20.12.1984
Sameinað þing: 38. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2365 í B-deild Alþingistíðinda. (1855)

1. mál, fjárlög 1985

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Fyrir nokkru sá ég kvikmynd sem fjallar um heimsókn úr öðrum heimi. Til jarðarinnar koma gestir sem ætla sér að kynnast lífi jarðarbúa með það í huga að stofna til nánari samskipta við þá. Ferð þessara gesta úr öðrum heimi endar með hálfgerðri skelfingu vegna þess hve þeir eru framandi í okkar umhverfi. Það sem gerir þessa kvikmynd óvenjulega miðað við hliðstæðar kvikmyndir um hliðstæð efni er sú staðreynd að gestirnir, sem til jarðarinnar koma, eru ekki grænir né með augu á stilkum eða fingur með sogblöðkum, þeir eru ekki torkennilegar kynjaverur sem dregnar hafa verið upp úr fylgsnum ímyndunaraflsins. Nei, þessir gestir eru fólk nákvæmlega eins og við, en vegna ákveðins tímamunar milli þeirra heims og okkar er fas þeirra, talandi og klæðaburður eins og manna frá árinu 1950.

Mörg okkar, sem hér erum inni, muna nokkuð vel aftur til ársins 1950 og með aðstoð ljósmynda eða kvikmynda ættum við án mikils erfiðis að geta gert okkur grein fyrir því hvað við sjálf yrðum okkur framandi ef við mættum okkur í eigin persónu eins og við vorum, eins og við töluðum og eins og við hegðuðum okkur fyrir 34 árum. Bilið milli áratuga í sögu okkar er oft og tíðum miklu stærra en okkur getur órað fyrir. Ég hirði ekki að telja upp þá löngu runu af breytingum sem orðið hafa á þessum tíma. Vandamál gestanna sem kvikmyndin lýsti er tímaskekkja. Þeir ná ekki sambandi við jarðarbúa vegna torkennilegrar framkomu, talsmáta og klæðaburðar sem tilheyrir öðrum tíma og öðrum heimi. Í einu orði sagt, þessi mynd lýsti mönnum sem ekki voru í jarðsambandi. Það sama gildir um núverandi ríkisstj. Hún kemur fram við þjóðina með sama valdsmannssvip og ríkistjórnir hafa gert um áratuga skeið. Fatnaður þeirra er að vísu í samræmi við tíðarandann, en gerðir þeirra og töluð orð standa ekki í neinu samhengi við þann tíma sem við lifum á í dag. Það er greinilegt að hún skynjar ekki að stjórnarfar og þar með lýðræðið er í sjálfu sér spurning um aðlögun að þeim tíðaranda sem ríkir. Og andstaða gegn framförum hefur ekki bara áhrif á lýðræðið sjálft, þótt það sé tækið, heldur hefur andstaðan almenna stöðnun í för með sér og að lokum ringulreið. Náttúran og umhverfi okkar stefnir sífellt að kaos. Maðurinn hefur tekið sér það hlutverk að vinna gegn kaos og óskipulagi. Það gerir hann ekki með því að gera ekki neitt.

Íslenskt stjórnarfar hefur staðið í stað um tveggja áratuga skeið á tímum mikilla breytinga í tækni og þjóðlífi. Um aldamótin urðu miklar breytingar í íslenskum stjórnmálum og þjóðlífi. Þær urðu með breytingum á stjórnarfari. Um 1920 urðu miklar breytingar í íslenskum stjórnmálum og stjórn á þjóðlífi. Þær urðu líka vegna breytinga á stjórnarfari. Um 1940 urðu miklar breytingar á íslenskum þjóðmálum og þjóðlífi. Þær urðu líka vegna breytinga á stjórnarfari. 1960 urðu miklar breytingar í íslenskum stjórnmálum og þjóðlífi. Þær voru líka í kjölfar breytinga á stjórnarfari. En síðan hafa ekki orðið miklar stefnubreytingar í íslenskum stjórnmálum og þjóðlífi. Að vísu hefur hér sitthvað unnist á, því verður ekki neitað, en gífurlega mikið hefur líka tapast. Við Íslendingar erum skuldugir upp fyrir haus og það er ekkert sem bendir til þess að við eignumst eitt eða annað nú eða í náinni framtíð sem gerir okkur kleift að endurgreiða þessar skuldir okkar og standa traustari og sjálfstæðari en við gerum í dag. Ég ætla hér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa smá þjóðlífslýsingu í lauslegri þýðingu:

