30.10.1984
Sameinað þing: 11. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 592 í B-deild Alþingistíðinda. (376)

80. mál, einingahús

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Til að geta svarað sem best fsp. hv. 7. landsk. þm. á þskj. 82 hef ég óskað eftir því að Húsnæðisstofnun gæfi mér upplýsingar um það sem hér er um spurt og rök fyrir þeirri ákvörðun stjórnar Húsnæðisstofnunarinnar að gera samþykkt þá sem hér er vitnað til. Það svar sem Húsnæðisstofnun lætur í té er sem hér segir:

„Hvaða aukning hefur orðið á framleiðslu íslenskra einingahúsa s.l. þrjú ár?“

Svarið er: Fjöldi framleiddra íslenskra einingahúsa á ári frá 1975: 1975 eru framleidd 179 hús, 1976 178 hús sem er 0.6% minnkun, 1977 156 hús sem er minnkun um 12.4% , 1978 197 hús sem er aukning um 26.3%, 1979 213 hús sem er aukning um 8.1%, 1980 228 hús sem er aukning um 7%, 1981 252 hús sem er aukning um 10.5%, 1982 284 hús sem er aukning um 12.7%, 1983 300 hús sem er aukning um 5.6% og 1984 er áætlað að framleidd verði milli 400 og 450 hús. Samtals eru þetta 2436 hús á árabilinu 1975–1984.

2. spurning: „Hvert var hlutfall einingahúsa af húsbyggingum á árinu 1983 í stærstu þéttbýliskjörnum annars vegar og hins vegar á smáum þéttbýlisstöðum og í dreifbýli?“

Svar stofnunarinnar: Framleiðsla einingahúsa sem hlutfall af byggðum einbýlis- og raðhúsum á árinu 1983 er á bilinu 20– 26% miðað við allt landið og sem hlutfall af heildaríbúðarbyggingum 8– 10% á árinu 1983. Þessi hlutföll má áætla að breytast muni á þessu ári og að heildarmarkaðshlutdeild þeirra verði þá á bilinu 10– 12% í stað 8– 10%. Hlutfall einingahúsa af húsum í byggingu á stór- Reykjavíkursvæðinu er um 32% á þessu ári.

3. spurning: „Hver var á árinu 1983 meðalstærð einingahúsa í samanburði við önnur einbýlishús sem byggð voru á hefðbundinn hátt?“

Svar: Meðalstærð einingahúsa er 140–150 fermetrar og meðalstærð einbýlishúsa 170–180 fermetrar.

4. spurning: „Hvaða áhrif er talið að breyttar útlánareglur húsnæðislána, sem samþykktar voru í húsnæðismálastjórn 19. sept. s.l., hafi:

a) á fjármögnun húsbyggjenda er kaupa og fá einingahús afhent eftir næstu áramót?

b) á framleiðslu einingahúsa sem iðnað í landinu?

c) á byggingarmarkaðinn í heild og verðlag á húsnæði?“

Svar stofnunarinnar:

a) Þau áhrif sem samþykktin hefur í för með sér liggja aðallega í þeim vaxtamun sem lántaki þarf annars vegar að greiða til framleiðandans, t.d. vegna lántöku í banka, og svo hins vegar þá gjaldföllnu vexti sem annars þyrfti að bera af láninu yfir sama tímabil. Ýmsar gerðir samninga eru í gangi milli framleiðenda og kaupenda og er því erfitt að segja til um þennan mun. Dæmi um samninga: 1.Húsnæðisstjórnarlánið er sett á ákveðna gjalddaga í kaupsamningi. Ef það verður dráttur á því eru dráttarvextir reiknaðir. 2. Litið er á lánið sem lán frá framleiðanda og hann reiknar sér vexti þar til lánið kemur til útgreiðslu frá stofnuninni. Þessar greiðslur eru ódagsettar.

b) Útstreymi úr Byggingarsjóði ríkisins verður hægara og eftirspurn eftir einingahúsum er eitthvað að minnka. Á það skal bent að almennt er búist við samdrætti í byggingariðnaðinum á næsta ári. Einingahúsaframleiðendur hafa einnig notið lánafyrirgreiðslu úr Seðlabanka Íslands, þ.e. þeir fá afurðalán.

c) Breyttar útlánareglur munu hafa lítil áhrif á byggingarmarkaðinn í heild. Einingahúsaframleiðslan mun sennilega eitthvað dragast saman almennt. Við útboð tæknideildar Húsnæðisstofnunar ríkisins vegna félagslegra íbúða virðast einingahúsin ekki ódýrari byggingarmáti en hinn hefðbundni og hefur þessi framleiðsla ekki skilað sér í lækkuðu verðlagi eins og vonast var eftir. Ætla má að verðhækkun verði á einingahúsum sem nemur mismun á fjármagnskostnaði í bankakerfinu og lánum Byggingarsjóðs ríkisins. Ekki er búist við að þessi samþykkt hafi áhrif á verðlag á öðru húsnæði.

5. spurning: „Eru þessar breyttu úthlutunarreglur húsnæðislána til marks um stefnubreytingu í húsnæðismálum, og ef svo er, hvað er talið vinnast með slíkri breytingu?“

Svar Húsnæðisstofnunarinnar: Sú fyrirgreiðsla sem innlendir einingahúsaframleiðendur hafa notið hjá Húsnæðisstofnuninni var í upphafi hugsuð til að koma fótum undir þessa framleiðslugrein. Nú er aftur á móti talið að framleiðendur séu búnir að ná fótfestu á þessum markaði. Í nýjum lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, lögum nr. 60/1984, er talað um viðurkennda framkvæmdaaðila í byggingariðnaði. Má ætla að þegar fjárhagsstaða sjóðsins gefur tilefni til þess að veita slíka viðurkenningu muni þessir framleiðendur fá hana svo framarlega að þeir geti sýnt fram á framleiðslu á góðri og ódýrri vöru.

Ég vil við þetta bæta að ég geri mér fulla grein fyrir þeirri miklu röskun sem þessi samþykkt húsnæðismálastjórnar getur haft á þróun einingahúsaframleiðslu í landinu. Jafnframt geri ég mér líka grein fyrir mikilvægi þessarar framleiðslugreinar fyrir atvinnulífið í landinu öllu, ekki síst á hinum minni stöðum víðs vegar um landið eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda. Þess vegna lét ég hefja könnun fyrir nokkru á stöðu einingahúsaframleiðslunnar varðandi atvinnuumsvif og atvinnuuppbyggingu á viðkomandi svæðum og hver áhrif þessi framleiðsla hefur á byggingariðnaðinn í heild. Ég mun strax að fengnum þessum upplýsingum, sem ég vænti að fá núna mjög fljótlega, ræða sérstaklega við stjórn Húsnæðisstofnunarinnar um þetta mál áður en umrædd samþykki stjórnarinnar getur komið til framkvæmda. Ég er ekki samþykkur þessari stjórnarsamþykki að öllu leyti og mun þess vegna í kjölfar úttektarinnar, sem ég bíð eftir, beita mér fyrir því að samþykktin verði endurskoðuð.