24.10.1984
Efri deild: 6. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í B-deild Alþingistíðinda. (270)

85. mál, rannsóknarnefnd til að rannsaka afskipti ráðherra og embættismanna af rekstri ólöglegra útvarpsstöðv

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Það er alveg laukrétt að mál þetta varðar hæstv. ráðh. meira en lítið. Það var vitað fyrir löngu að málið mundi verða á dagskrá hér kl. 2 í dag og ég tel það koma úr hörðustu átt og vera nánast einsdæmi að ráðherrar skuli þá hreinlega stinga af frá fundi, sem átti að fjalla um þeirra mál sérstaklega, á ríkisstjórnarfund, á fundartíma sem aldrei er ætlaður ríkisstj. Sem betur fer eru ákveðin verkaskipti viðhöfð í samskiptum ríkisstj. og Alþingis. Alþingi heldur yfirleitt ekki fundi þegar ríkisstj. er á fundum, sem er yfirleitt á morgnanna eða þá síðla dags ef svo ber undir. En ríkisstj. heldur að sjálfsögðu ekki fundi á þeim tímum þegar Alþingi hefur sinn sérstaka fundartíma, milli 2 og 4. Það að ríkisstj. skuli flýja af hólmi og halda til fundar á miðjum venjulegum fundartíma Alþingis er auðvitað hreint hneyksli. Ég mælist eindregið til þess að forseti deildarinnar gæti virðingar Alþingis og krefjist þess af ráðherrum að þeir séu hér viðstaddir til kl. 4 til þess að þessi umr. megi fara fram.