„Í landi þessu voru yfirráð ríkisins á öllum sviðum efnahagslífsins orðið að lykilatriði þjóðlífsins. Ríkið átti auðlindirnar, meiri hluta umferðarkerfisins og fjöldaframleiðslu fyrirtækja. Bændurnir voru undir forsjá ríkisins. Sú framleiðsla sem ekki var í ríkiseigu var háð verðlagsákvörðunum, lánum og styrkjum eða var með öðrum hætti tengd opinberum rekstri. Tengslin milli fjármálastjórnar og stórra banka voru sterk, þar sem ríkið skipaði opinbera embættismenn í stjórnir bankanna. Ríkisbankinn, sem var nokkurs konar deild í fjmrn., stýrði sparisjóðum og lánastofnunum, stjórnaði fjármálum samgangna og fjármagnaði ævintýri í utanríkisviðskiptum. Ríkisbankinn stjórnaði öllu efnahagslífi og leitaði stöðugt leiða til að auka vald sitt og starfssvið. Viðskrn. veitti sölusamtökum forsjá, ákvað verðlag og þar með hagnað fyrir notkun auðlinda og ákvað verð á flutningum og átti fulltrúa í stjórnum hlutafélaga sem ríkið var aðili að. Á seinustu árunum fyrir stríð tókst land þetta á hendur einhverja viðamestu tilraun í ríki sameignarkapítalismans sem um getur.“

Land það sem hér er verið að lýsa er hið keisaralega Rússland á tímanum frá aldamótum fram að fyrra stríði. Bethmann Hollweg, kanslari Vestur-Þýskalands, á að hafa varað við þessari þróun í Rússlandi. Hann áttaði sig á að ríki sem skipuleggur og stjórnar efnahagslífi með þessum hætti er hæfara, ef hæft skyldi kalla, til að undirbúa og takast á hendur styrjöld gegn nágrönnum sínum en aðrir. Öll þau lönd sem tóku þátt í fyrri heimsstyrjöldinni brugðu strax í upphafi stríðsins á það ráð að apa að miklu leyti eftir þá stjórnun efnahagslífs sem Rússar höfðu þá þegar komið á. Afleiðingin var gífurleg útþensla í umsvifum ríkisins vegna afskipta þess af efnahagslífi á Vesturlöndum öllum. Eftir styrjöldina veittist erfitt að hrista þetta ákveðna skipulag af sér.

Herra forseti. Skilningur okkar á mannkynssögunni byggist líklega að hálfu leyti a.m.k. á misskilningi. Menn vilja rekja ríkisafskipti af þjóðlífi með jafn víðtækum hætti eins og víða þekkist í dag til áhrifa marxismans. Staðreyndin er sú að Lenín og kumpánar hans erfðu hina rússnesku ríkiskapítalísku þjóð árið 1917 og gerðu lítið annað en að breyta eignarhaldi og atvinnulífinu með þeim hætti að kalla það í eigu verkalýðsins. En hvers vegna er ég að lesa þessa lesningu hér? Jú, við í Bandalagi jafnaðarmanna höfum gagnrýnt stjórnvöld fyrir það að svara ekki kalli tímans. Menn hafa hrist hausinn og neitað að skilja hvað við erum að fara. Ég les þessa þjóðlífslýsingu hér í þeirri von að menn átti sig á því að gagnrýni okkar beinist að því að við erum að viðhalda hér í dag, árið 1984, stjórnarfari sem komið var á fyrir um 70 árum á Vesturlöndum, stjórnarfari sem einkum og sér í lagi á vel við í efnahagslífi í þeim tilgangi að geta tekið þátt í styrjöld.

Það er mjög langt síðan við Íslendingar höfum tekið þátt í styrjöldum og þess vegna engin nauðsyn að viðhalda þeim vinnubrögðum sem til styrjaldarreksturs eru nauðsynleg. Ef ríkisstjórnin er líkami stjórnvaldsins, þá eru fjárlögin hreyfingar þessa líkama og þessar hreyfingar miða í dag allar að því sama, þ.e. að halda í viðtekið ástand sem búið er að ríkja allt of lengi, ástand sem skapar æ meiri vandamál því að það er ófært um að ráða við vandamál nútímans eins og allt er í pottinn búið.

Hér hafa stjórnmálaflokkar um áratuga skeið háð kosningabaráttu kosningar eftir kosningar meira og minna undir fölsku flaggi. Þeir hafa reynt að telja kjósendum trú um að þeir skiptist upp í tvo hópa og auðkennt þá í hægri og vinstri, svo að menn fari nú ekki vegavillt, og haldið því að mönnum og konum að annar hópurinn berðist fyrir síaukinni blessun ríkisafskipta í nafni mannúðar á meðan hinn hópurinn berðist gegn ríkisafskiptum, fyrir frelsi einstaklingsins. Þegar litið er yfir farinn veg sjást þess í farvegi íslenskra stjórnmála harla lítil merki hver stjórnaði né hvenær. Þróunin hefur verið jöfn og þétt, alveg frá því. við fyrst fengum sjálfsstjórn, til sömu áttar. Síaukin ríkisafskipti á öllum sviðum þjóðlífs, ekki bara þar sem ríkisafskipti eiga við, heldur líka og það er alvarlegra, þar sem þau eiga ekki við. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um né gagnrýna ríkisafskipti á þeim sviðum þar sem þau eru eðlileg. Eðlileg samhjálp sem fullnægir kröfum nútíma fólks og verður ekki fengin með öðrum hætti. Eðlileg þar sem hún er leið til að tryggja öllum einstaklingum rétt til að njóta þjónustu á sviði samgangna, löggæslu, menntunar, heilsugæslu og kjaratryggingar. Þessi ríkisafskipti eru eðlileg og um þau er í raun engin ágreiningur. Menn geta deilt um leiðir en menn deila ekki um markmið hvað þessi ríkisafskipti snertir.

