20.12.1984
Sameinað þing: 38. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2380 í B-deild Alþingistíðinda. (1858)

1. mál, fjárlög 1985

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Vissulega kæmi til greina að ræða hér um fjárlagafrv. allítarlega og þá ekki síður um lánsfjáráætlunina sem nú hefur verið lögð fram þótt seint sé. Og af nógu er að taka í þessum efnum. En þar sem ég vil stuðla að því að þessar umr. teygist ekki um of en verði lokið nú fyrir kvöldmatinn svo að atkvæðagreiðsla geti farið fram í kvöld, þá mun ég hér einungis ræða um tillögur þær sem ég er 1. flm. að á þskj. 373 og öðru þskj. sem virðist ekki bera neina tölu á þeim pappír sem ég hef hér fyrir framan mig.

Ég vil minna á að við 2. umr. bárum við sex Alþb.menn fram tillögur um tekjuöflun í ríkissjóð, um aukna skatta á skrifstofu- og verslunarhúsnæði, aukinn tekjuskatt félaga og skatt á innlánsstofnanir. Samtals nemur þessi aukna tekjuöflun um 370 millj. kr. Sú upphæð er nærri lagi og þó vel rúmlega sem nemur þeim útgjaldatillögum sem við Alþb.-menn leggjum fram nú við 3. umr.

Ég ætla ekki að nefna hér tillögur þær sem við drógum til baka við 2. umr. og koma hér til atkvæða við 3. umr. en einungis láta þess getið að till. okkar um Lánasjóð ísl. námsmanna er öllu ítarlegri en hún var við 2. umr. Þá kom B-hluti fjárlaganna ekki til atkvæðagreiðslu og því var þar ekki um að ræða að greidd væru atkvæði um einstök atriði í B-hluta fjárlaganna. Við bentum á það við þá umr. að munurinn á tillögum fjmrn. og menntmrn. í fjárlagafrv. varðandi Lánasjóðinn og svo aftur á tekju- eða fjárþörf sjóðsins frá sjónarmiði stjórnar Lánasjóðsins væri 380 millj. kr. Ég færði rök að því að hugsanlegt væri að 280 millj. kr. dygðu í þessu sambandi ef fjölgun lánþega reyndist nær því lagi sem fjmrn. hefur spáð en ekki í þeim mæli sem stjórn Lánasjóðs á von á og verðbólga verður verulega minni en ríkisstj. virðist nú reyndar gera ráð fyrir. Þetta eru þær tvær forsendur sem vissulega má deila um og teygja í ýmsar áttir og sést ekki fyrir endann á hver útkoman verður fyrr en að mörgum mánuðum liðnum. Því gæti að okkar áliti dugað að útvega sjóðnum á þessu stigi 280–300 millj. kr., en ljóst er að sú upphæð, sem fjvn. gerir nú till. um, þ.e. að bætt verði við Lánasjóðinn 187 millj. kr., er alls ófullnægjandi og hlýtur að setja Lánasjóðinn í verulegan vanda. Við flytjum sem sagt till. um það hér í samræmi við málflutning okkar við 2. umr. að sjóðnum verði heimiluð lántaka upp á 150 millj. kr.

Ég þarf ekki að orðlengja það að hér er um stórmál að ræða og hér er ekki um að ræða styrki í þágu námsmanna, heldur lán sem þeir endurgreiða sjálfir. Það nær ekki nokkurri átt að á þeim tímum þegar almennt er talin þörf á því að auka menntun ungu kynslóðarinnar og við reynum að sækja fram á sviði atvinnumála í krafti aukinnar þekkingar og menntunar sé skorið stórlega niður það fjármagn sem námsmenn eiga kost á að fá að láni til að geta stundað nám. En eins og frv. lítur út eftir að till. fjvn. hefur verið samþykkt nú við 3. umr., þá er fjárhagsstaða Lánasjóðs ísl. námsmanna í mikilli kreppu enn um hríð. Svo má ekki vera. Þess vegna er þessi till. flutt.

Að lokum, virðulegi forseti, vil ég minna á till. sem við flytjum, hv. þm. Guðrún Helgadóttir og ég, og felur í sér að í staðinn fyrir 8 millj. kr. framlag til Kvikmyndasjóðs komi 30 millj. kr. framlag. Ég minni á í þessu sambandi að Alþingi samþykkti á s.l. vori, að því er mig minnir nokkuð einróma, breytingar á lögum um Kvikmyndasjóð. Í þeim nýju lögum var gert ráð fyrir því að tekjur til Kvikmyndasjóðsins yrðu verulega auknar til stuðnings innlendri kvikmyndagerð. En svo bregður við nú á haustmánuðum að tillaga er gerð um framlag í Kvikmyndasjóð eins og þessi lög hefðu aldrei verið samþykkt, aldrei komið hér til atkvæða.

Hér er um reginhneyksli að ræða. Ég viðurkenni að oft hefur til þess komið að Alþingi hafi skorið niður lögbundin framlög til einstakra sjóða og sjálfur hef ég oft tekið þátt í því. Það hefur yfirleitt verið gert með svokölluðum lánsfjárlögum. En þar hefur yfirleitt verið um einhverja lækkun á lögbundnum framlögum að ræða en ekki það að menn bara strikuðu með einum stórum krossi yfir lagasetningu sem Alþingi hefur staðið að fyrir örfáum mánuðum síðan og það núv. stjórnarmeirihluti. Þetta hefur aldrei gerst áður, um það vil ég fullvissa ykkur. Ég kannast við það að framlög til ýmissa sjóða hafi verið skorin niður. En að áform Alþingis um aukningu til einstakra málefna hafi verið skorin niður í núll, það þekki ég ekkert dæmi um.

Ég skírskota hér til réttlætistilfinningar þm. sem í fyrra töldu nauðsynlegt að hækka framlög til íslenskrar kvikmyndagerðar upp í 30 millj. kr. Ég mundi feginn semja um að hér yrði um eitthvað lægri upphæð að ræða ef einhver samningsflötur væri á þessu máli. En að skera framlagið niður í það sem það áður var get ég ekki samþykkt, það get ég ekki sætt mig við og tel einhverja mestu fjarstæðu sem fyrirfinnst í þessu fjárlagafrv. og er þar þó af mörgu að taka.