31.01.1985
Sameinað þing: 42. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2555 í B-deild Alþingistíðinda. (2026)

Umræður utan dagskrár

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég skal reyna að stytta mál mitt. En af því sem fyrirspurnum hefur verið beint til mín, þá sé ég mér nauðugan einn kost að standa hér upp enn á ný. En það verður að ætlast til þess af hv. þm., sem vilja vera að taka þátt í umr. ítrekað um mikilsverð mál, að þeir fylgist þá með því sem fram fer. Ef hv. 3. þm. Reykv. hefði gert það, þá hefði hann getað sparað sér miklar vangaveltur og hneykslan yfir því að það væri iðnrh. sem mundi taka rannsóknarniðurstöðurnar, og meta, af því sem ég var búinn að lýsa því hvaða vinnubrögð hlytu að verða höfð í frammi þegar þær lægju fyrir, með þeim hætti að óvilhallir menn, vísindamenn og þá helst kannske af öðrum löndum, yrðu fengnir til að meta þessar niðurstöður.

Það er von að tími hins háa Alþingis fari fyrir lítið þegar svona umræður eiga sér stað, þar sem beitt er ítrekuðum útúrsnúningum. Og svo búa menn sér til málsástæður þvert ofan í það sem búið er að upplýsa í málinu.

Hv. 3. þm. Reykv. gerðist hálf óttasleginn við frumhlaup sitt í fyrri ræðu sinni, þess efnis að nú hlyti Náttúruverndarráð að leita til dómstóla, nú hlyti málinu að verða hleypt í bál og brand, og finnur þess vegna út í síðari ræðu sinni að hann hafi skilið mig svo að ég væri að vísa Náttúruverndarráði á dómstóla. Hann fór ýmsum orðum um lögfræðiskýringar og álit. Ég tek ekkert frekar þátt í þeim. Ég lýsti hér nákvæmlega í upphafi máls míns hvernig lagaákvæði lægju fyrir og túlkun þeirra af minni hálfu og minna ráðgjafa og þarf engu við það að bæta. Hv. þm. vitnaði til þess í grg. með lögunum frá 1974 hvað Gaukur Jörundarson hefði sagt um hvert valdsvið slíkra laga gæti verið o.s.frv., o.s.frv. í það óendanlega, spekúlasjónir og vangaveltur lögskýrandans og prófessorsins. En öll sú upprifjun hefur ekkert gildi í þessu sambandi.

Ég tók fram að hafa þyrfti í huga að ágreiningur rís um valdsvið vegna mannvirkjagerðar og jarðrasks á svæðinu sjálfu ef Náttúruverndarráð telur ástæðu til að hafa áhrif á einhverjar framkvæmdir Kísiliðjunnar og er slíkur ágreiningur rn. og útgáfu þessa leyfis ekki beint viðkomandi, eins og menn geta skilið.

Hv. 4. landsk. þm. taldi að við stæðum í nákvæmlega sömu sporum, þrátt fyrir það að nú sé loksins séð fyrir verulegu fjármagni og vonandi nægjanlegu til þess að hefja þær grundvallarrannsóknir á áhrifum starfrækslu Kísiliðjunnar sem svo óforsvaranlega lengi hafa dregist úr hömlu. Hv. þm. hefur þá ekki fengið öll plögg sem að þessu lúta eða ekki mátt vera að því á þessum skamma tíma að kynna sér þau. Í 5. lið leyfisveitingarinnar er rætt um það endurgjald sem Kísiliðjan skal greiða árlega í ríkissjóð. Síðan eru tilgreind viðurlög ef það er ekki greitt, ákvæði um að það skuli renna til rannsóknanna og jafnmikið af hálfu hins opinbera og síðan er tekið fram að iðnrh. sé heimilt að afturkalla leyfið án frekari fyrirvara verði ítrekað gjaldfall á greiðslu.

Allt er þetta hér eins niðurnjörvað og hugsast getur þannig að fjármagn til þessara rannsókna er tryggt. Það sem ég sagði hér, hvort sem menn nenna nú að hlusta á það sem sagt er og meðtaka þau orð, var að ég hefði breytt því í leyfisveitingunni þar sem áður var talað um að þetta fjármagn, sem er gengistryggt á þriðju millj. á ári, greitt mánaðarlega og nemur 188 þús. kr. á mánuði nokkurn veginn nákvæmlega, ég breytti því sem tiltekið var að það mundi verða í fjögur ár og hef það jafnlangt leyfisveitingunni, ef hún stendur í 15 ár eða hvað sem hún nú stendur. En það kann að vera að á þessum tíma og vonandi innan 3–4 ára verði búið að rannsaka áhrif Kísiliðjunnar. Ef þau þykja ekki slík að óhætt sé að halda þarna áfram, þá heldur samt áfram fjárveitingin með þessum hætti til rannsókna við Mývatn, bæði að fylgjast áfram með gúrnáminu og til annarra þarfa, sem ekki mun af veita í rannsóknum á þessu mikilvæga svæði. Þetta er því auðvitað fullyrðing sem enga stoð á sem þarna er komin fram. Og mér blöskraði satt að segja fullyrðing á þá vísu, að við sem mælt höfum með þessari málafylgju og þessari afgreiðslu teldum gúrnám af hinu góða. Ég hef alveg frá upphafi verið í miklum vafa um að það væri.

