23.04.1985
Sameinað þing: 74. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4524 í B-deild Alþingistíðinda. (3810)

206. mál, nýjar hernaðarratsjárstöðvar á Íslandi

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég hef undirritað nál. meiri hl. og Alþfl. er sammála því að fella eigi þá till. sem hér liggur fyrir. Eins og þetta mál hefur borið að teljum við nauðsynlegt að við tökum af skarið í þessum efnum og fellum þessa till., þannig að ljóst sé að Íslendingar vilji að eftirlit með umferð um nágrenni Íslands sé í góðu horfi. Í þessu felst vitaskuld engin ógnun við neinn, eins og fram kemur í nál. Þetta er spurningin um að fylgjast með, ekki bara í þeim skilningi að fylgjast með umferðinni í kringum landið heldur líka að fylgjast með tímanum og endurnýja þann búnað sem úreltur er orðinn. Markmiðið með ratsjárstöðvunum eins og þær eru og eins og þær verða er að hindra að okkur verði komið að óvörum, m. a. að hindra að gerðar séu hér skyndiárásir án þess að menn geti haft af því spurnir. Slíkt kerfi hefur sinn tilgang, m. a. vegna þess að þá vita þeir sem gætu látið sér detta slíkt í hug að kerfið er fyrir hendi og þess vegna er vörn í viðvöruninni og þess vegna eykur hún jafnvægið og dregur úr hættunni á styrjöld. Ef menn eru hins vegar með götótt eða úrelt kerfi býður það tvenns konar hættu heim: Í fyrsta lagi að menn halda að þeir séu með gott kerfi og halda þess vegna ekki vöku sinni og að hinu leytinu hefðu þeir, sem gætu hugsað sér til hreyfings, uppgötvað hversu götótt kerfið væri og engin vörn væri í því og freistingunni væri boðið heim.

Í þessu máli hafa gerst þau tíðindi að ríkisstj. hefur klofnað. Það er skoðanaágreiningur milli ríkisstjórnarflokkanna. Fulltrúi Framsfl. í utanrmn. tók svo til orða að hann gæti ekki fallist á þann málatilbúnað sem hinn stjórnarflokkurinn, Sjálfstfl., og ég stöndum að. Ég veit ekki hvað það er í þessu nál. sem hv. þm. Haraldur Ólafsson telur að sé misfarið. Í fyrsta hluta nál. er eingöngu rakinn aðdragandinn að því hvernig við stöndum nú, hvaða undirbúningur hefur átt sér stað, hverjir hafa starfað að honum og þar fram eftir götunum. Ég get varla skilið að það sé svo margt missagt í því að hv. þm. treysti sér ekki til þess að taka undir það.

Í þeim töluliðum sem á eftir fylgja er efnislega tekið á fáeinum þáttum.

Í fyrsta lagi er því haldið fram að hér sé um að ræða endurnýjun á úreltu ratsjár- og eftirlitskerfi. Ég hélt að það færi ekki á milli mála að hér væri um endurnýjun að ræða og ég hélt að það færi ekki á milli mála hjá þeim sem hefðu skoðað það kerfi, sem í gildi er og er víst eitthvað nálægt þrítugu, að það væri úrelt miðað við núverandi tækni.

Ég trúi því ekki heldur að hv. þm. telji að hlutverk varnarliðsins breytist, sem er annar punkturinn, við það að fyrirkomulaginu verði breytt að því er eftirlitsstörfin varðar með því að fjölga þessum ratsjárstöðvum og þá reyndar ekki um meira en þær hafa stundum áður verið.

Í þriðja punkti er það talið upp að þetta geti ekki talist ögrun við neina þjóð. Ég trúi því ekki að þm. telji að þetta geti talist ögrun.

Því er líka haldið fram að þetta muni ekki auka líkurnar á árás á Ísland — og það er rökstutt.

Ég veit ekki hvað það er af þessum punktum, sem ég hef hér rakið, sem Framsfl. telur að hægt sé að hafa á móti. Hinir punktarnir, sem upp eru taldir í seinni hluta ályktunarinnar, varða allt aðra hluti, öryggi í innanlands- og utanlandsflugi, öryggi á sjó, upplýsingar um veður og þess háttar, þannig að ég hef farið í gegnum þau efnisatriði sem hugsanlega gætu skipt sköpum í þessum efnum.

Ég verð að segja að ég skil ekki þá afstöðu sem kemur fram hjá hinum stjórnarflokknum eða fulltrúa hans í utanrmn. Hann gerði að umtalsefni að hugsanlega gæti verið í lagi að reisa þessar ratsjárstöðvar ef AWACS-vélarnar færu á braut. Mér finnst það harla einkennilegt vegna þess að allir sem um þetta hugsa vita að eftirlitseiginleikar AWACS-vélanna eru allt aðrir en landstöðvanna. AWACS-vélarnar geta séð niður fyrir sig, landstöðvarnar geta einungis séð út frá sér og sjá mismunandi langt eftir því í hvaða hæð flugvél er. Ég vil eindregið vara við þeim hugsunarhætti að það eigi að óska eftir því að AWACS-vélarnar verði sendar úr landi eða hætt að nota þær þó að þessar ratsjárstöðvar séu reistar vegna þess að hér er um tvenns konar eftirlit að ræða og á hvoru tveggja er nauðsynlegt að eiga kost.

