23.10.1984
Sameinað þing: 8. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í B-deild Alþingistíðinda. (220)

37. mál, fjárhagsstaða húsnæðislánakerfisins

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Hv. 2. landsk. þm. spurði um endursöluíbúðir. Ég hef ekki í höndum upplýsingar eða vitneskju um að svo og svo mikil vandamál séu á ferðinni í sambandi við bið á mati á íbúðum. Mér er hins vegar kunnugt um að Húsnæðisstofnunin er að ljúka við gerð reglugerðar. Ákvæðið í sambandi við endursöluíbúðirnar var ágreiningsefni og hefur verið til meðferðar nú um skeið hjá sérfróðum mönnum. Nýjustu upplýsingar, sem ég hef, eru þær að því verður væntanlega lokið núna eftir næsta fund í Húsnæðisstofnun að fullmóta tillögur stofnunarinnar um reglugerð um endursöluíbúðir. Mér var persónulega kunnugt um að það atriði olli vandkvæðum í meðferð Alþingis sem Alþingi hélt að væri einfaldað með breytingu á lögunum. En því miður fyrir Alþingi og afgreiðslu Alþingis á nýju lögunum var þessu atriði breytt þannig í meðförum Alþingis að það þurfti að gera á því nokkrar breytingar í reglugerð sem ég vona að öðlist fljótlega gildi.

Ég ætla ekki að svara miklu sem hér hefur komið fram. Hv. 5. þm. Reykv. sagði að tekjustofnakerfi Húsnæðisstofnunarinnar væri hrunið. Það getur hver lagt þann skilning í það sem honum hentar. Hins vegar vil ég benda á í þessu sambandi að skv. nýjum lögum er gerð tilraun til að setja þessi mál í fastari farveg en verið hefur. Ég er alls ekki að mæla gegn því að kerfið hefur verið ótraust eins og það hefur verið undanfarin ár, eins og best kemur í ljós þegar litið er yfir útlán t.d. árin 1981 og 1982. Þá var fjármagn byggingarsjóðanna aðeins 477 millj. 1981 og rúmar 600 millj. 1982, en er þó í ár milli 1600 og 1700 millj. og á næsta ári er það áætlað um 2.2 milljarða kr. Ég vil benda mönnum á að breytingin er þegar komin fram í framlögðu fjárlagafrv. sem hér liggur á borðum. Þar er gert ráð fyrir að framlag ríkissjóðs í fjárl. sé 800 millj. kr. í stað 400 millj. á yfirstandandi ári. Sú breyting mun styrkja stöðu byggingarsjóðanna. Ég er ekki þar með að segja að það sé nægjanlegt fé og tek að sjálfsögðu undir allar skynsamlegar tillögur sem fram koma um að styrkja húsnæðismálakerfið. Við erum sjálfsagt allir hv. þm. sammála um að á því sé brýn þörf. Og ég vil benda á að í undirbúningi eru núna mjög ákveðnar viðræður í bankakerfinu um sérstaka sparnaðarreikninga, sem þurfa sérstaka skattameðferð, sem ég vænti þess að komi að hluta til til góða fyrir þetta kerfi.

Í sambandi við það sem hv. 3. þm. Reykv. sagði um seinkun lána: Ég held að svarað hafi verið nægjanlega skýrt hvernig staða þessara mála er. Í svari mínu um lausn á þeim vanda sem byggingarsjóðirnir hafa verið í undanfarnar vikur kemur líka glöggt fram að þessu verði breytt og að útlán muni hefjast eftir að verkfalli lýkur. Fram kom í svarinu að seinkað hefur 850 umsóknum um kaup á notuðum íbúðum á fyrri hluta ársins, sem munu skv. áætlun stofnunarinnar vera um 160 millj. kr. Þær verða væntanlega afgreiddar í þessari lánalotu og við vonum meira.

En ég vil ítreka að til þess að staðið sé við lánsfjárlög vantar aðeins um 274 millj. kr. frá lífeyrissjóðunum. Verður unnið að því að ná því fjármagni inn til þess að það geti fallið undir þau lán sem afgreidd verða á næstu vikum.