12.03.1985
Sameinað þing: 57. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3498 í B-deild Alþingistíðinda. (2837)

332. mál, gjaldmiðlar í erlendum lánum fyrirtækja

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að þakka hv. 3. þm. Reykn. fyrir að koma með fsp. þessa hér því að þetta er kannske meira hagsmunamál en ýmsir gera sér grein fyrir. Ég þekki t.d. fyrirtæki sem framleiða fyrir breskan markað en verða að taka þessi lán. eins og fram hefur komið, í SDR. Vegna þess arna hafa þau verið rekin með tapi. Ef þessi fyrirtæki hefðu fengið að taka þetta í pundum hefði málið snúist alveg við. Þetta stafar af því hvað Bandaríkjadollar vegur þungt í þessum fimmfalda gjaldeyrispotti.

Ég hef spurt um það, og hef haft aðstöðu til þess, hvort það væri nokkur fyrirstaða í sjálfu sér að koma því á af bankanna hálfu að hver og einn mætti taka slík afurða- og rekstrarlán miðað við þann gjaldmiðil sem framleitt væri fyrir og hef fengið þau svör að ekkert sé því til fyrirstöðu, a.m.k. í þeim banka sem ég þekki best til. Ég vil nú vinsamlegast beina því til hæstv. viðskrh. að þetta mál sé kannað. Í bréfi til bankanna frá Seðlabankanum, sem er dagsett ef ég man rétt 19. október, er það bundið að þessir aðilar eigi að taka lánin í SDR. Það þarf því að verða breyting á til þess að menn geti notið þessa hagræðis.