25.10.1984
Sameinað þing: 10. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 527 í B-deild Alþingistíðinda. (324)

Umræður utan dagskrár

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég vísa í upphafi máls míns til þess sem ég sagði hér í umr. um fsp. hv. 5. þm. Austurl. um endurskoðun Coopers & Lybrand fyrirtækisins á reikningum ÍSALs. Ég tók fram að það hefði verið ætlun mín og eindregin stefna að leggja fyrir Alþingi ítarlega skýrslu um framkvæmd bráðabirgðasamkomulagsins frá því 23. sept. á s.l. ári og þær niðurstöður sem menn væru komnir að í samningagerðinni við Swiss Aluminium. Ég tók fram að því miður gæti ekki af þessu orðið. Í samkomulagi aðila er ákvæði þess efnis að atriði málsins yrðu ekki gerð heyrum kunnug nema báðir aðilar samþykki. Það er bæði að um nokkur atriði er enn deilt, um orðalag er enn deilt og enn fremur eru nokkur atriði sem gagnaðili vill ekki samþykkja að verði gerð opinber og við erum skuldbundin til að hlíta því Ég hafði vænst þess, hafði áður látið koma fram að eftir samningafundina í London 8. og 9. okt. mundi fært að setja saman ítarlega skýrslu um gang mála, skýrslu þar sem hægt væri að gefa upp öll atriði málsins. En ég ítreka það að mér er það umhendis að mæta fyrir hinu háa Alþingi með skýrslu um þetta viðamikla mál án þess að geta setið fyrir svörum um öll atriði málsins. Það vona ég að hv. alþm. skilji.

Ég vil aðeins í sambandi við það sem fram kom í ræðu hv. 5. þm. Austurl., þegar hann talaði um hin kerfisbundnu skattsvik Alusuisse, minna á að það kom fram í skýrslu Coopers & Lybrands, þeirri sem ég las upp úr í svartíma í fyrradag, að þessi ágreiningur um tölur, um verð á aðföngum, um verð á hrááli, um afskriftareglur, hefði ekki haft áhrif á skattgreiðslu ÍSALs. Þessu má ekki gleyma í þessu sambandi þegar rætt er af hálfu hv. fyrirspyrjanda um hin kerfisbundnu skattsvik. (HG: Er hæstv. ráðh. viss um þetta atriði?) Ég er að segja frá áliti þess fyrirtækis sem hv. þm. hefur talið vera æðsta dómara í þessu máli og tekið trúanlegt í einu og öllu, eftir því sem hann hefur upplýst í umr. hér á hinu háa Alþingi.

Fyrsta spurning hv. þm. — og ég sé ástæðu til að lesa spurningarnar upp því að þær drukknuðu í gífurlegum málsútlistunum — er svohljóðandi — og vona ég að ég þurfi ekki að sækja um sérstakt leyfi í hvert skipti til að lesa þessi ósköp upp:

„Hvers vegna hefur iðnrh. ekkert samband haft við stjórnarandstöðuna um samningaumleitanir við Alusuisse í tíð núv. ríkisstj.?“

Ég vil taka það fram í þessu sambandi að enda þótt mér hafi ekki gefist kostur á því enn að leggja fram skýrslu mína um þetta mál, þá verður það gert og í öllum smáatriðum og ekkert undan dregið. Það liggur alveg ljóst fyrir.

Það væri kannske ráð að fletta aðeins upp í fyrirmyndinni, hv. 5. þm. Austurl., þáv. iðnrh., um samráð hans, ekki eingöngu við stjórnarandstöðu heldur við þá sem unnu með honum í ríkisstj. Hann segir hér í máli sínu áðan að hann hafi stofnað samninganefnd sem hafi starfað frá því í júlí 1981 þar til í des. 1982. Hvað segir Guðmundur G. Þórarinsson þáv. hv. þm. um það samráð? Og kom reyndar í ljós í bréfaskriftum sem hv. þm. vitnaði til hvernig mönnum leist yfirleitt á það samráð sem var ekkert nema helber sýndarmennskan. Ég leita leyfis hæstv. forseta í þetta skiptið. Hann segir svo, Guðmundur G. Þórarinsson, þáv. 12. þm. Reykv.:

