21.02.1985
Sameinað þing: 52. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3141 í B-deild Alþingistíðinda. (2623)

25. mál, tæknideild Húsnæðisstofnunar ríkisins

Flm. (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Ég hugsa að hv. 10. landsk. þm. gæti reynst að ýmsu leyti nokkuð sannspár um að stofnanir þessar, sem aðrar á vegum ríkisins, gætu hæglega lagst niður vegna þeirrar launastefnu sem ríkisstj. rekur og væri þá betur. Þar er reyndar snert á einu mjög veigamiklu atriði. Það er að rekstur ríkisins á þjónustu í samkeppni við einkaaðila hefur reyndar, eins og hv. 4. þm. Norðurl. e. nefndi, veitt samkeppni. Hann hefur hugsanlega áhrif á verðlag þessarar þjónustu, en hann heldur líka niðri launum þess fólks sem á þessu þjónustusviði starfar á vegum ríkisins. Það er mjög áberandi. Það þarf ekki annað en að bera saman þau laun sem sérfræðingar í sambærilegum störfum á hinum frjálsa markaði, sem kallað er, og í þjónustu hins opinbera hafa, hvaða launamunur er þar á milli. Bera má saman annars vegar þjónustuaðila sem ekki standa í beinni samkeppni við ríkið og svo hins vegar þjónustuaðila sem standa í samkeppni við ríkið. Það er staðreynd að þjónustufyrirtæki rekin á vegum ríkisins hafa haldið niðri verði þessarar þjónustu með þeim hætti að halda niðri launum starfsmanna sinna. Þegar hæstv. fjmrh. krefst enn meiri sparnaðar af þessum fyrirtækjum gera þau það, eins og framkvæmdadeild Innkaupastofnunar, einfaldlega með því að hækka þjónustugjöld sín við fyrirtæki ríkisins um 50% og sýna þar með betri útkomu að ári liðnu.

Síst átti ég von á því að hv. 4. þm. Norðurl. e. færi að gagnrýna mig fyrir stéttabaráttu. Ég héli að hann mundi hrósa mér fyrir hana. En komst svo að því alveg óvart, sem hafði dottið úr höfði mínu, að allar erum við syndugar, systur. Ég gerði mér ekki grein fyrir því að ég væri að ræða við varðhund valdsins, stjórnarmann Húsnæðisstofnunar og þar af leiðandi sjálfskipaðan verjanda í þessu máli. Og honum er hér með fyrirgefið.

Ég býst við að hann hafi skoðað bókhald Húsnæðisstofnunar, en ég býst við að hann viti það líka eins vel og ég að það að halda sundurgreindum kostnaði við rekstur fyrirtækis á sama gangi er erfiðara en svo að menn leggi sig í framkróka um smáatriði. Þar af leiðandi held ég að það sé aldrei hægt að bera saman bókhald tæknideildarinnar og bókhald einkaaðila.

Að öðru leyti þakka ég þá umr. sem hér hefur farið fram um þetta mál. Mér er það nokkuð hugleikið að ríkið losi sig við starfsemi þeirra stofnana á þess vegum sem sýnt og sannað er að sinna sínu hlutverki ekkert betur en aðrir geta gert. Sérstaklega þegar sýnt og sannað er að þær hreint og beint framkvæma ekki þau lög sem þeim er falið að framkvæma. Framkvæmdavald sem ekki stendur í stykkinu á ekki að vera til.

Ég held að ekki sé hægt að halda því fram að tæknideildin hafi staðið í einhvers konar heiðarlegri samkeppni. Ég er ekki að væna hana um óheiðarleika og allra síst þá menn sem þar starfa. Þar höfum við reyndar aftur sama dæmið fyrir augunum og hjá húsameistara, að þar sitja menn sem þiggja lág laun fyrir sín störf af því að þeir hafa aðstöðu til þess á kvöldin að teikna hús fyrir Pétur og Pál. (GHelg: Á kvöldin?) Ég fullyrði ekki meira. Eftir fjögur. Þeir þola þannig léleg kjör og eru örugglega þar af leiðandi ekki harðir í samningum við hið opinbera eins og annars væri.

Sveitarstjórnir eru mjög stjórnþægar yfirleitt. Þær eru valdþægar. Það er mjög sjaldgæft að sveitarstjórnir leiti almennt til margra aðila um hönnun t.d. verkamannabústaða í sínu umdæmi. Það er afar sjaldgæft, en ég veit það sjálfur af eigin reynslu að þá sjaldan það gerist koma þær út með miklu ódýrari byggingar en þær fá í gegnum þjónustu tæknideildar Húsnæðisstofnunar.