19.02.1985
Sameinað þing: 50. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3032 í B-deild Alþingistíðinda. (2504)

257. mál, starfsemi banka og sparisjóða

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það hefði náttúrlega mátt bæta því við og spyrja, í samræmi við þá reglu sem gildir um yfirdrætti viðskiptabankanna, hvort það standist í þessum tölum frá 31. desember og hvernig tekist hafi að standa við það að yfirdráttur til skamms tíma færi ekki fram úr innstæðum bankanna erlendis en það á að vera meginregla skv. ákvæði laganna.

En það sem ég vildi fyrst og fremst gera að umtalsefni er það sem kom fram í svari viðskrh. við 4. lið fsp. –eða réttara sagt það sem kannske kom tæplega fram í svari ráðh. þegar hann svaraði 4. lið fsp. Sannleikurinn er sá að ég held að stór hluti Íslendinga sé þeirrar skoðunar að innstæður þeirra í bönkum og sparisjóðum séu tryggar. En í öðrum bönkum en ríkisbönkum er engin raunveruleg endurtrygging eða ábyrgð á innstæðum önnur en eignir bankanna sjálfra. Ef t.d. Alþýðubankinn eða Samvinnubankinn eða Verslunarbankinn eða Iðnaðarbankinn eða einhverjir sparisjóðir skyldu rúlla í þeim skilningi að verða gjaldþrota, þá þýðir það það að eignir bankanna standa ekki undir skuldbindingum þeirra og þá eru engar tryggingar sem vernda innistæðufé sparifjáreigenda. Eða eins og kom fram hjá hæstv. viðskrh., innstæðurnar í bönkunum eru aðeins tryggðar með eignum bankanna. Þetta er í raun frábrugðið því sem tíðkast í langflestum grannlöndum okkar, þar sem eru eins konar tryggingarákvæði um það að ef slík staða kemur upp þá taki sjóðir að sér, tryggingarsjóðir getum við í rauninni kallað þá, að greiða innstæður upp að tilteknu hámarki. Þannig er þetta t.d. í Bandaríkjunum. Og ég held mér sé óhætt að fullyrða að í festum grannlöndum okkar sé þetta líka þannig.

Í starfi svonefndrar bankamálanefndar. sem ég sat í ásamt fleiri þm., kom þetta nokkuð til umfjöllunar. Ekki varð að ráði hjá meiri hluta nefndarinnar að gera tillögur varðandi þetta atriði. En ég vakti sérstaka athygli á þessu máli í nál. vegna þess að ég held að menn búi við falskt öryggi í þessum efnum. telji sér trú um að menn búi við langtum meiri tryggingar en raun ber vitni.

Ég tel að þetta sé stórt mál, herra forseti, og að fyllsta ástæða sé til þess að gaumgæft verði með hvaða hætti menn vilja tryggja innstæður betur en nú er gert og hvort ekki sé ástæða til að fara svipaðar leiðir og farnar hafa verið í grannlöndum okkar í þeim efnum.

Ég vildi gjarnan að lokum, herra forseti. heyra álit hæstv. viðskrh. á því hvort hann telji það ekki athugunarefni.