12.10.1984
Sameinað þing: 4. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í B-deild Alþingistíðinda. (35)

Skýrsla ríkisstjórnarinnar um kjaradeilurnar

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Þessar umræður, sem hér hafa farið fram, eru fyrir margra hluta sakir fróðlegar og vísbending um það hvernig ýmsir þm., eins og hv. síðasti ræðumaður, reyna að gera sem minnst úr þeim erfiðleikum sem okkar þjóðarbú stendur nú frammi fyrir, af ástæðum sem við Íslendingar ráðum ekki við, og reyna með þeim hætti að slá keilur og villa um fyrir mönnum. En ég held að það sannist nú sem oftar að þótt þeim fækki nú hlutfallslega sem beinlínis eiga afkomu sína undir sjávarútvegi, þá sé þjóðin ekki svo heillum horfin að hún viti ekki hvað er að gerast til sjávarins. Ég hélt satt að segja að öllum hv. þm. væri ljóst að verð á nær öllum flokkum í okkar sjávarútvegsframleiðslu var lægra í ágústmánuði en kannske nokkur dæmi eru til, borið saman við það sem áður var, að ég tali nú ekki um mjöl og lýsi, en hv. síðasti ræðumaður taldi að það væru einhver sérstök uppgrip hér í þjóðfélaginu vegna þess að loðnuveiðar væru nú aftur upp teknar. Hann gleymdi að láta þess getið að þeir sjómenn, sem nú eru norður í Ballarhafi til að stunda þær veiðar, hafa 30% lægri laun en á s.l. ári miðað við sama aflamagn. Að þessu veik þessi hv. ræðumaður ekki í sinni ræðu og lét hins heldur ekki getið, að þjóðarframleiðslan minnkar nú á þessu ári þriðja árið í röð. Hann gerir því skóna að þessi ríkisstjórn einkanlega og sérstaklega hafi á þessum tíma dregið úr því að einkaneysla héldist og fólkið í landinu héldi sínum hlut. Ef hann fletti upp í sínum heimildum þá mundi hið gagnstæða koma í ljós, að á árabilinu 1982–84 hafa þjóðartekjur dregist saman um 9.7% en samdráttur einkaneyslu verið 9.4% eða ívið minni. Þannig að vandamálin nú eru ekki af þeim sökum að ekki sé reynt að halda uppi einkaneyslu.

En við skulum líka, til þess að skilja vandann, gera okkur grein fyrir því að hv. þm. Svavar Gestsson gerði tilraun til þess á síðari hluta árs 1982 að vinna á móti minnkandi þjóðarframleiðslu með auknum lántökum erlendis, í þeirri von að um tímabundið ástand væri að ræða, sem svo ekki reyndist. Það má með miklum rökum segja að þeirri ríkisstj. hafi verið vorkunn á þeirri stundu. Það er auðvitað freistandi að draga skerðingu lífskjara á langinn, ekki síst fyrir þá menn sem gengu fram undir kröfunni: Kosningar eru kjarabarátta. Samt sem áður var það hlutskipti hans meðan hann var í ríkisstjórn á árinu 1982, aðeins einu ári eftir að mesta góðæri hafði gengið yfir þetta land, að gera þær ráðstafanir sem ollu mjög verulegu hruni í kaupmætti.

Ég hef hér fyrir framan mig fréttabréf Kjararannsóknarnefndar frá ágúst s.l. Þar er gerð grein fyrir kaupmætti greidds tímakaups miðað við vísitölu framfærslukostnaðar á árinu 1980 og það kemur glöggt fram að kaupmátturinn byrjaði að hrynja á þriðja ársfjórðungi 1982 og hélt það hrun áfram fram yfir mitt síðasta ár eða þangað til sú ríkisstj. sem nú situr hafði gert sínar ráðstafanir.

Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson talaði af mikilli speki um það hér áðan að engir nýir erfiðleikar hefðu orðið í sjávarútvegi. Þetta er ekki það sama og útvegsmenn segja. Þetta er heldur ekki það sama og þeir menn segja sem nú eru að berjast við að halda frystihúsunum opnum.

Í fyrsta lagi er það að afli er minni. Þorskafli er ekki meiri en svo á þessu ári að lítil líkindi eru til þess að jafnmikið veiðist og kvótar eru til fyrir, eftir þeim nýjustu upplýsingum sem ég hef, sem eru vikugamlar. Hv. þm. þykist hafa nýrri upplýsingar. Það er nú ekki svo.

