30.01.1985
Neðri deild: 37. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2493 í B-deild Alþingistíðinda. (1978)

Fundarsókn þingmanna

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Virðulegur forseti óskaði þeim alls hins besta sem mættir væru til þings og einnig starfsfólki þingsins, en sendi engar kveðjur til þeirra sem höfðu beðið um fjarvistarleyfi. Ekki veit ég hvort hugur fylgdi máli, en það vekur athygli að í dag eru ellefu fjarverandi, einn með veikindaforföll.

Þetta er meira en 1/4 af starfsmönnum deildarinnar og hlýtur að koma mjög niður á öllu nefndastarfi þar sem nánast helmingurinn í sumum n. þingsins er fjarverandi án þess að hafa kallað inn fyrir sig varamenn. Ég vil mótmæla því að þau vinnubrögð séu liðin að menn séu erlendis án þess að varamenn séu kallaðir inn til starfa, allt upp í viku fjarvistir. Ég vil spyrja hæstv. forseta hversu langur sá listi þurfi að vera til þess að forsetar leiði hugann að því hvort það geti verið um eðlilegt ástand að ræða. Í þeirri stétt sem ég hef nú lengst af verið í, kennarastéttinni, hygg ég að það kæmi hik á flesta sem fengjust við kennslu þegar mannfallið væri orðið 1/4. (GJG: Eða fjallkóngar.)