Ég skildi ekki heldur þann punkt hjá hv. þm. Haraldi Ólafssyni, fulltrúa Framsfl. í utanrmn., að við ættum e. t. v. að vinna að slökun spennu í þessum heimshluta í staðinn fyrir að byggja radarstöðvar. Ég tel alveg sjálfsagt mál að við leitumst við, og það er grundvallaratriði, að reyna að draga úr spennunni milli austurs og vesturs. Auðvitað varðar það alla Evrópu, en jafnframt og þá ekki síður okkur. Ég veit ekki betur en allir flokkar á Íslandi hafi verið reiðubúnir til þess að vinna að því að slakað yrði á spennu. En það hefur ekkert með þetta mál að gera, ekki nokkurn skapaðan hlut. Hvað sem við leggjum á okkur til að reyna að draga úr spennunni milli stórveldanna og þeirri spennu sem er á þessu svæði verðum við að halda uppi öruggu eftirliti með óboðinni umferð í kringum landið. Það væri alls ekki til þess fallið að skapa jarðveg fyrir betri sambúð að ætla sér að falla frá því að líta eftir umferðinni sem er hér um slóðir frekar en annars staðar. Hér getur ekki eitt komið í annars stað. Þetta hlýtur hvort tveggja að fylgjast að.

Hv. þm. Haraldur Ólafsson talaði líka um að ekki væri hægt að taka afstöðu til þessa máls fyrr en endanlegar tillögur lægju fyrir, t. d. um staðsetningu. Er þá ekki hægt að taka afstöðu til þess hvort menn telji koma til álita að reisa hér ratsjárstöðvar eða hvort menn vilji reisa hér ratsjárstöðvar meðan ekki hafa verið settir út koordinatapunktar fyrir þessar stöðvar. Ég tel ekki, að því er þetta mál varðar, að það geti skipt nokkru máli hvort þeir eru 500 m eða fáeinum km austar eða vestar. Allir þm. vita að það eru einungis tveir meginstaðir á þeim landssvæðum sem hafa komið til álita og jafnvel þótt því yrði eitthvað hnikað til hljóta menn að geta tekið afstöðu til þess og á grundvelli allra þeirra upplýsinga sem hafa verið gefnar hvort menn telja að hér sé um æskilega eða óæskilega framkvæmd að ræða. Ég lýsi því afdráttarlaust yfir að ég tel að þetta sé æskileg framkvæmd og þess vegna sé fráleitt að taka ekki afstöðu til þeirrar till. sem hér er og afgreiða hana með því að fella hana þar sem öllum hugmyndum í þessa átt er hafnað skv. tillögunni.

Hv. þm. Haraldur Ólafsson talaði líka um að það væri eðlilegt, ef utanrrh. vildi fá atkvgr. um þetta í þinginu að hann bæri þá sjálfur fram um það till. Í því felst að hv. þm. vill ekki að það sé tekin afstaða til þingmannatillagna sem hér koma fram. Þessi till. er fram komin fyrir löngu og auðvitað eiga þm., sem hana flytja, rétt á því og kröfu að til hennar sé tekin afstaða. Utanrrh. getur ekkert gripið fram fyrir hendurnar á þinginu í þeim efnum. Þessi mótbára stenst því ekki.

Ég er algerlega andvígur þeim viðhorfum sem komu fram í málflutningi hv. þm. Haralds Ólafssonar og mér finnst satt best að segja að það nál. sem liggur fyrir frá 2. minni hl. utanrmn. sneiði að hæstv. utanrrh. Það er í rauninni verið að gefa í skyn að málið sé illa undirbúið af hálfu ráðh. og þess vegna sé ekki hægt að taka afstöðu í málinu. Ég tel að hæstv. utanrrh. eigi það allra síst skilið í þessu máli að að honum sé sneitt með þeim hætti vegna þess að um þetta mál hafa farið fram meiri og opnari umræður en að ég tel um nokkurt annað mál, sem á dagskrá hefur verið varðandi öryggismál og varnarliðsframkvæmdir á Íslandi, og menn hafa haft aðgang að ótölulegum gögnum. Bæði hefur utanrmn. fengið aðgang að þeim mönnum sem hafa unnið að athugunum, það hafa verið lagðar fram skýrslur um málið og það hafa verið haldnir fundir um þetta víðs vegar. Þetta mál er því mjög vel kynnt.

Ég veit ekki hvernig ber að skilja afstöðu Framsfl., en mér finnst fráleitt í þessu máli, eins og ég hef sagt, að það sé sneitt að utanrrh. Mér finnst það ekki vita á gott að Framsfl. skuli ekki treysta sér til að hafa skoðun á jafnvel upplýstu o einföldu máli og hér er um að ræða.

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa umr. frekar. Eins og kom fram í upphafi máls míns tel ég að nauðsynlegt sé að þessi till. verði felld. Alþfl. telur að með tilliti til þess hvernig þessi mál hafa þróast og með tilliti til þess hver staða þeirra er sé nauðsynlegt á þessu stigi að þessi till. verði felld. Ég vil jafnframt lýsa ánægju minni með það hvernig hefur verið staðið að undirbúningi þessa máls af hálfu utanrrh. og tel að það sé að mörgu leyti til fyrirmyndar.