Í öðru lagi hefur aflasamsetning verið önnur og verri. Sjáum við m.a. afleiðingar þess bæði á Austfjörðum og í Vestmannaeyjum. En kannske er rétt líka að slá striki yfir það. Ekki þurfa menn annað en taka framlagðar tölur hraðfrystiiðnaðarins frá þessum tíma í fyrra og bera þær saman við ástandið nú og þá mun koma í ljós að framleiðnin minnkar fyrst og fremst vegna þess að verð á framleiðslunni hefur lækkað í erlendum gjaldeyri. Þetta er ástæðan fyrir erfiðleikunum þar og ástæðan fyrir því að okkur hefur ekki tekist að auka þjóðarframleiðsluna á ný, þrátt fyrir mjög gott ástand, vil ég segja, í sumum greinum atvinnurekstrarins.

Ég sagði áðan að kaupmátturinn hefði mjög hrapað frá miðju ári 1982 fram yfir mitt ár 1983 en síðan, eftir að ráðstafana ríkisstj. fór að gæta, varð þar breyting á. Ég skal miða við 1. jan. s.l. Það er algengt í viðmiðunum að miða við áramót og var t.d. mjög algengt þegar hv. 3. þm. Reykv. Svavar Gestsson var ráðh., þá var honum gjarnt að miða við áramót. Ef við berum hækkun framfærsluvísitölu fyrstu níu mánuði ársins saman við það kaup sem samið var um s.l. vetur kemur í ljós að kauphækkanir hafa orðið meiri á þessu ári en verðhækkanir. Launahækkanir hafa verið meiri en hækkun framfærsluvísitölu. Þetta er árangurinn af þeim tiltölulega mikla stöðugleika sem hér er kominn í efnahagslífið. Og þessar staðreyndir, sem eru óvefengjanlegar, gera það kleift, ef rétt verður á haldið, að verkalýðshreyfingin, vinnuveitendur og ríkisstj. beri gæfu til þess að ná þeirri sáttalausn í þessum kjaradeilum sem allir vilja að þeim takist. Við getum auðvitað sagt eins og hér hefur verið sagt af stjórnarandstöðuþm. að það sé merki um getu- og viljaleysi þessarar ríkisstj. að ekki hefur verið samið við þá sem fyrst fóru í verkfall, bókagerðarmenn. Eftir því sem ég veit best eru kröfur þeirra enn um beinar launahækkanir milli 30 og 40%. Ég hygg að það sé líka rétt að opinberir starfsmenn séu miklu drýgri í peningalaunahækkunum en verkalýðsmenn á hinum almenna vinnumarkaði.

Það liggur alveg ljóst fyrir að ýmsir gamalreyndir og gætnir forustumenn í verkalýðshreyfingunni vilja nú fara að með gát og láta reyna á það til þrautar hvort ekki takist að ná þeim kjarasamningum sem gera hvort tveggja í senn að tryggja umsaminn kaupmátt og halda verðbólgunni niðri. Og þessi stefna er ekki ný hér á landi. Það eru ekki einungis menn í stjórnaraðstöðu sem hafa haldið fram málflutningi af þessu tagi. Ég get minnt á tvo menn, sem voru um skeið miklir baráttumenn í Alþfl., þá Hannibal Valdimarsson og Björn Jónsson. Við erfiðar aðstæður, svipaðar þeim sem nú eru, börðust þeir á sínum tíma fyrir þjóðarsátt um lausn kjaradeilna og kölluðu það varnarbaráttu verkalýðshreyfingarinnar til þess að halda sínum kaupmætti við erfiðar aðstæður án þess að efnahagskerfið kollsteyptist. Þannig töldu þeir sínu fólki best borgið. En það sýnir úrkynjun Alþfl., sem er farinn að minna á hneykslunargjarnan nöldrunarsegg hér í þingsölum, að ekki ein einasta rödd heyrist í þessa átt hér inni. En væntanlega er það vegna þess að sá maður þar sem næst er verkalýðshreyfingunni, Karl Steinar, hefur enn ekki kvatt sér hljóðs um þessi mál.

