12.02.1985
Sameinað þing: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2827 í B-deild Alþingistíðinda. (2291)

228. mál, ríkisstyrkir Norðmanna til sjávarútvegs

Valdimar Indriðason:

Herra forseti. Ég ætlaði mér ekki að taka þátt í þessum umr., en eftir að hv. 8. þm. Reykv. hefur komið hér upp í tvö skipti með mjög vafasaman málflutning í garð sjávarútvegsins get ég varla orða bundist. Þegar dregið er úr því á allan hátt af hans hálfu og nokkurra annarra að við leggjum ekki ofurkapp á það að leiðrétta okkar mál við vinaþjóðir eins og Norðmenn, sem styrkja sinn sjávarútveg, skulum við halda okkur við þau orð en ekki blanda byggðastefnu okkar inn í byggðastefnu Norðmanna. Það er röng túlkun á málinu.

Hafa menn gert sér ljóst að hér er talað um 6.2 milljarða sem Norðmenn láta til að styrktar sínum sjávarútvegi? Lætur ekki nærri að það séu 25% af fjárlögum okkar sem þarna er um að ræða? Það er eins og smábiti fyrir þá, en við lokum augunum og segjum: Verði þeim bara að góðu, þetta hefur engin áhrif á okkar markaði. —Þetta er rangt. Þess vegna á að fylgja málinu fast eftir og nota tækifærið núna á Norðurlandaráðsþinginu. Ég hvet ekki til útifunda eða sérstakra mótmæla, heldur að okkar fulltrúar þar, sem ég veit að þeir gera og eiga að gera, leggi á þetta höfuðþunga. Þetta er okkur meira virði en margur hyggur.

Það er rétt hjá hæstv. fyrirspyrjanda að truflun er veruleg á mörkuðum okkar. Nægir þar að nefna Nígeríumarkaðinn á skreiðinni þar sem alltaf er verið að reyna að troða af okkur skóinn í erfiðri aðstöðu okkar. Þess vegna megum við ekki láta liggja að því á þessari hv. samkomu að þetta geri okkur bókstaflega ekkert til. Við eigum að sameina kraftana og vinna á móti þessu. Norðmenn eru vinir okkar. Við eigum að koma vitinu fyrir þá. Þeir verða að hjálpa okkur í þessum efnum. En við megum ekki gefast upp fyrir þeim orðalaust og segja að þessir styrkir geri ekkert til.