26.02.1985
Sameinað þing: 53. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3197 í B-deild Alþingistíðinda. (2669)

263. mál, ullariðnaðurinn

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Hér hefur ullariðnaður verið gerður að umræðuefni. En því er ég hingað komin að ég vil minna hæstv. iðnrh. á að á 104. löggjafarþingi 1981–1982 var samþykkt þáltill. um eflingu listiðnaðar og iðnhönnunar. Flm. þeirrar till. voru hv. þm. Birgir Ísleifur Gunnarsson, Salome Þorkelsdóttir, Friðrik Sophusson og Halldór Blöndal.

Þessi till. fól það í sér að Alþingi ályktaði að fela ríkisstj. að skipa nefnd til að gera tillögur um hvernig best verði staðið að eflingu listiðnaðar og listrænnar iðnhönnunar á Íslandi. Nefndin skyldi fjalla um það í fyrsta lagi hvernig opinberir aðilar í samvinnu við einstaklinga, félög og fyrirtæki geti best örvað listiðnað og listhönnun á íslenskum iðnaðarvörum. Í öðru lagi hvernig staðið verði að því að safna heimildum um þróun listiðnaðar og listhönnunar á Íslandi til þess að hér geti myndast vísir að listiðnaðarsafni, svo og hvernig staðið verði að vernd og hönnun á mynstrum, á útlendu máli „design“. Í þriðja lagi hvernig unnt sé að fjölga sýningartækifærum fyrir Íslenskan listiðnað erlendis og í fjórða lagi hvernig haga beri samstarfi við aðila sem vinna að sömu markmiðum hjá nágrannaþjóðum okkar, einkum á Norðurlöndum.

Það er alveg ljóst að Íslendingar eiga mikið af listamönnum sem bíða þess eins að fá tækifæri til að vinna á hinum ýmsu sviðum listiðnaðar. Við eigum vefara, glerlistarmenn, leirkerasmiði, ullariðnaðarfólk af öllu tagi. Þess vegna er fyrirspurn mín hér til hæstv. ráðh.: Hefur hann skipað þessa nefnd? Þetta gerðist að vísu í tíð fyrrverandi hæstv. iðnrh. en hann hefur þá sennilega átt mjög stutt eftir af sinni ráðherratíð. Ég vil a.m.k. minna hæstv. ráðh. á að hafi hann nú skipað nefnd til að athuga um ullariðnaðinn, þá mætti vissulega fara að skipa þá nefnd sem átti að taka listiðnað í landinu sérstaklega fyrir.

Ég held að það hafi litla þýðingu að menn séu að samþykkja hér ár eftir ár þáltill., sem margar eru svo sannarlega ómerkari en þessi, ef þeirra bíður svo það eitt að gulna í skrifstofum hæstv. ráðh. Ég vil minna á ýmsar sorgarsögur... (Forseti hringir.) Ég er rétt að verða búin, herra forseti. — Sorgarsögur eins og þá að um þessar mundir er íslenskur listamaður að verða heimsfrægur fyrir stól þann sem Sóley er kallaður. Ekki tókst að koma neinu viti í framleiðslu þessa stóls á Íslandi heldur sitja útlendingar að því að framleiða hann í þúsundatali. En sem sé, herra forseti, ég vildi gjarnan vita hvort þessi nefnd ályktunarinnar frá 1982 hefur verið skipuð.