Við getum líka sagt annað. Við skulum segja: Við skulum ekki deila um það hvort kaupmátt eigi að bera saman við ráðstöfunartekjur eða kauptaxta. Ég vil þó segja það að ef borið yrði saman við ráðstöfunartekjur, eins og Svavar Gestsson gerði hér í gær, þá hefði kaupmátturinn vaxið á þessu ári borið saman við verðbólgu. En ég geng ekki svo langt. Ég geng ekki lengra en svo að segja að kaupmátturinn haldist í hendur við hækkun vöruverðs. En við skulum þó segja annað. Hér var í gær talað um hækkun á húsaleigu. Það var talað um að húsaleigan kostaði ung hjón 11 þús. kr. á mánuði. En sá er munurinn nú eða fyrir tveimur árum að þetta unga fólk getur treyst því að húsaleigan verði þó af þessari stærðargráðu. En hvernig var það vorið 1983? Hversu mikil var hækkun húsaleigunnar þá í einu vetfangi, húsaleiguvísitölu á því vori? Ég man ekki hvort það var 50 eða 60%. Ef við reiknum með 130% verðbólgu, eins og var síðasta mánuð þeirrar ríkisstjórnar sem kvaddi, þá mundi það þýða að þessi húsaleiga, sem er í dag 11 þús. kr., yrði í hæðum eins og 25–30 þús. kr. eftir eitt ár. Og er það engin kjarabót að menn geti nokkurn veginn reiknað með því að verðlag haldist, menn geti mótað stefnu fram í tímann, reynt að standa undir skuldbindingum sínum og gert sér grein fyrir því að ef þá vanhagar um eitthvað til sinnar fjölskyldu, þá geti þeir safnað fyrir því en þurfi ekki að kaupa á afborgunarskilmálum með afarkostum?

Það er líka alveg ný kenning hér, og heyrðist ekki meðan verðbólgan var sem mest, að það væri kjaraskerðing í sjálfu sér að koma verðbólgunni niður. Það virtist ekki þá. Þá var talað um það, þegar samningar voru gerðir við launþegahreyfinguna meðan síðasta ríkisstjórn var við völd, að verkalýðshreyfingin mæti minni verðbólgu til kauphækkunar, sem að vísu var ekki staðið við. Ég held að menn ættu að íhuga þetta. Og ég held að það væri líka gaman að sjá útreikning á því hvernig þeir ætla að reikna út kaupmátt á einhverjum einum degi í 130% verðbólgu. Hvaða maður getur sagt það í 130% verðbólgu hver kaupmátturinn er 1. mars, 1. apríl, 1. maí og 30. maí, þann tíma sem þetta geisar? Hver gat mælt kaupmáttarskerðinguna á þessum tíma? Hver var maður til þess? Og hver þorir að ábyrgjast slíka reikninga? Ég veit það ekki. Hitt veit ég, að ég hef farið, ég skal ekki segja víða um land, en þó gert nokkuð víðreist á Norðurlandi og talað þar við fjölda manns og eins hér í Reykjavík um lífskjörin. Og það ber flestum saman um það að eini fasti punkturinn, sem menn hafa þó núna, sé stöðugt verðlag, að geta treyst því að peningarnir brenni ekki upp á einu augabragði. Það sé þó sá eini punktur sem menn hafa í þeim erfiðleikum sem yfir þjóðina ganga. Og mér er ekki kunnugt um að sú krafa komi frá alþýðunni, frá opinberum starfsmönnum eða neins staðar að, að ríkisstj. eigi að hlaupa til á fyrsta degi og semja um kauphækkanir sem ganga jafnt yfir alla upp á 30–40%. Það þekki ég.

Ég vil líka segja annað. Vitaskuld er það rétt að laun ekki aðeins opinberra starfsmanna heldur margra annarra, ég vil nefna verslunar- og skrifstofufólks, sem vinnur eftir kauptöxtum, er mjög mismunandi borið saman við aðrar stéttir og borið saman við þá sem eru yfirborgaðir innan þeirra sömu stétta. Ekki aðeins eru kjör verslunar- og skrifstofufólks mismunandi hér í Reykjavík, heldur er miklu minni munur á hæstlaunuðu mönnum í þessum stéttum á Akureyri til að mynda heldur en hér í Reykjavík. Ég held að við getum sagt að kjör verslunar- og skrifstofufólks séu tiltölulega í takt við kauptaxta úti á landi, þar sem aflabresturinn er farinn að segja verulega til sín, aflabresturinn sem fór fram hjá Alþfl.

