26.02.1985
Sameinað þing: 53. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3193 í B-deild Alþingistíðinda. (2665)

261. mál, lán frá Húsnæðisstofnun ríkisins

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er að sönnu gott að fá hér klárar dagsetningar fyrir þann hóp húsbyggjenda sem á í hlut og spurt er um á þskj. 439, en ég bendi á að margir koma þar á eftir. Ég vil spyrja hæstv. félmrh.: Getur hann gefið einhverjar upplýsingar um hvenær koma til útborgunar lán til þeirra sem voru svo óheppnir t.d. að umsóknir þeirra um G-lán á árinu 1984 voru dagsettar 2., 3. eða 4. júlí? Má vænta þess að þeir fái þá á mánaðar fresti frá 5. mars að telja greidd út sín lán eða verður þeim safnað saman og það dregið í enn þá lengri tíma?

Einnig mætti spyrja um þá sem koma næstir á eftir þeim, sem eiga að fá útborguð F-lán í febrúar og byrjun mars. Hversu langan tíma þurfa þeir að bíða? Treystir hæstv. félmrh. sér til þess að svara því hér og nú þannig að létta megi óvissu af því fólki? Verður það tekið í jöfnum áföngum þannig að ekki aukist biðin fyrir hvern og einn hóp eða verður einhver annar háttur hafður á? Ég tel mjög miklu skipta að hæstv. félmrh. geti gefið þessu fólki einhver svör hér. Það hefur margt hvert hringt upp í Húsnæðisstofnun og spurt hana út í samþykkt stofnunarinnar, sem birt er í blöðum 21. febr., og það fólk sem ekki er inni í þeirri samþykkt, lendir ekki í þeim hópum sem þar eru taldir upp, fær engin svör. Því er hreinlega sagt að engu sé hægt að svara til um það á þessu stigi málsins hvenær lán þeirra komi til afgreiðslu.

Nú þarf auðvitað ekki að benda hæstv. félmrh. á að margt af þessu fólki ætti nú þegar að vera búið að fá sín lán eða að vera að fá þau núna og ég vil því spyrja hann: Hvað verður um þá hópa sem koma þarna næstir á eftir, bæði hvað F- og G-lán varðar?