23.04.1985
Sameinað þing: 73. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4496 í B-deild Alþingistíðinda. (3778)

400. mál, Kolbeinsey

Fyrirspyrjandi (Stefán Guðmundsson):

Herra forseti. Á 104. löggjafarþingi flutti ég á þskj. 163 till. til þál. um Kolbeinsey, svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að sjá svo um að sjómerki verði sett upp sem allra fyrst á Kolbeinsey. Athuganir fari einnig fram á því hvort og á hvern hátt megi sem best tryggja að eyjan standist heljaröfl stórviðra og ísa.“

Megintilgangur þáltill. er að auka öryggi sjófarenda. Jafnframt því verði athugað hvort og á hvern veg megi koma í veg fyrir að eyjan hverfi í sæ.

Kolbeinsey liggur rúmar 36 sjómílur norð-norðvestur af Grímsey. Vegna mjög aukinnar sóknar skipa til sjávarfangs á þetta hafsvæði hefur þörfin orðið brýnni en áður að komið verði upp sjómerkjum á Kolbeinsey til öryggis sjófarendum.

Vissulega eru aðstæður til þeirra framkvæmda sem hér er rætt um erfiðar en ekki ómögulegar. Fyrir nokkrum árum voru ratsjármerki sett upp í Kolbeinsey en stóðust ekki þann veðraham er þar geisar. Starfsmenn Landhelgisgæslunnar voru við athuganir á Kolbeinsey 25. apríl 1978 og segja þá m. a.: „Undirstöður undir ratsjármerki virðast standa sig vel en merkin sjálf hafa brotnað við steinsteypu.“ Þótt svo hafi farið sem hér segir er engin ástæða til að ætla að nú sé ekki hægt að ganga hér tryggilega frá þannig að sem mest öryggi fáist með þeim búnaði sem upp yrði settur. Aðstæður eru nú allar aðrar en áður til að vinna slíkt verk þótt þarna norður í hafi blási vissulega á stundum svalir vindar.

Í umræðum um þetta mál hér á Alþingi sagði hv. þm. Eyjólfur Konráð lónsson m. a.: „Ég kveð mér hér hljóðs til að lýsa yfir mjög eindregnum stuðningi við þá till. sem hér er til umr. og þeirri von að hún fái greiðan gang í gegnum þingið og helst að þm. allir sameinist um afgreiðslu hennar og samþykkt.“

Hv. þm. Benedikt Gröndal sagði í þessum umræðum m. a.: „Ég tek eindregið undir þessa till. og mæli með því að þingið veiti henni jákvæða og fljóta afgreiðslu.“ Síðar í máli sínu sagði Benedikt Gröndal: „Bæði hv. flm. og síðasti ræðumaður hafa bent á að Kolbeinsey hefur mikla þýðingu fyrir okkur í sjóréttarlegu tilliti. Kolbeinsey er grunnlínupunktur. Frá henni reiknum við fiskveiðilandhelgi okkar og með því að nota Kolbeinsey sem grunnlínupunkt fáum við allvæna sneið í okkar hlut af hafinu á milli Íslands og Grænlands.“ Lokaorð hv. þm. Benedikts Gröndals voru: „Ég tel því að leggja verði mikla áherslu á að framkvæma það sem bent er á í þessari till. og styrkja Kolbeinsey á allan hátt og byggja hana upp því að þar er margt í veði. Við megum ekki vanrækja það mál.“

Í framsögu fyrir nál. allshn., sem var sammála um afgreiðslu till., segir Páll Pétursson m. a.: „Allshn. ræddi þessa tillögu og við komum auga á að þetta er hin merkasta tillaga. Kolbeinsey er mjög mikilvægur grunnlínupunktur við Ísland og þarf ekki að eyða orðum að því. Það er enn fremur mjög mikilvægt að þar sé siglingamerki.“

Herra forseti. Ég leyfi mér að bera fram fsp. á þskj. 648 til hæstv. forsrh. Fsp. er þannig: Hvað líður framkvæmd þál. sem samþykkt var 20. apríl 1982 um Kolbeinsey?