23.10.1984
Sameinað þing: 9. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 426 í B-deild Alþingistíðinda. (257)

Umræður utan dagskrár

Þorsteinn Pálsson:

Herra forseti. Málflutningur hv. 3. þm. Reykn. og hv. 3. þm. Reykv., formanna Alþb. og Alþfl., hefur verið með einstæðum hætti í þessum umr. hér í dag. Þeir hafa haldið því fram að sú ákvörðun ríkisstj., að bjóða til viðræðna um umfangsmiklar skattalækkanir til þess að greiða fyrir lausn kjarasamninga, treysta lífskjör og stöðu þeirra sem verst eru settir í þjóðfélaginu, hafi valdið óvissu og tortryggni og tafið samningaviðræðurnar. Hér eru svo furðulegar fullyrðingar á ferðinni að engu tali tekur og er með ólíkindum að formenn þetta þó ábyrgra stjórnmálaflokka skuli flytja mál af þessu tagi hér inn í sali Alþingis.

Auðvitað var þjóðinni vandi á höndum þegar dró að þessum kjarasamningum nú í haust vegna þeirra miklu erfiðleika sem við höfum gengið í gegnum. Við erum nú á þriðja ári lengsta samdráttarskeiðs í 30 ára hagsögu þjóðarinnar og það hefur komið niður á efnahagslífi þjóðarinnar og lífskjörum fólksins í landinu. Það var eðlilegt þegar dró að þessum viðræðum í haust að hugað yrði að því með hvaða hætti mætti greiða fyrir lausn þessarar deilu án þess að til nýrrar efnahagskollsteypu kæmi.

Þjóðin þekkir allt of vel — og ekki síst hv. 3. þm. Reykv. — hinar gömlu leiðir við lausn kjarasamninga. Hann kann mætavel söguna frá 1982. Blekið var ekki þornað af kjarasamningum þegar hann byrjaði að fella gengið og vikurnar voru örfáar þangað til hann setti brbl. og tók kauphækkanirnar allar til baka. Hann hefur stært sig af því hér á hinu háa Alþingi að einmitt sú ráðstöfun, að hann skyldi hafa tekið þá kauphækkun alla til baka með lögum, hafi minnkað viðskiptahallann á síðasta ári, en ekki aðgerðir núv. hæstv. ríkisstj. í maímánuði á síðasta ári. Það hefur verið eitt helsta stolt hans í umr. hér á Alþingi að sú ákvörðun hafi leitt til þess að viðskiptahalli hafi verið minni á síðasta ári en horfur voru á.

Ég held að það hafi komið mjög ótvírætt fram í almennum umr. í þjóðfélaginu að það var vilji til þess að kanna til þrautar hvort aðrar leiðir væru færar en þessar hefðbundnu sem fólkið hafði dýra, langa og erfiða reynslu af. Fyrir þá sök var ákveðið að kalla aðila vinnumarkaðarins til viðræðna og bjóða upp á þríhliða viðræður um mjög umfangsmiklar skattalækkanir gegn því skilyrði að almennar launahækkanir yrðu mjög hóflegar. Því miður dróst að þessar viðræður gætu hafist og ástæðulaust að rekja þann drátt frekar hér.

Það er óhætt að fullyrða að aðilar vinnumarkaðarins tóku þessari málaleitan vel. Ekki kom fram af þeirra hálfu að hér væri um að ræða óvissu eða þetta mundi valda aukinni tortryggni. Áhugi þeirra var að vísu mismunandi og aðstaðan til að ná fram lausn á þessum grundvelli e.t.v. erfið vegna þess að það var augljóst að með þessum hætti væri óhjákvæmilegt að ná samningum sem næðu til vinnumarkaðarins alls, bæði Alþýðusambandsins og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Erfiðleikarnir voru ekki einungis þeir að kjaradeilur á vegum opinberra starfsmanna og starfsmanna á almennum vinnumarkaði fóru fram á sitt hvorum vígstöðvunum, heldur kannske líka þeir að innan Alþýðusambandsins var nú tekinn upp annar háttur en verið hefur undangengin ár, þ.e. að einstök landssambönd færu með samningsumboð en ekki Alþýðusambandið fyrir þeirra hönd. Nú er það auðvitað innra mál verkalýðsfélaganna hvernig þau skipa sínum málum í þessu efni og hverjum þau fela umboð til samningsgerðar og ekkert við það að athuga, en hitt var ljóst að þessi skipan mála torveldaði að hægt væri að finna farveg á þessum grundvelli.

Þetta tilboð af hálfu ríkisstj. kom fram um miðjan septembermánuð og síðan hafa menn haft tækifæri til að finna lausnir á þessum grundvelli. Viðræður fóru fljótlega af stað milli Alþýðusambandsfélaganna og Vinnuveitendasambands, en upp úr þeim slitnaði. Þær hófust á nýjan leik og nú fyrir síðustu helgi var enn á ný gerð tilraun með ákveðinni ósk af hálfu Alþýðusambandsins með sérstakri samþykkt sem hér hefur verið gerð grein fyrir af hálfu ríkisstj.

Spurningin um það, hvort ríkisstj. hefði átt að leggja fyrir þessar viðræður ákveðna forskrift, lýsir harla litlum skilningi á því hvernig vænlegast er að ná lausn með þessum hætti. Þegar boðið er upp á samstarf af þessu tagi er það ekki ríkisstj. einnar að setja forskrift. Menn verða að leita samkomulags og allir aðilar að slíkum viðræðum hljóta að hafa jafnan rétt til þess að vinna að lausn á þessum grundvelli í viðræðum sín á milli.

