04.02.1985
Efri deild: 40. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2581 í B-deild Alþingistíðinda. (2050)

247. mál, flutningsjöfnunarsjóður olíu og bensíns

Árni Johnsen:

Hæstv. forseti. Þegar talað var um að kreista safann úr olíufélögunum, þá varð hv. þm. Helgi Seljan að gjalti, eða gelti eins og sagt er fyrir austan. Mig langar þess vegna aðeins að undirstrika það áður en þessari umr. lýkur að þar er um að ræða að reyna á þrek þess fólks sem vinnur hjá þessum fyrirtækjum. Því að þar er vissulega dugmikið hæfileikafólk og það á ekki að þurfa að vinna á vernduðu vinnusvæði eins og er í þessu landi í dag. Það á að vera hægt að beina því út í harðskeytt viðskipti á heimsmælikvarða og nýta á þann hátt þrek þessara fyrirtækja, kreista safann, ýta þeim út í lífsbaráttuna í stað þess að vinna í lokuðum hring. Og þá er ég ekki í nokkrum vafa um að olíuverð mun lækka og þjónusta mun aukast, eins og hv. Eiður Guðnason nefndi ágætt dæmi um hér áðan.