„Til þess að gera langt mál stutt og án þess að rekja alla forsöguna vil ég byrja á að segja það að álviðræðunefnd, sú sem hér er mjög til umr. og á að sjálfsögðu skv. nafni sínu og skipunarbréfi að annast viðræður við svissneska álhringinn Alusuisse um þessi deilumál, hefur ekki tekið þátt í viðræðum við Alusuisse eða ÍSAL á þessu ári.“

Þetta er mæli hinn 9. des., rétt áður en nýársklukkur klingdu. (HG: Hvernig stóð á því?) Ja, nú á hann eftir að tala aftur, þessi hv. þm., og fær áreiðanlega ótakmarkaðan tíma fram undir miðnætti að segja okkur frá því. En hér er mikil lesning og fróðleg um það hvernig á því stóð. Það reyndist svo að hv. þm., þáv. iðnrh., pukraði með þessi mál og hafði þetta að hreinu yfirskini, þessa samráðsnefnd sem hann svo kallaði. Þetta kemur fram í öllum þessum umr. sem þá urðu um málið, hinn 9. des. Hún mun þá fá að starfa sem sagt hálft árið 1981 eftir þessum vitnisburði. En engan þátt tóku þeir í viðræðunum allt árið 1982, þegar hæst stóð í stönginni um allar viðræðurnar við auðhringinn, þegar mestu átakamálin fóru fram, þá var þessu þann veg háttað að margra manna vitnisburði og allra þeirra sem nærri þessu komu.

Nú er það auðvitað svo að mörg verk verður ríkisstj. að vinna sem hentar ekki að leita trúnaðar til stjórnarandstöðu um. Ég skal játa það, þótt það sé ekki alls kostar með glöðu geði, að í þessu máli treysti ég ekki stærsta stjórnarandstöðuflokknum, Alþb. Ég hlýt að koma til dyranna eins og ég er klæddur og segja frá því. Það er ærið nóg þegar um stjórnarandstöðuna er að tefla að afstaða stærsta stjórnarandstöðuflokksins skuli vera þannig í þessu máli að það sé ekki hægt að treysta honum. (Gripið fram í: Segir nú meira um ráðh. en flokkinn.) Það er von að þeim verði um þegar maður neyðist til að skýra frá þessu af fyllstu hreinskilni. Og ástæðurnar fyrir því má lesa í nærfellt samfelldum fimm ára hrakfaldabálki þessa máls undir forustu Alþb. Ég átti sannarlega von á því að hv. þm. tíundaði miklu gleggra en hann gerði afreksverk sín á öllum þessum tíma.

Hann kemur hér síðan að því hvert orkuverðið yrði skv. því álverði sem gildir í dag. Ég get upplýst hann um það að það væri 100% hærra en það sem hann bjó við öll þessi fimm ár, 100% hærra, og fékk engu um þokað. Og hvernig endaði glíman? Hver var stefna hv. þm., þáv. ráðh., og hans flokks í málinu? Það muna menn. Það var að taka þetta félag eignarnámi. Það varð niðurstaða málsins.

Ég ætla ekki að fara of mörgum orðum um sögu þessa máls í höndum þessa þjóðmálaflokks og undir forustu hans. Það starf sem þá var unnið dæmir sig sjálft og ég skal ekki gera mönnum um hvatir, síst óheiðarleikahvatir, a.m.k. ekki hvað snertir hv. 5. þm. Austurl., vegna þess að ég held satt að segja að hann hafi álitið sig vera að vinna allan tímann þjóðþrifaverk. Hann var að bægja hér burtu auðjöfrunum. Hann var í miklu þjóðfrelsisstríði og baráttu að hans eigin einlæga vilja og skoðun. Það mætti segja mér að hann hafi verið búinn að máta hér stall úti fyrir sig við hliðina á Jóni. Það er þess vegna ekki af óheiðarleikahvötum, sem hann á ekki til, sem hann vann þannig að málinu. Það er ekkert víst að slík yfirlýsing eins og þessi gildi um alla

Alþb.-menn, það ætla ég að taka fram — og þarf raunar ekki að taka fram því að allir vita hvað átt er við, enda var hann fljótur að bregða við, hv. 3. þm. Reykv.