Það voru því gerðar till. um að sett yrði á fót sérstök nefnd aðila sem fjallaði um skattamál, með hvaða hætti líklegast væri hægt að framkvæma skattalækkanir þannig að til samkomulags gæti leitt, og að aðilar ræddu möguleika á samningum sín á milli um launahækkanir sem gætu samrýmst þessari leið. Það komu engar athugasemdir fram um vinnubrögð af þessu tagi á þeim fundum sem haldnir voru með aðilum vinnumarkaðarins. Hér á hv. Alþingi sitja tveir hv. þm. sem þessa fundi sátu og ég býst við að þeir geti staðfest að engar athugasemdir við vinnubrögð af þessu tagi voru gerðar. Aðilar gengu til þessa verks, að ég held, af fullri einlægni og áhuga til að leysa málin á þessum grundvelli. Það voru dregnar upp allar útlínur fyrir mögulegt samkomulag á þessum grundvelli.

Auðvitað geta svo margs konar aðstæður valdið því að aðilar ná ekki samkomulagi um lausn með þessum hætti og framvinda kjaramálanna á öðrum sviðum getur truflað það að menn nái niðurstöðu eftir þessari leið. Í Morgunblaðinu í morgun má lesa eftir formanni og varaformanni Verkamannasambandsins að eftir síðustu kjarasamninga á vegum bókagerðarmanna eru þeir ekki bjartsýnir á að unnt sé að semja með þessum hætti. Það er þeirra mat, þeir eru með frjálsum hætti aðilar að þessum kjarasamningum og verða að vega og meta þær aðstæður sem uppi eru hverju sinni. En ég er sannfærður um að velflestir launþegar og forustumenn í samtökum launafólks hafi af heilum hug viljað reyna að fara þessa leið. En forsendan var auðvitað sú að um þetta gæti náðst mjög víðtæk samstaða. Hér hefur komið fram — og það hefur ekki verið launungarmál — að það hefur verið minni áhugi fyrir því hjá forustumönnum opinberra starfsmanna að komast út úr þessum ógöngum með skattalækkunum og mjög hóflegum kauphækkunum. Ég er alveg sannfærður um að þessi leið hefði treyst betur lífskjör fólksins í landinu.

Hv. 3. þm. Reykv. spurði um afstöðu ríkisstj. til kaupmáttartryggingar. Ég tók eftir því að hann nefndi ekki vísitölutryggingu heldur kaupmáttartryggingu. Við skulum huga að því að viðræðutilboð ríkisstj. um þessa leið út úr kjarasamningunum var áhrifamesta leiðin til þess að unnt væri að tryggja kaupmátt í kjarasamningum. Það hljóta því að vera ekki bara okkur vonbrigði, heldur fólkinu í landinu, sem óskar þess að fá kjarasamninga sem treysta megi, ef þessi leið reynist ekki fær og hún verður ekki að veruleika. En það er alveg ljóst að með þessari leið bauð ríkisstj. upp á áhrifameiri og traustari vernd kaupmáttar en unnt er að ná með öðrum hætti.

Þessa kjarasamninga á ekki að stöðva með lagasetningu. Það hefur margsinnis komið fram og verður vitaskuld ekki gert. Heildarkjarasamningar verða ekki leystir með lagasetningu. Aðilar að þeim samningum hafa þetta frelsi og jafnframt þá ábyrgð að ná niðurstöðu og komast á endanum að samkomulagi þó að það sé af augljósum ástæðum erfitt.

Við semjum hins vegar ekki um kaupmátt með krónutöluhækkun launa einni, það er fengin reynsla. Ég hygg að einmitt áhugi verkalýðsfélaganna til að ræða skattalækkunarleiðina sé áhrifamesta viðurkenningin á því að sú gamla leið treystir ekki kaupmátt fólksins í landinu. Kjarni málsins er sá að hér hefur verið boðið upp á viðræðugrundvöll. Það hefði verið óeðlilegt að setja of strangar forskriftir um það hvernig hann skyldi úttærður vegna þess að samningsaðilar, allir þrír, áttu eðlilega rétt á því að vinna að lausn ef leiðin var fær í sameiginlegum viðræðum. Og það lýsir skilningsleysi á því hvernig stjórnvöld eigi að koma fram við aðila vinnumarkaðarins í deilum sem þessum þegar sú krafa kemur fram að ríkisstj. setji einhliða forskrift um útfærslu í öllum meginatriðum.

Ég vil svo að lokum taka undir það sem fram kom í ræðu hv. 3. þm. Reykv. að það sem máli skiptir er að okkur takist að auka framleiðsluna í þjóðfélaginu, verðmætin sem eru til skipta, að stækka kökuna. Það er leiðin sem liggur til bættra lífskjara og það eru þau verk sem við þurfum að vinna. Hér þarf að skapa þann þjóðfélagsfrið, tryggja það jafnvægi í þjóðarbúskapnum, að hægt sé að takast á við þau verkefni. En það er minni möguleiki á því að það gerist ef við glutrum niður þeim árangri sem við höfum náð í baráttu við verðbólguna. Jafnvægi í efnahagsmálum er forsenda fyrir því að við tökumst í raun og veru á við meinsemdir í íslensku atvinnulífi, upprætum þær og hleypum nýju blóði í ný atvinnutækifæri sem skapa meiri verðmæti til aukinnar hagsældar fyrir fólkið í landinu. Þetta eru meginatriðin sem við þurfum að hafa í huga við lausn þessara erfiðu kjaradeilna.