23.10.1984
Sameinað þing: 8. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 401 í B-deild Alþingistíðinda. (234)

40. mál, endurskoðun grunnskólalaga

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Lög nr. 63 frá 1974 um grunnskóla eru nú 10 ára gömul. Þau voru samþykkt hér á hv. Alþingi vorið 1974. Í 88. gr. laganna segir svo, með leyfi forseta:

„Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda svo fljótt sem aðstæður leyfa í hverju skólahverfi að dómi menntmrn., þó eigi síðar en innan 10 ára frá gildistöku. Stefnt skal að því að ákvæði laganna um síðasta ár skólaskyldu komi til framkvæmda samtímis á landinu öllu 11 árum eftir gildistöku laganna.“

Breyting sú sem hér kemur fram um 11 ára tíma var sett inn í lög nr. 43/1984, þar sem framlengt hefur verið frá ári til árs eða seinkað að taka afstöðu af hálfu Alþingis varðandi skólaskyldu. Í ákvæði til bráðabirgða í grunnskólalögum segir svo:

„Að 4 árum liðnum frá gildistöku þessara laga skal menntmrh. gera Alþingi grein fyrir framkvæmd laganna og þá einkum undirbúningi að 9 ára skólaskyldu þannig að Alþingi gefist kostur á að álykta á ný um það ákvæði.“

Með bréfi 25. maí 1979 skipaði þáv. menntmrh. Ragnar Arnalds nefnd til að endurskoða lög um grunnskóla og lög nr. 55/1974 um skólakerfi. Í þessa nefnd voru skipaðir Jónas Pálsson rektor Kennaraháskóla Íslands formaður, Sveinn Kjartansson fræðslustjóri og Örlygur Geirsson deildarstjóri. Verkefni nefndarinnar var skilgreint þannig í erindisbréfi:

„Endurskoðun þessa ber að framkvæma með tilliti til þeirrar reynslu sem fengist hefur af framkvæmd skólakerfis og grunnskólalaga þau 5 ár sem liðin eru frá setningu þeirra og einnig með tilliti til þess að ákvæði laganna um lengingu skólaskyldu úr 8 árum í 9 kemur að óbreyttu til framkvæmda haustið 1980. Þá er nefndinni einnig falið að endurskoða reglugerðir og erindisbréf, sem sett hafa verið skv. nefndum lögum, eftir því sem ástæða kann að þykja til.“

Nefnd þessi starfaði í umboði þriggja menntmrh., Ragnars Arnalds, Vilmundar Gylfasonar og Ingvars Gíslasonar, og skilaði ítarlegu nál. ég hygg veturinn 1980–1981. Hafði nefndin þá haft samráð við fjölda aðila, m.a. fræðsluráð allra fræðsluumdæma, samtök kennara á grunnskóla- og framhaldsskólastigi, samtök fræðslustjóra, námsstjóra, Samband ísl. sveitarfélaga og Félag skólastjóra og yfirkennara. Einnig leitaði nefndin til stéttarfélaga sérfræðinga sem starfa innan grunnskóla. Flestir umsagnaraðilar lögðu áherslu á það meginatriði að koma þyrfti ákvæðum grunnskólalaganna og markmiðum í framkvæmd fremur en gera á þeim efnisbreytingar og sjálfir voru nefndarmenn sama sinnis, fluttu hins vegar margar tillögur um breytingar á lögunum. Þeir segja í áliti sínu, með leyfi forseta, um þetta atriði:

„Áherslu ber að leggja á aðgerðir til að hraða framkvæmd laganna, auka gæði uppeldis- og fræðslustarfs, sem í grunnskólum er unnið, tryggja betur jafnrétti nemenda alls staðar á landinu, en taka þó við framkvæmd skólastarfsins tillit til atvinnuhátta og lífsskilyrða í landshlutum. Styrkja ber á allan hátt grunnskólann sem stofnun til að gegna hlutverki sínu í íslensku þjóðlífi eins og það er að mótast á síðustu áratugum 20. aldar.“

Nefndarmenn bentu á ýmis atriði varðandi undirstöðuþætti menntamála sem ná þurfi fram að ganga til að grunnskólinn geti á viðunandi hátt sinnt hlutverki sínu. Nefndin stóð saman að mörgum brtt. við grunnskólalögin og greindi aðeins á um eitt atriði, þ.e. hvort lögboðin skólaskylda skuli vera 8 eða 9 ár. Jónas Pálsson og Örlygur Geirsson vildu halda óbreyttum ákvæðum grunnskólalaganna um 9 ára skólaskyldu, en Sveinn Kjartansson lagði til 8 ára skólaskyldu.

Í aths. í ítarlegu áliti lýsa nefndarmenn helstu brtt. Hér er, herra forseti, ekki tími til þess að rekja þær að neinu marki. Ég nefni aðeins örfá áhersluatriði úr tillögum þeirra um breytingar.

Þeir lögðu til að sett yrði á fót svonefnt grunnskólaráð sem verði eins konar fastanefnd. Þeir lögðu til að ákvæðum um reglulegan starfstíma skóla yrði breytt úr 7–9 mánuðum í 8–9 mánuði, þ.e. lengdur starfstími þeirra skóla sem styst hafa starfað. Þeir leggja til stefnumótandi ákvæði um einsetningu í 4–9. bekk grunnskóla og að 24 nemendur skuli vera að meðaltali í bekkjardeild. Og þeir leggja til að ráðgjafar- og sálfræðiþjónusta starfi við allar fræðsluskrifstofur í landinu. Þetta nefni ég hér sem örfá atriði af mörgum tillögum sem nefndin var sammála um og fékk stuðning við frá umsagnaraðilum.

Nú hefur ríkisstj. setið í hálft annað ár og því taldi ég eðlilegt að inna hæstv. menntmrh. eftir hvert horfði á hans vegum um endurskoðun grunnskólalaga í framhaldi af því starfi sem þegar hefur verið unnið að þessu máli, og ég ber fram svofellda fsp.:

„1. Hvenær er að vænta tillagna frá menntmrh. um endurskoðun á lögum nr. 63/1974, um grunnskóla?

2. Getur ráðh. greint frá því nú hvert yrði inntak slíkra brtt.?

3. Hvert er álit menntmrh. á tillögum nefndar sem starfaði á vegum menntmrn. 1979–1982 og skilaði áliti um endurskoðun grunnskólalaga?“