22.04.1985
Efri deild: 58. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4419 í B-deild Alþingistíðinda. (3707)

98. mál, sóknargjöld

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Ég hef fylgst með þeim breytingum sem gerð er tillaga um af hálfu menntmn. á frv. um sóknargjöld og er þeim tillögum öllum samþykkur. Ég held að þær horfi allar til bóta. Ég minni hins vegar á að ég hef flutt till. um atriði í frv. sem ég tel að skipti enn meira máli, en það er að sóknargjöldin verði aldrei hærri en 0.4% af útsvarsskyldum tekjum og geti sem sagt ekki rokið upp í 0.8% eins og frv. gerir ráð fyrir. Það tel ég óhóflegt og ástæðulaust, óþarft með öllu, og tel að vanda safnaðar, sem hugsanlega þyrfti á svo mikilli álagningu að halda, ætti frekar að leysa þannig að 10% af sóknargjöldum rynnu í jöfnunarsjóð og gengju þá til þeirra sem sannanlega þyrftu sérstaklega á því að halda. Ég minni á að það er býsna mikil aukning á skattlagningu í þeim tilvikum þegar sóknargjöld fara upp í 0.8% og verður að teljast bæði óhæfilegt og óþarft.