24.04.1985
Efri deild: 59. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4555 í B-deild Alþingistíðinda. (3830)

364. mál, jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Frsm. iðnn. hefur hér mælt fyrir sameiginlegu nál. allra iðnaðarnefndarmanna um breytingu á lögum nr. 53 28. maí 1980, um jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar. Það varð samkomulag í nefndinni um það að mæla með samþykkt þess, en frá minni hendi var það með þeim ákveðnu skilyrðum að áður en umr. hæfist hér í hv. Ed. um þetta mál lægju fyrir upplýsingar þær sem hv. 5. þm. Vesturl. var að tíunda hér rétt áðan. Mér finnst þessi vinnubrögð vera nokkuð sérstök og skrýtin vegna þess að þarna var um samkomulagsmál að ræða og æskilegt að fá að sjá þessar upplýsingar áður en hér byrjaði umr. um þetta mál og hefði sjálfsagt ekki verið erfitt fyrir hv. þm. að lofa okkur samnefndarmönnum sínum að sjá þetta, þó að bréfið hafi verið stílað á hans nafn, áður en þessi umr. hæfist, hvað þá fyrirspyrjanda. Þó er ástæðulaust að ég svari fyrir hann hér.

Þetta frv. er nokkuð sérstakt. Menn muna eftir orðum borgarstjóra Reykjavíkur, Davíðs Oddssonar, um starfsemi ríkisstj., að það væri meira gert af að tala en að framkvæma. Þetta frv. er kannske staðfesting á því að það eigi að fara að breyta til. Á þingi í fyrra var lagt fram allviðamikið frv. um jöfnun hitunarkostnaðar, mikið málæði ef svo mætti segja, frv. upp á einar 26 greinar. Það hét aðeins: um jöfnun hitunarkostnaðar. Nú kemur fram frv. í tveim greinum sem heitir: um jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar. Ég geri mér ekki vel grein fyrir því hvar þetta frv. kemur inn á þann þáttinn að lækka hitunarkostnað og þaðan af síður að þarna sé um nokkra jöfnun að ræða.

Ég tel ástæðu til að við þessa umr. komi fram hvernig það frv. um jöfnun hitunarkostnaðar, sem lá fyrir Ed. í fyrra, var afgreitt frá iðnn. Bókun iðnn. er þannig, með leyfi virðulegs forseta:

„Frv. til laga um jöfnun hitunarkostnaðar. Málið rætt. Niðurstaða nefndarinnar varð eftirfarandi: Þar sem í ljós hefur komið að mörg atriði frv. þurfa ítarlegri meðferð n. en komið verður við á þeim dögum sem nú eru eftir til þinglausna verður að horfast í augu við þá staðreynd að málið fái ekki afgreiðslu á þessu þingi. Hins vegar telur n. mál þetta svo mikilvægt að frv. um málið verði að leggja fram í byrjun næsta þings. Leggur n. áherslu á að hæstv. iðnrh. sjái um að í sumar verði unnið í málinu svo að þessi málsmeðferð nái fram að ganga. Jafnframt leyfir n. sér að nefna eftirtalin atriði sem einstakir nm. hafa bent á til athugunar við framhaldsmeðferð málsins:

1. Ganga tryggilega frá að allt orkujöfnunargjald fari til jöfnunar húshitunarkostnaðar.

2. Kveða skýrt á um að viðmiðunarreglan 1.8-falt vegið meðalverð sé hámark þess mismunar sem má vera á hitunarkostnaði, en markmiðið sé að minnka þennan mismun.

3. Aðstoð við hitaveitur með sérvanda sé betur tryggð.

4. Framkvæmdaáætlun verði gerð um orkusparandi aðgerðir á íbúðarhúsnæði og fjármagn til hennar tryggt.

5. Sveitarstjórnir eigi aðild að gerð og stjórn framkvæmdaáætlana.

Enn fremur kom fram í n. ábending um þau formsatriði að sérlög yrðu um orkusparandi aðgerðir og lög um jöfnun húshitunarkostnaðar yrðu bundin við ákveðinn tíma.“

Undir fundargerðina skrifar Þorvaldur Garðar Kristjánsson.

Eins og ég sagði áðan má kannske líta á það sem svar við þessari ósk iðnn. að hér kemur fram frv. um jöfnun hitunarkostnaðar þó að það sé ekki stærra í sniðinu en það frv. sem við erum hér að fjalla um. Það er sem sagt eingöngu verið að færa mál á milli rn. Það er svarið við ósk iðnn. um að ganga tryggilega frá að allt orkujöfnunargjald fari til jöfnunar hitunarkostnaðar. Hvar eru nú öll stóru orðin um að taka hið svokallaða orkujöfnunargjald og færa það til jöfnunar hitunarkostnaðar? Hvar eru öll stóru orðin framsóknar- og sjálfstæðismanna fyrir kosningar um að taka nú þennan stóra sjóð, orkujöfnunargjald, og færa til? Það hefur lítið heyrst um það. Jafnvel þó að stór orð hafi verið notuð bæði í ræðuhöldum hv. þm. Davíðs Aðalsteinssonar og skrifum í málgagn hans á Vesturlandi um að þetta skuli gert og ítrekað í samþykkt sem hann stóð að hefur lítið sem ekkert verið gert. Og hvað er um það að sérstaklega skuli hugað að sérvanda hitaveitna? Ég veit ekki til þess að það hafi neitt verið gert. Svarið sem t. d. Hitaveitan á Akranesi fær við óskum sínum er frv. sem við erum að fjalla um hér.

Við fengum í hendur fyrir nokkrum dögum framkvæmdaáætlun og skýrslu um orkusparnaðarátak á árinu 1984: Þegar það er yfirfarið þá kemur í ljós að ekki hafi verið mikið gert annað en að koma ýmsum góðum áætlunum á blað.

Og einnig um 5. liðinn. Hvað um það að sveitarstjórnir eigi aðild að þessari orkusparnaðaráætlun? Ég held að það sé alveg í sama líkinu og aðrir þættir þeirra greina sem ég hef talið upp.

Ég taldi ástæðu við 2. umr. þessa máls, sem sjálfsagt kemst til framkvæmda, þarna verður hægt að láta verkin tala, færa málefnið á milli rn., til að vekja athygli á því að svo gott sem ekkert hefur verið efnt af þeim fyrirheitum sem talað var um í fyrra af miklum fjálgleik við 1. umr. málsins um jöfnun hitunarkostnaðar hér í deildinni.