13.02.1985
Neðri deild: 41. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2900 í B-deild Alþingistíðinda. (2388)

275. mál, almannavarnir

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Aðeins örstutt. Ég gleymdi nú að þakka fyrir þetta ágæta plagg í byrjun. Það var ókurteisi af mér og ég vil gera það hér með. En ég get ómögulega látið hv. 2. þm. Reykv. komast frá umr. á þennan hátt. Að láta sér detta það í hug að það verði bara ein lítil kjarnorkusprenging ef af slíku verður. Þetta er allt undir sjálfvirkum ræsi- eða stýribúnaði, þannig að um leið og ein fer þá kemur önnur á móti. Og það eru sekúndubrot til umhugsunar. Þannig að jafnvel þó að menn vildu stöðva þá væri það líklega ekki hægt. Og þess vegna er ekki hægt að ráða magninu, því miður. Í öðru lagi þá finnst mér ekki hægt að vera að tala um að eyða fjármunum í svona barnalegar tálsýnir meðan við skerum niður og skerum niður og skerum niður til þess sem er miklu, miklu þarfara. Ég er alveg sammála hv. þm., það þarf að byggja einhver byrgi. Við búum í landi sem getur hvenær sem er opnast undir fótum okkar. Og auðvitað þurfum við að verja okkur gegn náttúruhamförum, ég er alveg sammála. En að fara .að eyða steinsteypu, mannafla og kostnaði í gríðarlega trausta og sterka veggi til að verjast kjarnorkuárás, mér finnst það bara barnaskapur.