28.03.1985
Sameinað þing: 66. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3945 í B-deild Alþingistíðinda. (3287)

199. mál, sparnaður í fjármálakerfinu

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég kveð mér hér hljóðs, ekki fyrst og fremst til að ræða þessa till. heldur til að þakka ákveðinn hluta af ræðu flm. hér áðan. (EKJ: Ekki allt?) Jú, jú, þar var allt vel sagt, en sumt alveg sérstaklega gott. Ég á þar við þá rassskellingu sem hann gaf ákveðinni peningamagnskenningu og var þarft og sérstaklega ánægjulegt að heyra hv. þm. Sjálfstfl. taka þá kenningu svona vel í gegn.

Ég vil einnig taka undir með flm. till. hvað varðar t. d. bankakerfið alveg sérstaklega. Mér hefur verið þyrnir í augum sú óheillavænlega þróun að þeim skuli sífellt fjölga sem vinna inni í steinsteyptum höllum til að sýsla með peninga hinna sem sífellt eru að verða færri og færri en standa undir verðmætasköpuninni.

Af því að minnst var á viðtöl við fræga bankamenn minnist ég þess að fréttamaður ríkisfjölmiðils var að ræða við bankastjóra fyrir u. þ. b. tveimur árum. Var fréttamaður með svipaðar tölur á takteinum og hv. þm. nefndi í sambandi við fjölgun bankastarfsmanna og bar þær reyndar saman við fjölda sjómanna og spurði bankastjórann hvort honum þætti eðlilegt að starfsfólk í bönkum væri orðið fleira en sjómennirnir eða að þeir væru orðnir svona margir. Bankastjórinn sagði að þetta væri ekki eðlilegt því sjómennirnir væru allt of margir. Þjóðin stæði ekki undir því að hafa svona marga menn við að veiða þessa fáu fiska. En hann sá ekkert athugavert við fjölda starfsmanna í bönkunum, sá ágæti maður.

Ég held að það sé alveg bráðnauðsynlegt að taka sér ærlegt tak og sameina þessar stofnanir að verulegu leyti, fækka þeim og spara þar í rekstrinum. Auðvitað er það hægt víðar en í einkabönkunum og ríkisbönkunum. Það er hægt meira og minna í öllu fjármálakerfinu eins og tillögumenn eru reyndar að tala um. En ég held að það séu hæg heimatökin fyrir hið opinbera að byrja hjá sjálfum sér t. d. í ríkisbönkunum. Það er auðvitað fleira en mannahald sem kostar peninga, byggingar kosta líka peninga. Og það er hálfhart að búa við það að bankakerfið, sem verður varla með nokkrum ráðum kvalið til að sinna sínum skyldum við t. d. húsbyggjendur, skuli storka þjóðinni með því að byggja sem aldrei fyrr á þessum síðustu tímum.