Um afskipti ríkisvaldsins af atvinnulífi og/eða beina þátttöku ríkisvaldsins gegnir öðru máli. Afskipti ríkisvaldsins af atvinnulífinu eru hættuleg í margs konar skilningi. Þau eru hættuleg vegna þess að þau hafa áhrif á afstöðu þátttakenda í viðkomandi atvinnugrein til hlutverks síns. Því meiri sem afskipti ríkisvaldsins eru af viðkomandi atvinnugrein, því meira flyst af ábyrgð af herðum þátttakandans yfir á herðar ríkisins og eftir því sem ríkið tekur meiri ábyrgð á afkomu þátttakendanna, því sterkari verður tilhneigingin til að auka ríkisafskiptin uns þau verða alger. Ríkisafskiptin eru líka hættuleg vegna þess að þrátt fyrir stór orð þá hafa þau, að því er virðist, ekki tilgang eða markmið.

Ef við horfum á sjávarútveg Íslendinga í því tilefni að hér var verið að samþykkja s.l. nótt svokallað kvótakerfi, gera það að lögum, ef við horfum á sjávarútveg Íslendinga og skoðum hann í ljósi þessara fullyrðinga, þá ætla ég fyrst að taka fyrir markmið eða tilgang. Það verður ekki sagt að afskipti ríkisvaldsins af sjávarútvegi hafi þjónað einhverjum markmiðum. Ef við horfum á afkomu þátttakendanna, þá er hún léleg. Hún er svo léleg að menn tala um að þessi atvinnugrein rambi á barmi gjaldþrots. Ef við horfum á þjóðarheill, þ.e. afkomu okkar sem þjóðar sem er háð fiskveiðum að stærstum hluta, þá sökkvum við æ dýpra og dýpra í skuldir. Það er því greinilegt að afskipti ríkisvaldsins af þessari atvinnugrein hafa ekki skilað auknum tekjum í þjóðarbúið eða nægt til þess að jafna viðskiptahallann, Ef þar með er sýnt að markmið þessara afskipta eru ekki efnahagsleg þá spyr maður: Hvaða tilgangi þjóna þessi afskipti þá? Ég held að svarið hljóti að vera öllum ljóst. Þessi afskipti þjóna fyrst og fremst pólitískum tilgangi. Þau þjóna fyrst og fremst hagsmunum þeirra flokka sem eru við stjórnvölinn hverju sinni.

Menn gnísta hér tönnum yfir þeirri aflaskömmtun sem komið hefur verið á. Það er rétt eins og menn geri sér ekki grein fyrir því að þessi aflaskömmtun hlaut að koma fyrr eða síðar og nánast óháð því hvort aflinn minnkaði á Íslandsmiðum eða ekki. Aflasamdrátturinn varð til þess að flýta fyrir þessari aðgerð. Afskipti ríkisins af afkomu þessarar atvinnugreinar eru orðin svo ítarleg og alger að þau hlutu að enda með þessari aflaskömmtunarleið, einkum og sér í lagi þegar hugsað er til þess sem ég sagði áðan, að markmið afskiptanna er fyrst og fremst pólitískt. Það er pólitísk heill stjórnmálaafla sem mestu máli skiptir og þau stjórnmálaöfl sem nú stjórna máttu ekki til þess hugsa að skapa sér þá óvild sem hugsanlega hlytist af því að afkomu allra í þessari grein yrði ekki sem jöfnust. Skítt veri með heildarútkomuna.

Þeir réttlæta gerðir sínar með því að segjast vera að halda úti fullri atvinnu, en um leið verður að halda úti atvinnu sem ekki skilar arði nema á stöku stað. Og þeir halda úti atvinnu í grein sem er orðin ófær um að borga fólki mannsæmandi laun. Afskipti ríkisvaldsins byrja með verðákvörðun á aflanum. Síðan tekur ríkið það á sig að meta þennan afla og ákveða þannig í hvaða flokk fiskurinn fer og hver aflahlutur útgerðarmanna og sjómanna verður. Þegar í ljós kemur að það verð sem útgerðin þarf er of hátt til að fiskvinnslan geti borgað er hlaupið inn í sjóði sem notaðir eru til að bæta útgerðarmönnum upp verðið þannig að það verði ekki of hátt fyrir fiskvinnsluna. Þegar fiskvinnslan hefur lokið sínum störfum, þá sér ríkið um að meta og stimpla afurðirnar sem þaðan koma. Ríkið er líka hagsmunavörður fyrir söluaðila í útflutningi og endanlega getur ríkið fiktað í genginu til að reyna að draga úr áhrifum sem hugsanlega kunna að skapast af göllum á því kerfi sem þeir sjálfir eru búnir að koma upp. Ríkið stjórnar fjárfestingarlánum til þessarar atvinnugreinar. Ríkið stjórnar líka rekstrarlánum til þessara atvinnugreinar. Ríkið stjórnar enn fremur afurðalánum til þessarar greinar og getur síðan hlaupíð undir bagga þegar mikið er í húfi með einstökum fyrirtækjum með styrki eða lán í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að fyrirtækin verði fyrir barðinu á eigin vitleysu eða stjórnvalda. Aflaskömmtun eða kvótakerfi var ekkert annað en eðlileg afleiðing af þeirri þróun sem átt hefur sér stað hér á undanförnum áratugum, ekki bara í þessari atvinnugrein heldur líka öðrum.