Ýmsir menn í verkalýðshreyfingunni, þeir sem næst standa þeim sem bágust hafa kjörin, hafa beitt sér fyrir því að sérstök lágmarkslaun séu greidd í þessu þjóðfélagi. Enginn skuli fá lægri laun en tiltekna tölu, sem ég man ekki betur en sé rúmlega 12 900 kr. nú. Þetta hefur að sjálfsögðu þau áhrif að ýmis önnur viðmiðun innan launakerfisins raskast, viðmiðun í sambandi við bónus, viðmiðun í sambandi við ákvæðisvinnu og margt annað. Það er þessi flókna uppbygging launakerfisins sem auðvitað gerir lausn kjaradeilunnar erfiða og veldur því m.a. að verslunar- og skrifstofufólk og opinberir starfsmenn geta nú sagt, og kannske með nokkrum rétti, að kjör þeirra hafi dregist saman borið saman við aðrar stéttir. Þessu skal ég ekki neita.

Ég vil einnig taka það fram að endurskoðun eða endurmat á störfum opinberra starfsmanna hlýtur að koma í kjölfar samninganna nú, en eins og ég geri ráð fyrir að ýmsir þekki byrjaði t.d. hagur kennara innan launakerfisins að raskast á árinu 1981 og hafa þeir borið hlutfallslega verri hlut frá borði síðan. Við þetta voru að vísu ekki gerðar athugasemdir við samningana s.l. vetur. Auðvitað verður að taka þessa hluti alla til endurmats. Ég vil taka undir þau orð, sem hæstv. menntmrh. sagði hér í gær, að mikil nauðsyn er okkur á því að fyrir menntun og uppeldi barna og unglinga sé vel séð og þjóðfélagið verður að hafa efni á því að greiða þeim sem þau störf vinna sómasamlegan lífeyri. En við verðum þá líka um leið að viðurkenna að innan opinbera geirans hefur ekki verið gætt þeirrar hagsýni og hagræðingar sem skyldi. Þær tölur tala auðvitað mjög ljósu máli að frá 1971 skuli kennarastéttinni, eða starfsmönnum skólans svo að maður fari nú rétt með, hafa fjölgað yfir 90% á sama tíma og nemendum fjölgaði um rúmleg 6%. Ég er sannfærður um að þarna er einhvers staðar of í lagt. Ég er sannfærður um að unnt sé að ná sama árangri í kennslu og upplýsingu með minni tilkostnaði en þessar tölur bera með sér. Auðvitað er það svo að ríkið hefur betri tök á að greiða starfsmönnum sínum skikkanleg laun án þess að það hafi í för með sér tilfinnanlega skattbyrði ef hægt er að halda fjölda þeirra í einhverju horfi. Þetta vil ég að komi fram.

Ég vil líka segja það að miðað við þann langa samdrátt sem orðið hefur í lífskjörum er eðlilegt að þrýstingur sé á forustumönnum launþega að knýja fram úrbætur umbjóðendum sínum til handa. Við vitum vel að þau heimili sem verst eru stödd eru illa stödd núna. Við vitum það. En einmitt þessi staðreynd hlýtur að reka á eftir okkur að finna einhverja þá lausn sem líka kemur þessum heimilum að notum. Og ég fullyrði það að ný verðbólga núna, verðbólga af nýjum toga, af nýjum ástæðum, sem búin er til hér innanlands í illa gerðum kjarasamningum, mundi ekki nýtast því fólki sem verst er statt. Sú var ekki reynslan þegar verðbólgan reið hér húsum.

Ég hafði ætlað mér að geyma umr. um útvarpslög þangað til útvarpslagafrv. yrði lagt fram. Ég vil aðeins segja það að það er mikill misskilningur hjá útvarpsráðsmanni hv. þm. Eiði Guðnasyni ef hann heldur að enginn þrýstingur hafi verið á útvíkkun útvarpslaga á undanförnum árum og ef hann er að reyna að gefa í skyn að allir hafi jafnvel sætt sig við einokun útvarpsins. Hann getur komið hér upp með hneykslunarrómi og haldið þessu fram, en það er mikill misskilningur að vera að gefa slíkt í skyn, einkum þar sem þessi hv. þm. veit betur.

