25.03.1985
Neðri deild: 51. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3814 í B-deild Alþingistíðinda. (3162)

315. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Magnús Reynir Guðmundsson:

Herra forseti. Það er ánægjulegt til þess að vita að málefni fiskvinnslufólks og sjómanna skuli bera á góma og ég fagna því að umr. skuli snúast um kjör þessa fólks hér í dag að svo miklu leyti sem raun ber vitni. Ég er hingað kominn í ræðustólinn til að taka undir þau meginsjónarmið er fram komu í ræðu hv. þm. Guðmundar J. Guðmundssonar hér áðan. Ég er jafnframt hingað kominn til að minna á þá vá sem virðist vera fyrir dyrum í sambandi við íslenskan sjávarútveg þegar svo er komið að fólk fæst ekki lengur til að sinna þeim störfum sem tilvera íslenska þjóðfélagsins byggist á.

Ég skal ekki hafa orð mín mörg hér í ræðustólnum, en vil geta þess, vegna þess að ég er fulltrúi kjördæmis sem byggir meir á fiskvinnslu og fiskveiðum en flest önnur, að þróunin í þessum efnum hefur verið sú nú allra síðustu misserin að það er alger vá fyrir dyrum hjá frystihúsum á því svæði sem eru í mínu kjördæmi. Það er rétt, sem fram kom hjá Guðmundi J. Guðmundssyni hér áðan, að það hefur sífellt þurft að flytja inn fleira starfsfólk til starfa og það hefur ekki komið frá Norðurlöndum, eins og Guðmundur benti réttilega á, því að þaðan fáum við ekki fólk vegna þess hversu launin eru lág, heldur hefur þetta fólk komið frá fjarlægum löndum, Ástralíu, Nýja-Sjálandi og öðrum slíkum. Ég held að ef ríkisvaldið getur með einhverju móti komið til aðstoðar íslenskum sjávarútvegi, t. d. með því að grípa þar inn í með skattaívilnunum, sé sú tilraun vel þess virði að gera hana.

Ég vil í sambandi við þetta mál minnast á þá breytingu sem orðið hefur með tilkomu kvótakerfisins. Ég tók ekki til máls áðan í sambandi við mál sem var á dagskrá, um að bæta kjör sjómanna, en auðvitað eru hagsmunir sjómanna og fiskvinnslufólks nátengdir. Og það er ekki hægt að ræða um sjómenn nema að ræða um fiskvinnslufólkið í sömu andránni og ekki heldur hægt að ræða um fiskvinnslufólk nema ræða um sjómenn jafnframt. Þess vegna vil ég benda á að þessi mál eru samtengd. Hagsmunir þessa fólks fara saman og með tilkomu kvótakerfisins hefur vissulega dregið úr tekjumöguleikum ekki bara sjómanna heldur líka fiskvinnslufólks. Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt í þá veru að það þurfi að tryggja atvinnuöryggi þessa fólks.

Mér finnst fyllilega tímabært að skoðað verði hvort íslenska þjóðfélagið telur ekki tilefni til að grípa inn í það alvarlega ástand sem skapast hefur þegar við stöndum frammi fyrir því að geta ekki látið hjólin snúast í frumatvinnugreinum þjóðarinnar. Við höfum verið að ræða hér um málefni Háskólans og ýmis önnur mál, en ég er ansi hræddur um að málefni Háskólans og annarra mennta-, menningar- og þjónustustofnana í landinu þurfi ekki að vera á dagskrá ef ekki verður tryggt að atvinnuvegir landsmanna sem færa okkur 75–80% af útflutningstekjum geti gengið eðlilega. Ég lýsi því stuðningi við þetta frv. í trausti þess að ráðin verði bót á því alvarlega ástandi sem blasir við vítt og breitt um landið og að reynt verði að tryggja að íslenskt þjóðfélag geti gengið eins og það hefur gert hingað til.