17.12.1984
Neðri deild: 29. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2122 í B-deild Alþingistíðinda. (1603)

Um þingsköp

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hlýt að kveðja mér hljóðs um þingsköp vegna ummæla sem féllu hér áðan í umr. um þingsköp. Ég kann því illa þegar einföld spurning af hálfu þm. hér í hv. deild er túlkuð á þann veg sem hann sé vísvitandi að tefja framgang þess máls sem þar er til umr. í það skiptið. Ég spurði einfaldlega hver sú nauðsyn væri svo brýn að það þyrfti að vinna að þessu máli hér í þessari hv. þd. með þessum hætti. Og ég hefði talið heppilegt og málinu frekar til framdráttar en hitt að þeirri spurningu hefði verið svarað, því óskir mínar um frestun málsins komu í framhaldi af því, að ef sú nauðsyn væri ekki fyrir hendi og ekki væri hægt að rökstyðja hana hér, þá yrði málinu frestað. Ég hef reyndar grun um að svo sé um fleiri hv. þm. að þeir hafi áhuga á því að gefa sér aðeins rýmri tíma til að athuga þetta mál, ef það er þá hægt. Og ég kann því auðvitað sýnu verr að ég sé síðan stimplaður sem andstæðingur þessara hugmynda. Ég tók það einmitt fram í mínu máli að ég hefði ekki ástæðu til að ætla út af fyrir sig að það væri málefnalegur ágreiningur um málið. Og ég mótmæli því auðvitað alfarið að á þennan hátt sé dreginn í efa áhugi minn á málefnum Háskóla Íslands og þess að ræða málefni hans hér, því að ég tel á því brýna nauðsyn.

Ég minni á bréfaskriftir ritstjóra Fréttablaðs Háskólans til þm. þar sem hann óskar eftir hugmyndum þeirra um eflingu Háskólans og var jafnframt í leiðinni að gera könnun á því hversu oft og með hvaða hætti þm. hefðu á undanförnum árum haft afskipti af málum þessarar stofnunar. Þegar farið er í gegnum þingtíðindi og þinggögn frá liðnum árum kemur það í ljós að málefni Háskólans hafa litið verið rædd innan veggja þessarar virðulegu stofnunar, allt of lítið að mínu mati. Ég tel það brýna nauðsyn að málefni þessarar æðstu menntastofnunar berist hingað inn og mönnum gefist tími til að ræða þau.

En fyrst og fremst þetta, herra forseti: Ég spurði hér einfaldrar spurningar um það hvers vegna þyrfti að hraða þessu máli svo sem hér virðist eiga að gera. Ég tel það skýlaust að ég eigi rétt á því að fá svör við þeirri spurningu áður en meira er lagt út af orðum mínum, til hvers vegar sem það svo er.