Því var lýst yfir af þeim sem hv. þm. þóttist vera að vinna með í stjórnarandstöðunni og af eigin samstjórnarmönnum að vinnubrögð hv. þm., þáv. ráðh., í þessum málum hefðu verið óþolandi með öllu.

Í annan stað spyr hv. þm.:

„Hvað veldur þeim sinnaskiptum sem hafa orðið varðandi skattsvikamál Alusuisse frá því að iðnrh. gaf um það yfirlýsingu á Alþingi 10. maí s.l. að hann gæti ekki sætt sig við neina niðurstöðu í þessum málum nema þá sem gæti talist vera óbrigðult dómsígildi?“

Það er svo komið málum að lögfræðingar ríkisstj. vinna að því með lögfræðingum gagnaðila að ná sáttum fyrir dómnefndinni í New York, að útbúa og ganga frá sáttargerð, dómsátt, og ég ætla að vona að það takist.

Þegar ég gaf mínar yfirlýsingar hafði ekki gengið né rekið í þessum málum. En þegar þannig er komið málum að maður fær nægjanlega góð boð af hálfu gagnaðila, þá skapast nýtt viðhorf. Það hlýtur hver maður að skilja. Og að halda því fram að dómsátt, sem menn gera af fúsum og frjálsum vilja ef hún tekst, sem ég tel fullvíst vera, sé ekki dómsígildi, það er einhver undarlegur skilningur á því orði.

Síðan kemur þriðja spurning:

„Hver er sú upphæð sem Alusuisse býðst til að greiða gegn því að málarekstur vegna skattsvika fyrirtækisins verði felldur niður? Er hin umtalaða réttarsátt gagnvart Alusuisse skilyrt á einhvern hátt og fylgja henni yfirlýsingar um sök eða sýknu?“

Ég verð að taka fram að þessum þriðja spurningarlið hv. þm. get ég ekki svarað nema með vísun til ákvæðis samkomulagsins um það að önnur atriði verði ekki birt í samkomulaginu en þau sem báðir aðilar samþykkja. Og Alusuisse hefur ekki samþykkt að ég upplýsi þennan lið. Ég vil taka það fram í þessu sambandi að í síðasta lagi, og ég legg áherslu á það, í síðasta lagi munu öll gögn þessa máls verða lögð fyrir hið háa Alþingi í vikunni 4.–11. nóv., í síðasta lagi.

Síðan kemur fjórða spurning:

„Hefur í núverandi samningsdrögum við Alusuisse verið gefinn einhver ádráttur um breytta túlkun á ákvæðum núgildandi samninga að því er skattareglur snertir, t.d. ákvæði aðstoðarsamnings um að Alusuisse sjái ÍSAL fyrir aðföngum á bestu fáanlegum kjörum?“ svarið er nei.

Síðan kemur fimmta spurning:

„Hvert væri raforkuverðið gagnvart álverinu í Straumsvík í dag skv. fyrirliggjandi samningsdrögum og ríkjandi markaðsverði á áli?“

Eitthvað rétt undir 13 millum, eins og ég sagði áðan, 100% hærra en álverðið sem hv. þm. bjó við í fimm ár og fékk engu um þokað.

Hv. þm. minntist á það að tekin væri mikil áhætta með því að hafa viðmiðun við álverð. Nú get ég ekki farið út í útlistun á þeirri formúlu sem um þetta á að gilda. Það hefur enn fremur komið fram í máli fulltrúa og talsmanna Alþfl. mikill misskilningur í þessu máli, þar sem þeir vitna til þess að ég hafi seint og snemma lýst því yfir að ég vildi taka sem minnsta áhættu í þessu sambandi. Það er tvennt ólíkt að eiga von í hækkuðu orkuverði vegna hækkaðs álverðs eða að eiga og reka slíkar verksmiðjur. Ég ætla að biðja menn að blanda þessu ekki saman og gera á þessu skýran greinarmun. Það get ég upplýst að lágmarksverð fyrir orkuna er 12.5 mill, niður úr því getur það ekki farið, eða tæp 100% hækkun frá því sem lengst var búið við eða frá 1975, 6.456 mill (HG: Nákvæmlega.) Millin voru 6.456 eða 6.5 mill með þremur aukastöfum. Hv. þm. hlýtur að muna þetta allt saman, hann hefur ekki gert annað en að rýna í þetta síðan 1978. (HG: Í samningsdrögunum nákvæmlega.) Í samningsdrögum okkar nú er lágmarkið 12.5 mill og hámarkið 18.5. Núna væri það rétt undir 13 millum, 12.8 eða eitthvað um það, eða 100% hærra en það var. Margfaldaðu 6.456 mill með tveimur, þá færðu töluna út, því að 100% er líka hægt að finna út, en ég veit að Alþb. er slappt í prósentureikningi og það kemur fram hér síðar í næstu spurningu að vísu. En þetta er aðferðin. Þá fær hv. þm. eins nákvæma tölu og ég get nú gefið.