Svo einkennilega vildi til að ég var hér staddur sem varaþm. árið 1965 þegar verið var að greiða atkv. um stofnun og byggingu þessa mannvirkis. Ég var í mjög miklum vafa. Og það er vegna þess að ég hef alla tíð verið ákafur unnandi náttúruverndar, þótt hv. 3. þm. Reykv. álíti nú að öðruvísi væri innréttingin mín, og hef raunar borið fram tillögur um náttúruvernd á hinu háa Alþingi fyrir margt löngu og viljað í hvívetna styrkja allt starf sem að því lýtur og hef raunar gert það í þeim stofnunum þar sem ég hef haft tök á. Það má kannske spyrja Pétur M. Jónasson prófessor um afstöðu mína og athafnir í því sambandi. Og nenni ég nú ekki að víkja frekar að hv. 3. þm. Reykv. sem var gráti nær eins og vant er yfir því að ég skyldi vera að hnýta í Þjóðviljann, málgagn Alþb.

Þá vík ég að fsp. sem hv. 11. þm. Reykv., Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, bar fram. Að vísu hafa svör við þeim fsp. margbirst í máli mínu. En spurt er hvernig á því standi að það þurfi þessa fljótaskrift, eins og menn eru alltaf að tala um, hvernig á því standi að fyrirtækið skuli þurfa að hafa fast undir fótum vegna starfrækslu sinnar, af hverju megi ekki gefa leyfið í örskamman tíma. Má ég minna menn á hverjir þeir hagsmunir eru líka sem mér til að mynda ber að gæta. Það eru hagsmunir fjölda manna sem hafa lífsframfæri sitt af starfrækslu þessa fyrirtækis. Það eru hagsmunir þeirra sem eru að koma sér fyrir á svæðinu og hafa fjárfest þar stórfelldlega til þess að sjá sér og sínum farborða. Það eru hagsmunir fyrirtækisins sem þarf að fjárfesta árlega miðað við það að starfrækslan verði um lengra árabil. Öll vitum við að það eru takmörk fyrir því sem hún getur starfað. Eftir rannsóknum getur hún lengst starfað 16 ár vegna námunnar í Ytri-Flóa og 54 ár ef allur syðri-Flói er undirlagður. Ég held að ég muni þessar tölur rétt.

Það þarf árlega að taka ákvarðanir um stórfelldar fjárfestingar á svæðinu. Þetta eru mikil umsvif og það eru miklar tekjur sem fólk, sem vinnur þar, hefur af þessu. Og það eru miklar gjaldeyristekjur af þessu. Svo geta menn vísað því á mig að ég stundi ekkert nema stundargróða og vilji fórna öllu fyrir stundargróða, náttúru landsins og lífríki, sjálfsagt sjálfstæði þess og fullveldi. Og þetta er allt saman kallað að tala yfirvegað og af kurteisi, en mín svör öll kölluð hrottafengnar dylgjur og dónaskapur.

Ég held að ég hafi svarað því hvers vegna leyfið er gefið til 15 ára en ekki 5 ára. Ég tók það fram að ein ástæðan fyrir því að leyfisveitingin varð hæst til 15 ára en ekki 20 er sú, að náman í Ytri-Flóa endist í 16–17 ár. Það var eitt af því sem réði niðurstöðu minni. Og vísindamenn, sem ég vísa á bug að ég hafi verið að gera lítið úr hér, og spyr bara um ákveðnar tilvitnanir í þá en ekki stöðugar fullyrðingar um svívirðingar mínar í þeirra garð, þeir segja mér að rannsóknin þurfi sjálfsagt ekki að standa nema í þrjú ár. Innan fjögurra ára a.m.k. eiga niðurstöður að vera fengnar. Er mönnum þetta ekki nægjanlegt? Er ekki siglt fyrir öll sker um þá hættu sem kann af þessu að stafa? Ég vísa á bug ásökunum um það að ég hafi staðið fyrir því að óbætanleg hervirki hafi verið unnin fram til þessa dags á lífríki Mývatns. Ég vísa því á bug. Það hafa setið hér stjórnir í landinu í 18 ár af þessum 20, sem leyfi hafa staðið, og þær hafa ekki séð neina ástæðu til að rifta eða afturkalla það leyfi sem þarna hefur gilt.

Ég hef ekki haft nein tök á því fyrr en nú að kynna mér stöðu mála norður þar frá því um mitt síðasta ár er beiðni um framlengingu leyfisins barst. Ég hef eftir öllum ástæðum reynt að kynna mér þessar aðstæður og ég hef lagt mig fram um að ná fram þeirri stöðu málsins sem ég trúi ekki annað en að hlutaðeigendur við Mývatn norður geti vel sætt sig við.

Ég taldi það skyldu mína vegna fyrirtækisins og vegna hins stórkostlega lífríkis að halda svona á þessum málum. Þegar ég gáði til allra hluta sem mér ber að gera, þá var þetta niðurstaða mín eftir bestu samvisku. Svo er mönnum sjálfrátt að halda áfram að ausa yfir mig svívirðingum um það að ég skeyti ekkert um lífríki Íslands og vilji öllu til kosta og sé tilbúinn að selja sálu mína og landsins fyrir stundargróða.