20.03.1985
Efri deild: 51. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3711 í B-deild Alþingistíðinda. (3048)

364. mál, jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Virðulegi forseti. Nokkur áhöld hafa þótt vera um til hvors friðar þetta mál heyrði, iðnrh. eða hæstv. viðskrh. Til þess að taka af tvímæli, svo ekkert fari milli mála, þá má alveg eins kalla að ég í fjarveru hans mæli fyrir þessu fyrir hans hönd, en a. m. k. mundi það koma í minn hlut sem iðnrh. að gefa út lögin ef þau hlytu samþykki á hinu háa Alþingi.

Samkv. gildandi lögum um jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar er framkvæmd laga þessara skipt þannig að iðnrh. fer með framkvæmd III. kafla laganna um orkusparnað og IV. kafla um nýtingu innlendra orkugjafa, en framkvæmd II. kafla um olíustyrk er í höndum viðskrh. Þegar lögin um greiðslu olíustyrks voru fyrst sett 1974 var litið svo á að um verðlagsmál væri að ræða og var framkvæmd laganna því í viðskrn. og hefur svo verið síðan að því er snertir olíustyrkinn. Ég hygg þó að ég muni það rétt að ýmislegt fleira hafi þótt til koma í tíð hæstv. síðustu ríkisstj., án þess að ég ætli að orðlengja um þau mál.

Samkomulag hefur orðið um að færa framkvæmd þessara mála alfarið til iðnrh. og felur frv. þetta í sér lögfestingu á því samkomulagi. Verði frv. þetta að lögum færast mál er varða greiðslu olíustyrkja til iðnrn. og með því verður framkvæmd þessa málaflokks á einni hendi. Eðlilegt þykir að fela iðnrn. að sjá um greiðslu olíustyrkja, m. a. með tilliti til þess að leggja verður áherslu á að menn skipti sem mest yfir á rafhitun í stað olíuhitunar, en iðnrh. hefur besta yfirsýn yfir möguleika á rafhitun í hinum ýmsu héruðum landsins.

Af hálfu og fyrir forgöngu iðnrn. í samstarfi við félmrn. er hafið orkusparnaðarátak. Eitt af því sem það framtak felur í sér er breyting á olíukyntum húsum í rafkynt hús þar sem þess er kostur að leggja rafhitun í hús. Það er ætlað að um 2700 íbúðir í landinu séu enn kyntar með olíu. Það er álitið að yfir 2000 íbúðum sé auðgert að breyta úr olíu- yfir í rafhitun með tiltölulega vægum kostnaði í flestu falli. Þetta er það átak sem nú stendur fyrir dyrum og í ár er það hyggja manna að takast muni að breyta um, úr olíukyndingu yfir í rafhitun, í 1000 íbúðum og 1000 til viðbótar á árinu 1986.

Til olíustyrkja er varið samkv. fjárlögum á þessu ári rúmum 50 millj. kr. og ætti þess vegna að vera hægt að spara verulega á þessum lið. Þá er hugmyndin að nýta þá fjármuni til að liðka fyrir hjá húseigendum að framkvæma þessar breytingar kostnaðarlega séð, en sérstakar ráðstafanir hafa verið gerðar í því skyni. Enn fremur er það ætlunin nú að taka fyrir mannvirki, skólahúsnæði og félagsheimili og annað húsnæði, á vegum sveitarfélaga og sjá til hversu langt við gætum náð fram í því skyni. Ég nefni kirkjur einnig. Allt er þetta það sem menn hafa nú í takinu í þessum málum.

Það varð ofan á og samkomulag um það og hér er verið að framkvæma það samkomulag, að þessi breyting yrði á, að iðnrh. tæki öll þessi mál í sínar hendur, enda er það eini eðlilegi hátturinn á. Þetta eru leifar af gömlu reiptogi, sem átti sér stað sérstaklega í síðustu hæstv. ríkisstj., sem þarna er verið að þurrka upp.

Ég legg svo til, virðulegi forseti, að þegar 1. umr. lýkur verði málinu vísað til 2. umr. og iðnn.