Við höfum haft ráðgjafa okkur við hlið sem spá fyrir um þróun orku- og álverðs í heiminum. Auðvitað höfum við reynslu af því að ekki hafa þeir spádómar alltaf staðist. Við höfum farið eftir spádómum Chase Econometric, sérstakir sérfræðingar hafa verið í þjónustu okkar, að nafni James King annar og Robert Adams hinn. Þeir spá þeirri þróun í þessum orkuverðsmálum að álverð muni hækka innan tíðar í heiminum. Ég kem að því síðar raunar í svari mínu um það hvað meðaltalsverðið er áætlað.

Hér kemur sérkennilegasta spurning sem hefur verið lögð fyrir mig síðan ég var í gagnfræðaskóla. Ég er beðinn um að reikna út hér, fara í prósentureikning þar sem allar upplýsingar eru gefnar. Ég er beðinn að reikna út hér hvert yrði raungildi raforkuverðs að fimm árum liðnum miðað við lágmarks- og hámarksverð, 12.5 og 18.5 millidali a) ef árleg verðbólga í dollurum verður 5% og álverð þróast með sama hætti. Ég veit ekki hvað kennari okkar gamli í M.A. hefði sagt ef menn, sem búið var að brautskrá sem stúdenta, hefðu lagt svona dæmi hver fyrir annan. Ég verð bara að vísa þessu frá. Þeir sem reikna út prósentur í iðnrn. eru komnir í verkfall og ég vil ekki ganga í annarra manna störf. Ég er gamall verkalýðssinni og læt ekki hafa mig í það. En eins og ég sagði áðan geri ég mér ljóst að Alþb. er afar slakt í prósentureikningi, alveg sérstaklega formaður þess. Það er hreint yfirtak að heyra hann fara stundum með prósentutölur og ég skal nefna dæmi um það. (SvG: Ráðh. er álíka lélegur í þessu og stafsetningunni.) Eigum við að koma í stafsetningarkeppnispróf? Við skulum framkvæma það fljótlega og gefa okkur góðan tíma. En ég minnist þess alveg sérstaklega þegar hv. þm. kemur að prósentureikningi sínum, sem að vísu bankamaður og mikill hugsjónamaður þeirra hefur reiknað út. Það var þegar þeir voru búnir að rýra kaupgjald 14 sinnum, mig minnti að það hefði verið 13 sinnum en hv. formaður Alþb. leiðrétti mig, og um 50%, þá heldur hann því statt og stöðugt fram að þeir hafi hækkað kaupið. Svona gengur honum í prósentureikningnum. Hvaða ókyrrleiki er í hv. þm.? (HG: Eru þeir í verkfalli í iðnrn.?) Í iðnrn. Þessar spurningar eru ekki til seðlabankastjóra heldur mín. (Gripið fram í.) Nú, ég varaði mig bara ekkert á þessu. Hann átti að taka það fram, hv. þm., eða ætlar hann sér þá dul að spyrja menn utanþingsspurninga hér á hinu háa Alþingi? Ég kann nú ekkert að meta þessa fyndni, sem ekki er nú hægt að hlæja að með öllum kjaftinum því miður. Síðan kemur hér sjöunda spurningin. Hún hljóðar svo: „Hvert er það meðalraforkuverð að mati iðnrh. sem líklegt er að þessi samningur gefi á næstu fimm árum reiknað á verðlagi ársins 1984? Hve mikil hækkun þarf að verða á álverði frá því sem nú er til að þetta meðalraforkuverð náist?“

Sú spá um orkuverð sem Landsvirkjun gengur út frá er meðaltal úr spám þriggja aðila. Gert er ráð fyrir lítilli hækkun næstu tvö árin en meiri hækkun árin 1987–1989. Meðalverð á áli er reiknað á föstu verðlagi. Meðalorkuverð 1985–1989 er áætlað 13.7 mill kwst. á verðlagi ársins 1984. Meðalálverð þessa sama tímabils er áætlað 15.3% hærra en áætlað meðalverð ársins 1984 reiknað á föstu verðlagi.