Staðreyndin er sú, að ný tækni á hverjum tíma breytir inntaki þjóðfélagsins. Menn skulu ekki halda að ekkert hafi breyst við það að prentlistin kom til sögunnar. Og menn skulu ekki heldur halda að ekkert breytist þegar útvarpstækninni fleygir svo fram sem raun ber vitni. Auðvitað hlýtur margt að breytast. Auðvitað hljóta Íslendingar að vilja vera frjálsir að þessu leyti innan skynsamlegs ramma eins og þeirra nágrannar.

Ég vil rifja það upp að þegar stjórnarskráin var sett 1874 veitti hún það mesta frelsi sem hægt var að veita til hvers konar tjáningar, hvort sem væri í rituðu orði eða töluðu. Réttur mannsins til að tala og skrifa var ótvíræður og ekki mátti undir neinum kringumstæðum torvelda eða draga úr þeim rétti. Sá réttur fékkst heldur ekki baráttulaust. Þeir menn sem fyrstir brutust fram og ruddu veginn varðandi ritfrelsið héldu sig ekki á þeim tíma innan þeirra laga sem þá giltu í þeirra ríkjum. Og breytir það þó engu um það að í réttarríki ber mönnum að haga sér í samræmi við lög og anda laganna, þar sem það er hægt. Og nú brosa menn. (Gripið fram í.) Það stendur í íslenskum lögum að sóknarprestar megi ekki giftast leginni konu. Nú skal ég ekki segja hvernig hv. þm. vill halda á því máli.

Ég vil í annan stað segja það að í lögum stóð að einungis sóknarprestar, starfandi prestar, mættu gefa saman hjón. Uppgjafaprestar fóru ekki eftir þessu. Þeir gáfu saman hjón í stórum stíl og að síðustu hrundi Hæstiréttur þessu lagaákvæði og sagði það væri úr gildi fallið vegna notkunarleysis. Ég vil enn fremur benda á að á síðasta þingi var þessi hv. þm. mjög mikill talsmaður frjálsrar sölu á grænmeti og ég er ekki alveg sannfærður um að hann hafi í öllum sínum málflutningi þá, ég á nú eftir að orðtaka það, mjög hvatt menn til að gæta laga og reglna og beðið þá um að kaupa ekki kartöflur frá öðrum en þeim sem skylt væri lögum samkvæmt. (Gripið fram í: Ég flutti um það lagafrv., hv. þm.) Já, og það voru líka flutt lagafrv. um frjálsan útvarpsrekstur sem hv. þm. var ekki reiðubúinn til að samþykkja á síðasta þingi. (Gripið fram í: Það er rangt.) Er það rangt? Ég skal ekki vitna í einkasamtöl, ef hv. þm. vill orða það svo. (Gripið fram í: Ég var ekki reiðubúinn til að samþykkja það óbreytt.) Ekki á síðasta þingi? (Gripið fram í: Ekki óbreytt.) Hv. þm. segir þetta of seint, held ég. Ég held að það sé nú svo.

En ég vil aðeins að það komi fram að menn hafa löngum orðið að berjast fyrir réttindum sínum með töluverðri ýtni. Verkfallsréttur t.d. fékkst ekki baráttulaust og ég er ekki viss um að verkalýðshreyfingin hafi á sínum tíma í öllum tilvikum haldið sig við ströngustu lagafyrirmæli þegar hún náði þeim rétti. Kannske er rétt að skjóta því hér inn varðandi verkfallsréttinn, af því að mér skilst á sumum hv. Alþfl.mönnum að við sjálfstæðismenn stöndum okkur ekki nægilega vel gagnvart opinberum starfsmönnum, að Alþfl. var í ríkisstjórn samfleytt frá 1956 til 1971, þar af 10 ár með sjálfstæðismönnum, og ekki bólaði á því að opinberum starfsmönnum yrði veittur verkfallsréttur, og ekki heldur í tíð næstu ríkisstjórnar sem var vinstri stjórn. Þegar hins vegar framsóknarmenn og sjálfstæðismenn komu saman, þá stóð ekki á því að ganga til móts við opinbera starfsmenn að þessu leyti. Er það út af fyrir sig lærdómsríkt um það að vinstri flokkunum er gjarnara að tala fremur en hrinda málum í framkvæmd.

Enn er það að við búum við það að bannað er að flytja bjór inn í landið. Þó gæta þjónar réttvísinnar þess vandlega, þegar menn koma erlendis frá, að þeir fari ekki með fleiri bjóra inn í landið en — hvað er það, 12 eða 24? Ég man það ekki, en það eru fleiri bjórar ef hann er íslenskur. En þó er bannað að flytja allan bjór inn í landið.

