02.04.1985
Sameinað þing: 67. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4062 í B-deild Alþingistíðinda. (3377)

370. mál, verð á áburði

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það er ekki möguleiki á að ræða þessi mál mikið í fyrirspurnatíma. Ég bendi á að það hefur komið fyrir nokkrum sinnum áður að áburðarverð hefur ekki verið ákveðið fyrir tilskildan tíma eins og stendur í erindisbréfi sem fyrirspyrjandi réttilega tók fram hvernig til er komið.

En það sem er aðalmálið í þessu öllu saman er hvernig stendur á því að Áburðarverksmiðjunni var gert að skyldu að taka erlend lán og það dollaralán til rekstursins. Sú verðhækkun, sem hefur verið á undanförnum árum og sem er aðalvandamálið nú, er þannig til orðið að Áburðarverksmiðjan hefur orðið að búa við þetta á sama tíma t. d. sem Sementsverksmiðjan hefur fengið sitt rekstrarlán innanlands. Hvernig stendur á því að mál standa svona? Ef Áburðarverksmiðja ríkisins hefði fengið innlent rekstrarlán eins og Sementsverksmiðjan hefði vandinn verið langtum minni. Ég skal þó ekki segja hve mikið minni hann er. Aðalmálið er að hægt sé að finna leið til að draga úr áburðarverðshækkunum sem er búið að segja að þurfi að verða yfir 80%. Það þyrfti að láta rannsaka hvernig á því stendur og hver ber ábyrgðina á því að Áburðarverksmiðjan fær ekki innlent fjármagn til síns rekstrar.