Þá kemur áttunda spurning: „Getur iðnrh. upplýst Alþingi um hvert sé nú það meðalraforkuverð sem Alusuisse greiðir vegna álbræðslna í eigu auðhringsins?“ Hann segir svo hér: „Þetta meðalrafaorkuverð var talið vera 20 mill í júlí 1982 vegna 13 álverksmiðja í 8 löndum.“

Meðalorkuverð til verksmiðja Alusuisse, eftir því sem næst verður komist, er um 16.5 mill kwst. Breytilegt gengi dollars gagnvart öðrum myntum o. fl. gerir það þó að verkum að ekki er unnt að svara þessari spurningu nákvæmlega. Tekið skal fram að einni af þeim álverksmiðjum sem Alusuisse átti í Bandaríkjunum árið 1982 hefur verið lokað, Lake Charles í Lousiana, og verksmiðja Alusuisse í New Johnsonville í Tennessee er rekin með 12–15% afköstum nú og er áættað að loka henni næsta vor. Í þessum tveimur verksmiðjum er orkuverðið mjög hátt, 32 mill kwst. í Lake Charles og 34 mill kwst. í New Johnsonville. Þetta er allt sem ég hef getað aflað mér upplýsinga um vegna þessara fsp.

Níunda spurning: „Hversu mikið telur iðnrh. að unnt verði að lækka raforkuverð til innlendra notenda vegna ábata sem væntanlega fæst af endurskoðuðum raforkusamningi við Alusuisse, m.a. til rafhitunar og innlends iðnaðar?“

Auðvitað er erfitt að svara þessu. En ég get upplýst hv. þm. um að Þjóðhagsstofnun hefur gert fyrir mig á því útreikning — að vísu er hann unninn af skyndingu — hversu raunverð raforkunnar hefði lækkað frá 1. ágúst í fyrra, þegar síðasta hækkun á raforku til neytenda fór fram, til 1. ágúst í ár. Það er raungildislækkun um 15.7%. Ef verðlagsforsendur verða þær sem ríkisstj. hefur gefið sér og gefnar eru í þjóðhagsspá og fjárlagafrv. að óbreyttu raforkuverði verður raungildislækkunin á raforkunni orðin 23.5% 1. ágúst 1985, nærri um 1/4. En ég tek fram og ítreka: þetta er miðað við það að menn nái markmiðum sínum og verðlagsforsendur standist, sem því miður er nú ekki nógu glæsilegt útlit fyrir eins og sakir standa.

Það er stefna ríkisstj. að halda raforkuverði óbreyttu a.m.k. til 1. ágúst 1985, helst út árið 1985, og mun verða leitað eftir samkomulagi við Landsvirkjun um að það megi takast, en enn minni ég á þær verðlagsforsendur sem menn gefa sér. Það heldur auðvitað enginn neinu í skefjum ef Alþb.-stefnan í launa- og kjaramálum nær fram að ganga eins og þeir berjast nú fyrir eins og ljón með því að kynda undir verkföllum og öðru slíku hér í þessu þjóðfélagi. Auðvitað verður því öllu hrint um koll. Þetta hygg ég að ætti kannske að gefa hv. fyrirspyrjanda nokkra innsýn í hvað hér er um að tefla. Eftir sem áður mun greiðsluafkoma Landsvirkjunar verða góð á árinu 1985 eða sem nemur 100 millj. kr.