Eins vitum við það að ekki er heimilt að selja áfengan bjór hér í veitingahúsum. Þá gripu þeir til þess að blanda bjórinn á staðnum. Mér er meira að segja sagt að eitt veitingahúsið láti blanda bjórinn uppi í ölgerð Egils Skallagrímssonar. Sú aðferð sé viðhöfð að fyrst sé bruggaður bjór, sem sé sterkari en lög leyfa, þá sé hellt vatni í bjórinn til þess að hann sé jafnsterkur og lög leyfa og síðan er hellt kláravíni í bjórinn, þegar hann er kominn út fyrir tollgæsluna, til þess að hann sé nógu sterkur fyrir þetta veitingahús og hann síðan fluttur blandaður á staðinn. Ekki veit ég hvort þetta er rétt. En hæstv. dómsmrh. vakti athygli saksóknara á þessu og saksóknari komst að þeirri niðurstöðu að þetta væri allt í besta lagi. Þannig hefur þjóðin tekið lögin í sínar hendur í þessum málum og má auðvitað kalla lögbrjóta þá sem neyta þessa víns inni á almennum veitingastöðum.

Hér var áðan minnst á kapalsjónvörpin. Fulltrúar allra stjórnmálaflokka í mínu kjördæmi mættu á sérstökum sjónvarpsfundi í kapalsjónvarpi, sem fulltrúi útvarpsráðs hér á Alþingi, hv. þm. Eiður Guðnason, segir að hafi verið ólöglegt. Við höfum þá allir þm. Norðurl. e. ýmist verið sjálfir í ólöglegu sjónvarpi eða átt okkar fulltrúa þar, og þótt það bara ágætt, af því að við töldum að við næðum betur til fólksins í gegnum þetta ólöglega sjónvarp. Ég held líka að í sambandi við afgreiðslu fjarskiptalaga á síðasta þingi hafi ýmsir þm. úr öllum stjórnmálaflokkum, líka Alþfl., haft af því áhyggjur að fjarskiptalögin, eins og frá þeim var gengið, högguðu ekki við þessum ólöglegu sjónvarpsstöðvum. Á hinn bóginn fengum við orð um það að samgrh. mundi ekki við þeim hrófla. Ekki hafa þessar sjónvarpsstöðvar verið kærðar. Núna getum við gengið hér í vörumarkaði, við getum líka brugðið okkur norður eða vestur og farið í þessi ólöglegu kapalkerfi.

Hv. þm. sagði að það væri ólöglegt kapalkerfi í Reykjavík sem borgarstjórn Reykjavíkur hefði stuðlað að og við gætum séð þar sjónvarpsefni sem væri selt af sérstöku fyrirtæki hér í bænum, sem hefur sem þul gamalkunnan útvarpsmann, a.m.k. einn. Ég sá einn þeirra í þessu sjónvarpi um daginn. Er það heimilt lögum skv. að stofna fyrirtæki sem hefur þann tilgang að selja ólöglegum sjónvarpsstöðvum útvarps- og fréttaefni? Væri ekki tími til kominn að útvarpsráð íhugaði starfsemi þessa fyrirtækis eins og hún er rekin, af því að hv. þm. talaði um gróðastarfsemi, og kanni hvort rétt sé að útvarpsráð kæri þessa starfsemi fyrir saksóknara? Hvernig væri það? Er þetta ekki að gera sér peninga úr sjónvarpsleysinu með því að hlaupa í skarð sjónvarpsins, með því að gefa þeim sem hafa ólöglegt sjónvarp tækifæri til þess að horfa á fréttir í sjónvarpi? Einhvern veginn hangir þetta svona saman.

Svo skilst mér að lögreglan hafi gert reka að því að leita að sjónvarpi í einu húsi. Og það hittist svo á að það var Valhöll, hús Sjálfstæðisflokksins, og er nú mjög hneykslast á því að sá maður sem þar réð húsum skuli, áður en hann hleypir þeim inn, spyrja eftir hvaða heimildum það sé gert. En þá spyr ég á móti: Ef ástæða er til að fara þannig inn í eitt hús, því er ekki farið inn í öll? Og þá kem ég að því sem hv. þm. á svo erfitt með að skilja: að ef við viljum halda okkur við lögin, þá verðum við líka að segja að allir séu jafnir fyrir lögunum, eins og hæstv. iðnrh. sagði. Ég held að það sé alveg ljóst.

