16.04.1985
Sameinað þing: 70. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4216 í B-deild Alþingistíðinda. (3569)

396. mál, sýningar Þjóðleikhússins

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Um leið og ég þakka hv. 3. þm. Vestf. fyrir að hafa vakið máls á sýningum Þjóðleikhússins og því lagaákvæði sem gerir ráð fyrir því að farið sé með sýningar Þjóðleikhússins út um landið vil ég svara fsp. hans beint.

Fyrri spurningin var: „Hversu margar leiksýningar hefur Þjóðleikhúsið haft á eftirtöldum svæðum s. l. fimm ár: Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi?“

Svarið er: Aðeins ein leikför hefur verið farin á þessum árum til þeirra svæða sem um er spurt, „Í öruggri borg“ eftir Jökul Jakobsson sem sýnt var á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra 1981.

Síðari spurningin var: „Hve marga leikstjóra eða leikara lét Þjóðleikhúsið leikfélögum úti á landi í té s. l. fimm ár?“

Svarið er: Á s. l. fimm árum hafa í 28 verkefnum verið sendir leikarar og leikstjórar út á land og tvisvar leikmyndateiknari.

Það er rétt að fram komi að Þjóðleikhúsið hefur á hverju vori stefnt að leikferð yfir sumarmánuðina, en er sá tími nálgaðist að ferðin yrði farin eða undirbúningi hennar væri lokið hefur orðið ljóst að fjárveitingar til leikhússins mundu ekki duga út árið og þá verið gripið til sparnaðaraðgerða og hafa leikferðir út um landið orðið fyrir barðinu á þeim. Það er best að segja hverja sögu eins og hún gengur, en þannig hefur málum verið háttað að því er þetta varðar.

Það er ljóst að það fjárframlag sem gengið hefur til leikhússins á undanförnum árum hefur ekki nægt til þess að Þjóðleikhúsið fengi staðið við þetta hlutverk. Það er auðvitað eitt af því sem við þurfum að taka afstöðu til hér á hv. Alþingi hvort svo eigi að ganga. En það er auðvitað fleira sem kemur til en beinar fjárveitingar. Ég vil greina frá því í þessu sambandi að nú nýlega er hafin úttekt á sjálfum rekstri Þjóðleikhússins í því skyni að það liggi ljóst fyrir að allar þær leiðir sem hugsanlegar eru séu farnar til þess að nýta fjármagnið sem til leikhússins fer sem allra best til að ná þó hinum listræna tilgangi þess.