að þetta hafi verið harla dýr fjárfesting og þess vegna óhagkvæm, miðað við hver not mætti hafa af henni, og þess vegna standi hún ekki undir kostnaðarverði sínu. Þess vegna finnst mér röksemdin um grunninn ekki eiga við þegar menn tala um verðlagið á verksmiðjunni.

Menn tilgreina líka að einungis 23 af 76 starfsmönnum vilji gerast eignaraðilar í fyrirtækinu. Ég get ekki heldur látið það ráða úrslitum. Þeim var öllum boðið að gerast eignaraðilar. Úr því að tilboðið var gert verða menn að standa við það þó að þátttakendur yrðu ekki fleiri en þetta.

Herra forseti. Ég vildi að þetta sjónarmið kæmi fram. Við getum ekki bitið okkur í það að einhver fyrirtæki eigi endilega áfram að vera í ríkiseign vegna þess að þau hafi verið það. Ég held að þetta fyrirtæki hafi gegnt mjög mikilvægu hlutverki á sínum tíma í íslensku atvinnulífi, en sá tími sé liðinn og eigandinn hafi ekki áhuga á því og það séu engar líkur til að hann muni hafa áhuga á því að reka fyrirtæki sem þetta með þeim myndarskap sem þá þyrfti að gera. Þegar svo horfir við að ekki verður séð að hið upprunalega hlutverk sé lengur fyrir hendi né heldur að það sé fyrirtækinu til framdráttar eða starfsfólki þess að núverandi eigandi sé fyrir hendi, þá er auðvitað rétt að selja fyrirtækið. Þess vegna mun ég greiða atkvæði með þessu frv.