Herra forseti. Ég hef tekið mér hér nokkurn tíma til að mála mynd af því stjórnarfari sem við búum við í dag, vegna þess að ég tel að þau fjárlög sem hér eru til umr. mótist fyrst og fremst af þessu stjórnarfari og þau breytist ekki til batnaðar fyrr en menn hafa tekið sér tak í breyttum vinnubrögðum. Ég álít að brýna nauðsyn beri til að hér fari fram umræða um hlutverk stjórnvalds og vinnubrögð, ekki síst þegar fjárlög eru til umr. Við Íslendingar erum að dragast aftur úr öðrum Vesturlandaþjóðum í kjörum og samkeppnisaðstöðu atvinnuvega og atvinnulífs. Ný tækni og nýjar atvinnugreinar, sem þegar eru orðnar áberandi stór hluti atvinnulífs á Vesturlöndum, eru hér enn á umræðustigi nánast. Við erum orðin tíu árum á eftir tímanum í þessum greinum. Ástæðu þessa tel ég ekki endilega vera sök eins stjórnmálaafls fremur öðrum, heldur fyrst og fremst þá að lýðræðið hefur staðnað hér á landi. Valdþjöppun hefur aukist í stað þess að annars staðar hefur dregið úr henni. Í þessu máli eru fjórflokkarnir samsekir og spurningin um hægri og vinstri er ekki spurning um annað en tvær hliðar á sömu mynd.

Niðurstaðan verður kölluð vísindaleg þegar endurteknar tilraunir gefa sömu útkomu. Ég held að þær tilraunir, sem hér hefur verið beitt, hafi endanlega gefið vísindalega niðurstöðu. Ég held að launahækkun, gengisfelling, skattahækkun og fjárbinding hafi verið reynd hér á Íslandi svo oft að það sé vísindalega sannað að þessi aðferð dugir ekki. Ég veit að pólitík er ekki vísindi. En reynslan er drjúg og ég held að reynslan sýni að virk afskipti stjórnvalds á Íslandi af efnahagslífi eru til ófarnaðar. Það verður að draga úr afskiptum ríkisvaldsins á sviði efnahagslífsins, en þar á ríkisvaldið eingöngu að skapa aðhald með eftirliti með því að leikreglum réttlætisins sé fylgt og láta þar við sitja. Þetta þýðir valdaafsal og þetta þýðir valddreifingu til sveitarfélaga og samtaka þeirra, til einstaklinga og samtaka þeirra. Þetta þýðir, hvað þetta frv. varðar, að maður verður að bera fram og ræða þá spurningu: Hvað er þetta eða hitt rn. að gera? Hver er árangurinn? Gefur árangur rn. ástæðu til að ætla að það skipti sköpum, hvort þetta ráðuneyti er til eða ekki? Ég spái því að ef menn færu á þennan hátt ofan í kjölinn á fjárlögum, þá leiddu niðurstöður slíkra umr. til þess t.d. að atvinnugreinaráðuneytin yrðu einfaldlega lögð niður. Ef sjóðirnir sem þeim tengjast yrðu síðan líka lagðir niður og innlánsbinding afnumin, þá þyrfti ríkið ekki lengur að stunda þá peningalegu fyrirgreiðslu sem það nú stundar og fyrst og fremst yrði reynt að reka íslenskt athafnalíf á eigin afla. Þetta þýðir líka, hvað þessi fjárlög varðar, að óheillavænlegasta atriðið í einkennum þess eru hinar sívaxandi erlendu lántökur.

Í stjórnmálaumræðum er því gjarnan haldið fram að skatta megi leggja á aðallega með þrennum hætti, þ.e. skatta á eignir, skatta á tekjur og skatta á neyslu. Og menn standa almennt í þeirri trú að flokkar skiptist hér jafnvel í þessu landi eftir hægri og vinstri í flokka sem vilja skattleggja eignir, flokka sem helst vilja skattleggja tekjur og flokka sem helst vilja skattleggja neyslu. Það er reyndar í dag orðin nokkuð almenn samstaða á meðal flestra flokka um það að draga úr skattlagningu á tekjur.

