22.04.1985
Efri deild: 58. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4403 í B-deild Alþingistíðinda. (3691)

49. mál, vinnumiðlun

Davíð Aðalsteinsson:

Hæstv. forseti. Það er rétt, sem kom fram í máli hv. 2. þm. Austurl., að félmn. hefur borist bréf um það mál sem hv. 2. þm. Austurl. kynnti hér. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það. Að sjálfsögðu verður það bréf tekið til frekari umfjöllunar í félmn. þar sem vonandi verða allir nm. viðlátnir.

Ég stóð fyrst og fremst upp við þessa umr. til þess að fá örlítið nánari útlistun á örfáum atriðum í frv. Ég tel að það geti sparað tíma í umfjöllun um það í n. Það er þá fyrst varðandi 4. gr. frv., 2. mgr. sem hljóðar svo, en þá er átt við ráðgjafarnefndina:

„Nefndin getur haft frumkvæði að því að gerðar verði áætlanir um aðgerðir sem hrinda megi í framkvæmd ef horfur eru á samdrætti eða breytingum í atvinnuháttum er leitt geta til atvinnuleysis hvort sem er á einstökum stöðum, í tilteknum starfsgreinum eða landinu í heild.“

Eins og fram hefur komið er þetta ákvæði nýmæli í slíkum lögum um vinnumiðlun. Þeim spurningum hlýtur maður að velta fyrir sér þegar þess er getið að nefndin geti haft frumkvæði að því að gerðar verði áætlanir og hrint þeim í framkvæmd. Reyndar er ekki getið um það eða skýrt ákveðið í þessu frv. hver það er sem hugsanlega hrindir slíkum áætlunum í framkvæmd. Þó er að því vikið í grg. og verður best skilið að það sé raunar nefndin sjálf, þ. e. ráðgjafarnefndin. Nú hlýtur sú spurning að leita á hugann hversu víðtækt þetta vald er sem fengið er þarna í hendur ráðgjafarnefndinni.

Það er deginum ljósara að fjölmargir aðilar hafa með höndum atvinnurekstur og atvinnustarfsemi á hverjum stað. Um alls konar rekstrarform er að ræða, bæði hálfopinberan rekstur og einkarekstur. Er virkilega gert ráð fyrir því að ráðgjafarnefndin geti látið frá sér fara og jafnvel hrint í framkvæmd áætlunum um aðgerðir í afvinnumálum sem varða ef að líkum lætur í mörgum tilvikum í mjög ríkum mæli einkaaðila í rekstri, starfsháttu þeirra, mannaráðningar, mannahald og fyrirkomulag að ýmsu leyti? Það er óumflýjanlegt að nokkuð ljóst liggi fyrir hvað við er átt í þessu efni.

Í öðru lagi langar mig til að fá örlítið nánar útskýrt hvað átt er við í 7. gr. frv. þar sem vikið er að því að landinu skuli skipt í atvinnusvæði þannig að sveitarfélög, sem landfræðilega og atvinnulega hafa svipaðra hagsmuna að gæta, teljist á sama atvinnusvæði. Nú get ég vel ímyndað mér hvað þarna er átt við í stærstum dráttum. Hins vegar leiði ég hugann að því fyrir það fyrsta hvenær er fyrirhugað á grundvelli reglugerðar, verði þessi atvinnusvæði ákveðin, að skiptingunni verði lokið og í öðru lagi hvort menn hafi bak við eyrað í framhaldi af þessari breytingu á skipan atvinnusvæðanna að breyta rétti einstaklinga til atvinnuleysisbóta. Þá á ég við hvort tveggja með tilliti til aðildar að verkalýðsfélagi og sveitfesti viðkomandi einstaklings.

Í þriðja lagi langar mig að víkja örfáum orðum að eins konar fyrirframgerðri lögskýringu félmn. Nd. en í 3. lið nál. stendur svo, með leyfi forseta:

„Í frv. tekur hugtakið „atvinnuleitandi“ til þeirra sem eru í starfi en leita eftir öðru starfi. Hugtakið „atvinnuumsækjandi“ tekur til þeirra sem ekki eru í starfi.“

Nú segi ég alveg eins og er að mig brestur skilning á þessu tvennu. Minn málskilningur segir mér að „atvinnuleitandi“ sé yfir höfuð sá aðili sem leitar eftir vinnu, einu gildi hvort hann er í annarri vinnu nú þegar eða hvort hann er atvinnulaus. En „atvinnuumsækjandi“ getur skv. mínum skilningi hvort tveggja verið í atvinnu eða atvinnulaus en hann sækir um annað starf eða sækir um tiltekið starf og er þar af leiðandi atvinnuumsækjandi. Enda er í 11. gr. frv. tíunduð þjónusta við atvinnuleitendur og það er nokkuð löng upptalning. Þá er tíunduð þjónusta við atvinnurekendur. C-liður fjallar um sérstaka þjónustu. Stafliðirnir eru þrír í þessari grein. En það er eins og skv. þessari fyrirframgerðu lögskýringu félmn. Nd. sé engin þjónusta við atvinnuumsækjendur en skv. fyrirframgerðri lögskýringu eru það einmitt þeir sem ekki eru í starfi. Minn skilningur segir mér að þrátt fyrir allt sé þó vinnumiðlun ekki síst til þess fallin að koma þeim til starfa sem ekki eru í starfi. Ég vil sem sagt fá nánari skýringar á þessum fyrirframgerðu lögskýringum félmn. Nd., „atvinnuleitandi“ — „atvinnuumsækjandi“.

Varðandi 13. gr. þá má vel vera að nauðsynlegt sé að taka fram í lögum þegar heimila skal uppsetningu vélgengs kerfis, þ. e. gagnavinnslukerfis. Hins vegar lætur maður sér til hugar koma á þessum öru breytingatímum í allri tækni, hvort sem það varðar skrifstofuhald eða annað, að einhvern tíma hefði staðið í lögum við upphaf ritvélarinnar að heimilt væri þegar þar að kæmi að hafa ritvél á skrifstofunni. En það má vel vera að þetta sé nauðsynlegt vegna tölvukerfis að þessu leyti.

15. gr. finnst mér nokkuð fortakslaus gagnvart atvinnurekendum. Gert er ráð fyrir því að aðila sem hefur fjóra eða fleiri starfsmenn í þjónustu sinni sé hægt að beita sektum tilkynni hann ekki um laus störf. Það er reyndar á það minnst í nál. félmn. Nd. að haft verði samráð við samtök atvinnurekenda í þessu efni. Vil ég leggja áherslu á það, ekki síst þar til reynsla er fengin af því skipulagi sem lögin gera ráð fyrir að verði upp tekið.

Virðulegi forseti. Ég hef ekki fleira um þetta að segja. En eins og ég gat um í upphafi máls míns tel ég eðlilegt til þess að spara tíma að nokkrar skýringar verði gefnar á þeim atriðum sem ég hef um getið.