Hitt finnst mér undarlegt, eins og þessi hv. þm. virtist vel að sér, einkanlega í því sem Bjarni Benediktsson hafði sagt og virtist gerkunnugur því hvernig ætti að standa að opinberri ákæru, að honum skyldi hafa skotist yfir að Bjarni Benediktsson beitti sér fyrir því 1961 að sett voru lög um saksóknara, til þess að taka ákæruvaldið úr höndum pólitískra ráðherra, og færði m.a. þau rök fyrir því að hinir pólitísku ráðherrar sætu í stuttan tíma, þeir væru oft umdeildir, oft svo að kannske nær helmingur þjóðarinnar hefði verið andsnúinn þeim í kosningum og væri í pólitískri andstöðu við þessa ráðherra. Þess vegna væri eðlilegt að þetta vald væri í höndum embættismanns, ópólitísks manns, sem væri hafinn yfir pólitískar deilur og hinn venjubundna eril stjórnmálamanna. Það er einmitt svo í lögum að saksóknara er gert að fylgjast með afbrotum, sem ekki verður öðruvísi skilið en svo, að honum beri að grípa inn í ef hann verður var við að afbrot séu framin. Ef þess vegna við einhvern er að sakast varðandi allt það sem hv. þm. taldi aðfinnsluvert í sambandi við ákæruvaldið ber að snúa sér að saksóknara og gagnrýna hans embættisfærslu. En vel má líka vera að saksóknari hafi eitthvað fyrir sér í því, að kapalsjónvörpin séu ekki þess eðlis að ástæða sé fyrir ákæruvaldið að grípa þar inn í. Það skal ég ekki um segja. En eftirtektarvert er að ríkissaksóknari hefur ekki séð ástæðu til þess jafnvel þótt, eins og hv. þm. sagði, að um þessi mál hafi verið fjallað hér á Alþingi og þessi starfsemi talin ólögleg og þrátt fyrir það að um þau hefur verið fjallað í útvarpsráði, eins og hv. þm. sagði. Og ég efast ekki um að hann hafi gert ráðstafanir til þess að ríkissaksóknari vissi um þau sjónarmið sín.

Jafnvel þó að maður fari ekki lengra aftur en þegar ég var ungur, jafnungur maður og ég er, þá hefur margt breyst í þessu þjóðfélagi í frjálsræðisátt, ekki aðeins í efnahagsmálum, heldur einnig í almennum umgengnisvenjum, í skiptum manna á meðal. Menn gera miklu, miklu strangari kröfur um hvers konar þjónustu en þá var. Ég held t.d. að lítt mundi stoða fyrir okkur nú að setja lög um það að sérstakt leyfi þyrfti til blaðaútgáfu. Ég held að engum einasta manni dytti slíkt í hug af því að við erum orðin vön blaðaútgáfu. Við skulum líka muna eftir því að bara ferðalög fólks, langdvalir þess erlendis, hafa vanið það við að hafa úr fleiru en einu að velja, geta hlustað á fleira en eina útvarpsstöð, geta kynnst sjónarmiðum í fleiru en einu sjónvarpi. Auðvitað hljóta þessi nánu tengsl við umheiminn að valda því, að fólkið gerir þær sömu kröfur hér heima um meira val í fjölmiðlun og fréttamiðlun.

Hitt lýsir miklum barnaskap hjá hv. þm. Eiði Guðnasyni að halda að menn standi fyrir einhverjum rekstri án þess að ætla að græða á honum. Þó er það nú svo um sum kapalsjónvörpin að þeir sem undir þeim standa hafa tapað á því fé. En slíkt getur ekki gengið til frambúðar og auðvitað ætla þeir, sem fara út í frjálsan útvarpsrekstur, að græða á því alveg eins og þeir á Alþýðublaðinu ætla sér að græða. (Gripið fram í: Það hefur nú gengið illa.) En hinu get ég lofað þessum hv. þm. að ég mun greiða atkv. á móti hvers konar ríkisstyrk til frjálsra útvarpsstöðva á sama hátt og ég hef greitt atkv. á móti því að stórfé sé greitt úr ríkissjóði til þess að koma Alþýðublaðinu út. Það er svo annar angi á þessum málum.