Ef lesnir eru allir liðir tekjuhliðar fjárlaga, þá kemur eitt og annað í ljós. Skattar og gjöld sem ríkið innheimtir eru að tölu til rúmlega 80. Ef við getum orðið í þessari umr. sammála um að tvískipta skatttegundum í stað þess að þrískipta þeim, þ.e. greina þá einungis í sundur í skatta sem lagðir eru á tekjur og skatta sem lagðir eru á neyslu, á þeirri forsendu að eignarskattar leiti alltaf með einhverjum hætti út í verðlag og þá megi þannig flokka sem neysluskatta, þá getum við sagt að meiri hluti þessara rúmlega 80 skatta og gjalda sem við þurfum að borga sé neysluskattar. Það er þess vegna tómt mál að tala um að það ríki einhver pólitískur ágreiningur um það hvort hér eigi að vera tekjusköttun eða neyslusköttun. Eignarskattar, a.m.k. félaga og fyrirtækja, leita auðvitað beint út í verðlag. Tekjuskattar einstaklinga leita á þann hátt út í verðlag að þeir auka þrýsting í kaupkröfum. Skattar á innlánsstofnanir, gjald til Framkvæmdasjóðs aldraðra og sjúkratryggingagjald, allt eru þetta gjöld sem neytendur með einum eða öðrum hætti verða að borga. Sama gildir um öll gjöld á innflutning, að ég tala nú ekki um söluskattinn sjálfan.

Skattar á launagreiðslum eru líka skattar eða gjöld sem neytandi þeirrar framleiðslu eða söluvöru, sem um ræðir hverju sinni, verður að taka þátt í að greiða. Vörugjald og skemmtanaskattur, sérleyfisgjöld, flugvallaskattur, skattar af bifreiðum, stimpilgjöld, skráningargjöld. skoðunargjöld, einkaleyfisgjald, raforkuskattar, allt eru þetta skattar sem leita beint út í neyslu, þ.e. út í verðlag. Meira að segja arðgreiðslur frá fyrirtækjum og sjóðum ríkisins eru að hluta til fengnar úr neyslu að því leyti sem um er að ræða þjónustu eða framleiðslu sem er seld. Það eru aðeins örfáir skattar eða örfá gjöld sem ekki leita út í verðlag og verða þannig að beinum sköttum óyggjandi. Þar má nefna tekjuskatt á lögaðila eða fyrirtæki af því að hann er tekinn af hagnaði og því ekki hægt að velta honum út í verðlag. Það eru líka til tekjur af sölu varnarliðseigna. Það er álgjaldið. Það eru tekjur frá Alþjóðaflugmálasambandinu. Það er útflutningsgjald af sjávarafurðum. Og það eru sektir af upptækum vörum til ríkissjóðs.

Af lestri þessa lista er greinilegt að meginreglan í sköttun ríkisins er neyslusköttun. Það nægir einfaldlega að nefna að innflutningsgjöld og sölugjald gera samanlagt meira en helming af tekjum ríkisins. Það er mjög athyglisvert að bera saman í þessum langa lista annars vegar dálk sem heitir „ýmsir óbeinir skattar“ með hartnær 20 liðum og gerir um 6% af tekjum ríkisins og síðan að horfa á tekjur ríkisins af beinni þátttöku þess í atvinnulífi eða umsvifum þess í atvinnulífi. Öll bein umsvif ríkisins í atvinnulífi skila því í tekjum innan við 1% af tekjum ríkisins. M.ö.o., breyting á þessu hefði svo til engin áhrif á afkomu ríkissjóðs tekjulega. En ég vil benda á að í tengslum við þessi umsvif eru bundnar miklar eignir. Menn þurfa ekki annað en fara í ríkisreikning, sem nú kom á borð manna í dag, til þess að átta sig á því.

Það getur vel verið að hreyfingar á tekjusköttum hafi einhver áhrif á afkomu einstaklinga, en það er líka augljóst að hreyfingar á því sviði þurfa að verða allverulega miklar til að raunverulega skipti sköpum í tekjum ríkissjóðs, eða m.ö.o. að það breytir litlu um þá hugmyndafræði sem að baki tekjuöfluninni býr. Þess vegna held ég að það hefði verið miklu farsælla að fara þá leið að draga miklu meira úr neyslusköttum og þá hugsa ég sérstaklega til innflutningsgjalda.

Með leyfi hæstv. forseta vildi ég mega vitna hér til ummæla tveggja einstaklinga sem þátt tóku í spástefnu Stjórnunarfélagsins í vikunni sem leið. Þessir menn voru þar að ræða stjórn ríkisins á efnahagslífi Íslendinga og felldu um það dóma sem að mínu mati eru býsna harkalegir. Jónas Haralz bankastjóri komst þannig að orði að það sem hafi einkennt þróunina á undanförnu einu og hálfu ári hafi verið að menn treystu sér ekki til að taka á málunum í heild. Þá á hann bæði við vandamálin og málaflokkana. Hann sagði að á launamálum hefði verið tekið á þann veg að skera vísitölubindinguna af og að launþegasamtökin hafi með vissum undantekningum tekið þeirri aðgerð með skilningi eins og fram hafi komið bæði haustið 1983 og aftur í samningunum s.l. vor. En samhliða þessu hafi hvorki fjármálin né peningamálin verið tekin þeim tökum sem þurfti og þurft hefðu að fylgja í kjölfar þeirrar aðgerðar sem við öll þekkjum.

