26.02.1985
Sameinað þing: 53. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3207 í B-deild Alþingistíðinda. (2680)

260. mál, útlán banka og sparisjóða

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 438 að bera fram fsp. til hæstv. viðskrh. um útlán banka og sparisjóða sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„1. Hver var heildarfyrirgreiðsla viðskiptabanka og þriggja stærstu sparisjóðanna til fimm stærstu lántakenda einstakra banka og sparisjóða í árslok 1983 og 1984?

2. Hvert var hlutfall heildarfyrirgreiðslu hvers lánþega um sig af eigin fé stofnunarinnar?

3. Er þar um að ræða lántakendur, einn eða fleiri, sem eru svo fjárhagslega tengdir öðrum lántakendum stofnunarinnar að skoða beri heildarfyrirgreiðslu þeirra í einu lagi?

4. Hvernig var fyrirgreiðslan tryggð í hverju tilviki?“ Ég sé ekki að orðlengja þurfi frekar um þessa fsp. Tilefni hennar og annarra fsp., sem ég hef lagt fram hér á hv. Alþingi um bankamálefni, er að fá upplýsingar um ýmsa þætti í starfsemi banka og sparisjóða sem mikilvægt er að þeir sem ákvarðanir taka í þjóðfélaginu hafi fulla vitneskju um, enda varðar það hag alls almennings og þjóðfélagsins í heild hvernig lánastofnanir eru reknar og starfsemi þeirra háttað í þjóðfélaginu.