29.10.1984
Efri deild: 7. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 554 í B-deild Alþingistíðinda. (338)

106. mál, tannlækningar

Tómas Árnason:

Virðulegi forseti. Ég kveð mér ekki hljóðs til að ræða breytingar á þessu frv. Ég lýsi yfir fylgi við frv. og mér sýnist það vera myndarlegt í alla staði eins og hæstv. trmrh. orðaði það áðan um ýmislegt sem skeður í sambandi við tannlækningarnar. Mér finnst t.d. tannlæknar hafa myndarlegar tekjur og stundum kannske óhóflega miklar tekjur. Það er að vísu dýrt að koma upp fullkominni tannlækningastofu, það er engin spurning um það. Tækin eru dýr og þau þurfa náttúrlega rekstur til þess að geta borið sig. Það er í þágu bæði sjúklinga og tannlæknanna.

En það er eitt atriði skylt þessu máli sem mig langaði til að spyrjast fyrir um. Þjóðin býr við ákaflega misjafna læknaþjónustu, eins og allir þekkja, að því leyti til að fólkið sem býr á þéttbýlissvæðunum suðvestanlands og kannske í Eyjafirði hefur miklu betri aðgang að slíkri þjónustu og ódýrari aðgang að henni en t.d. Austfirðingar og Vestfirðingar svo að dæmi séu tekin. Þetta er alkunna og þekkja raunar allir. Það þarf ekki annað en nefna t.d. tannréttingar. Ég á frænku sem á heima á Austurlandi og hún er tólf ára gömul. Hún þarf að koma ég veit ekki hvað oft til Reykjavíkur, líklega einum átta sinnum, í sambandi við tannréttingar, átta eða tíu sinnum, og þarf stundum að dvelja nokkurn tíma í einu. Venjulega er þetta leyst þannig að t.d. börn dvelja hjá frændfólki sínu hér í Reykjavík. En ef þetta væri nú þannig að þau þyrftu að dvelja á hótelum eða hjá vandalausum er þarna um gífurlegan kostnað að ræða umfram það sem þjóðfélagið tekur þátt í, sem er þó verulegt.

Mig langaði til þess að spyrja hæstv. ráðh. um hvort ráðagerðir séu um að auka tannlæknaþjónustu úti á landi. Ég ætlast ekki til þess að hann geti svarað því svona undirbúningslaust og það væri alveg nægjanlegt fyrir mig ef upplýsingar um það bærust t.d. frá rn. eða hæstv. ráðh. til heilbr.- og trn. sem fær þetta mál eflaust til meðferðar. En mig langar til að koma þessari fsp. á framfæri og fá henni svarað þó að síðar verði.