Hann minnti á hlutverk þeirra aðila í efnahagslífi sem aldrei koma nema óbeint inn í umr. þegar rætt er um fjárlög á Alþingi, þ.e. fjárfestingarsjóðina og lífeyrissjóðina sem hafa aukið útlán sín mjög mikið og sumpart undir þrýstingi frá ríkisstj. Það má minna á að ríkisstj. hefur sífellt verið að þrýsta æ meir á lífeyrissjóðina hvað skuldbindingar þeirra gagnvart húsnæðislánamálum snertir. Sú þensla sem þetta veldur á peningamarkaði stafar ekki hvað síst frá athafnasemi þessara sjóða.

Hann benti líka á eigendatök á bankakerfinu. Annars vegar væru ríkisbankar sem fyrirskipað væri að starfa með ákveðnum hætti, þ.e. tryggja lánveitingar til atvinnulífs vítt og breitt um landið, kannske oft og tíðum án þess að mega taka tillit til arðsemi. Hins vegar sjálfstæðir bankar óháðir ríkisvaldi, sem ættu þar með auðveldara með að láta sjónarmið hagkvæmninnar ráða gerðum sínum.

Jónas sagði líka hvað varðaði breytta tekjuskiptingu í þjóðfélaginu, sem mikið væri rætt um nú sem endranær, að viss öfl væru hér að verki sem yllu því að engum ráðum yrði við komið til að koma á breyttri tekjuskiptingu. Stjórnvöld og verkalýðshreyfing séu þess ekki megnug. Ef horft er á hvaða aðila bankastjórinn tilnefnir hér sem vanmegnuga, þá fer ekkert á milli mála að hann beinir þessum orðum sínum til Vinnuveitendasambandsins og höfðar til áhrifa þess í augnablikinu sem samþjappaðar fylkingar.

Jónas Haralz er ekki í vafa um að flestir sjái þann vanda sem við er að etja. Hins vegar telur hann afar ólíklegt að þær nauðsynlegu ákvarðanir sem þurfi að taka verði teknar af þeim stofnunum og því skipulagi sem við búum við. Líklegast sé að við stöndum því frammi fyrir miklum og vaxandi erfiðleikum.

Hæstv. fjmrh. hefur kvartað yfir því að það sem ég segi hér í þessum ræðustól sé ómerkilegt og illskiljanlegt. Það sem ég hef verið að segja hér í þessum ræðustól undanfarið eitt og hálft ár er í stórum dráttum nokkuð samhljóma því sem ég hef haft hér eftir bankastjóra Landsbankans, Jónasi Haralz. Það á einkum við um þá niðurstöðu sem hann kemst að, að við eigum ekki neinna breytinga að vænta af þeim stofnunum og því skipulagi sem við búum við og líklegast sé því að við stöndum frammi fyrir miklum og vaxandi erfiðleikum. Jónas Haralz telur m.ö.o. að það verði ekki ráðið við vandann öðruvísi en breytt sé um stofnanir og skipulag til að ráða við hann.

Hagfræðingur Vinnuveitendasambands Íslands, Vilhjálmur Egilsson talaði líka á þessari sömu spástefnu. Hann gagnrýndi annars vegar þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa haft uppi hingað til og þá kannske sérstaklega þann skort á aðgerðum sem hann taldi vera um að ræða, og var þar í raun sammála bankastjóranum Jónasi Haralz á þann veg að ein aðgerð hafi ekki verið nægjanleg, heldur hefðu þurft að fylgja víðtækari aðgerðir til þess að stefna þessarar ríkisstj. næði árangri, ef um stefnu er hægt að ræða þegar menn hegða sér ekki í samræmi við þann árangur sem þeir ætla að ná. Og hann segir:

„Stjórnvöld verða að rífa í sundur þau drög að lánsfjáráætlun sem nú eru rétt ólögð fram. Það verður að skera út allar viðbótarlántökur erlendis og fjárlög verður að afgreiða hallalaus. Til þess að ná tökum á peningamálum verður að koma í veg fyrir að viðskiptabankarnir geti fjármagnað útlánaaukningu með því að bæta við yfirdrátt sinn hjá Seðlabankanum eða með því að slá skammtímalán í erlendum bönkum. Þetta gæti kostað byltingu í bankakerfinu að koma svona breytingum í gegn, en þær eru nauðsynlegar til þess að gengisfellingar renni ekki út í sandinn.“

Ég er ekki hér með að fullyrða að ég sé þessum sérfræðingi í öllu sammála. En ég held að því verði þó ekki á móti mælt að þessi maður er að tala um það sem ég reyndar hef verið hér að reyna að tala um, þ.e. að það nægi ekki yfirlýsingar og orð, það verði að koma til allt önnur vinnubrögð til að ná árangri.