Það er áætlun þessara spámanna, sem ég hér nefndi, að hagur okkar af samningunum við Alusuisse og hækkun orkuverðsins muni nema á árunum 1984–1989 2.5 milljörðum kr. Við þurfum ekkert að fá spámenn til að segja okkur um hvað þetta hefði gert í blóðið sitt á árunum 1979–1984. Það getum við reiknað út. Það hefðu verið 1800 millj. kr. Og það var þessi reikningur sem ég á dögunum var að tala um að íslenska þjóðin ætti eftir að senda Alþb., með vöxtum þyrfti það helst að vera, og þeir þurfa ekki að vera háir vextirnir til þess að það verði álíka upphæð eins og þeir spá að við munum þéna á þessum nýja samningi, um 2.5 milljarða kr., 2500 millj. kr. Það mætti kannske hlúa að einhverjum, sem erfitt á í þjóðfélaginu, ef þetta hefði á sínum tíma tekist en ekki ráðið kreddufull afstaða í öllum efnum, sem varð við það að hrekja þetta fyrirtæki og rekstur þess af höndum okkar. Ég er þó ekki með þessum orðum mínum að sýkna Alusuisse í málinu. En menn meta allan samninginn og niðurstöðuna þegar hann verður lagður fyrir Alþingi og ég kvíði engu um það. Menn skulu geyma dóma sína um þau verk sem nú hafa verið unnin þar til málið liggur allt fyrir. Það hlýtur að vera lágmarkskrafa að við því verði orðið.

Tíunda spurningin: „Í bráðabirgðasamningi ríkisstj. og Alusuisse frá 23. sept. 1983 var gert ráð fyrir að ljúka endurskoðun samninga við Alusuisse fyrir 1. apríl 1984. Hvaða ástæður eru fyrir því að nú er skilinn eftir einn meginþáttur þessa máls, þ.e. endurskoðun á skattareglum um greiðslu framleiðslugjalds?“

Gjaldið fyrir orkuna er talið nema nú yfir 18 millj. dollara á ári. Skattgjaldið er hins vegar talið nema 1.6 millj. dollara. Af þessum stærðargráðum geta menn séð hverja nauðsyn bar til að leggja alla áherslu á að ná nýjum samningum um orkuverðið. Ég er þó ekki að gera lítið úr því að ná fram kröfum okkar í sambandi við skattgjaldið. Það reyndist hins vegar það viðamikil vinna — menn eru sammála um að finna nýjar skattareglur, öruggari skattareglur sem minnka líkurnar á að slíkar deilur rísi upp aftur eins og við höfum átt í — að það reyndist ekki unnt að vinna það á þessum tíma. Og menn hafa sett sér það mark að ljúka því fyrir 1. júní næsta ár. Það hafa engin vilyrði verið gefin fyrir neinum afslætti af okkar kröfum í þessu sambandi. Það er algert skilyrði að nýjar viðmiðanir náist, öruggari viðmiðanir, í þessu efni. En menn þekkja það að við höfum ákveðið gjald af hverju tonni og það sem við í raun og veru deilum um er afar lítið fjárhagsmál í samanburði við orkuverðið. Það lá alveg ljóst fyrir að ef þetta allt hefði átt að verða samferða hefði það kostað einhverja mánuði enn. En það er dýr hver dagurinn þegar um er að tefla að ná fram þeirri hækkun sem þegar er orðið samkomulag um. Það er dýr hver sólarhringurinn. Ég man ekki hvort það nálgast 400 þús. ísl. kr. á sólarhring, hvort við náum þessum samningum fram fyrr eða síðar, deginum fyrr eða síðar.

11. spurningin er á þessa leið: „Hefur verið gefinn einhver ádráttur um það gagnvart Alusuisse að breytt verði skattareglum um ÍSAL þannig að dregið verði úr hagnaðarviðmiðun skv. núverandi samningi aðila?“

Svarið er nei. Það hefur ekki verið gert.

12. spurning: , Liggja fyrir athuganir um það, að þjóðhagslega sé hagkvæmt fyrir Íslendinga að reisa stórvirkjanir til þess að auka afkastagetu álversins í Straumsvík? Ef svo er, hverjir hafa unnið að þeim athugunum og hvenær verða þær kynntar Alþingi?“

Hér kom hv. 5. þm. Austurl. raunar í ræðu sinni að stefnu sinni í þessum málum og sínum skoðunum og það liggur alveg ljóst fyrir að hann er þveröfugrar stefnu við mig í öllum þessum málum.

