15.04.1985
Neðri deild: 56. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4181 í B-deild Alþingistíðinda. (3510)

50. mál, ríkisábyrgð á launum

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég held að hv. síðasti ræðumaður hafi eitthvað misskilið þetta mál. Þetta frv. er búið að vera til meðferðar hér á Alþingi eins og hann réttilega sagði. Það var lagt fram á síðasta þingi og varð þá ekki útrætt. Það hefur fengið mjög mikla umfjöllun hjá félmn. Ed., eins og fram kemur á þskj., og þar voru til kvaddir forustumenn launþegahreyfingarinnar, bæði forseti ASÍ og lögfræðingur ASÍ, og enn fremur fleiri aðilar og ekki síst þeir fulltrúar borgarfógeta sem sömdu þetta frv. á sínum tíma, en það var gert til þess, eins og síðasti ræðumaður réttilega sagði, að reyna að skýra meðferð þessa mikilvæga og viðkvæma máls í dómskerfinu og skera af því ýmsa agnúa sem hafa valdið deilum á undanförnum árum.

Það var fyrst og fremst krafa launþegahreyfingarinnar að fá inn í frv. ríkisábyrgð á lífeyrissjóðsiðgjöld. Ekki var fallist á það við samningu frv., en hins vegar varð samkomulag um það í félmn. Ed., sem félmrh. samþykkti, að sú breyting yrði gerð að kröfu viðurkennds lífeyrissjóðs vegna vangoldinna lífeyrissjóðsiðgjalda, bæði af hluta launþega og vinnuveitenda, að það félli undir ríkisábyrgð. Þannig var fullnægt þeirri meginkröfu sem verkalýðshreyfingin lagði áherslu á í sambandi við meðferð þessa máls. Hins vegar voru ýmis smærri sjóðagjöld, m. a. til sjúkrasjóða, sem ekki var fallist á að taka með við þessa lagabreyt. og félmn. Ed. gerði ekki sérstaka tillögu um að svo yrði.

Ég held að það sé misskilningur hjá hv. þm. í sambandi við orlofsféð. Ef hann les 4. gr. laganna getur að líta í b-lið:

„Kröfu um orlofsfé sem fallið hefur til vegna launa launþega síðustu tólf starfsmánuði hans hjá vinnuveitanda, að því leyti sem það tímabil fellur innan tímamarka þeirra sem orlofsfjárkröfu fylgir forgangsréttur í búið.“

Þetta er skilyrðislaust tekið undir ríkisábyrgð. Það sem hv. þm. á hins vegar við er í sambandi við meðferð á orlofsfé sem rennur að meginhluta til í gegnum póstgíró. Vestfirðingar hafa sérstöðu í þessu máli og hafa til þessa framkvæmt þetta þannig að orlofsféð er greitt inn á sérstaka reikninga hjá viðkomandi launþega á viðkomandi félagssvæði. Þetta hefur mætt mikilli andstöðu hjá heildarsamtökum launþega. Þeir hafa ekki viljað fallast á að þessi háttur yrði tekinn upp almennt í landinu. Það hefur verið sérstök nefnd að störfum sem hefur tekið þessi mál til meðferðar og fjallað mjög ítarlega um hvort það ætti að gera þær breytingar á meðferð orlofsfjár að gefa hana frjálsa og láta launþegahreyfinguna og/eða vinnumarkaðinn um að ávaxta þetta þar sem þau óska. Niðurstaðan var hins vegar sú á næstsíðasta orlofsári að menn vildu ekki enn þá breyta þessu. Kemur í ljós næstu daga hvernig niðurstaðan er á því orlofsári sem núna er að ljúka, hvernig fjárhagsstaðan er fyrir launþega.

En niðurstaðan var sem sagt sú að ávöxtun fjár hjá Póstgíróstofunni var í hámarki þannig að hægt var að greiða hæstu vexti sem þekktust á lánsfjármarkaði á næstsíðasta orlofsári. Ég reikna með því að Vestfirðingar hafi orðið að taka mjög á til að geta náð þeim árangri einnig. Þetta varð til þess að sú nefnd sem er að störfum hefur ekki viljað afgreiða þetta mál frá sér og ákveða hvort á að gera á þessu breytingar eða ekki. Málið er því að þessu leyti til í biðstöðu vegna þess að forustumenn vinnumarkaðarins treysta sér ekki til þess að leggja til að póstgíróformið verði lagt niður. Þetta er ákaflega viðkvæmt mál og ég held við verðum að vanda okkur vel og rasa ekki um ráð fram við meðferð þessa máls.

Að öðru leyti held ég að ég þurfi ekki að útskýra þetta frv. Það skýrir sig alveg sjálft. Það er utan við þetta enn þá að ríkisábyrgð er ekki á ýmsum smærri sjóðaframlögum til launþegahreyfingarinnar, svo sem sjúkraiðgjöldum til sjúkrasjóða, en orlofsfé er ríkistryggt og þarna er bætt við þessu mikilvægasta atriði, sem launþegahreyfingin lagði höfuðáherslu á, að iðgjöld lífeyrissjóðanna eru einnig með ríkisábyrgð.