30.10.1984
Sameinað þing: 11. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 602 í B-deild Alþingistíðinda. (394)

90. mál, Seðlabanki Íslands

Árni Johnsen:

Herra forseti. Glæsilegur arkitektúr er spennandi og það er að rísa fallegt hús við Skúlagötuna, seðlabankabyggingin. En ætli það sé ekki vitlaus bygging á vitlausum tíma? Ætli það væri ekki eiginlegra að sjá slíka byggingu rísa t.d. í Arabíu þar sem glæstar hallir rísa, hvort sem það er skynsamlegt eða ekki þegar tekið er tillit til fólksins sem býr á umræddum svæðum.

Það hefur verið vikið að því að þetta væri í samræmi við þá útþenslu sem átt hefur sér stað í byggingu bankaútibúa um allt land, þó að það sé mest hér á Reykjavíkursvæðinu. Á sama tíma einangra bankar ákveðin pláss í landinu. Einn banki sér um þennan stað, annar um hinn, en síðan kemur þriðji staðurinn sem hefur kannske 4–5 banka. Þetta er aðeins hluti af þeim ósóma sem á sér stað í þróun bankamála í landinu og ástæða er til að gagnrýna.

Ég vil taka undir það að það er siðleysi að byggja Seðlabanka Íslands á þeim tíma þegar ganga þarf að kjörum fólks í landinu til þess að rétta við vanda þjóðarinnar í heild. Ég held að slíkt ætti ekki að eiga sér stað í okkar landi þó svo að við eigum að hugsa hátt og byggja glæsilega þegar efni standa til. Þessi bygging hefur minnt mig á það þegar ég kom til Addis Ababa í Eþíópíu. Í fréttum í blöðum eru ósjaldan birtar myndir af glæsilegri götu í Addis Ababa þar sem stórhýsi eru og glæstar hallir. Það er um 1 milljón íbúa sem býr í þessari borg, en eina gatan með slíkum húsum er gatan sem sýnd er á myndum í fréttum og greinum frá þessari höfuðborg Eþíópíu. Allt í kring er svo fólkið sem býr við sult og seyru. Og þó ég sé ekki að líkja þessu saman við Ísland, þar sem fólk býr við margfalt, margfalt betri skilyrði en fólkið í Eþíópíu, þá dettur manni þetta samt í hug og er ástæða til að gagnrýna að slíkt skuli eiga sér stað.