Landsvirkjun hefur auðvitað haft í athugun verðlagningu á orku til nýrrar stóriðju og mun af hennar hálfu verða kappkostað að fá það verð fyrir orkuna sem stendur vel undir kostnaði sem lagt er í vegna orkuframleiðslunnar. Allur annar hagur af stækkun álbræðslunnar í Straumsvík er að mestu hreinar gjaldeyristekjur í vinnulaun og þjónustu. Að slíkt fyrirtæki sé þjóðhagslega hagkvæmt ætti öllum að vera augljóst, en að sjálfsögðu vitum við að svo er ekki. Það eru ekki liðnar úr minni manna yfirlýsingar hv. fyrrv. iðnrh. um það, að besti orkukostur okkar kynni að vera að loka álverinu í Straumsvík í áföngum. Þessi orð liðu honum um munn eigi alls fyrir löngu og eru minnisstæð.

Ég er þeirrar skoðunar að það að byggja stór iðjuver, orkuiðjuver, og selja meiri hluta orkunnar til orkufreks iðnaðar geti helst fært okkur þá hagsæld að fá orku til almennra innlendra nota, húshitunar og almenns iðnaðar, við líðanlegu verði. Þetta er mín skoðun. Það er mín skoðun að við eigum ekki að hætta miklu til um rekstur þessara fyrirtækja og hætta ekki til að eiga þau, vegna þess að við munum ekki koma til með að ráða neinu á markaði heims. Þar ráða hvalfiskarnir, auðhringarnir, hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Hv. þm. gat þess að það væru gífurlegar fjárhæðir sem stækkun álversins í Straumsvík kostaði, ef í hana yrði ráðist, og bætti því við að hér væri um gífurlegar fjárskuldbindingar að tefla. Ég geri ráð fyrir því að hann hafi átt við fjárskuldbindingar vegna þeirra orkuvera sem við þurfum að reisa þessa vegna, en að sjálfsögðu ekki vegna iðjuvers í eigu útlendinga. Við höfum ákveðið að ráðast í virkjun Blöndu. Verði 50% stækkun á álverksmiðjunni í Straumsvík kaupir hún 600 gwst. af þeirri virkjun af 740 sem afkastageta hennar árleg er áætluð.

Við eigum allmargar virkjanir á stokkunum sem hægt er að ráðast í með mjög litlum fyrirvara. Það er gert ráð fyrir því að Fljótsdalsvirkjun verði tilbúin til útboðs síðari hluta næsta árs. Við eigum svo til fullhannaðar og fullrannsakaðar virkjanir, eins og við stækkun Búrfells, við Vatnsfell, Sultartanga o.s.frv. Villinganesvirkjun, við eigum margra kosta völ. Við seljum auðvitað ekki orku frá þessum iðjuverum nema söluverðið standi undir framleiðslukostnaði og byggingu þessara iðjuvera. Það liggur alveg ljóst fyrir. En ég er þeirrar skoðunar að með þessu móti getum við helst beislað orkuna og notið hins mikla hags af henni sem hún hlýtur að gefa okkur í aðra hönd ef rétt og skynsamlega er á málum haldið. Ég held að sú stefna; sem áreiðanlega réði ríkjum hjá fyrirrennara mínum, að bægja erlendum aðilum frá viðskiptum við okkur í þessu efni, hafi verið röng. Um það þarf ég ekki að fara fleiri orðum, svo augljóst sem öllum má það vera.

Mér þykir leitt að geta ekki setið fyrir skýrari svörum og geta ekki lagt alla gerð okkar í þessu sambandi fram fyrir hið háa Alþingi. Það hefur verið von mín og raunar vissa að það tækist mér, og hafði raunar haft þennan dag í huga til þeirra verka. En ég endurtek það að vitanlega, eins og ég hafði marglýst yfir áður, mun hvert einasta smáatriði verða lagt fyrir hið háa Alþingi og í dóm þess, vegna þess að öll samningsgerð mun fylgja því lagafrv. sem nauðsynlegt er til þess að ganga endanlega frá þessum málum. Því það er Alþingi sem hefur síðasta orðið eins og sjálfsagt er.