Hæstv. forseti. Ég vildi einnig mega vitna hér með leyfi í orð hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar við umr. í Ed. þann 12. des. Þar sagði hv. þm.:

„Það hefur verið svo, nú hátt á annan áratug, að samhliða gengisfellingum hafa stjórnvöld alltaf fundið upp á því snjallræði að hækka vöruverð með nýjum skattaálögum til þess að keyra verðbólguna enn þá hraðar upp á við. Væntanlega hefur það þó ekki verið tilgangurinn heldur hitt að bjarga þeirri skepnu sem alltaf á fyrst að fóðra, þ.e. ríkissjóðnum, við halla. Þetta hafa verið kennisetningar, sem sérstakir sérfræðingar allra ríkisstjórna um langt skeið hafa haldið mjög á loft, að í baráttunni við verðbólguna ríði á því fyrst og síðast að tryggja að ríkið yrði rekið með greiðsluafgangi eða a.m.k. hallalaust þó að það hafi reyndar aldrei orðið vegna þess að það hafa alltaf verið fölsuð fjárlögin, fundið upp á að setja lánsfjáráætlanir og sérlög um alla skapaða hluti og gera fjárlögin aldrei upp með réttum hætti. Það er ekki heldur gert nú, eins og birtist raunar í fjárlagafrv., þar sem reiknireglur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eru sýndar. Þar sést að þetta er allt saman sýndarmennska með þennan hallalausa ríkissjóð.“

„Í annan stað,“ segir hv. þm., „hefur sú speki verið við lýði núna á annan áratug að brýna nauðsyn beri til að frysta sem mest af sparifé landsmanna. Það væri líka leiðin til að ráða við verðbólguna að hafa helst enga peninga í umferð nema þá á svartamarkaði eða þá að taka þá í geymslu til bráðabirgða og úthluta þeim svo eftir geðþótta stjórnvalda og aldeilis ekki alltaf til arðvænlegra hluta eða þeirra arðvænlegustu. Af þessu súpum við nú seyðið og höfum sopið.“

Þetta sagði hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson og reyndar miklu fleira sem áhugavert var að hlýða á. Kannske var áhugaverðast að hlýða á það sem hann benti á sem leið til lausnar er væri önnur en þær sem farnar hefðu verið. Hann sagði, með leyfi hæstv. forseta:

„Þess vegna hef ég haldið því fram að undir þeim kringumstæðum sem við búum við núna síðustu 2–3 árin, þar sem tekjur hafa rýrnað svo mjög, er meginástæða til að lækka þá neysluskatta sem leggjast með gífurlegum þunga á lágtekjufólkið.“

Hv. þm. er hér að höfða til þess að meiri hluti allra skatta, sem lagðir eru á af ríkinu, eru í raun og veru neysluskattar. Það eru fyrst söluskattur og tollar, sem gera meira en helminginn af tekjum ríkissjóðs, og síðan ótal smágjöld sem lögð eru á ýmiss konar verslun og þjónustu og leita öll út í verðlag sömu verslunar og sömu þjónustu. Þegar upp er staðið eru því þau gjöld teljandi á fingrum annarrar handar sem ekki renna beint út í verðlag og þannig séð er íslenska ríkið rekið að 9/10 hlutum til á neysluskattheimtu.

Hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson sagði:

„Leiðin til að draga úr eftirspurn eftir peningum er ekki að loka þá inni í læstum hirslum, það eykur eftirspurnina, heldur er leiðin sú að ríkisvaldið stuðli að lækkun tilkostnaðar í framleiðslu og framfærslu fyrir sitt leyti og skapi þannig minni eftirspurn eftir peningum.“

Í þessari sömu umr. þennan sama dag talaði hæstv. fjmrh. Albert Guðmundsson eða a.m.k. leit sá maður nákvæmlega út eins og tvífari hans sem þar talaði. Ég er ekki alveg viss um að það hafi verið sami maðurinn því að það sem hann sagði stóð í það mikilli þversögn við gerðir hans að það er mjög erfitt fyrir mig, sem er af kóka kóla- og prins póló-kynslóðinni, að fá það til að ríma saman. Það verkar alltaf mjög undarlega á þessa kynslóð okkar sem ólumst upp á kóka kóla og prins póló þegar menn segja eitt og gera annað. Það kann að vera að það verki líka undarlega á fleiri kynslóðir, ég get bara talað fyrir mína. Hæstv. fjmrh. eða þessi tvífari hans, sem talaði í hv. Ed. þann 12. þessa mánaðar sagði, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég vil taka undir það að binding bankanna, og ég hef margoft sagt það, á fé landsmanna er röng. Tek ég sem dæmi að ef verkfæri eru tekin af iðnaðarmanni vinnur hann ekki verkið. Ef peningarnir eru teknir af fólkinu vinna þeir ekki fyrir þjóðina. Ef binding er á peningunum hægra megin“ — ég veit nú ekki hvers vegna hann vildi endilega binda peningana hægra megin — „en peningarnir leka út á enn þá dýrari vöxtum og enn þá dýrari hátt vinstra megin, þá er það röng ráðstöfun,“ sagði hæstv. fjmrh.

