23.04.1985
Sameinað þing: 73. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4491 í B-deild Alþingistíðinda. (3765)

380. mál, búnaður bandaríska herliðsins í stöðvum Landsímans

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fyrir hæstv. ráðh. samgöngumála fsp. sem er á þskj. 608 og er svohljóðandi:

„Hefur samgrn. gefið út heimild til Pósts og síma til að setja búnað frá bandaríska herliðinu í stöðvar Landssímans á nokkrum stöðum á landinu? Hvers eðlis er þessi búnaður og hvaða tilgangi þjónar hann?“

Það þarf ekki, herra forseti, að hafa langan formála að öðru leyti að þessari fsp. Það hefur komið fram, m. a. á fundi norður á Þórshöfn á Langanesi fyrir nokkru síðan þegar hæstv. utanrrh. svaraði þar fsp. frá einum fundarmanna um þennan búnað, að hann er til staðar, hann hefur verið settur niður, hann er á nokkrum stöðum á landinu og tengist á einhvern hátt fjarskiptum bandaríska hersins. Mér vitanlega hefur hvergi fram að þeim tíma verið gerð grein fyrir því opinberlega að þessi búnaður væri til staðar né frá því skýrt hvað liggur að baki því að hann var settur þarna niður. Ég hef ekki orðið þess áskynja að hv. Alþingi né utanrmn. þess hafi verið gerð grein fyrir þessu máli. Ég tel því eðlilegt að beina fsp. til hæstv. samgrh. um þetta efni og vænti þess að hann leiti sér þá liðsinnis innan hæstv. ríkisstj. ef hann telur það ekki í sínum verkahring að svara fyrir þessi mál.

Mér finnst eðlilegt að spurt sé um það hvers eðlis þessi búnaður sé, hvað hann sé að gera þarna, hvenær ákvarðanir hafi verið teknar um að setja hann þarna niður o. s. frv. Ég lít á þetta, herra forseti, tilvist þessa búnaðar í borgaralegum stofnunum eins og Landssímanum, sem skref í þá átt, sem virðist nú vera stefna stjórnvalda hér á landi í vaxandi mæli, að blanda saman starfsemi opinberra stofnana og þjónustufyrirtækja og starfsemi af hernaðarlegum toga. Ég er alfarið andvígur þessu og tel að hér sé farið út á hættulega braut.

Til viðbótar hinni beinu efnislegu fsp., sem ég hef hér lagt fram, væri fróðlegt að heyra eitthvað frá hæstv. ríkisstj., ekki síst þar sem höfuð hennar hefur nú gengið í salinn, hæstv. forsrh., um það hvort þessi nýja stefna sé samþykkt þar á bænum og síðan að birtast okkur í framkvæmd m. a. í þessu máli, að hverfa frá því, sem ég hef skilið vera yfirlýsta stefnu allra stjórnmálaflokka á Íslandi, að reyna að halda umsvifum herliðsins hér sem mest aðskildum frá borgaralegu lífi í landinu, sem sagt að hverfa frá þessari stefnu og flytja starfsemi af hernaðarlegum toga inn í opinberar þjónustustofnanir og opinber fyrirtæki og rugla þannig saman reytunum að í raun og veru sé ekki hægt að greina lengur á milli hvað er hvers.

Ég vænti þess að í svörum hæstv. samgrh. komi fram hvar þessi búnaður er til staðar og á hve mörgum stöðum. Það er fróðlegt fyrir þá sem nú eru að læra landafræði og eiga að læra hana í framtíðinni og eiga að kunna Íslandskortið sitt að vita á hversu mörgum stöðum á landinu á að setja rauðar stjörnur fyrir þau mannvirki sem falla undir hernaðarlega starfsemi.