Nú veit ég ekki betur en að þessi sami hæstv. ráðh. sé búinn að vera á annað ár í ríkisstj. sem hefur nokkurn veginn nákvæmlega verið að gera þetta sem hann telur alrangt. Síðan segir hæstv. fjmrh.:

„Gengislækkanir eru ekki leið út úr vanda. Auknar álögur eru ekki leiðin. Fjárlög hafa ekki verið rétt kynnt og ég held að það sé kominn tími til að taka upp þann hátt sem kynntur er í fjárlögum núna þannig að á einum og sama stað sjáist vandinn allur.“

Svo mörg voru þau orð. Gengislækkanir eru ekki leiðin út úr vandanum, segir hann. Auknar álögur eru ekki leiðin út úr vandanum. Þessi ríkisstj., sem nú situr, er tvisvar sinnum á minna en tveimur árum búin að fella gengið. Hún hefur aukið álögur á fólk, núna síðast með því að hækka neysluskatt og þar áður með því að flytja skattheimtu frá ríkissjóði yfir til sveitarfélaga. Það þýðir ekkert fyrir hæstv. fjmrh. að koma hér og segja: „Við höfum ekki aukið skattheimtu.“ Það er ekki rétt. Ríkið getur dregið úr skattheimtu sinni á sama tíma og það stendur ekki við skuldbindingar sínar gagnvart sveitarfélögunum, sem þýðir þá aftur að sveitarfélögin verða að hækka sínar tekjur eða auka sína skattheimtu. Þar með stuðlar ríkisstj. að aukinni skattheimtu, að hækkun gjalda.

Að lokum sagði hæstv. fjmrh., eða sá maður sem líktist honum svo mjög, í hv. Ed. þann 12. des. — og nú bið ég menn að taka vel eftir því að þessi orð komu mér og kannske öðrum hvað kynlegast fyrir eyru:

„Þær leiðir sem við höfum farið hingað til til lausnar á þeim þjóðfélagsvanda sem við höfum glímt við um nokkuð langan tíma eru augljóslega rangar, en við höldum áfram, við notum sömu gömlu meðulin til að komast út úr sams konar vanda sem við komum okkur í nokkuð reglulega.“

Þessi sami maður, þessi sami einstaklingur, hæstv. fjmrh., kemur svo hér í ræðustól hvað eftir annað og þykist koma af fjöllum þegar hann heyrir mig og aðra Bandalagsmenn gagnrýna stjórnkerfið, gagnrýna vinnubrögðin, aðferðirnar og tækin sem notuð eru til að ráða bug á vandanum, þ.e. tækin sem notuð eru í þeim yfirlýsta tilgangi að ráða bug á vandanum en duga ekki til. Hvar er þá ágreiningurinn milli mín og hæstv. fjmrh.? Hann segir: Leiðirnar sem við höfum farið til lausnar í nokkuð langan tíma eru alveg augljóslega rangar. En við höldum áfram, við notum sömu gömlu meðulin til þess að komast út úr sams konar vanda sem við komum okkur í nokkuð reglulega.

Er hæstv. fjmrh. ekki að segja að við þurfum önnur meðul? Er hann ekki að segja að við þurfum önnur stjórntæki? Er hann kannske að segja að við þurfum aðra stjórn? Hann er svo mörgum sinnum búinn að lýsa því yfir að hann fari frá ef þetta eða hitt gerist og þykist svo ekkert skilja þegar hann er spurður að því hvers vegna hann sé ekki fyrir löngu farinn frá þegar þetta eða hitt hefur gerst. Er hann kannske hér að boða að við þurfum aðra stjórn, nýja stjórn? Hvar er ágreiningurinn milli mín og hæstv. fjmrh.? Ég held reyndar að hann sé nokkuð augljós. Munurinn á okkur er sá að hæstv. fjmrh. situr í ríkisstj. en ég ekki. Hæstv. fjmrh. situr í ríkisstj. og allt sem hann gerir er honum sjálfum á móti skapi. Þau frv. sem hann flytur, þau frv. sem hann styður, allt er þetta honum á móti skapi. Hann situr í ríkisstj. sem hann sjálfur er á móti. Hann er á móti forsrh. og hann er á móti ríkisstj. og þegar hann á að flytja frv. hérna þá er það þungum skrefum sem hann stígur í pontu.

Hæstv. fjmrh. er að mörgu leyti dálítið sérstök persóna í íslenskum stjórnmálum. Ef dregnar væru niðurstöður af hegðun hans undanfarin ár, þ.e. þau ár sem hann hefur setið á þingi eða verið viðriðinn ríkisstj., þá er niðurstaðan þessi: Hæstv. núv. fjmrh. styður ríkisstjórnir sem hann er ekki í en hann er á móti þeim ríkisstjórnum sem hann situr í. Ég spurði áðan hvað það væri sem greindi á milli okkar eða hver 2375 Sþ. 20. des. 1984 ágreiningurinn milli mín og hæstv. fjmrh. væri þegar það er augljóst að hann er líka þeirrar skoðunar að það þurfi önnur meðul til að koma okkur út úr þeim vanda sem við búum við í dag. — Jú, ágreiningur okkar felst í því að hann er í ríkisstj. sem hann er á móti. Ég mundi aldrei sitja í ríkisstj. sem ég væri á móti.